Kvikmyndir

Gattaca

Leikstjórn: Andrew Niccol
Handrit: Andrew Niccol
Leikarar: Ethan Hawke, Uma Thurman, Jude Law, Gore Vidal, Ernest Borgnine, Alan Arkin, Xander Berkeley, Jayne Brook og Elias Koteas
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1997
Lengd: 102mín.
Hlutföll: 2:35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Genarannsóknir hafa náð því stigi að læknar geta raðað saman fullkomnum genum og fjarlægt gen sem eru ekki æskileg. En vandinn er sá að ekki eru allir eins vel hannaðir og sum börn eru enn getin á gamla mátann, þ.e. með kynmökum. Eina framtíð þessara einstaklinga er að vinna við hreingerningar og önnur láglaunastörf, því að aðeins þeir sem hafa fullkomin gen geta komist í nám og fengið góð störf. Samt ákveður einn sjálfstæður einstaklingur að láta ekki genamisrétti stöðva sig og sannar fyrir sjálfum sér og öðrum að maðurinn er meira en genin.

Almennt um myndina:
Andrew Niccol, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, á ekki langan feril að baki. Gattaca var fyrsta mynd hans en hann leikstýrði og skrifaði einnig handritið að S1m0ne (2002). Þá skrifaði hann líka handritið að The Truman Show (Peter Weir: 1998).

Upprunalega átti myndin að heita The Eighth Day Áttundi dagurinn, sem vísar að sjálfsögðu til sköpunarsögunnar. Guð skapaði heiminn á sex dögum og hvíldi sig á þeim sjöunda en maðurinn reynir síðan að bæta við sköpunina á þeim áttunda samkvæmt þessum titli. Á DVD diskinum er að finna senur sem voru klipptar úr myndinni en þar kemur einmitt fram að miðstöðin þar sem börnin eru erfðafræðilega hönnuð heitir Áttundi dagurinn. Endanlegt nafn myndarinnar er hins vegar sett saman af upphafsstöfum ferns konar niturbasa kirna sem byggja DNA, þ.e. adenín (A), gúanín (G), cýtósín (C) og týmín (T). Hringstiginn heima hjá Jerome vísar sömuleiðis til DNA.

Þá má geta þess að annað nafn Jerome er Eugene, en hann notar það nær alla myndina. Eugene er gríska og þýðir „vel fæddur“, sbr. enska orðið eugenics (kynbótafræði), en svo nefnast þau fræði sem ganga út á að kynbæta menn og dýr. Mannkynbætur er einmitt megið þema myndarinnar.

Sumum finnst viðfangsefni myndarinnar langsótt. Auglýsingarbrella til að vekja athygli á myndinni sannar hins vegar hið gagnstæða. Auglýst var þjónusta þar sem fólk gæti látið lagfæra gen barna sinna en þúsundir bitu á agnið og svöruðu auglýsingunni.

Að lokum má geta þess að myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikræna stjórnun og sviðsmynd, en það er einmitt einn helsti kostur þessarar frábæru myndar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Meginboðskapur myndarinnar er tvíþættur. Annars vegar sá að með genarannsóknum eigum við á hættu að skapa ranglátt og siðlaust samfélag. Hins vegar sá að það er sama hversu þróuð læknavísindin verða, Guð einn getur talist skaparinn.

Myndin byrjar á því að vitna í Prédikarann 7:13: „Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefur gjört bogið?“ Sömuleiðis er vitað í orð Willards Caylin: „Ég held ekki aðeins að við munum breyta móður náttúru, heldur að hún vilji það.“ Hér eru sett fram ólík viðhorf. Annað lítur svo á að við eigum ekki að fikta við það sem Guð hefur skapað, enda getum við ekki betrumbætt handbragð hans eða breytt vilja hans. Hitt sjónarmiðið gengur út á það að náttúran bókstaflega vilji að við breytum henni og betrumbæti.

Í myndinni er tekist á við þessi tvö sjónarhorn en strax frá upphafi er augljóst að innbyggður sögumaður myndarinnar er sammála Prédikaranum og á öndverðu meiði við Willard Caylin. Þessi tvö ólíku sjónarmið birtast mjög skýrt í bræðrunum Vincent og Anton.

Þegar Vincent er getinn heldur móðir hans á róðukrossi og treystir á Drottin, en það vill svo skemmtilega til að þau sem eru getin á „gamla“ mátann eru oft kölluð „guðsbörn“. Þegar Vincent er nýfæddur og „ljóst“ er að hann muni deyja úr hjartaáfalli um þrítugt lýsir móðir hans því spámannlega yfir að hún viti að hann muni áorka einhverju. En samfélagið er ekki á sama máli og hún og er því ekki tilbúið að mennta hann eða að sjúkratryggja.

Foreldrar Vincents ákveða að treysta á vísindin við næsta getnað og er hann því sérstaklega erfðahannaður. Anton er fulltrúi vísindanna, þ.e. þeirra viðhorfa að við eigum og getum lagfært sköpunarverk Guðs. Anton hefur erft allt það besta frá foreldrum sínum. Hann er fullkominn hvað líkamlegt atgervi varðar en hrokafullur og sjálfumhverfur. Arkitektúr myndarinnar lýsir ástandi Antons vel sem og mannkynsins alls. Veggir eru oftast grá steinsteypa og nánast undantekningarlaust tómir. Lítið er um húsgögn og yfirborð tómt og kalt, en á sama tíma fullkomið hvað form og lögun varðar.

Mannkynið hefur einmitt náð efnislegri og líkamlegri fullkomnun en á sama tíma hefur þjóðfélagið villst af leið. Mannkærleikur, metnaður og hugsjónir skipta engu lengur. Hins vegar skiptir fullkomin sjón, sterkt hjarta og líkamlegt hreysti öllu. Var einhver að tala um „hreinan kynstofn“? Það óhugnanlega við myndina er að þetta er ekki fjarlæg framtíð heldur á margan hátt samtíð okkar. Dvergar fæðast t.d. ekki lengur á Íslandi vegna þess að fóstrunum er öllum eytt. Í auknum mæli er vansköpuðum fóstrum einnig eitt. En að hvaða leyti eru þessar gjörðir í raun og veru ólíkar stefnu nasismans um hreinan kynstofn?

Í myndinni er þeirri spurningu velt upp hvort hægt sé að fullkomna manninn með því að laga genin. Svarið er augljóslega nei því að gildi og hæfileikar mannsins búa ekki í genum hans heldur í sálinni og auðvitað eru engin gen fyrir mannsandann (svo vitnað sé til slagorða myndarinnar). Sama viðhorf birtist einmitt í fyrrnefndu versi úr Prédikaranum: „Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefur gjört bogið?“ Vincent er einmitt lifandi sönnun þessa. Samkvæmt öllum hefðbundnum viðmiðunum hefði hann aldrei átt að komast svona langt. En það sem samfélaginu yfirsást er að ástríður og metnaður eru ekki í genum okkar heldur eiginleikar sálar okkar. Þetta sést best þegar Vincent er borinn saman við Jerome, sem hafði allt nema eldmóðinn eða löngunina til að ná langt. Einn megin boðskapur myndarinnar er einmitt að láta ekki samfélagið hefta sköpunarkraft og metnað mannsins. Jósef, yfirmaður Vincents, hafði nefnilega rangt fyrir sér. Við getum farið fram úr hæfileikum okkar.

Í myndinni er einnig sett fram það viðhorf að gallar okkar geti verið okkur til framdráttar. Píanóleikari í myndinni er með tólf putta, sem yfirleitt er talið óæskilegt og óeðlilegt. En píanóleikarinn nýtir sérkenni sitt og leikur lög sem aðeins er hægt að spila með tólf fingur. Þannig verður galli hans í raun að blessun.

Lokaorð myndarinnar eru að eitt sinn hafi hvert atóm verið hluti af stjörnu. Af þessum orðum má draga þá ályktun að við erum öll sköpuð af sama efni og eigum sameiginlegan uppruna. Þar af leiðandi er furðulegt að einhver skuli reyna að upphefja sig yfir aðra á líkamlegum forsendum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Pd 7:13
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: sálin, trúartraust, ást
Siðfræðistef: fordómar, genabreytingar, genarannsóknir
Trúarleg tákn: róðukross