5. árgangur 2005, Innlýsing, Vefrit

Fórnin eftir Andrei Tarkovsky

Fórnin eftir Tarkovsky

Andrei Tarkovsky hefur sagt um Fórnina að hún fjalli um sjálfsfórn að kristnum skilningi. Í viðtölum og eigin skrifum um myndina frá þeim tíma sem hún var frumsýnd er hann gagnrýninn á efnis- og framfarahyggju nútímans og bendir á að við getum ekki eingöngu byggt á hinu efnislega, við getum ekki lifað án þess að gefa svigrúm fyrir andlegan þroska okkar, við lifum ekki á brauði einu saman. Kvikmyndin Fórnin hafi sprottið upp úr slíkum hugmyndum.

Úr FórninniTarkovsky hefur einnig sagt um Fórnina að hún sé líking, ljóðræn og geti því verið margræð þegar kemur að túlkun. Ég held þó að það megi halda því fram að myndin fjalli meðal annars um spurninguna hvort unnt sé að endurleysa fallna menningu frá því að tortíma sjálfri sér í blindri efnis- og tæknihyggju og trú á framfarir og leiða hana til endurnýjaðs andlegs lífs og trúar. Þar með snýst myndin líka um spurninguna um trú.

Í margræðum vef Fórnarinnar eru ótal þræðir. Ég ætla að leyfa mér að draga fram fjóra þeirra sem ég tel mikilvæga, þótt ég geri mér grein fyrir að áhorfendur muni uppgötva ýmsa fleiri þræði. Þessir þræðir sýna vel hvernig Tarkovsky beitir kristnu myndmáli og málfari í Fórninni á sinn snjalla hátt auk þess sem þeir sýna hvernig hann fléttar saman ólíkar listgreinar við gerð myndarinnar, þ.e. myndlist, tónlist, bókmenntum og leiklist.

Í fyrsta lagi er það ófullgert málverk Leonardos da Vinci af vitringunum þremur hylla Jesúbarnið, en það er í bakgrunni upphafs Fórnarinnar og kemur síðan fyrir nokkrum sinnum í myndinni. Í þungamiðju málverksins er María með Jesúbarnið og lífsins tré sem eins og vex upp af sambandi þeirra. Tréð vísar til visnaðs trés sem gegnir mikilvægu hlutveki í myndinni og getur verið tákn dauðrar menningar.

Í öðru lagi er það aría úr Matteusarpassíu Bachs sem hljómar undir bæði við upphaf og lok myndarinnar. Um er að ræða miskunnarbæn (Erbarme Dich, Gott) sem sungin er í passíunni eftir að Pétur hefur afneitað Jesú þrisvar. Að skilningi Tarkovskys hefur nútímamaðurinn afneitað Guði í efnishyggju sinni og kallað yfir sig dauða.

Í þriðja lagi eru það upphafsorð Jóhannesarguðspjalls: „Í upphafi var orðið….” Til þeirra er vitnað bæði snemma í myndinni og við lok hennar. Þau vísa til sköpunarorðs Guðs og standa sem andstæða við innihaldslausan orðavaðal nútímans, en beina jafnframt sjónum að spurningum um tilvist, um merkingu, tilgang og sannleika.

Í fjórða lagi er það svo tilvísun til skáldsögunnar Fávitans eftir Dostojevsky og þar með hinnar rússnesk-orthodoxu hefðar um hinn heilaga dára („the holy fool“). Að vera dári vegna Krists var tiltekið form meinlætalífs og heilgaleika sem var einkum áberandi í Rússlandi á miðöldum. Dárinn fetar braut sjálfsafneitunar og auðmýktar til hins ýtrasta með því að afsala sér öllu, líka vitsmunalegum gáfum og jarðneskri visku. Alexander, aðalpersóna myndarinnar, lék Myshkin fursta í uppsetningu á Fávitanum. Hann gefur jafnframt loforð um að hætta að tala og er loks fluttur burt á sjúkrahús eins og hver annar fáráðlingur, rétt eins og furstinn í skáldsögu Dostojevskys. Auk þess birtist í einni af draumasenum myndarinnar eitt af táknum dáranna, þ.e. berir fætur í snjó.

Ég hvet áhorfendur Fórnarinnar til að gefa þessum og öðrum þráðum í margræðum vef myndarinnar gaum og velta fyrir sér hvernig þeir bæði vekja spurningar og gefa merkingu.

Innlýsing, flutt í Bæjarbíói í Hafnarfirði á undan sýningu Fórnarinnar 23. ágúst 2005