Kvikmyndir

Event Horizon

Leikstjórn: Paul W.S. Anderson
Handrit: Philip Eisner
Leikarar: Laurence Fishburne, Sam Neill, Kathleen Quinlan, Joely Richardson, Richard T. Jones, Jack Noseworthy, Jason Isaacs, Sean Pertwee, Peter Marinker, Holley Chant, Barclay Wright, Noah Huntley og Robert Jezek
Upprunaland: Bretland og Bandaríkin
Ár: 1997
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Björgunarleiðangur er sendur út til að kanna geimskipið Event Horizon en það hvarf sjö árum áður og birtist svo öllum að óvörum aftur. Þegar hjálparsveitin stígur um borð kemst hún að því að skipið hefur ferðast handan geimsins og tekið með sér óboðinn gest.

Almennt um myndina:
Enda þótt Paul W.S. Anderson sé ekki hátt skrifaður leikstjóri tókst honum aldrei þessu vant að gera góða mynd. Reyndar var myndin stytt um 30 mín. til að komast hjá því að hún yrði bönnuð unglingum eldri en 17 ára, en leikstjórinn hefur sjálfur lýst yfir áhuga sínum á því að upprunalega útgáfan verði gefin út á DVD og er vonandi að svo verði sem fyrst.

Styrkur myndarinnar felst einkum í stemmningunni sem kvikmyndagerðarmönnunum tekst að skapa með flottri sviðsmynd, tónlist, hljóðsetningu og kvikmyndatöku. Leikstjórnin er hins vegar ekki nógu þétt og það sama á við um leikinn. Laurence Fishburne hefur t.d. oft verið betri.

Margir hafa bent á tengsl þessarar myndar við vísindaskáldskapinn Solyaris (Andrei Tarkovsky: 1972) og er margt til í því enda þótt boðskapurinn og aðstæðurnar að baki atburðarásarinnar séu allt aðrar. Ef um beina úrvinnslu er að ræða þá er Event Horizon aðeins lauslega byggð hryllingsmyndaútgáfa á þeirri mynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hrollvekjan Event Horizon er í raun ádeila á siðleysi óheftra vísinda. Markmið vísindamannanna var að skapa geimskip sem myndi brjóta öll náttúrulögmál og brjóta saman geiminn svo hægt væri að ferðast á einni sekúndu frá einum stað til annars. Til þess að það mætti takast sköpuðu þeir svarthol, en fyrir vikið fer geimskipið alla leið niður til heljar þegar það er sent af stað. Sú ferð reynist áhöfninni svo erfið að hún gengur af göflunum og taka þau að myrða hvert annað.

Trúarleg tengsl þessa hryllings eru fjölmörg í myndinni. Til að byrja með er það fullyrt að skipið hafi farið til „helvítis“ og inn í „Vídd fullkomins glundroða og illsku“. Þá segir karlmaður úr fyrri leiðangrinum í viðvörun sem hann sendir út: „Liberate totemet ex infernos“ eða „Bjargið ykkur frá Helvíti“. Það er líklega engin tilviljun að hann segir þetta á latínu, tungumáli kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það er einnig áhugavert að Event Horizon skipið er nokkurs konar kross í laginu, nema hvað það er eins og búið sé að sveigja armana aftur, rétt eins og um pyntingu sé að ræða. Þá sést krossmótívið víða í gluggum og munstri í veggjum.

Það er ennfremur áhugavert að það virðist vera sérstakt samband á milli vísindamannsins sem hannaði skipið og þeirrar illsku sem hefur smitað það. Þeim er spyrnt saman, rétt eins og um einn og sama aðilann væri að ræða. Þetta sést vel á því að vísindamaðurinn virðist í lokin tala fyrir hönd skipsins og framkvæma vilja þess.

Þótt ekki sé vísað beint í söguna af Adam og Evu í myndinni (alla vega ekki í þessari styttu útgáfu) þá má engu að síður sjá hliðstæðu við hana. Samkvæmt hefðbundinni túlkun á sögunni af Adam og Evu á þekkingarleit þeirra (þegar þau bitu í ávöxt „skilningstré góðs og ills“) að hafa kallað yfir mannkynið hörmungar og í raun opnað leið glötunar niður til heljar. Í myndinni er það einmitt óheft þekkingarleit vísindamannsins sem opnar hliðið til helvítis.

Aldrei hef ég áður séð helvíti lýst á jafn ógeðfelldan og sannfærandi hátt og í þessari mynd. Vandinn við kvikmyndir sem sýnt hafa ofan í helvíti er sá að þeim tekst ekki að fanga óhugnað þess. Ef eitthvað er þá tekst þessari mynd það hins vegar aðeins of vel.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: Guð
Siðfræðistef: sjálfsvíg, morð, óheft vísindi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Helvíti
Trúarleg tákn: kross, svart