Kvikmyndir

Halleluja and Sartana Strike Again!

Leikstjórn: Mario Siciliano
Handrit: Adriano Bolzoni og Kurt Nachmann
Leikarar: Alberto Dell’Acqua [undir nafninu Robert Widmark], Ron Ely, Uschi Glas, Angelica Ott, Dan van Husen [undir nafninu Werner van Husen], Ezio Marano [undir nafninu Alan Abbott], Wanda Vismara, Lars Bloch, Domenico Maggio, Nello Pazzafini, Stelio Candelli og Dante Maggio [undir nafninu Dan May]
Upprunaland: Ítalía, Monakó og Þýzkaland
Ár: 1972
Lengd: 98mín.
Hlutföll: 1.66:1 (var 2.35:1)

Ágrip af söguþræði:
Stórbóndi, sem ýlfrar í tíma og ótíma eins og úlfur, er sannfærður um að gull leynist í héraðinu og vill því hrekja alla landnemana þaðan burt en til þess lætur hann menn sína sviðsetja draugagang í aðallandnemabænum Moonsville. Það eina sem Úlfurinn óttast er að guðhræddur prestur mæti á staðinn, telji kjark í landnemana og fái þá til að halda kyrru fyrir. Faðir Úlfsins er hins vegar aldraður hershöfðingi, sem heldur að hann sé enn að berjast fyrir sjálfstæði Bandaríkjanna frá breska heimsveldinu og þvælist fyrir vikið iðulega fyrir syni sínum.

Almennt um myndina:
Óhætt er að segja að Ron Ely og Robert Widmark (sem heitir réttu nafni Alberto Dell’Acqua) í hlutverkum svikahrappanna Hallelúja og Sartana slái Trinity-bræðurna Terence Hill og Bud Spencer út í bjánaskap í þessum grautfúla spaghettí-vestra sem allir ættu að forðast.

Eins og svo oft áður í svona ítölskum spaghettí-vestra gamanmyndum einkennist gamansemin að mestu af heimskulegum og langdregnum slagsmálasenum. Helsta tilbreytingin að þessu sinni er langdregið rjómakökukast undir lok myndarinnar en einnig er töluvert um það að sérkennilegar persónur séu gerðar að atlægi og þær hrekktar hvað eftir annað. Þannig kemur piparmey við sögu í gegnum alla myndina sem öllum þykir forljót og virðist aðstandendum myndarinnar þykja það alveg bráðfyndið að hún sé hvað eftir annað dregin á asnaeyrunum og hæðst að draumi hennar um að eignast maka og börn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enginn skortur er á trúarstefjum og beinum biblíutilvitnunum að þessu sinni enda sögusviðið trúrækinn söfnuður landnema í villta vestrinu sem er í miðjum klíðum að reisa sér kirkju. Meðan bófarnir eru lamdir sundur og saman í myndarlok og hausum þeirra er barið við kirkjuorgel og kirkjuklukkur les Hallelúja söguna um Kain og Abel og segir öllum sem heyra vilja að samkvæmt Biblíunni eigi maður ekki að gera bróður sínum neitt illt. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að hann lemji mann og annan, enda er hann svikahrappur og alræmdur hrossaþjófur sem stal prestklæðunum sem hann er í þegar eigandi þeirra var að baða sig úti í stöðuvatni í myndarbyrjun.

Íbúarnir í Moonsville eru búnir að safna dágóðri upphæð til að ljúka hálfkláraðri kirkjubyggingunni og vænta prests innan tíðar sem muni taka að sér að leiða söfnuðinn. Presturinn, sem Hallelúja stal fötunum af, var í raun á leið til þeirra og mætir hrossaþjófurinn í stað hans. Enda þótt Hallelúja sé ekki raunverulegur prestur, fer hann smám saman að taka hlutverk sitt alvarlega og fær sig að lokum ekki til að stela kirkjusjóð landnemanna sem þó hafði freistað hans og félaga hans. Þó svo að raunverulegi presturinn, sem jafnan hylur nekt sína með tómri tunnu, sé enginn hræsnari verður hann engu að síður að teljast ótrúlega spéhrædd helgislepja eins og hann kemur jafnan fram.

Eins og gefur að skilja reynir oft á guðfræðilega þekkingu Hallelúja og þarf hann að bregðast við með guðsorð á vör við alls kyns aðstæður. Í eitt skiptið gefa Hallelúja og Sartana dauðvona öldungi viskí í bland við alls kyns ólyfjan þegar þeir eiga að veita honum síðustu smurninguna. Þegar öldungurinn sýpur af drykknum, sprettur hann hins vegar upp eins og stálfjöður og taka allir því sem kraftarverki.

Síðar skýtur einn bófinn Hallelúja í hjartastað en þar sem hann geymir Biblíuna í brjóstvasanum festist byssukúlan í henni og bjargar ritningin þannig lífi hans. Hallelúja þakkar Guði þegar lífgjöfina og segir: „Dýrð sé þeim sem skrifaði Biblíuna! Hallelúja!“ Sartana skýtur þá strax inn í glottandi: „Eins og ég sagði: Fötin fara þér mjög vel. Og nú færð þú tákn frá yfirmanni þínum!“ Hallelúja svarar þá að bragði: „Ég skil hvað þú átt við. Við skulum forða okkur.“ Og það er það sem þeir félagarnir gera að lokum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 4:9, Mt 6:9, Mt 7:1, Lk 6:37
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 21:9, Jes 56:1, 1Jh 4:21
Persónur úr trúarritum: illur andi, draugur, andi, engill, djöfullinn
Guðfræðistef: trú, synd, barn Guðs, kraftaverk, upprisa, tíund, fyrirgefning, sakramenti, gjöf Guðs, reiði Guðs, draugagangur, vegir Guðs órannsakanlegir, hönd Guðs, frelsunarstund
Siðfræðistef: ofbeldi, þjófnaður, áfengisdrykkja, bindindi, dauðarefsing, svik, fégræðgi, fjárhættuspil, spilasvindl, heiðarleiki, hefnd, helgislepja, spéhræðsla, blekking
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: bænabók, altari
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: orgelleikur, kirkjuklukknahringing, guðsþjónusta, predikun, biblíulestur, bæn, fyrirbæn, skriftir, kropið, tíundargreiðsla, hjónavígsla, prestsvígsla, lúta höfði, síðasta smurningin, þakkargjörð
Trúarleg reynsla: kraftaverk, bænheyrsla, upprisa, lækning, bræðrakærleikur