Leikstjórn: Friðrik Þór Friðriksson
Handrit: Einar Már Guðmundsson
Leikarar: Ingvar E. Sigurðsson, Baltasar Kormákur Samper, Björn Jörundur Friðbjörnsson og Hilmir Snær Guðnason
Upprunaland: Ísland
Ár: 2000
Lengd: 97mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0233651
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í myndinni er greint frá ævi Páls sem er haldinn geðhvarfasýki. Fylgst er með þróun sjúkdómsins og hvernig líf Páls breytist eftir því sem veikindin ágerast. Hugmyndir hans brenglast og ástandið innan veggja heimilisins verður nær óbærilegt fyrir foreldra hans og systkini. Þá er lífinu á Kleppi lýst og samskiptunum þar bæði milli sjúklinganna innbyrðis og við starfsfólk spítalans.
Styrkleiki frásagnarinnar felst að mati undirritaðs í því hversu sannfærandi lýsingin er á því er sjúkdómurinn nær tökum á Páli. Þá eru samræðurnar í myndinni oftast vel uppbyggðar og jafnframt hefur tekist fádæma vel að þjappa innihaldi skáldsögunnar niður í knappara form kvikmyndarinnar. Boðskapur myndarinnar er að sama skapi heilstæður og gegnumgangandi.
Ver tekst hins vegar til þar sem fullorðnir leikarar eru í hlutverkum unglinga. Sú tilraun gengur hreint ekki upp. Danskir og sænskir áhorfendur myndarinnar sem ekki þekkja til leikaranna voru mér sammála um það, en myndina sýndum við á bókmenntakvöldi sem íslenski söfnuðurinn efndi til í samvinnu við danska söfnuðinn í Gautaborg. Þá gengur það engan veginn upp að færa atburðarrásina til nútímans. Sú gagnrýni á meðferð geðsjúklinga sem birtist í bókinni og átti við á 7. áratugnum verður fyrir vikið ósannfærandi og óréttlát. Ætla mætti að engar framfarir hafi orðið í þeim málum á síðustu áratugum sem er vitaskuld fjarri sanni.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Vegna þess að kvikmyndin er byggð á bók er vert að skoða hvaða þættir það eru úr skáldsögunni sem sérstaklega eru teknir fyrir í myndinni. Alkunna er hversu knappara myndformið er textanum og handritshöfundurinn verður að takmarka efni myndarinnar við einn þátt eða eitt stef úr bókinni.
Ekki þarf að leita lengi að trúarlegum tilvísunum í kvikmynd Friðriks Þórs Frikriðssonar „Englar alheimsins“ sem gerð er eftir samnefndri bók Einars Más Guðmundssonar. Sjálfur titillinn gefur til kynna að guðlegar verur komi þar nærri og að tengslin við hið andlega séu þar til umfjöllunar. Orðið „engill“ merkir upphaflega sendiboði en þýðing þess getur þó verið margþætt. Auk þess að færa guðlegan boðskap eru til verndarenglar og englakórar. Þeir vísa til sakleysis og hreinleika og geta jafnvel verið til skrauts. Jafnan tengjast englar þó einhverju sem ekki er af þessum heimi.
Auglýsingaveggspjald myndarinnar sýnir þá fjóra Viktor, Pétur, Pál og Óla vansvefta og lyfjabólgna með englavængi uppi í háloftunum. Þeir eru englarnir. Á kápu myndbandsins sem gefið var út fyrir erlendan markað er hins vegar tekið fyrir atriði úr myndinni þar sem söguhetjan gengur á vatni. Í því tilviki er greinilega vísað til frásagna guðspjallanna.
Kvikmyndin helgar sig raunar því stefi. Í henni sjáum við líf hins geðveika eins og það endurspeglast í ævi Krists. Slíkum tilvísunar má skipta í tvo flokka, beinar og óbeinar.
Víða í myndinni ber fyrir stuttum myndbrotum þar sem vísað er með beinum hætti í guðspjöllin. Á einum stað sést hvernig blóð rennur úr lófum Franks Sinatra þar sem hann er á plagati á veggnum hjá Páli. Það gerist er geðveikin er að ná tökum á Páli. Í næsta atriði rasar Páll eftir ganginum heima hjá sér í nærbol og á síðunni er rauð málning, rétt eins og sárin sem Kristur fékk eftir spjót hermannsins. Á leiðina í „erfidrykkjuna“ útbúa þeir félagar eins konar þyrnikórónu úr servéttum sem þeir setja á höfuð sér. Páll les upp úr Matteusargupspjalli 6.25-30, „Liljur vallarins“ (en Biblíuna hefur hann inn í klámblaði). Þá gengur Páll bókstaflega á vatni á flótta sínum undan laganna vörðum. Hann hleypur út á vatnið í tjörninni en lögregluþjónarnir sökkva. Í bókinni er tilvísunin til hliðstæðs kraftaverks guðspjallanna höfð óbein þar sem tjörnin er lögð en svo brestur ísinn undan fótum Páls. Loks eru það lokaorð myndarinnar. Þar vitjar Páll móður sinnar í morgunsárið, eftir dauða sinn. Hann talar inn í myndina og segist þar vera kominn til híbýla föðurins þar sem hann vitjar netanna á þrotlausum fiskimiðum eilífðarinnar.
Óbeinar tilvísanir má einnig finna í myndinni. Fjölmörg atriði gerst í kringum matarborðið og oftar en ekki lýkur borðhaldinu með ósköpum er Páll missir stjórn á skapi sínu. Máltíðin er eitt af táknum gyðingdóms og kristninnar og síendurteknar tilvísanir til hennar í myndinni leiða hugann að þeim. Hún getur vísað til samfélagsins sem í þessu tilviki er rofið og ringulreiðin við matarborðið þegar Páll missir stjórn á skapi sínu undirstrikar það. Máltíðin getur jafnframt vísað til himnaríkis þar sem kynslóðirnar safnast saman. Þar ríkir hvorki einsemd né hungur. Slíku borðhaldi er lýst á eftirminnilegan hátt í myndinni þegar Páll og félagar hans narra þjónana á Grillinu á Hótel Sögu til þess að framreiða fyrir sig dýrindis máltíð. Þarna hefur dárunum um stund tekist að ná sér niður á hinum heilbrigðu og verður borðhaldið eins og sigurhátíð. Í lok máltíðarinnar biður Páll um könnu með köldu vatni. Það leiðir hugann að síðustu kvöldmáltíðinni – skírdegi – þegar Jesús laugaði fætur lærisveinanna og hreinsaði.
Fram eftir myndinni kunna áhorfendur að velta því fyrir sér hvað plagatið af Frank Sinatra sé að gera þarna á veggnum hjá Páli. Ekki síst hvers vegna blóð rennur úr lófum hans á einum stað í myndinni. Í lokin fæst svarið við því. Rétt áður en Páll sviptir sig lífi lætur hann útvarpsmanninn leika „My Way“ með söngvaranum sem hefst með þeim orðum að endirinn sé í nánd en lífinu hafi verið lifað vel. Þar er undirstrikið sérstaða Páls. Hann lifði með sínum hætti og sú leið er ekki verri en hver önnur, hún er einfaldlega hans leið.
Annað dæmi úr myndinni hefur sömu tilvísun. Eitt sinn otar Páll hnífi að manni fyrir utan skemmtistað er hann ryðst fram fyrir röðina og hrópar: „But I’m not like anybody else!“. Í kjölfarið elta lögregluþjónarnir hann út á tjörnina eins og fyrr er lýst. Páll er sannarlega ekki eins og hver annar, hann gengur á vatninu á meðan lögregluþjónarnir ösla það upp í mitti.
Boðskapur myndarinnarEin frægasta setning bókarinnar: „Kleppur er víða“ er lögð í munn besta vinar Páls, Rögnvalds, tannlæknisins sem svipti sig lífi þrátt fyrir að líf hans væri á yfirborðinu svo farsælt. Kleppur er ekki staður, það er ástand. „Ofið úr þráðum svo fíngerðum að enginn tekur eftir því.“ Heimurinn er blekking. Múrarnir á milli mannsins og heimsins hrynja ekki. Þeir eru óhagganlegir og ósýnilegir.
Þetta er boðskapur myndarinnar. Með því setja englavængi á bak hinna geðveiku, spegla þá í guðlegu ljósi og tengja sífellt við ævi Jesú Krists, er leitt að því líkum að þeir hafi með lífi sínu og orðum merkilegt erindi fram að færa. Jafnvel þótt skynjanir þeirra séu „rangar“ og hugsunin ruglingsleg. Að vissu leyti býr að baki þessari afstöðu verufræði í anda F. Nietzsches; að tungumálið sé einungis misheppnað tæki til þess að fanga í orð og hugtök heim sem í eðli sínu eru óreiða og glundroði. Brjálæðingar skipuðu og stóran sess í verkum hans og var það einn slíkur sem flutti tíðindin um meintan dauða Guðs. Helsti talsmaður Nietzsches í myndinni er Viktor tómhyggjumaðurinn. Hann bendir stöðugt á hræsnina sem býr að baki siðalögmálum samfélagsins og þeim veruleika sem við ætlum sannan. Guðleysið ómar af vörum hans.
En í myndinni kallast á guðleysið og hinar guðlegu tilvísanir. Þótt þarna sé að vissu leyti um andstæður að ræða vega þær báðar gegn þeirri afstöðu að heimurinn einkennist af reglu og réttlæti. Hvorugt er í eðli sínu hið rétta ástand heimsins. Hvað eftir annað er slíkt gefið til kynna í myndinni. Samræður Páls og Brynjólfs geðlæknis eru eitt dæmi þessa. Þar er jafnan gefið í skyn að aðeins örmjó línan sé á milli þeirra tveggja, geðsjúklingsins og geðlæknisins. Eitt sinn segir Páll: „Ef þú heldur svona áfram, Brynjólfur, þá held ég að við verðum að skipta um sæti.“
Guðleysið og hinar guðlegu tilvísanir takast á í myndinni, einkum í samræðum sjúklinganna. Þær síðarnefndu verða ofan á að mínu mati eða að minnsta kosti næst þar ákveðin sátt því báðar ganga þær út frá því að heimurinn einkennist af glundroða og óréttlæti. Vart kemur það betur fram og þegar Óli þaggar niður í Viktor er hann neitar að mæta til erfidrykkju Péturs: „Við förum“, segir hann, „en það er ekki þar með sagt að við þurfum að vera viðstaddir!“ Þetta nægir til að sannfæra Viktor og í kjölfarið upplifa þeir „himnaríkið“ á Grillinu.
Sjúklingarnir leiða oft hugann að lífi Krists. Þeir mæta jafnan þjáningum og skilningsleysi umheimsins en um leið er boðskapur þeirra á engan hátt verri en sá sem almennt er viðtekinn. Hann er jafnvel sannari í ljósi þeirra viðurkenndu takmarka sem á honum eru. Takmarka sem ekki eru opinberlega viðurkennd í hinum „ytri veruleika“. Þeir eru eins og Sókrates sem þótti vitrari öðrum mönnum, einmitt vegna þess að hann skildi takmörk þekkingar sinnar.
Tilvísanirnar til Jesú Krists hafa því þann tilgang að leiða okkur fyrir sjónir að jafnvel hinir geðsjúku geti haft skýrari eða a.m.k. gleggri sýn á tilveruna við þeir sem heilbrigðir teljast. En hinir heilbrigðu, „heimurinn“, viðurkennir þá ekki. Snemma í myndinni situr söguhetjan Páll við matarborðið ásamt foreldrum sínum og systkinum og segir gamansögur við góðar undirtektir. Loks segir hann brandara um konu sem hrópar á son sinn: „Jessi, Jessi minn, komdu inn.“ Sonurinn gengur alvarlegur í bragði að móður sinni og segir: „Mamma þú veist ég vil ekki láta kalla mig Jessa, ég heiti Jesús.“
Þessa sögu er ekki að finna í bókinni og er hún jafnvel þýðingarmeiri fyrir þá sök. Hún er eins og undirbúningur fyrir það stef sem hvað eftir annað kemur fyrir í myndinni: Þótt hinir geðveiku séu á köflum hlægilegir og séu sjaldnast teknir alvarlega, hafa þeir merkilegan boðskap fram að færa. Rétt eins og Jesús frá Nazaret var úthrópaður guðlastari og svikari af samtíð sinni. Heimur ranghugmynda og ofskynjana sem þeir eru fastir í er á engan hátt falskari og óraunverulegri heldur en heimur hinna heilbrigðu. Þeir eru eins og frelsarinn í gamansögunni sem kallaður er svo óvirðulegu gælunafni. Þeir eru aðeins „Jessar“ í augum heimsins.
Geðveiki þeirra verður eins konar spegill á samfélagið og veruleikann. Henni er ætlað að sýna fram á takmarkanir þess heims sem við lifum og hrærumst í og sýna fram á að hann sé ekki með nokkru móti „sannari“ en heimur hinna geðveiku. En í gegnum þjáningar sínar skynja þeir fyrst eðli guðdómsins.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6.25-30
Hliðstæður við texta trúarrits: Sköpunarfrásögnin og Nóaflóðið í 6. k. FyrstuMósebókar, Jesús gengur á vatni (Jóh. 6.19), þyrnikórónan (Jóh. 19.2),síðasta kvöldmáltíðin (Lúk. 22, Jóh. 13).
Persónur úr trúarritum: Jesús, Guð, englar, Nói, Búdda
Guðfræðistef: Þjáning/passía, guðlegt hlutverk,
Siðfræðistef: Að gæta náungans.
Trúarbrögð: Kristnidómur, búddismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkjugarður, kirkja.
Trúarleg tákn: Þyrnikóróna, máltíðin, sár á lófum og síðu
Trúarlegt atferli og siðir: Jarðarför
Trúarleg reynsla: Guð vitjast í sýn. Guðlegt hlutverk að byggja örk