Leikstjórn: David Greene
Handrit: David Greene og John-Michael Tabelak, byggt á samnefndu leikriti John-Michael Tabelak.
Leikarar: Victor Garber, Katie Hanley, David Haskell, Merrell Jackson, Joanne Jonas, Robin Lamont, Gilmer McCormick og Jeffrey Mylett
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1973
Lengd: 103mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0070121
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Godspell er ein af þeim fjölmörgum Jesúmyndum sem reitti kristna til reiði og var sökuð um að vera guðlast. Flestar þær myndir sem fengið hafa þennan stimpil eru reyndar nokkuð góðar, en Godspell er undantekning þar á. Þetta er söng- og dansamynd sem gerist í New York.Hópur fólks (af báðum kynjum og ýmsum kynþáttum) fylgir trúðsklæddum manni í súpermannspeysu og með rautt hjarta á enninu sem prédikar um ást og kærleika. Samkvæmt upphafsorðum myndarinnar byggir söngleikurinn á Matteusarguðspjalli en sú staðhæfing stenst ekki því margt í myndinni er ekki tekuð þaðan heldur úr Lúkasarguðspjalli.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ég verð að játa það að mér leiddist afskaplega yfir þessari mynd. Trúðslætin í Jesú og lærisveinunum voru svo yfirdrifin og fáránleg að þau minntu einna helst á Stundina okkar á sínum allra verstu dögum. Mér fannst það einnig orka tvímælis að breyta guðspjallinu í skrípalæti og fíflagang. Það má vel vera að markmiðið hafi verið að ná fram sakleysi eða einlægni en mér fannst þetta fyrst og fremst móðgandi.Myndin er þó ekki alvond. Það er t.d. áhugavert að hún skuli byrja á fyrstu sköpunarsögunni, en þannig verður verk Krists hluti af sköpun Guðs. Annað sem mér fannst skemmtilegt var að Sálmur 137 var sunginn á síðustu kvöldmáltíðinni, en þar með er krossfestingin tengd útlegðinni í Babýlon. Áhersla myndarinnar er fyrst og fremst á boðskap Jesú Krists, ekki stöðu hans eða fórn, en kraftaverkin koma t.d. ekki við sögu.Boðskapur frelsarans vill nefnilega oft gleymast í kristsfræðinni. Maður fær það stundum á tilfinninguna að það eina sem skipti máli sé að hann fæddist og fórnaði sér. Því er áherslan á boðskap og kenningar Krists ágætis tilbreyting. Það er einnig lofsvert að fylgjendur Krists eru af báðum kynjum og bæði svört og hvít á hörund. Það besta við myndina er þó kvikmyndatakan og góð tónlist á köflum.Godspell víkur oft frá texta guðspjallanna. Sagan af rangláta ráðsmanninum endar t.d. á ekki á því að húsbóndinn hrósi honum heldur á því að honum er refsað. Leikarinn sem leikur Júdas leikur einnig Jóhannes skírara og hann svíkur ekki Krist heldur fer að beiðni hans. Þegar Júdas kemur aftur er það Kristur sem kyssir hann. Þá er freisting Krists úti í eyðimörkinni af einhverjum óskiljanlegum ástæðum flutt aftur fyrir Getsemanegarðinn.Í heildina litið er þetta mishepnuð kvikmynd sem aðeins hörðustu áhugamenn um Jesúmyndir ættu að þræla sér í gegnum.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:1-2:4, Sl 137, Matteusarguðspjall, Mt 3-7, Mt 13:1-23, Mt 22:15-22, Mt 23:37, Mt 25:31-27:61, 10:25-37, 15:11-16:31
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Júdas, Jóhannes skírari, Guð, Móse
Trúarlegt atferli og siðir: Fótalestur