Kvikmyndir

Hannie Caulder

Leikstjórn: Burt Kennedy
Handrit: David Haft (undir nafninu Z.X. Jones) og Burt Kennedy (undir nafninu Z.X. Jones), byggt á sögu eftir Peter Cooper
Leikarar: Raquel Welch, Robert Culp, Ernest Borgnine, Christopher Lee, Jack Elam, Strother Martin, Diana Dors og Stephen Boyd
Upprunaland: Bretland
Ár: 1971
Lengd: 81mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Með byssu í hendi leitar fegurðardísin Hannie Caulder uppi skúrkana sem myrtu eiginmann hennar, nauðguðu henni og brenndu heimili hennar til grunna.

Almennt um myndina:
Það má kannski deilda um það hvort kvikmyndin Hannie Caulder geti talist spaghettí-vestri enda framleiðslan bresk og leikstjórinn og flestir leikararnir bandarískir. Margir flokka hana samt til spaghettí-vestra þar sem framleiðslan er evrópsk og myndin er gerð á Spáni, en allir vestrar sem tengjast Ítalíu eða Spáni með einum eða öðrum hætti hafa jafnan verið kenndir við spaghettíið.

Spaghettí-vestrarnir eru flestir ef ekki allir harðhausamyndir, sem fyrst og fremst eru ætlaðar karlmönnum, enda söguhetjurnar oftar en ekki byssuglaðir karlar sem sækjast eftir skjótfengnum gróða eða eiga harma að hefna. Konur í þessum myndum eru sjaldnast annað en vændiskonur, mæður og stundum unnustur, sem gegna jafnan léttvægu aukahlutverki. Helstu undantekningarnar eru sennilega spaghettí-vestrarnir The Belle Starr Story (Lina Wertmüller: 1967), Little Rita of the West (Ferdinando Baldi: 1967), Once Upon a Time in the West (Sergio Leone: 1969) og Roy Colt and Winchester Jack (Mario Bava: 1970), en þar eru konur í aðalhlutverki (eða að minnsta kosti í veigamiklu hlutverki), jafnvel þótt persónusköpun þeirra brjóti sjaldnast gegn hefðinni.

Í spaghettí-vestranum Hannie Caulder er frumleikinn helst fólginn í því að það er ekki karlmaður heldur fáklædd kona, sem eltir uppi skúrkana með byssu í hendi fyrir að hafa gert á hlut hennar. Að öðru leyti er handbragðið flatneskjulegt og handritið ósköp klisjukennt. Ekki kemur á óvart að myndin skuli minna töluvert á bandaríska vestra enda hefur leikstjórinn Burt Kennedy verið afkastamikill í þeirri grein í heimalandi sínu.

Raquel Welsh er fín sem ekkjan hefnigjarna og Christopher Lee stendur alltaf fyrir sínu en að öðru leyti er myndin frekar illa leikin.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndamiðstöð rómversk-kaþólsku kirkjunnar (Centro Cattolicio Cinematografico) á Ítalíu sá ástæðu til að gagnrýna þessa kvikmynd á sínum tíma fyrir að upphefja hefndarhyggju, sem aðeins leiddi til manndrápa og kvalalosta. Hefndin er sannarlega megin þema hennar og leysir byssukúlan vandann þegar upp er staðið, jafnvel þótt vísir menn reyni snemma að telja aðalsöguhetjunni Hannie Caulder trú um annað.

Um miðbik myndarinnar kvartar stórskyttan Thomas Luther Price, sem reynst hefur helsta stoð og stytta Hanniear Caulder, undan því við félaga sinn að stúlkan vilji í raun verða karlmaður en bætir því umsvifalaust við að það geti hún aldrei orðið. Þó svo að vinurinn svari honum að svo sé Guði fyrir að þakka, þá getur persónusköpun stúlkunnar tæpast talist frábrugðin helstu karlhetjum spaghettí-vestranna.

Síðar í myndinni standa tveir af skúrkunum við gröf eins félaga síns sem Hannie Caulder hafði fellt í einvígi. Annar þeirra dregur þá upp Biblíu, sem hann segist hafa stolið því að annað sé ótækt en að lesa eitthvað upp úr henni yfir gröfinni. Hinn skúrkurinn verður þá fokvondur og slær Biblíuna úr hendi félaga síns með þeim orðum að þeir séu báðir ólæsir. Um þetta rífast þeir síðan góða stund og deila þá meðal annars um hvort framkoma þeirra geti vakið reiði Guðs.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Guðfræðistef: reiði Guðs
Siðfræðistef: bankarán, manndráp, nauðgun, mannaveiðar, hefnd, vændi, lygi, þjófnaður
Trúarleg tákn: kross á leiði
Trúarleg embætti: predikari
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, bæn