Leikstjórn: Bruce Beresford
Handrit: Alfred Uhry
Leikarar: Jessica Tandy, Morgan Freeman, Dan Ackroyd, Patti LuPone, Esther Rolle, Joann Havrilla, William Hall, Alvin M. Sugarman og Clarice F. Geigerman
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1989
Lengd: 99mín.
Hlutföll: 1.55:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Söguþráður myndarinnar getur tæpast talist stórbrotinn. Myndin fjallar um 25 ára löng samskipti aldraðrar ekkju, Miss Daisy (Jessica Tandy), sem er Gyðingur og bílstjórans Hoke, blökkumanns (Morgan Freeman), sem sonur Daisy hefur ráðið fyrir hana í fullkominni óþökk hennar. Samskipti þeirra byrja ekki vel en smám saman tekst Hope að vinna traust og loks vináttu Daisy. Þetta er hugljúf mynd sem fjallar jafnframt um samskipti ólíkra kynþátta. Um er að ræða kynþætti sem eiga það sameiginlegt að hafa oftsinnis sætt ofsóknum og ekki fengið að njóta fullra mannréttinda.
Almennt um myndina:
Daisy er rík Gyðinga ekkja sem býr í Atlanta í Georgíu. Hún er fædd 1876 en myndin hefst 1948 og þegar hún bakkar bíl sínum út í skurð ákveður Boolie (Dan Aykroyd) sonur hennar er tími sé til kominn að ráða bílstjóra handa henni. Því er hún mótfallin og þrjóskast við að notfæra sér þá þjónustu sem sonur hennar hefur útvegað henni og greitt fyrir. Hoke hefur áður starfað hjá Gyðingum og segir við Boolie að hann þekki fólk sem tali illa um Gyðinga en slíkt vilji hann ekki heyra vegna þess að reynsla hans af Gyðingum sé á annan veg. Hoke vinnur smám saman traust og tiltrú Daisy og að lokum einlæga vináttu. Myndin nær yfir nokkra áratugi eða fram undir 1970.
Myndin fékk Óskarsverðlaunin sem besta mynd ársins 1989 og Jessica Tandy fékk þau einnig fyrsta besta leik í aðalhlutverki. Sjálfum finnst mér að Morgan Freeman hefði ekki síður verðskuldað þau, þó svo að leikur hans hafi verið enn stórbrotnari í The Shawsank Redemption.
Alfred Uhry byggði sögu sína lauslega á reynslu ömmu sinnar og bílstjóra hennar. Leikrit hafði áður verið unnið út frá sögunni og notið vinsælda í New York. En eiganda kvikmyndaréttarins gekk erfiðlega að sannfæra framleiður í Hollywood um ágæti þessa myndefnis. Þeir voru ekki trúaðir á að saga af samskiptum gamallar Gyðingakonu og blökkumanns gæti náð vinsældum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Daisy heldur því fram að hún sé ekki fordómafull. Sú staðhæfing stangast á við það hvernig hún kemur fram við Hoke í byrjun og hvernig hún talar um blökkumenn. ‚Þeir stela allir,‘ segir hún og annars staðar segir hún: ‚Þeir eru allir eins og börn.‘
Við fáum innsýn í guðsþjónustu í sýnagógu Gyðinga. Það er augljóslega frjálslyndir Gyðingar sem sækja þar guðsþjónustu því að konur eru þar innan um karla, öfugt við það sem t.d. tíðkast hjá hasídím-Gyðingum. Þar heyrum við m.a. kunnustu bæn Gyðinga, sjema-bænina svokölluðu: ‚Heyr Ísrael, Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!‘ (5M 6:4).
Hoke reynist vera ólæs en þeað breytir því ekki að sitthvað kann hann fyrir sér í Biblíunni. Þegar honum hefur loks tekst að fá að keyra Daisy það er að sinna því starfi sem hann var ráðinn til, seghir hann: ‚Það tók mig sex daga, jafnlangan tíma og það tók Drottin að skapa heiminn‘ (sbr. 1M 1:1-2:4).
Það er óneitanlega kaldhæðnislegt þegar Daisy sækir kvöldverð til heiðurs blökkumannaleiðtoganum Martin Luther King jr. seint í myndinni, en Hoke bílstjórinn hennar bíður úti í bílnum á meðan og hlustar á ræðu hins fræga blökkumannaleiðtoga í útvarpinu. Í ræðu sinni fordæmi King aðskilnað kynþáttanna og talar um börn ljóssins og börn myrkursins.
Í myndinni eru gamansamir drættir þar sem spilað er á samskipti ólíkra trúarbragða. Það birtist meðal annars í því að Florine, eiginkona Bolies sem er Gyðingur eins og hún nýtur þess að halda upp á jólahátíðina og skreyta hús sitt í samræmi við það. ‚Ég nýt jólanna í húsi þeirra,‘ segir Hoke við Miss Daisy. ‚Það er ekki að furða,‘ svarar Daisy kuldalega. ‚Þú ert sá eini sem ert kristinn þar.‘ Það virðast ekki vera svo mjög trúarbrögðin sem valda aðskilnaðinum heldur það að Daisy er auðug, hvít kona en Hoke fátækur blökkumaður. Þó er Daisy gagnrýnin í garð tengdadóttur sínar fyrir að halda jól og segir við Hoke: ‚Ef ég væri með svona nef þá myndi ég ekki ganga um og segja: Gleðileg jól.‘
Eitt sinn hefur Daisy orð á því hvað mikið hafi breyst og er þá greinilega að vísa til hve dregið hafi úr aðskilnaðinum. Hoke maldar í móinn og segist ekki telja að breyting sé svo mikil.
Í aðalökuferð þeirra þegar Daisy ætlar í 90 ára afmæli ættingjans síns niðri í Alabama, því fylki Bandaríkjanna sem þekktast er fyrir kynþáttahatur og aðskilnað kynþátta, eru þau stöðvuð af lögreglunni sem vill sjá skilríki. Lögreglan talar niður til Hokes með því að kalla hann dreng (‚boy‘). Þegar lögreglumennirnir horfa á eftir þeim skötuhjúum keyra burt hafa þau orð á því hversu sorgleg þessi sjón sé, þ.e. gömul Gyðingakona á ferð með negra (‚nigger‘).
Í sömu ferð verður Hoke að biðja Daisy um leyfi til að stöðva bílinn svo hann geti kastað af sér vatni á víðavangi vegna þess að hann gat vegna litarháttar síns ekki fengið á fara á salerni á bensínstöð sem þau höfðu stöðvað á.
Daisy virðist ekki skilja að þau eigi það sameiginlegt að tilheyra bæði minnihlutahópum sem löngum hafa sótt ofsóknum. Það verður ljóst þegar Hoke segist ekki geta keyrt hana til sýnagógunnar vegna þess að þar hafi verið sprengd sprengja. Í framhaldi af því segir hann henni reynslusögu af því þegar hann tíu ára að aldri varð vitni að því að faðir vinar hans var hengdur. Daisy virðist hneyksluð og spyr hvers vegna hann sé að segja þessa sögu. Hún sjái ekkert samband þarna á milli.
Samskipti Hokes og Daisy verða smám saman innilegri. Hún kennir honum að lesa eftir að það verður ljóst úti í grafreit Gyðinga að hann getur ekki fundið ákveðið leiði fyrir hana vegna þess að hann kann ekki að lesa. Þar kemur að hún ber fram þá játningu við hann að hann sé hennar besti vinur.
Sjá má ákveðið endurlausnarstef í myndinni í breytingunni sem verður á Daisy, áhorfandinn sér ekki aðeins hvenær hún breytist heldur hvernig það varir við og lokasena myndarinnar þegar Hoke heimsækir hana á elliheimilið er áhrifarík, lýsir því vel hversu einlæg vinátta þeirra er orðin. Kannski mætti segja að þessi mynd boði ekki síst hvernig vinátta geti orðið til þó að ekki blási byrlega í upphafi.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:1-2:4; 5M 6:4
Persónur úr trúarritum: Jesús, jólasveinn
Sögulegar persónur: Jesús, Marteinn Luther King jr.
Guðfræðistef: endurlausn, Guð, kraftaverk, miskunn, sannleikur, sköpun
Siðfræðistef: aðskilnaður kynþátta, baktal, fordómar, hefnd, henging, hégómagrind, níska, rán, réttindi, ríkidæmi, sparnaður, sprenging, trúfesti, vinátta, þjófnaður
Trúarbrögð: gyðingdómur, kristni, biskupakirkjan, baptistakirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Gynglegur grafreitur, himinn, líkhús, sýngagóga
Trúarleg tákn: bænasjal, Davíðsstjarna, jólagjafir, jólaskreytingar, jólatré, kippa, kross, legsteinar, tórah í sýnagógu (tákn sáttmálsarkarinnar)
Trúarleg embætti: rabbí, kirkjukór, kvenfélag sýnagógu
Trúarlegt atferli og siðir: afmælissöngur, borðbæn, jarðarför, sálmasöngur, sjema-bæn Gyðinga, prédikun, þátttaka í guðsþjónustu
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: afmæli, jól, þakkargjörðarhátíð