3. árgangur 2003, Innlýsing, Vefrit

Fjölskylduferð

Ég geri ráð fyrir að flestum þyki felast bak við orðið fjölskylduferð ánægjuleg sameiginleg upplifun einnar fjölskyldu, sem er stór eða lítil eftir atvikum.

Hliðstætt og þó í enn frekara mæli gildir um orðið sælureitur. Það er staður sem kallar fram sælu eða sælar minningar eru bundnar við.

Það er vel til fundið að kalla myndina Smultronstället Sælureit uppá íslensku, en heitið er þó í sjálfu sér órætt.

Þegar ég hugsa um þessa mynd Bergmanns sem hér er til umfjöllunar leitar frekar á hugann fyrra hugtakið. Ég leyfi mér að setja það sem yfirskrift þótt ef til vill væri kannski best að láta þetta innslag heita: Ekki er allt sem sýnist.

Hér er samt hvorki um að ræða fjölskylduferð né sælureit í sinni einsleitu, jákvæðu mynd. Enda var þess vart að vænta í mynd frá hendi höfundar sem seint verður sakaður um að láta sér nægja yfirborðsveruleika.

Eins og í góðri predikun, lýkst inntak og merking sögunnar sem myndin segir upp í síðustu andartökum hennar. Þess vegna tekur áhorfandinn svo miklu meira með sér heim að henni lokinni en ef saga væri sögð út frá framvindu hennar einni saman.

Sagan hverfist um einn pól og aðalpersónu myndarinnar. Hann heitir Ísak. Jafn grafalvarlegur og hann er minnir hann lítið á hlátur Söru sem endurspeglast í hinum biblíulega Ísak.

Hann er atvinnugóðmenni í hefðbundum skilningi. Það er vegna þess að hann hefur að aðalstarfi það sem hugsjónafólk þráir að gera að inntaki lífs síns: að líkna og að lækna.

Fyrir þetta á hann í vændum eina af stærstu viðurkenningum mannlegs samfélags.

Í hugann koma ábendingar um það hversu mikill vandi það er að vera manneskja. Heil manneskja. Sögur greina af frábærum læknum sem eru dýrkaðir og dáðir af sjúklingum sínum og skjólstæðingum, en hataðir af öllu samstarfsfólki og úthýst af eigin heimili. Þeim tekst aldrei að vera sínum nánustu það sem þeir eru sjúklingum sínum. Svarið við því og ástæða þess er oftast sú að þeir vita ekki hverjir þeir eru.

Samskiptin við maka og fjölskyldu eru þá aðeins aukaatriði sem eiga að þiggja það litla sem til þeirra fellur af afgangsstærðum þegar fjölskyldufaðirinn, eða móðirin, hefur lokið skyldum sínum við starf sitt og fræði. Þar með dregur maður í efa að sjúklingurinn hafi í rauininni nokkurn tíma verið aðalatriðið – en ekki möguleiki læknisins og fræðimannsins til að koma kenningum sínum og þekkingu í framkvæmd og hljóta fyrir það viðurkenningu og lófatak. En þörfina fyrir slíkt er einmitt oftast að finna í skorti á viðurkenningu í uppvexti.

Ferðasagan sem hér er sögð endurspeglar lífssögu Ísaks. Hinn áleitni dauði í draumum myndarinnar túlkar hinn fjölbreytilega dauða í lifandi samböndum. (Og hér mætti hafa útúrdúr um skilning Luthers á hjúskap og fjölskyldustofnun og slitum).

Ferðasagan er leið til að kynna Isak fyrir áhorfendum um leið og hann kynnist sjálfum sér. Aðferð og nálgun hans er lærð og í arf tekinn í uppeldi og upplagi. Í ljósi hennar er hann illa settur. Það verður honum til björgunar að ferðin sem farin er og er efni myndarinnar er um leið ferð hans til fundar við sjálfan sig. Það er hún sem kemur á sambandi læknisins fyrst við sjálfan sig, síðan við sína nánustu afkomendur, og þar með skapar það tengingu til foreldra hans. Það kemur í ljós að það er einmitt leitin að þeirri tengingu sem er drifkrafturinn í lífi hans. Og þegar hann hefur fundið hana þá er hann heill.