Kvikmyndir

God’s Army

Leikstjórn: Richard Dutcher
Handrit: Richard Dutcher
Leikarar: Matthew Brown, Richard Dutcher, Jacque Gray, Michael Buster, DeSean Terry, Luis Robledo, Jeff Kelly og John Pentecost
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0238247
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ungur mormóni frá Kansas gerist trúboði í Los Angeles þrátt fyrir að móðir hans hafi afneitað trúnni og stjúpfaðir hans sitji inni fyrir kynferðislega misnotkun á börnum innan kirkjunnar. Sjálfur á hann margt eftir ólært og verður að takast á við bæði eigin efasemdir og annarra en trúboðsstarfið styrkir hann smám saman í trúnni og þroskar hann andlega.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þetta er fyrsta kvikmynd bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Richards Dutcher, sem ekki aðeins leikstýrir henni heldur skrifar einnig handrit hennar, framleiðir hana og leikur annað aðalhlutverkið, þ.e. Marcus Dalton, trúboðsfélaga og leiðbeinanda Kansasbúans unga. Sjálfur er Dutcher mormóni en hann segist hafa viljað veita almenningi innsýn í trúboðsstarf kirkju sinnar, sem alltof oft hafi verið hædd í kvikmyndum og margir virðist hafa töluverðar ranghugmyndir um.

Mormónatrúboðana þekkja flestir enda einstaklega ötulir við köllun sína víða um heim, en þeir ganga jafnan tveir og tveir saman hús úr húsi og bjóðast til að ræða við húsráðendur um trú sína og kirkju. Í flestum tilfellum er þar um að ræða tvítuga pilta í jakkafötum og hvítum skyrtum með bindi, sem verja tveim árum í trúboð að loknu menntaskólanámi, en einnig er nokkuð um að jafnöldrur þeirra eða hjón á eftirlaunum gerist trúboðar eftir að hafa fengið köllun til þess frá kirkjunni. Allir hafa trúboðarnir þó lítið svart skilti á vinstri brjóstvasanum þar sem á stendur ‚öldungur‘ eða ‚systir‘ fyrir framan ættarnafn þeirra en fyrir neðan er nafn kirkjunnar skráð, Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints).

Ekki hefur alltaf reynst auðvelt að gera trúverðugar og aðlaðandi kvikmyndir fyrir málstað, sem fáir aðhyllast og skiptar skoðanir eru um. Kvikmyndir frá trúarhópum, baráttusamtökum eða öðrum minnihlutahópum hafa allavega hvað eftir annað reynst einfeldningslegar og jafnvel hjákátlegar áróðursmyndir þar sem viðvaningsbragurinn og væmnin fæla fremur frá boðskapnum en laða að honum. Það gildir hins vegar ekki um kvikmynd Dutchers, sem er þvert á móti óvenju vönduð og vel ígrunduð. Þar með er þó ekki sagt, að áhorfandinn taki endilega undir allan trúarlegan boðskap kvikmyndarinnar, en hann lætur sér engu að síður annt um það fólk, sem fram kemur í henni, enda er persónusköpunin einkar trúverðug og trúarlífið einlægt.

Trúarhópur mormóna hefur verið umdeildur allt frá dögum spámannsins Jósefs Smith, sem hélt því fram að Guð faðir og sonur hans Jesús Kristur hefðu birst sér báðir holdi klæddir og boðið sér að endurreisa kirkju kristinna manna eftir margra alda langt fráhvarf frá hinni sönnu trú. Ritunum Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu var bætt við Biblíuna sem heilögum ritningum og því haldið fram að hinni sönnu kirkju yrði að vera stjórnað af spámanni Guðs og postulum hans í anda frumkirkjunnar.

Mormónar hafa sætt harðri gagnrýni fyrir ýmsar meintar villukenningar og kirkja þeirra af þeim sökum ekki sögð kristin. Ástæðan er meðal annars framsetning mormóna á guðdóminum, en þeir segja þrenninguna ekki vera einn eilífan óskapaðan Guð, sem hafi opinberað sig sem föður, son og heilagan anda heldur einingu þriggja skapaðra einstaklinga, föðurins og sona hans Jesú Krists og heilags anda, sem allir séu sameinaðir ‚í tilganginum‘. Guð faðir hafi þannig eitt sinn verið maður eins og við áður en hann náði því marki að verða Guð, en síðar hafi hann eignast Jesúm Krist, heilagan anda, Lúsífer og okkur mennina sem andabörn með eiginkonu sinni á himninum. Þeir sem fæðist inn í þennan heim í líkama af holdi og blóði og geri vilja föðurins, eigi svo kost á því að verða guðir eins og hann varð sjálfur Guð.

Ekki er komið inn á þessar sérkenningar mormóna í kvikmyndinni, enda tilgangurinn með henni ekki sá að gera ítarlega heimildamynd heldur miklu frekar drama með áherslu á gildi trúarlífsins, en óhætt er að segja, að vel hafi tekist til með það. Markmið trúboðanna í kvikmyndinni er fyrst og fremst að rækta bænasamfélagið og hjálpa náunganum óháð hverrar trúar hann sé. Þegar trúboðarnir halda út á akurinn á hverjum degi, segjast þeir ætla að vinna góðverk og boða fagnaðarerindið. Þeir neita því hins vegar, að þeir geti snúið einhverjum til trúar og segja Guð einan geta gert það, en það geri hann meðal annars með vitnisburði þeirra.

Dutcher sniðgengur þó ekki allt, sem mormónakirkjan hefur verið gagnrýnd fyrir, enda þurfa trúboðarnir hvað eftir annað að svara fyrir ýmis vandamál, þegar þeir knýja dyra hjá misfjandsamlegu fólki. Einn trúboðinn ákveður að kynna sér sjónarmið andstæðinga kirkjunnar og fer að lesa sér til í ritum þeirra, en fyrir vikið sannfærist hann smám saman um að boðskapurinn fái ekki staðist og yfirgefur því kirkjuna áður en trúboðstímanum er lokið. Fram að því bendir hann félögum sínum þó öðru hverju á ýmsar sagnfræðilegar skekkjur í Mormónsbók, svo sem að hestar hafi verið í Ameríku fyrir komu Evrópumanna (1Ne 18:25), og segir það veikja köllunarfrásögu spámannsins að hann skuli hafa gefið a.m.k. fjórar mismunandi og að því er virðist ósamrýmanlegar útgáfur af henni. Þannig hafi það ýmist verið faðirinn og sonurinn sem hafi opinberast honum, sonurinn með englum sínum, sonurinn einn eða bara englar.

Marcus Dalton reiðist þessum sífelldum aðfinnslum trúboðans um áreiðanleika kirkjunnar og skammar hann fyrir að verja svo miklum tíma í efasemdarit, sem séu ekkert annað en klám, rusl og lygar til þess eins fallnar að rífa niður sannleikann. Miklu frekar sé við hæfi að lesa þau rit mormóna, sem svari þessum hlutum og byggi upp trúna. Hvað varði mismunandi útgáfur af köllunarfrásögunni þá séu þær fyrst og fremst tilkomnar vegna þess að áheyrendahóparnir hafi verið fjölbreyttir og því misjafnt hvað hafi þurft að leggja áherslu á.

Annað umdeilt atriði, sem kemur við sögu í kvikmyndinni, varðar afstöðu mormónakirkjunnar til blökkumanna, en fram til ársins 1978 máttu þeir ekki gegna prestdæmisembætti innan hennar vegna gamalla fyrirmæla helstu spámanna hennar og postula. Þessu var hins vegar breytt þegar tólfti spámaður kirkjunnar fékk opinberun um það á því ári, að eftirleiðis væri blökkumönnum heimilt að gegna slíkum embættum, en frá því er greint í lokakafla Kenningar og sáttmála.

Í myndinni neyðist einn trúboðinn, sem er blökkumaður, til að verja þessi gömlu fyrirmæli og skýra afstöðubreytinguna fyrir gagnrýnendum kirkjunnar, enda þótt hann játi síðar fyrir einum félaga sínum, að hann skilji þetta ekki sjálfur og hafi gengið í gegnum erfiða trúarbaráttu fyrir vikið. Niðurstaða hans er hins vegar sú, að sennilega hafi Guð leyft þetta til þess eins að reyna trú mormóna því að allt annað innan kirkjunnar sé svo gott. Þetta orðar hann meðal annars svo: „But sometimes I think God does it on purpose. It’s like he gives you a hundred reasons to believe, and then he just drops one or two for you not to believe so that you can choose to see if you really want to believe.“

Enda þótt áhorfandanum kunni að þykja lítið til þessara skýringa koma og hneykslist jafnvel á þeirri einangrunarhyggju, sem Dutcher upphefur með orðum Daltons, að varhugarvert sé að kynna sér gagnrýn ritverk um trúna, veitir það allt saman engu að síður áhugaverða innsýn í líf sögupersónanna og sjónarmið þeirra. Fyrir þeim skiptir trúarreynslan og bænasamfélagið mestu máli en það er tekið til marks um áreiðanleika kirkjunnar og trúarinnar.

Enda þótt hér sé um að ræða frumraun flestra, sem að kvikmyndinni koma, er hún einstaklega vel gerð og leikin. Michael Buster er sérstaklega góður í hlutverki trúboðans, sem verður efasemdunum að bráð, en hann fær auðveldlega samúð áhorfandans með sanngjarnri túlkun sinni. Sömuleiðis er DeSean Terry góður í hlutverki blökkumannsins, sem þjónar kirkju sinni af innstu sannfæringu þrátt fyrir afstöðu hennar til blökkumanna fyrr á árum.

Í stuttu máli sagt er hér um að ræða virðingarverða kvikmynd, sem mormónar geta verið stolltir af, enda dregur hún upp trúverðuga og aðlaðandi mynd af trúarlífi þeirra án þess að sniðganga vandamálin innan kirkju þeirra.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían (King James) 1M 3, 4M 1:49-53, Jes 40:31, Mt 6:9, Mt 16:25, Mt 28:19, Jh 4:35, Jh 15:13, P 10:34-43, 1Kor 3:4-7, Gl 3:28, Gl 6:3, Kól 2:8, 1Tm 1:8-9; Mormónsbók, 1Ne 18:25, Mós 17; Kenning og sáttmálar, K&S 46:11; Hin dýrmæta perla
Persónur úr trúarritum: Heilagur andi, Pétur postuli, Páll postuli, Apollós, Abinadi, Jósef Smith
Guðfræðistef: eilíft líf, helvíti, efi, sáttmáli, kvenprestur, fyrirhugun, endurskírn, lækning fyrir trú, kraftaverk, guðsafneitun
Siðfræðistef: vændi, kynferðisleg misnotkun
Trúarbrögð: Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormónar), rómversk-kaþólska kirkjan, hvítasunnumenn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Nauvoo
Trúarleg tákn: kross, jesústytta, epli
Trúarlegt atferli og siðir: vitnisburður, bæn, sambæn, fyrirbæn, borðbæn, söngur, ritningarlestur, trúboð, skírn, dagbókaskráning, kistulagning, smurning, melkísedeksprestdæmisblessun
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, fullvissa