Kvikmyndir

Finders Killers

Leikstjórn: Gianni Crea
Handrit: Fabio Piccioni
Leikarar: Donald O’Brien [undir nafninu Donal O’Brien], Gordon Mitchell, Mario Brega, Pia Giancaro, Dino Strano [undir nafninu Dean Stratford], Femi Benussi, Emilio Messina, Gennarino Pappagalli og Alessandro Perrella
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Lengd: 88mín.
Hlutföll: Stundum 1.33:1, oftast 1.66:1 en stöku sinnum 1.85:1

Ágrip af söguþræði:
Jack Dean leitar að morðingjum foreldra sinna og reynist ekki einn um það.

Almennt um myndina:
Óhætt er að fullyrða að þessi framleiðsla hafi ekki kostað mikið. Myndin er illa gerð og leikararnir flestir slæmir, meira að segja Donald O’Brien og Mario Brega sem oft hafa verið betri. Þeim er þó vorkunn enda handritið ferlega lélegt og leikstjórnin svo til engin. Þá sjaldan sem menn ræða saman eru samtölin í formi yfirlýsinga, en lengst af koma þó aðeins við sögu karlar, sem skjóta á allt og alla án þess að maður hafi nokkra hugmynd um hver sé hvað. Helsta tilbreytingin er þegar karlarnir leggja frá sér byssurnar og taka að slást með berum hnefum. Sem sagt langdreginn og svæfandi spaghettí-vestri sem allir ættu að forðast. Það eina í myndinni sem getur talist viðunandi er tónlist Stelvios Cipriani.

Myndgæðin eru þokkaleg á myndbandsspólunni frá Filmlab í Danmörku en það sama verður ekki sagt um breiðtjaldshlutföllin sem af óskiljanlegum ástæðum eru höfð ýmist 1.33:1, 1.66:1 og 1.85:1 út alla myndina.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Megin stef myndarinnar eru blóðhefnd aðalsöguhetjunnar og taumlaus græðgi bófanna. Í langdregnu atriði þar sem bæjarbúar berjast við bófaflokk á aðalgötunni má sjá hvernig skugginn af kirkjuturninum færist yfir vígvöllin. Óvíst er hins vegar hvort nokkur hugsun liggi að baki þeirri sviðsetningu. Kirkjubygginguna ættu þó allir spaghettí-vestra áhugamenn að kannast við enda kemur hún við sögu í fjölmörgum þeirra.

Guðfræðistef: sköpun
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, ofbeldi, pyntingar, rán, fjárhættuspil, græðgi, sjálfsvörn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á kirkjuturni, kross á leiði