Kvikmyndir

Find a Place to Die

Leikstjórn: Giuliano Carnimeo [undir nafninu Anthony Ascott]
Handrit: Giuliano Carnimeo, Leonardo Benvenuti og Hugo Fregonese
Leikarar: Jeffrey Hunter, Pascale Petit, Nello Pazzafini [undir nafninu Ted Carter], Daniela Giordano, Giovanni Pallavicino, Gordon York, Aldo Lastretti, Anthony Blond, Umberto Di Grazia og Piero Lulli
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1968
Lengd: 84mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063158
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Jarðfræðingurinn og gullleitarmaðurinn Paul Martin sendir Lísu eiginkonu sína helsár í tveggja dagleiða ferð eftir hjálp eftir að hafa naumlega brotið á bak aftur umsátur glæpaflokks, sem ágirnst hafði góssið þeirra. Um leið og Lísa nær til mannabyggða heitir hún hverjum þeim hárri fjárhæð, sem vilji sækja eiginmanninn aftur í óbyggðirnar. Aðstoðarmennirnir, sem slást í för með henni, reynast hins vegar flestir ótíndir misindismenn, sem eru áhugasamari um gullfeng hjónanna en náungakærleika.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Á sjöunda og áttunda áratugnum framleiddu Ítalir mörg hundruð ódýrra vestra, sem jafnan voru teknir víða í Evrópu frekar en í Norður-Ameríku. Bandarískum kvikmyndagagnrýnendum þótti yfirleitt frekar lítið til þessara vestra koma og uppnefndu þá eftir einu þekktasta fæði Ítala, spaghettíinu. Engu að síður er til fjöldi spaghettí-vestra, sem vel hefur staðist tímans tönn og er nú loks metinn að verðleikum, en þar ber fremstar að telja kvikmyndir snillingsins Sergio Leone.

Enda þótt Find a Place to Die (eða Joe! Cercati un posto per morire eins og hún heitir á frummálinu) jafnist ekki á við myndir Leones, stendur hún alveg fyrir sínu sem háalvarleg bölsýn skotbardagamynd í orðsins fyllstu merkingu. Auk þess má finna í henni ýmsar trúarlegar vísanir eins og í svo mörgum öðrum spaghettí-vestrum. Flestar varða vísanirnar þó prest, sem slæst í för með aðstoðarmönnunum með Biblíuna í hendi og vopnaður sexhleypu. Þegar honum er greint frá tilgangi ferðarinnar, vitnar hann strax efnislega í Sálm 23:1, Lúk. 15:4-6 og Jóh. 10:14-15 með þeim orðum, að Drottinn sé hirðir þeirra allra og yfirgefi aldrei týndan sauð. Síðar í myndinni vitnar presturinn svo aftur í Sálm 23:1 við útför og bætir við tilvitnuninni „að moldu ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (I. Mós. 3:19). Bænir hans hljóma ennfremur flestar biblíulegar enda þótt ekki sé um beinar tilvitnanir að ræða. Í eitt skiptið segir hann: „Hafðu auga með okkur, faðir, vér erum aumir syndarar!“ Á öðrum stað notar hann biblíulegt orðfæri þegar hann segir: „Láttu ljós miskunnar þinnar skína yfir þessari veslings sálu!“ Presturinn er þó frekar þjófur og ræningi en góður hirðir (Jóh. 10:1, 10) því að hann hikar ekki við að skjóta mann og annan, þukla á kvenfólki og pynta menn til sagna í von um að geta komist yfir gull hjónanna. Það er því sem vettvangur sögunnar hafi verið yfirgefinn af Guði, enda eru óbyggðirnar snemma sagðar ‚godforsaken‘.

Þess má að lokum geta, að aðalleikari myndarinnar, Jeffrey Hunter, lék Jesúm Krist í kvikmyndinni King of Kings árið 1961.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 3:19, Sl 23:1, Lk 15:4-6, Jh 10:14-15
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 10:1, 10
Persónur úr trúarritum: Satan
Guðfræðistef: dómsdagur
Siðfræðistef: ágirnd, manndráp, pynting, nauðgun, kynferðisleg áreitni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signing, útför