Kvikmyndir

God’s Gun

Leikstjórn: Gianfranco Parolini [undir nafninu Frank Kramer]
Handrit: Gianfranco Parolini [undir nafninu Frank Kramer]
Leikarar: Lee Van Cleef, Jack Palance, Leif Garrett, Richard Boone, Sybil Danning, Robert Lipton, Rafi Ben Ami, Heinz Bernard, Zila Carni og Chin Chin
Upprunaland: Ítalía og Ísrael
Ár: 1976
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0074575

Ágrip af söguþræði:
Þegar bófagengi myrðir prestinn í Junoborg, mætir bróðir hans á svæðið og losar bæjarbúana við illþýðið.

Almennt um myndina:
Þessi hörmulega kvikmynd var framleidd í samvinnu Ítala og Ísraelsmanna á þeim tíma þegar spaghettí-vestrarnir voru farnir að syngja sitt síðasta. Þó svo að það megi hafa nokkurt gaman af ofleik Jacks Palance í hlutverki skúrksins Sams Clayton, er nánast allt slæmt í myndinni. Jafnvel Lee Van Cleef veldur vonbrigðum en hann leikur bræðurna föður John og stórskyttuna Lewis.

Myndgæðin á DVD disknum eru afspyrnu léleg enda virðist kanadíska útgáfufyrirtækið Direct Source Special Products notast eingöngu við slitnar NTSC spólur með ‚pan and scan‘ útgáfum af kvikmyndunum. Og sem fyrr upplýsir þulur frá fyrirtækinu hvernig nota eigi fjarstýringuna og skjámyndina um leið og hún kemur upp eins og gert sé ráð fyrir því að áhorfendurnir séu upp til hópa ekkert voðalega skarpir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Rómversk-kaþólski presturinn faðir John er sagður hafa reist bæinn Junoborg sem friðsælt kristið samfélag en þar búa kirkjuræknir bæjarbúarnir í sátt og samlyndi við fjárhættuspilara og vændiskonur á bæjarkránni. Biblíuna les faðir John jafnan brosandi á daglegri gönguferð sinni um bæinn en besti vinur hans er Johnny, unglingssonur kráareigandans Jennýjar. Þegar bófagengi myrðir svo einn bæjarbúanna á leið sinni um Junoborg, eltir faðir John þrjótana uppi með Biblíuna í hönd og afvopnar þá alla meðan þeir eru í fasta svefni til að geta flutt morðingjann aftur óáreittur til byggða. Bófagengið bjargar þó félaga sínum fljótlega aftur úr fangelsinu og myrðir prestinn, en Johnny sækir þá bróðurinn Lewis og afhentir honum byssuna, sem faðir John hafði geymt undir altarinu í kirkju sinni. Lewis hikar þó lengi við að nota byssuna og klæðist frekar hempu bróður síns með þeim orðum að tími sé kominn til að útbreiða orð Drottins og drepur síðan bófana einn af öðrum með Biblíuna eina í hönd.

Í kvikmyndinni vitna báðir bræðurnir í orð Drottins „Mín er hefndin“ til að árétta að það sé ekki þeirra að beita vopnum. (Sbr. 5M 32:35, Rm 12:19.) Fyrst gerir presturinn það þegar hann afþakkar byssu lögreglustjórans um leið og hann heldur af stað í leit að morðingjanum. Bróðirinn gerir það svo einnig þegar hann stendur loks auglitis til auglitis við aðalskúrkinn í rústum gamallar trúboðsstöðvar og stingur byssu sinni í hulstrið því til staðfestingar. Engu að síður skýtur hann skúrkinn umsvifalaust til bana um leið og sá mundar óvænt byssu sína.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 5M 32:35, Rm 12:19
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 28:19
Guðfræðistef: sálnafrelsun, heilagleiki, orð Guðs
Siðfræðistef: manndráp, nauðgun, vændi, dauðarefsing
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, trúboðsstöð
Trúarleg tákn: kirkjukross, jesúmynd, altari, altarisbikar, kross í hálsmeni, altariskerti, altariskross, altarisdúkur, kross á leiði
Trúarlegt atferli og siðir: þakkargjörð, bæn, biblíulestur, morgunmessa