Leikstjórn: Jean Rollin
Handrit: Jean Rollin, byggt á smásögu eftir Jean Lorrain
Leikarar: Brigitte Lahaie, Franca Mai, Jean-Marie Lemaire, Fanny Magier, Sophie Noël, Myriam Watteau, Muriel Montossé, Cyril Val (undir nafninu Alain Plumey) og Evelyne Thomas
Upprunaland: Frakkland
Ár: 1979
Lengd: 78mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0079135
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Þjófur á flótta undan félögum sínum, sem hann hafði hlunnfarið, leitar skjóls í afskekktri höll og tekur þar tvær fagrar stúlkur í gíslingu án þess að gera sér grein fyrir að þær eru úr sértrúarhópi kvenna í leit að karlmanni til að fórna síðar um kvöldið.
Almennt um myndina:
Þetta er ein af þessum kvikmyndum sem nær ógjörningur er að veita stjörnugjöf við hæfi. Vart getur myndin talist góð þar sem vinnslan er of klúðursleg á köflum. Þannig er rökræn framvinda t.d. ekki alltaf fyrir hendi milli atriða, svo sem í flóttaatriðinu áður en þjófurinn kemur að höllinni dularfullu. Svipbrigði sumra leikaranna eru auk þess stundum ótrúlega tilgerðarleg og samtöl þeirra formleg, en þeir þegja jafnan í góða stund áður en þeir koma með yfirlýsingar, sem klárlega eru ætlaðar áhorfendum einum, eins og hvaða ár sé og hvað tíðkist á þeim tíma.
Samt er kvikmyndin bráðskemmtileg, ekki endilega vegna þess hversu léleg hún er heldur fremur vegna þess að hugmyndin að sögunni er í grófum dráttum góð og dulúðin hjá Rollin nokkuð vel heppnuð að þessu sinni. Í rauninni mætti því alveg endurgera þessa mynd við tækifæri, jafnvel einhvers staðar hér á landi í aðlöguðu formi.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin hefst á því að einhver ótilgreind stúlka gælir í góða stund við stóra gamla þýzka Biblíu, nánar til tekið útgáfu Marteins Lúthers. Engin bein tengsl eru þó á milli sértrúarsafnaðar kvennanna og lúthersku kirkjunnar eða kristindómsins yfirleitt að því undanskildu að þær ástunda blóðdrykkju, sem gæti vísað til altarissakramentisins, en tilgangurinn með því að fórna karlmönnum er einmitt sá að nærast á blóði þeirra. Ein kvennanna segir blóðið vera tákn lífs og dauða, enda sé lífið fólgið í því að það renni um æðar mannsins, en um leið og það hverfi þaðan burt, deyi hann.
Rollin hefur kallað konurnar í myndinni blóðsugur en framsetningin er samt ekki í anda hefðbundinna blóðsugumynda. Þær eru frekar hópur lesbískra kvenna, sem neytir blóðs slátraðra nauta samkvæmt læknisráði við blóðleysi (sem sagt er hafa tíðkast í upphafi tuttugustu aldarinnar) en ákveður að ganga skrefi lengra og drekka blóð karlmanna, sem fórnað hefur verið á miðnætti að því er virðist í trúarlegum tilgangi.
Rollin greinir frá því í ítarlegu viðtali við Peter Blumenstock hjá kvikmyndatímaritinu Video Watchdog að framleiðandinn hafi í raun viljað hafa myndina bláa og því útvegað leikara úr slíkum myndum. Hann hafi hins vegar ákveðið að sniðganga óskir vinnuveitandans hvað það varðar og gert í staðinn tiltölulega væga erótíska hrollvekju eftir eigin höfði og komist upp með það. Áherslan felst fyrst og fremst í dulúðinni en leikkonurnar fækka engu að síður flestar klæðum þegar skyggja tekur (og sumar jafnvel fyrr).
Þess má svo geta að í einu herbergi hallarinnar er tréskurðarmynd af Maríu mey með Jesúbarnið og tólf stjörnur í kring uppi á vegg, en inni í henni eru geymd ýmis eggvopn, sem eiga eftir að koma konunum að góðum notum. Maríumyndin með stjörnunum er að sjálfsögðu sótt í Opb. 12:1-2 þar sem segir frá móðurinni með kórónu af tólf stjörnum.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Opb. 12:1-2
Persónur úr trúarritum: María mey, Satan, blóðsuga
Sögulegar persónur: Marteinn Lúther
Guðfræðistef: blóðdrykkja, fórn, dauðinn
Siðfræðistef: samkynhneigð, erótík, þjófnaður, nauðgun, manndráp, fyrirgefning, ást, svik
Trúarleg tákn: andaborð, maríumynd
Trúarlegt atferli og siðir: fórn, blóðdrykkja