Leikstjórn: David Lynch
Handrit: David Lynch, byggt fyrstu bók í sagnabálknum um DUNE eftir Frank Herbert
Leikarar: Kyle MacLachlan, Francesca Annis, Sean Young, Leonardo Cimino, Kenneth McMillan, Brad Dourif, José Ferrer, Linda Hunt, Freddie Jones, Richard Jordan, Virginia Madsen, Silvana Mangano, Everett McGill, Jack Nance, Siân Phillips, Jürgen Prochnow, Paul L. Smith, Patrick Stewart, Sting Dean, Stockwell Max von Sydow, Alicia Witt, Danny Corkill, Honorato Magaloni, Judd Omen og Molly Wryn
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1984
Lengd: 137mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í fjarlægri framtíð gegnir eyðimerkurplánetan DUNE lykilhlutverki í samgöngum milli pláneta. Sá sem stjórnar DUNE, stjórnar geimferðum og þ.a.l alheiminum. Það má segja að DUNE sé eina bensínstöðin í alheiminum. „Bensínið“ er krydd sem vex aðeins á DUNE og við hrikalegar aðstæður. Risastórir sandormar ráða nefnilega ríkjum á DUNE og það virðist vera sem svo að eitthvað samhengi sé milli ormanna og kryddsins.
Til þess að viðhalda jafnvægi og koma í veg fyrir stríð, hafa þrjár mikilvægustu ættirnar (s.k „hús“) í alheiminum gert með sér bandalag. Bandlagið kveður á um að hús Harkonen stjórni á DUNE.
Þegar sagan gerist er búið að reka Harkona frá DUNE vegna þess að þeir héldu svo miklu af kryddi fyrir sjálfa sig, brutu alla samningar og kúguðu íbúa plánetunnar. Hús Atreides er að koma sér fyrir við stjórn DUNE. Vitað er að Harkónar eru ekki ánægðir með þessa skipan, enda tapa þeir gríðarlegum fjáræðum á því að vera reknir frá DUNE. Spenna einkennir því fyrstu Stjórnardaga Atreides. Vitað er að Harkónar skildu eftir sig launmorðingja og sjálfsmorðshópa til að gera Atreidum erfitt fyrir.
Íbúar DUNE eru kallaðir Fremmenar. Þeir eru eyðimerkurlýður sem hefur komist af með mikilli útsjónarsemi. Hjá þeim eru goðsagnir um Messías, þann sem kemur með réttlæti til fólksins og gerir DUNE iðagræna. Ýmislegt bendir til þess að Paul Atrides, sonur landsstjóra DUNE, sé þessi Messías.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin DUNE er byggða á skáldsögu Bandaríkjamannsins Frank Herbert, sem kom út árið 1965. Eftir að hafa farið rólega af stað í sölu sló hún skyndilega í gegn og þegar bókin vann Nebúla verðlaunin fyrir vísindaskáldsögu var eins og flóðgáttir brustu. Bókin varð fljótlega eftirlæti vísindasöguaðdáenda. Síðar gerði Frank Herbert framhaldsbækur við DUNE. Þessar bækur mynda sagnabálkinn um DUNE sem margir segja að sé hliðstæð Lord of the Rings þríleiksins. DUNE bækurnar eru alls sex talsins. Fyrst er eins og komið hefur fram DUNE (1965), Svo kom DUNE Messiah (1969), Children of DUNE (1975), God Emperor of DUNE (1981), Heretics of DUNE (1984) og að lokum Chapterhouse of DUNE (1985).
Vinsældir þessara bóka urðu slíkar að kvikmyndaverin í Hollywood fóru að leita hófanna með að framleiða eitt stykki kvikmynd. Það var síðan ítalski kvikmyndaframleiðandinn Dino De Laurentis sem framleiddi DUNE fyrir Universal Pictures árið 1984. Spútnikleikstjórinn David Lynch var fengin til þess að leikstýra og skrifa handritið að myndinni. David Lynch hafði fengið óskarsverðlaun fyrir síðustu mynd sína The Elephant Man (1980) og var svo ákafur að gera þessa mynd að hann hafnaði tilboði frá George Lucas um að leikstýra The Return of the Jedi.
Öllu var til tjaldað til þess að gera þessari sögu sem best skil á hvíta tjaldinu. Þegar tökum lauk var Lynch búin að filma það mikið efni að það leit út fyrir að myndin yrði þrír og hálfur tími enda var það vilji hans og ætlan. Delaurentis og Universlal Pictures vildu ekki sitja uppi með svona yfirgengilega langa mynd. Upphófst þá mikil barátta milli Leikstjórans Lynch og framleiðandanna um endanlega útgáfu myndarinnar. Heildarkostnaður orðin 45.000.000 bandaríkjadollarar og var ljóst strax eftir frumsýningu, þann 14. desember 1984, að um risaflopp var að ræða. Gagnrýnendur voru þó sammála um að myndin væri ekkert alslæm. Tæknibrellunum var hrósað í hástert og umgjörð myndarinnar var lofuð. Myndin þótti eigi að síður ruglingsleg og áhorfendur föttuðu ekki óútskýranlegar draumasenur og furðulegar handritslausnir þar sem hugsanir persónanna voru hvíslaðar af leikurunum. Lynch er talin ná þrátt fyrir allt nokkru af anda bókanna inní myndina.
Eins og áður sagði ætlaði David Lynch að gera mynd sem yrði meira en þrír tímar. Hann átti þá efni í fimm tíma mynd. Í sinni endanlegu útgáfu varð DUNE 140 mínútur. Lynch var síður en svo ánægður með þessa útkomu og þegar sjónvarpsútgáfan kom á markaðinn, lét hann taka nafn sitt út sem höfundur handrits en lét í staðinn nafnið „Judas Booth“. Þarna var hann að vitna í tvo þorpara í sögunni, Júdas frá Ískaríot og John Wilkins Booth, þann sem að myrti Abraham Lincon. Með þessi gríni var Lynch að lýsa því yfir að kvikmyndaverið hafði „drepið“ myndina. Í sjónvarpsútgáfuni sem fylgdi á eftir er nafnið Alan Smitee getið sem leikstjóra. Þessi útgáfa var 190 mínútur og innihélt efni sem ekki var í kvikmyndinni.
David Lynch hefur ekki gert neina risa Hollywood mynd eftir DUNE. Hann hefur þess í stað einbeitt sér að „jaðarmyndum“ og er í dag talinn einn virtasti leikstjóri Bandaríkjanna.
DUNE er að mínum mati ágætis kvikmynd. En flókin sagnaheimur sögunnar vefst oft fyrir handristhöfundunum. Dæmi um þetta er óskiljanlegt atriði þar sem vera ein ógeðfelld mjög, er látin „brjóta geimin saman“ (e. fold space). Þetta gerir veran með aðstoð kryddsins. Í bók er þessi lýsing tiltölulega einföld en þegar á að kvikmynda þetta, verður allt illskiljanlegt. Þetta atriði og sú lausn handritshöfundanna að láta leikara hvísla hugrenningar söguhetja sinna eru ekki myndinni til framdráttar.
Leikstjórn er góð og stundum í þeim stíl sem kvikmyndaáhugafólk er vant að sjá hjá David Lynch. Sérstaklega er gaman að sjá hvernig hann vinnur sjónrænt með efnivið sögunnar. Dæmi um þetta er þegar Paul og Fremmenarnir sækja á kryddvinnslu Harkóna. Þar er klassísk uppbygging á ferðinni, farið hratt yfir sögu og sýnt þegar Paul og menn hans sprengja í loft upp gröfur og vinnuvélar Harkóna. Paul brosir kankvíslega til félaga sinna yfir eyðileggingunni. Skyndilega er systir Pauls sýnd í hæg-mynd, hún er á vígvellinum innan um dauða Harkóna. Eldar loga allt í kring og hún er sýnd í drápsvímu með arabískan bjúghníf á lofti. Áþekk atriði koma oft á tíðum fyrir í síðari myndum Davids Lynch.
Kvikmyndatakan er fagmannleg, allavega tók ég ekki eftir henni sérstaklega. Það er góð dómur á kvikmyndatöku í Hollywoodmynd að áhorfendur taki ekki eftir henni. Sömuleiðis má segja um klippinguna að hún renni ljúft og faglega framhjá áhorfandanum.
Tónlistin er áhrifamikil enda í höndum Brian Eno og Toto. Brian Eno er einn þekktasti upptökustjóri á popptónlist í dag og vann mikið með David Bowie á fyrstu plötum hans. Toto sveitin átti fjölmörg vinsæl lög á vinsældarlistum á árunum kringum 1984 þegar myndin var gefin út.
Leikararnir eru stórgóðir og þar ber af öðrum að mínu mati Kenneth Macmillan sem leikur Harkónen barón. Hann er aukapersóna í myndinni en stelur senunni í hvert skipti sem myndvélin er í tæri við hann. Kyle MacLachlan leikur Paul Artriedes, hann er fínn leikari en skortir sprengikraft. Það er eins og hann sé alltaf að halda aftur að sér. Þetta er fyrsta Hollywoodmyndin sem Sting kemur fram í. Hann vakti athygli fyrir gott líkamlegt atgervi í DUNE og þakkaði það stífum æfingum. Sean Young leikur Fremmena konu sem fellur hug til Paul. Þess má geta að tveimur árum áður hafði Sean Young leikið í vísindatryllinum „Blade Runner“. Linda Hunt leikur litið hlutverk í DUNE. Linda Hunt er dvergvaxin og fær hlutverk af og til en fékk óskarsverðlaun árið 1982 fyrir besta aukahlutverk í „The Year of Living Dangerously“. Öll umgjörð myndarinnar er hin glæsilegasta og oft á tíðum snilldarleg og eru þá Harkónar og vistarverur þeirra best heppnaðar. Umgjörðin minnir nokkuð á miðaldir og það á vel við pólitíska umgjörð sögunnar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin DUNE er messíasarmynd sem fjallar um upphaf, þroskasögu og birtingu hins útvalda. Messíasarvæntingar í DUNE eru í gegnum spádóma sem lifað hafa meðal Fremmena (eyðimerkurlýðsins). Völvureglan er að bíða eftir Messíasi og fylgja eftir uppfyllingu spádómanna. Ein nunnan er þó í þjónustu Keisarans og gerir sitt besta til að breyta gangi sögunnar. Þessi mynd minnir nokkur á The Matrix (Andy Wachowski og Larry Wachowski: 1999), og Star Wars (George Lucas: 1977) þar sem „hinum útvalda“ er fylgt eftir og fylgst er með því hvernig spádómarnir rætast.
MessíasargervingurPaul Atriedes er í byrjun myndarinnar prins sem er alin upp í öryggi og við bestu aðstæður. Hann er erfingi Artreida, eini sonur föður síns. Þegar sagan hefst eru hinir góðu Artreidar að taka við stjórn á DUNE af hinum illu Harkónum. Ekki er það þó tilviljun að Artreidar eru að taka við stjórn á „verðmætustu“ plánetu í alheiminum, heldur er þetta refskák hjá keisara alheimsins. Hann telur nefnilega að Artreidar ógni sér. Hann beinir þeim því til DUNE og ætlar að láta Harkóna sjá um að drepa þá, ásamt nokkrum „Saddúkka“ hersveitum sínum. Paul Atreides er því í byrjun myndarinnar inn í atburðarrás þar sem gildran er að spennt og tilbúin að falla á hús Atriedes. Þetta nafn, „Saddúkear“, er reyndar nafn á gyðinglegum hóp sem var uppi á tímum rómverskrar hersetu í Palestínu. Þeir voru reyndar ekki herskáir eins og nafnar sínir í DUNE, heldur vel menntaður hópur sem var í efri lögum gyðingasamfélagsins.
Paul er hinn fullkomni prins, hann er fallegur og gáfaður. Hann hefur greinilega erft dulrænu hæfileika móður sinnar (Bene Gesserit völvu) og þar að auki er hann að mati hirðarinnar vopnfærasti Artreidinn. Þessi ágæti maður lendir svo í því við árás Harkónanna (með stuðningi keisarans) að faðir hans er drepin (svikinn af lækninum sínum).
Hann flýr ásamt móður sinni út í eyðimörkina. Þar hitta þau fyrir Fremmena og kynnast þeim. Kaflaskil verða í sögunni og hjá Paul. Hann er ekki lengur ofverndaður prins heldur tekur sér messíasarhlutverk. Fyrst veit Paul í raun ekki hvað hann á að halda, Fremmenar gefa stöðugt í skyn að hann sé hinn útvaldi og veldur þetta honum nokkrum heilabrotum. Hann gerir sér grein fyrir köllun sinni í vökudraumi og sannfærist um messíasarhlutverk sitt. Paul er nefndur upp á nýtt og gengur undir nafninu [Paul] Muzul Muad-dib. Þetta er fróðlegt og á sér fyrirmyndir í búddasið og Janisma. Í þessum trúarbrögum breyta stofnendurnir um nafn eftir að köllunin varð ljós. Í Búddasið hét stofnandinn Gautama en varð Buddha. Í jainisma hét stofnandinn Mattaputta Vardhamana en varð Mahavira. Paul er efins um hvort hann sé raunverulegur Messías Fremmena en í myndinni eru alls 10 dæmi um það að gefið sé í skyn að Paul sé hinn útvaldi. Dæmin eru eftirfarandi:
1. „Sá sem sefur verður að vakna.“ Orð föður Pauls við Paul rétt áður en þeir halda til DUNE.
2. „Gæti hann verið sá útvaldi?“ Orð Spákonu keisarans við sjálfa sig eftir n.k vígsluathöfn þar sem Paul stóðs eldraun sem hann þurfti að ganga í gegnum.
3. „Hann mun þekkja hætti þeirra sem væri hann einn af þeim.“ Orð hersforingja sem hefur dvalið á DUNE um leið og hann undrast að Paul virðist kunna að klæða sig i sérstakan eyðimerkurbúning.
4. „Spádómurinn segir; Einn mun koma, rödd frá ytriheimum, honum mun fylgja jihad sem mun hreinsa alheiminn.“ Völva er látin segja þetta um leið og Atreidarnir lenda á DUNE.
5. „Er ég sá útvaldi?“ Paul Atrides við sjálfan sig.
6. „Þeir munu kalla mig Muad-dib.“ Paul Atreides við sjálfan sig í n.k vökudraumi.
7. „Er hann sá útvaldi?“ Móðir Pauls við sjálfa sig.
8. „Er hann goðsögnin?“ Fremmeni um móður Pauls þegar hún gefur loforð við orð Bene Gesserit.
9. „Allir menn sem hafa reynt þetta hafa dáið, er ég sá útvaldi.“ Paul við sjálfan sig áður en hann drekkur vatn lífsins.
10. „Hvernig getur þetta verið? Vegna þess að hann ER Kwisatz Haderach!“ Anya systir Pauls, í lok orrustunnar við keisarann þegar byrjar að rigna á DUNE.
Paul Muad-dib er ekki friðarsinni, hann er vill losa DUNE við alla Harkóna með ofbeldi. Hann stundar skæruhernað í 2 ár áður en til lokaorrustunnar kemur. Þetta minnir óneitanlega á framgang Múhameðs við útbreiðslu islam.
Paul tekur sér í munn hnitmiðuð orð, sérstaklega til þess að hvetja stríðsmenn sína og lítið fer fyrir friðarboðskap hjá honum. Hann lítur reyndar einnig á herferð sína sem persónulegt uppgjör við Barón Vladimir Harkónen (þann sem drap föður hans). Muad-dib er Messías í eyðimörkinni.
Helvíti hjá HarkónumHíbýli Harkónanna eru helvíti líkust. Þeir búa við sérdeilis harkalegt samfélag. Í hvern einasta Harkóna er grædd snúra sem stendur út um brjóstkassann. Þegar þessi snúra er tekin úr, rofna æðar í hjartanu þannig að dauði hlýst af. Gefið er í skyn að þetta samfélag sé grundvallað á refsingum og að engin sé undanskilinn, ekki einusinni hinn ofur-illi Barón Vladimir Harkónen.
Harkónar dunda sér við það að finna upp pyntingar með nýjustu tækni og hlægja óskaplega og gleðjast dátt ef einhver fær á baukinn í þeirra viðurvist. Klæðnaður og umgjörð híbýla Harkónanna hefur einkenni sadisma. Föt Harkónanna eru annaðhvort svart leður eða plast, sem er í sjálfu sér ekkert merkilegt, en þegar bætist á allskyns lýti sem eru sett á Harkónana (augu tekin úr sumum, eyru af öðrum, slöngur og snúrur græddar í á líkama þeirra) þá fær maður tilfinningu að svona einhvernvegin sé helvíti. Ekki nóg með að þetta ógeðfelda samfélag (sem á sér hliðstæðu í Hellraiser, Cliver Barkers: 1987 og hjá BORG-unum í Star Trek) sé grundvallað á ofbeldi, pyntingum og refsingum, þá er stjóri þeirra, Barón Vladimir Harkónen, sennilega sá ógeðslegasti þrjótur sem komist hefur á hvíta tjaldið.
Baróninn, sem er snilldarlega túlkaður af Kenneth Macmillan, ferðast um í einhverskonar loftbelgjasamfesting og svífur um sali í stað þess að ganga. Hann er útsettur graftarkýlum sem læknir hans kemur fyrir á sveittu andlitinu. Fegurðarskyni öllu er snúið á hvolf hjá Harkónum. Vladimir unir sér við að drepa og ein illyrmislegasta sena myndarinnar er þegar hann „kippir úr sambandi“ ungum dreng sem er „ræktaður“ til þess eins að vera drepin af Baróninum. Sterklega er gefið í skyn að Baróninn sé hommi, sem virkar kannski ekkert merkilega á nútíma lesendur, en þegar sagan kom út árið 1965, var það hreinlega lögbrot í Bandaríkjunum að vera samkynhneigður. Það er því líklegt að meint hommastand Barónsins hafi verið stílbragð Franks Herberts til að gera hann ennþá ógeðfeldari. Það er því engum kórdreng sem er stillt upp sem andstæðu við hinn fagra Paul Atreidies.
Trúarbrögð árið 10191Í kvikmyndinni DUNE skipa „trúarbrögð“ stóran sess. Nokkuð er talað um Guð sem afl, en meira er gert út alskyns völvum og spádómum. Talað er um alheiminn sem „fullkomna veru. Þetta minnir nokkuð á indverska trúarhefða hugmynd um „guð“. „Hið eina“ í hindúisma svipar til „fullkomnu verunnar“ í DUNE. „Hið eina“ í hindúisma er hugmyndin að guð sé allt, að guðir mannanna séu aðeins birtingarmyndir af „hinu eina“. Hið eina er allt, var allt og verður allt. Óumlykjanlegt og handan skilnings mannanna.
Sterklega er gefið í skyn að það sé vísindaleg staðreynd að Bene Gesserit völvurnar hafi rétt fyrir sér. Að það þurfi að taka mark á þeim. Bene Gesserit völvurnar geta „dáleitt“ fólk, lesið hugsanir og fleira í þeim dúr. Þær eru eins og í hlutverki presta eða trúarleiðtoga. Móðir Paul Atriedes er Bene Gesserit völva og ástkona stjórnanda húss Atriedes, henni er skipað að eignast ekki syni, en hún svíkur það. Með því raskar hún öllu kerfinu og Paul verður þar af leiðandi, kannski, „hinn útvaldi“.
Þegar áhorfandanum er kynnt innra sem ytra umhverfi DUNE verður honum ljóst að Nunnureglan sem er í þjónustu keisarans er á villigötum. Þær reyna að stjórna framtíðinni og þess vegna er móður Pauls bannað að eignast son. Þær þjónusta valdhafana í pólitískum tilgangi og eru eins og afvegaleiddur trúarhópur í þjónustu illra afla. Nunnureglan á DUNE er hins vegar ekki á villigötum. Hún er hin sanna og hreina trú. Andstæðar fylkingar en af sama meiði. Svipar til afvegaleiddra gyðinga á dögum Krists.
Svo virðist að sama trúin sé stunduð i meðal Atreinda, hjá Fremmenum og hjá húsi keisarans, en þar má greina sama „kerfið“ og sömu spádómana. Á DUNE eru messíasarvæntingar hjá Fremmenum og þeir eru með æðstapresta-kerfi. Móðir Pauls tekur við embætti „Abbadísar,“ með því að drekka „vatn lífsins“. Í lok myndarinnar er talað beinum orðum um Guð þegar Paul Muad-dib segir: „Við Fremmenar eigum máltæki; Guð skapaði Arakkis (DUNE) til þess að þjálfa hina trúuðu. Ekki er hægt að fara gegn vilja Guðs.“ Sögumaður segir einnig í myndinni: „Muad-dib varð að verkfæri Guðs.“
Í lokatriði myndarinnar fer að rigna á Fremmena stríðsmennina. Greinilegt kraftaverk, sértaklega í ljósi þess hve vatn skipað háan sess hjá Fremmenum sem gernýttu allt vatn. Þarna voru þeir hreinlega baðaðir í vatni. Með þessu atriði er guðdómurinn gerður nálægur og dýrðlegur. Þetta atriði minnir á orð Jesaja spámanns í Gamla Testamentinu, þar sem hann spáir því að eyðimörkin muni blómstra.
Í kafla 41:1718 Jesaja segir m.a. „Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta.“ Svo segir; „Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina af vatnstjörnum og þurrlendið af uppsprettum.“
Í Jesaja 43:19-20 segir: „Dýr merkurinnar munu sjakalar og strútfuglar munu vegasama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til að svala lýð mínum, mínum útvalda.“ Þarna notar Jesaja vatn sem líkingu við sannleikann sem og vatn í venjulegum skilningi. Vatn lífsins gæti verið sannleikurinn, Paul öðlast ófreskugáfu við það að drekka það. Hann sér inn í framtíðina við að drekka vatn lífsins.
Tvær bænir eru sagðar í myndinni. Annarsvegar er það Harkóni sem mælir fram „bæn“ eða ákall til einhverrar æðri veru, áður en hann drekkur drykk. Orðin eru þessi:
„It is by will alone I set my mind free in motion
it is by juce of saboo, that requer speed
the lips require stains, the stains become a warning“
Þessi bæn gæti útlagst svona á íslensku:
„Það er með viljanum einum sem ég frelsa huga minn
Safi Saboo færir mér hraða
Varirnar verða votar, vætan verður til varnaðar.“
þessi orð eru sögð í helgiathafnar tilgangi áður en hann dreypir á „saboo“ safanum. Hann er einn með sjálfum sér þegar hann fer með bænina og bendir það til þess að það sé persónuleg athöfn að drekka þennan drykk.
Annað dæmi um bæn er þegar Fremmena herforingi í þjónustu Artreida fer með eftirfarandi orð þegar þeir sleppa naumlega frá árás rísa orms: „Bless the maker in his waters, bless the coming and going with him, for his passion clense the world.“ Þetta gæti útlagst á íslensku svona: „Blessaður sem skapari vatnsins hans [ormsins, vatn lífsins]. Blessuð sé koma hans og brottför, því eindregni hans mun hreinsa heiminn.“ Þessi bæn er sögð með mikilli lotningu fyrir ormunum á DUNE. Fremmenar dýrka þá og bera fyrir þeim óttablandna virðingu.
SpádómarKvikmyndin DUNE fjallar um spádóma. Hún segir söguna um þegar fornir spádómar um hinn útvalda rætast. Þetta er undiraldan í allri sögunni. Ekki er beint sagt frá einhverjum ritum þar sem spádómarnir eru ritaðir, heldur eru Bene Geserit völvurnar túlkendur og verðir spádómanna. Alla myndina út er verið að ýja að því að spádómarnir um hinn útvalda séu að rætast. Greinilegt er að Fremmenar þekkja þessa spádóma, sem dæmi um það er þegar Paul Muad-dib segir: „Ég get drepið með orðinu einu saman,“ þá tekur einn Fremmenastríðsmaðurinn undir eins og að hann sé að lesa og segir í beinu framhaldi: „Og orð hans munu bera með sér dauða til þeirra sem standa í vegi þeirra réttlátu.“
Í lok myndarinnar er þessi messíasaráréttun ennþá skýari, þá segir sögumaður: „Muad-dib Hafði orðið að verkfæri guðs, og uppfylling spádóma Fremmena. Þar sem stríð var, færði Muad-dib frið. Þar sem hatur var, kom Muad-dib með ást. Til þess að færa sannarlegt frelsi til Arrakis (DUNE).“ Þessi staðhæfing er einnig síðasta setning myndarinnar, þegar systir Muad-dib er látin segja í sérlega áhrifamiklu atriði: „Hvernig getur þetta verið… Vegna þess að hann ER Kwisatz Haderach!“
Ormarnir á DUNEÁ DUNE eru risastórir ormar sem eira engu sem á vegi þeirra verður. Þeir eru svo stórir að útilokað er að hafa stjórn á þeim. Námuvinnsla (eftir kryddinu) er hættuleg og kostnaðarsöm vegna þeirra. Þeir þola ekki umgang í nálægð við sig og ráðast umsvifalaust á hvað það sem veldur titringi í eyðimörkinni. Þeir eru dularfullar verur sem Fremmenar bera mikla virðingu fyrir. Þegar líður á myndina, sannfærist Paul um að samband sé á milli ormanna og kryddsins sem allt snýst um.
Þegar Paul drekkur „vatn lífsins“ til þess að öðlast þekkingu og kraft, úti í eyðimörkinni, hópast að þeim þrír risaormar eins og til að vera vitni að þessum atburði. Viðvera þeirra er ekki ógnandi, eins og alltaf þegar þeir eru nálægir. Líkt og ljón sem hættir við að éta fórnarlamb sitt og fer þess í stað að skoða það og kemur fram við það sem einhvern sér æðri. Það að ormarnir séu þrír er forvitnilegt og leiðir hugann að þrenningunni í kristinni kennisetningu.
„Vatn lífsins“ er í raun legvatn ormanna sem þeir nærast á fyrstu daganna eftir að þeir fæðast. Það undirstrikar enn frekar mikilvægi og nálægð ormanna í gegnum söguna. Vatnið er einnig kallað „heilagt vatn“ og sagt vekja „þann sem sefur“. Paul drekkur þetta vatn, einnig móðir hans. Þau „vakna“ og skilja hlutverk sitt í samhengi sögunnar. Ormarnir eru óhjákvæmilegur þáttur í myndinni þótt ekki sé fjallað mikið um þá. Þeir eru uppspretta kryddsins og dulrænna hæfileika Bene Geserit völvanna því þær drekka vatn lífsins til að öðlast dulrænar gáfur.
Arabísk áhrif í DUNEÞað er augljóst að Frank Herbert höfundur DUNE, hefur kynnt sér arabíska menningu og lesið Kóraninn. Paul „Muad-dib“ á sér töluverða samsvörun með Múhameð spámanni. Hann verður leiðtogi, hann kemur inn á sjónarsvið sem er mengað af tortryggni, svikum og undirferli. Hann sameinar ættbálk Fremmena líkt og Múhameð sameinaði ættbálka á Arabíuskaganum.
Í byrjun myndarinnar er myndavélinni beint að völvu í þann mund er Arteidar lenda á DUNE og hún látin segja að nú séu spádómarnir að rætast, að hinn útvaldi sé að koma og að hann muni stjórna „jihad“. Orðið „jihad“ er þekkt úr fréttum og er iðulega tengt islömskum öfgamönnum Svo var þó ekki árið 1965 þegar Frank Herbert gaf út söguna um DUNE. Hann hefur því lagst í rannsóknarvinnu og notað orð og hugtök úr islömskum menningarheimi. Frelsunarstríðið gegn Harkónum og keisaranum er kallað jihad. Hugtakið er úr Kóraninum og merkir „að berjast fyrir“ (er oft þýtt sem „heilagt stríð“).
Fremmenar líta svo á að þeir séu í jihad gegn Harkónum og til þess frelsunar DUNE. Samkvæmt skilgreiningu á jihad í Kóraninum má ekki lýsa yfir jihad, nema sem varnarstríði og þá með skilmálum. Skilmálum sem kveða á um að ekki megi drepa konur, börn, óvopnaða borgara og gamalmenni. Það er athyglisvert að þegar Paul Muad-dib hefur unnið fullkomin sigur yfir Harkónum og keisaranum, þá bregst hann svipað við og Múhameð gerði þegar hann vann Mekka eftir herferð. Hinir sigruðu bjuggust við grimmilegri hefnd, en hann kemur fram sem göfuglyndur sigurvegari. Þannig kom Múhameð líka fram við þá sem hann sigraði.
Annað dæmi um þetta er þegar orðið „fedejin“ er notað um sérstaka tegund stríðsmanna Fremmenna. Það voru einmitt „fedejin“ hersveitir Saddams Hussen sem Bandaríkjamenn óttuðust mest allra, og voru gerðir að mikilli grýlu í vestrænum fjölmiðlum. Í Kóraninum er minnst á hugtakið Messías nokkrum sinnum, en aðeins í tengslum við Jesú Krist. Það er því ljóst að höfundur blandar saman islömskum áhrifum við messíasarvæntingar gyðinga um stríðskrist sem kemur og feykir burtu andstæðingum Fremmenna.
Svo er hin augljósa samsvörun með kryddinu á DUNE og olíunni á Arabíusvæðinu. Vestræn lönd eru háð því að olían streymi frá löndum araba. Í kvikmyndinni er oft talað um það að „kryddið verði að flæða“. Í þessu pólitíska ljósi er einfaldlega hægt að skipta á orðinu „krydd“ og „olíu“ til þess að átta sig á skírskotun höfundar í aðstæður í nútímanum. Svo dæmi sé tekið eiga setningarnar, þar sem búið er að skipta út kryddinu fyrir olíu; „olían verður að flæða“ og „sá sem stórnar olíunni, stjórnar heiminum“, vel við í dag. Þegar Paul nær þeirri stöðu að stöðva kryddframleiðslu á DUNE er hann í raun búin að sigra andstæðinga sína. Hann segir í þessu samhengi í lokaatriði myndarinnar: „Sá sem getur drepið hlut, stjórnar hlut.“ Í kjölfarið gefst keisarinn upp.
Að lokum má geta þess að nokkuð er gert úr óttanum og stjórn á honum. Paul sigrast á n.k eldskírn þegar hönd hans er látin brenna með dáleiðslu. Þá hugsar hann í sífellu að óttinn sé óvinurinn og að hann verði að stöðva.
Heimildaskrá
Vefsíður:
Internet movie database – Dune.
http://www.imdb.com/title/tt0087182/ (26. desember. 03)
Dune the official Dune website.
http://www.dunenovels.com. (26.desember.03)
The world of Dune.
http://www.duneworld.org (26. desember.03)
Kvikmyndir:
DUNE
David Lynch 1984
137 mínútur
Bandaríkin
DUNE (sjónvarpsþættir)
John Harrison
265 mínútur
Bandaríkin Þýskaland Kanada Ítalía Tékkland
Secrets of Franks Herberts DUNE
Heimildamynd um gerð sjónvarpsþáttana eftir John Harrison
80 mínútur
Bandaríkin
Hliðstæður við texta trúarrits: Jesaja 41:17-20; 43:19-20
Persónur úr trúarritum: Messías, Guð
Sögulegar persónur: Saddúkear
Guðfræðistef: Múhameðsgervingur, örlög, forákvörðun, spádómar, alheimurinn, vatn lífsins, heilagt stríð, miskunn, Orð Guðs
Siðfræðistef: Svik, föðurhefnd, ofbeldi, kúgun, morð, lygi, stjórnsemi, virðing, ást, siðleysi, blekking, græðgi, fordómar, hroki, samkynhneigð, stríð, morð, hatur, hefnd, valdagræðgi, efnishyggja, ótti, iðrun
Trúarbrögð: Bene Gesserit
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Helvíti
Trúarleg embætti: Bene Gesserit völvur, sjáendur, abbadís
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, nafngift, manndómsvígsla, blessun
Trúarleg reynsla: Draumar, uppfylling spádóma, dulrænir hæfileikar, kraftaverk, sýn