Fimm stuttmyndir á Reykjavík Shorts & Docs
Þann 10. júní byrjaði Reykjavík Shorts & Docs kvikmyndahátíðin. Á fyrsta deginum var boðið upp á sex stuttmyndir. Reyndar voru aðeins fimm myndir sýndar þar sem ekki tókst að sýna „Móðuna – ástarsögu á þvottaplani“ vegna tæknilegra erfiðleika. Hér verður stuttlega fjallað um þær fimm myndir sem sýndar voru. Síðustu orð Hreggviðs (Grímur Hákonarson: 2004) Myndin er 22 mín. að lengd og fjallar um Hreggvið, gamlan hægrimann og fastapenna hjá Mogganum, sem fær hjartaslag þegar hann er á leiðinni með grein til ritstjóra blaðsins. Hreggviður er óánægður með ritstjórnarstefnu blaðsins og gengur aftur til að reyna að fá greinina birta. Eins og sést á söguþræðinum sýnir myndin á skemmtilegan hátt spíritismann í íslensku samfélagi. Helsti kostur myndarinnar er skemmtileg saga og góður leikur ritstjórans. Gallarnir eru tæknivinnsla og leikur annarra í myndinni. Blind Date (Huldar Freyr Arnarson: 2004) Myndin er 18 mín. að lengd og fjallar um varfærinn mann sem fer á blint stefnumót með konu sem er gangandi slysagildra. Tæknilega best unnin af þeim myndum sem sýndar voru en það vantaði eitthvað í söguna. …