Leikstjórn: Dariush Mehrjui
Handrit: Dariush Mehrjui, byggt á smásögu eftir Gholam-Hossein Saedi
Leikarar: Ezzatolah Entezami, Mahmoud Dowlatabadi, Parviz Fanizadeh, Jamshid Mashayekhi, Ali Nassirian, Esmat Safavi, Khosrow Shojazadeh og Jafar Vali
Upprunaland: Íran
Ár: 1969
Lengd: 100mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Hassan, fátækur íranskur þorpsbúi og smábóndi, elskar kúna sína umfram allt og gætir hennar dag frá degi eins og sjáaldurs augna sinna. Dag einn þarf hann að bregða sér frá til næstu borgar og geymir kúna tjóðraða við básinn á meðan. Þegar þorpsbúar átta sig á síðar um daginn að kýrin er örend, hugsa þeir sér til skelfingar hversu mikið áfall það eigi eftir að verða Hassan. Til að hlífa honum við því bregða þeir á það ráð að fela hræið og ljúga í staðinn því til að kýrin hafi sloppið og jafnvel verið numin burt af þjófaflokki sem herjað hefur á þá um langt skeið. Hassan, sem áttar sig strax á að ekki er allt með felldu í málflutningi þorpsbúanna, bugast smám saman undan óvissunni og tekur að líta á sjálfan sig sem kúna ástkæru.
Almennt um myndina:
Þessi einlæga kvikmynd er ásamt Khaneh siah ast (Forough Farrokhzad: 1962) ein sú þekktasta og virtasta sem gerð var í Íran fyrir islömsku byltinguna árið 1979. Áhrif ítölsku raunsæismyndanna er augljós í svart-hvítu yfirbragðinu, persónusköpun alþýðufólksins og dramanu í hversdagslegum aðstæðum þess, en áhrif myndanna beggja á íranska kvikmyndagerðarmenn á síðari árum hafa að sama skapi verið mikil.
Írönskum ráðamönnum á valdatíma keisarastjórnarinnar hugnaðist myndin hins vegar engan veginn og létu þegar banna hana enda var þeim umhugað um að sýna bæði landsmönnum og umheiminum öllum fram á að Íran væri nútímalegt ríki með öllum þeim lífsgæðum og tækniframförum sem til þyrfti. Myndinni var þó brátt smyglað út fyrir landamærin og sýnd á ýmsum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum þar sem hún vakti töluverða athygli og jákvæða umfjöllun. Það var síðan ekki fyrr en eftir islömsku byltinguna að myndin var leyfð á ný í Íran en hún átti stóran þátt í því að Ayatollah Khomeini lagði blessun sína yfir íranska kvikmyndagerð þótt henni væri að vísu sniðinn allþröngur stakkur í ýmsum efnum.
Leikstjóri myndarinnar, Dariush Mehrjui, hefur lengi verið einn farsælasti kvikmyndagerðarmaður Írana og er einn örfárra sem gert hefur fjölda mynda bæði fyrir og eftir islömsku byltinguna sem náð hafa viðurkenningu á alþjóðlegum vettvangi. Ein af þekktari myndum hans frá síðari árum er dramað Leila (1996) sem segir með gagnrýnum en samúðarfullum hætti frá óbyrju í Teheran sem neyðist til að aðstoða eiginmann sinn við að finna honum aðra konu svo hann geti eignast son, en þar í landi er karlmönnum heimilt að eiga allt að fjórar konur. Óhætt er því að segja að Dariush Mehrjui hafi löngum reynst óhræddur við að taka á viðkvæmum málefnum sem gætu fallið í ónáð hjá ráðamönnum, en Leila er engu að síður mynd sem er leyfð þar í landi.
Leikarar myndarinnar eru allir trúverðugir í hlutverkum sínum en mest hvílir þar þó á Ezzatolah Entezami í hlutverki Hassans sem tekst ótrúlega vel að auðsýna mann með samúðarfullum hætti sem heldur að hann sé sjálfur kýrin sín týnda.
DVD diskurinn sem hér er til umfjöllunar er frá bandaríska útgáfufyrirtækinu First Run Features sem einnig gaf út Leilu. Gæðin eru þokkaleg, ekki síst í ljósi þess hversu gömul og fágæt myndin hefur verið og framleiðsla hennar ódýr á sínum tíma, og er því ástæða til að mæla með henni við alla áhugamenn um íranskar kvikmyndir. Aukaefnið er sömuleiðis áhugavert þótt ekki sé það mikið, en þar vegur þyngst stutt viðtal við leikstjórann um gerð myndarinnar og ágætur fylgitexti frá kvikmyndafræðinginum Godfrey Cheshire.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Einfaldleikinn er hér í fyrirrúmi en sjónum áhorfandans er fyrst og fremst beint að fátæku alþýðufólki í afskekktu þorpi einhvers staðar á landsbyggðinni í Íran þar sem maðurinn lifir í nánu samneyti við náttúruna og dýrin og allir þekkja alla og láta sér annt um hvern annan. Meðaumkunin getur þó reynst misráðin eins og sést af viðbrögðum þorpsbúanna við dauða kýrinnar, en í stað þess að segja eigandanum hvað raunverulega gerðist kjósa þeir að fara á bak við hann í þeirri trú að sannleikurinn muni reynast honum of þungbær. Enginn vafi leikur á því að þorpsbúarnir vilja eigandanum allt hið besta en óheilindi þeirra gera aðeins illt verra og missir hann að lokum vitið af sorg og samsamar sig algjörlega kúnni týndu. Þegar þorpsbúarnir taka svo einn af öðrum að segja honum sannleikann reynist það of seint og neyðast þeir til að nálgast hann á þeim forsendum sem hann sjálfur setur, þ.e. að hann sé kýrin týnda.
Enda þótt sagan sé einföld er innsýnin í fábrotið líf sögupersónanna áhugavert og ógæfan sem hún lýsir í raun sístæð dæmisaga um hvernig eigi ekki að bregðast við þegar menn missa óvænt einhvern sér nákominn, jafnvel þótt aðeins sé um hjartfólgið dýr að ræða eins og í þessu tilfelli. Þá er betra að vita hver raunveruleg örlög viðkomandi urðu frekar en að þjást til frambúðar vegna óvissunnar.
Ef til vill má þó einnig túlka dæmisöguna á þá leið að maðurinn skuli ekki binda sig um of við forgengilega hluti því að hann muni ekki afbera það að glata þeim þegar á reynir. Að því leyti mætti kannski líta á myndina sem mystíska dæmisögu þar sem maðurinn glatar mennskunni vegna þess að hann gleymir því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Enda þótt ýmsir hafi túlkað myndina með þeim hætti verður það að teljast harla óvægin túlkun enda manninum eðlilegt að elska, þrá og syrgja hvað eina sem honum finnst standa sér næst. Nærtækara væri því að líta á myndina sem dæmisögu um slæmar afleiðingar hvers kyns óheilinda í garð þeirra sem glata því sem þeim er kærast.
Siðfræðistef: ást, lygi, blekking, sorgarviðbrögð, meðaumkun, sannleikur, þjáning, örvænting
Trúarbrögð: islam, hjátrú
Trúarleg tákn: slæða