Kvikmyndir

Fail Safe

Leikstjórn: Stephen Frears
Handrit: Walter Bernstein, byggt á skáldsögu eftir Eugene Burdick og Harvey Wheeler
Leikarar: Richard Dreyfuss, Noah Wyle, Brian Dennehy, Sam Elliott, James Cromwell, John Diehl, Hank Azaria, Norman Lloyd, Bill Smitrovich, Don Cheadle, George Clooney og Harvey Keitel
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 85mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0235376
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Á tímum kaldastríðsins í kringum 1964 veldur tæknibilun því að sprengjuflugvél hlaðin kjarnorkusprengjum er óvart send í árásarferð á Moskvu. Þegar Sovétmenn undirbúa í snarheitum gagnárás neyðist forseti Bandaríkjanna (Richard Dreyfuss) til að sannfæra þá um að hér hafi ekki verið um illan ásetning að ræða heldur slys. Hann býðst því til að tortýma New York takist bandarísku sprengiflugvélinni að varpa kjarnorkusprengju á Moskvu.

Almennt um myndina:
Þessi frábæra sjónvarpsmynd er endurgerð á samnefndri kvikmynd frá 1964. Myndin var tekin upp í beinni útsendingu 9. apríl 2000 en þannig hafði CBS ekkitekið upp kvikmynd í fullri lengd í 39 ár. Myndin var tilnefnd til alls níu verðlauna (þ.m.t. fjögur Emmy verðlaun) og hlaut hún þrenn, meðal annars fyrir bestu sjónvarpsmyndina.

Kostir myndarinnar eru fyrst og fremst leikurinn. Þótt myndin sé tekin í beinni útsendingu slær ekki einn einasti leikari feilnótu í henni, en þar er Harvey Keitel að vanda fremstur á meðal jafningja. Handritið er einnig þétt og samtölin vel skrifuð. Myndin er til á myndbandsspólu og DVD í Bretlandi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þegar forseti Bandaríkjanna ákveður að bjóða Sovétmönnum að sprengja sjálfur New York í skiptum fyrir að þeir hætti við að hefna árásarinnar, vitnar hann í söguna af því þegar Abraham var beðinn um að fórna syni sínum Ísak. Rétt eins og Abraham sannaði ást sína til Guðs með því að, undirbúa fórn á syni sínum ákveður forsetinn að sanna einlægni sína með því að fórna einni helstu borg Bandaríkjanna. Hliðstæðan er enn skýrari í ljósi þeirrar staðreyndar að eiginkona forsetans er stödd í New York, sem og eiginkona og dóttir Blackies (Harvey Keitel), en það er einmitt í verkahring hans að varpa sprengjunum á borgina, nái bandaríska sprengjuflugvélin til Moskvu. Spurningin er bara hvort Guð grípi inn í atburðarásina eins og hann gerði hjá Abraham eða hvort forsetinn þurfi að ganga alla leið með fórn sína.

Niðurstaðan er áhugaverð (og þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar ættu að sleppa þessari málsgrein) því kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið var ekki prófraun Guðs heldur sjálfskaparvíti mannsins og afleiðing hans eigin syndar. Því er það viðeigandi að myndin skuli ekki enda með guðlegu inngripi heldur gjöreyðingu New York.

Kvikmyndin Fail Safe er stórgóð gagnrýni á vitfirru kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupsins sem átti sér stað á kaldastríðstímabilinu. En þótt myndin gerist í fortíðinni og vísi til heimsástands sem heyrir sögunni til þá á boðskapur hennar engu að síður jafn mikið erindi til okkar í dag.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 22:1-19
Persónur úr trúarritum: Abraham, Guð, Ísak, María mey
Guðfræðistef: fórn
Siðfræðistef: kjarnorkuvopn, stríð
Trúarbrögð: kommúnismi
c