Kvikmyndir

Harry Potter and the Prisoner of Azkaban

Leikstjórn: Alfonso Cuarón
Handrit: Steven Kloves og J.K. Rowling
Leikarar: Daniel Radcliffe, Gary Oldman, Rubert Grint, Emma Watson, David Thewlis, Michael Gambon og Alan Rickman
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 136mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Harry er nú að hefja sitt þriðja ár í Hogwarts. Áður en skólaárið hefst kemst hann að því að Sirius Black hefur sloppið úr Azkaban og ætli sér nú að leita uppi Harry og myrða hann. Í þokkabót þarf hann að glíma við hina illu verði Azkabans, vitsugurnar. Svo virðist stór og grimmur hundur vera að fylgjast með honum og svona til þess að bæta gráu ofan í svart þá spáir kennari hans því að hann muni deyja. Harry og félagar þurfa því að taka á honum stóra sínum eigi þau að komast í gegnum þetta skólaár.

Almennt um myndina:
Leikstjóri myndarinnar er hinn mexíkóski Alfonso Cuarón. Hann er ungur að árum, fæddur 28. nóvember 1961 í Mexíkóborg. Hann vakti fyrst heimsathygli með mynd sinni Y Tu Mama Tambien frá árinu 2001. Þá var hann þegar orðinn virtur leikstjóri í heimalandi sínu og hafði leikstýrt þar fjölda mynda. Y Tu Mama Tambien sópaði hinsvegar að sér verðlaunum um heim allan á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum og var hún tilnefnd til óskarsverðlauna í flokknum besta handritið.

Að umbreyta sögunni í kvikmyndahandrit var sem fyrr í höndum Steven Kloves en hann sá líka um handritagerðina fyrir fyrstu tvær myndirnar. Nokkuð skiptar skoðanir eru um það hvernig til tókst hjá honum. Mörgum aðdáendum bókanna finnst hann hafa sleppt veigamiklum atriðum úr sögunni en ég er ekki sammála því. Sjálf hefur J.K. Rowling sagt að henni finnist þetta vera besta myndin hingað til, en þess má geta að við allar myndirnar áttu þau tvö í nánu samstarfi þegar kom að gerð handritanna. Sjálfum finnst mér honum hafa tekist ágætlega til, handritið er hnitmiðað, persónusköpunin er góð og það er gaman að sjá hversu vel nýliðarnir í myndinni njóta sín.

Tónlistin í Harry Potter og fanginn frá Azkaban var í höndum ekki óreyndari manns en John Williams sem hefur meðal annars samið tónlist fyrir myndir á borð við Star Wars: The Empire Strikes Back, Amistad, Seven Years in Tibet, Rosewood, Sabrina, Schindler´s List, Far and Away, Indiana Jones and the Last Crusade og Harry Potter and the Chamber of Secrets. Eru þetta aðeins örfáar af þeim myndum þar sem hann hefur ljáð kvikmyndargerðarmönnum hæfileika sína. Hvað varðar Harry Potter og fanginn frá Azkaban þá tekst honum einstaklega vel til. Tónlistin er á köflum drungaleg og er það í samræmi við umhverfi myndarinnar en tónlistin er einnig full af léttleika og ekki er laust við að maður skynji stundum mikla kímnigáfu á bakvið tónverkin.

Klipping myndarinnar er alveg sér kapítuli út af fyrir sig og á hún stóran þátt í því að skapa þá sérstæðu stemmningu sem einkennir myndina. Maðurinn á bakvið þessar klippingar er Steven Weisberg og á hann að baki myndir á borð við MIB 2 og Cable Guy, einnig klippti hann mynd Alfonsos „The Little Princess“.Það fyrsta sem vekur athygli manns er skiptingin á milli atriða. Mikið er stuðst við „fade out,“ þ.e. myndramminn dofnar smám saman út í svart og birtist svo smám saman aftur. Er þetta undantekningarlaust gert í þau skipti sem Harry Potter á í samskiptum við vitsugurnar og hjálpar það mikið til við að útskýra fyrir áhorfandanum hvernig þær yfirtaka alla hugsun og meðvitund hans. Samanborið við fyrri myndirnar eru klippingarnar í þessari miklu betri, þær eru meira fyrir augað og augljóslega lá miklu meiri pæling að baki þeim en í hinum.

Leikararnir hafa mikið þroskast í hlutverkum sínum og er Daniel Radcliffe miklu öruggari í hlutverki sínu en áður. Hið sama má segja um Rupert Grint (Ron) og Emmu Watson (Hermione). Þó nokkuð er af nýliðum í myndinni. Fyrstan ber að nefna Gary Oldman í hlutverki Sirius Black en hlutverkið er nánast sniðið fyrir hann. Emma Thompson er vægast sagt frábær í hlutverki sínu sem Sybil Trelawney. Micheal Gambon er nú komin í hlutverk Albus Dumbledore og er gaman að sjá að hann reynir ekkert að feta í fótspor fyrrirennara síns heldur ljáir hann persónunni nýjan blæ og sinn eigin stíl. Á heildina litið þá er leikurinn góður en það er kannski helst að Tom Felton sé frekar ósannfærandi í hlutverki sínu sem Draco Malfoy.

Þess má til gamans geta að Alfonso Cuarón hafði ekki lesið eina einustu bók um Harry Potter og ævintýri hans né séð e-h af fyrri tveimur myndunum þegar hann samþykkti að leikstýra þriðju myndinni.

Alfonso heiðrar hinn mexíkóska uppruna sinn a.m.k. á tveimur stöðum í myndinni. Í fyrsta lagi ber að nefna stytturnar á gosbrunninum í hallargarðinum en þar má sjá erni vera að éta snáka en þessa mynd má einmitt finna á mexíkóska fánanum. Í öðru lagi heyrist Dumbledore raula „mexíkóska hattalagið“ í einu atriði.

Í einu af upphafsatriðum myndarinnar flytur kór Hogwartsskóla tónverk og ef betur er að gáð kemur í ljós að textinn er fenginn að láni hjá William Shakespeare, nánar tiltekið úr Mackbeth. Í því verki er textinn þulinn af þremur nornum þar sem þær eru að spá í framtíð hins illa skoska konungs. Sagan segir að Shakespeare hafi í raun fengið þennan texta að „láni“ hjá raunverulegum nornum. Þær hafi svo launað honum greiðann með því að leggja bölvun á verkið og er þaðan komin sú hjátrú að það boði ógæfu að segja „Macbeth“ í leikhúsi.

Að mínu mati er hér um að ræða bestu Harry Potter myndina hingað til. Hið drungalega sjónarspil sem Alfonso Cuarón skapar færir myndina upp á nýtt plan. Líkt og Harry Potter er að eldast og þroskast er sem myndin geri það líka. Ekki er lengur þessi barnslegi ævintýrablær yfir henni heldur er hún myrk og skuggaleg. Klippingarnar hjálpa líka mikið til við að skapa þessa áður óþekktu stemmningu í myndunum, orsaka þær nánast draumkennt andrúmsloft.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kristsgervingurinn Harry PotterHarry Potter ber nokkur einkenni sem til þarf svo að hægt sé að greina hann sem kristsgerving eða í það minnsta má sjá í honum hliðstæðu við Jesú Krist. Skoðum þetta nánar:

Í myndinni skiptist veröldin í tvo heima, muggaheim og galdraheim. Í galdraheiminum er álit manna á muggaheimi og íbúum hans ekkert allt of hátt. Þessir tveir heimar eru eins og tvær víddir á eina og sama staðnum, svipað því sem margir trúa varðandi álfa og huldufólk.

Harry Potter lifir í báðum þessum víddum. Í annarri víddinni, muggaheimi, býr hann hjá frænku sinni og frænda og syni þeirra og fara þau með hann nánast eins og þræl. Í þessari vídd er honum bannað að beita göldrum. Í galdraheiminum er hann hinsvegar ungur, upprennandi og hæfileikaríkur galdramaður sem er vel liðinn af flestum.

Vísar þetta til tvöfalda eðli Krists sem samkvæmt hefðinni var bæði maður og Guð í senn. Hliðstæðan við hið tvöfalda eðli Krists er hinsvegar fólgið í ytri aðstæðum hans en ekki hinum innri.

Annað atriði sem ýtir undir þessa túlkun á Harry Potter sem Kristgerving er móðir hans Lily. Við skulum aðeins skoða hvernig pr.Lupin lýsir henni í myndinni:

„Mamma þín hjálpaði mér þegar enginn annar gerði það. Hún var ekki aðeins sérlega hæfileikarík galdrakona heldur einstaklega góð kona. Hún gat séð fegurðina í öðrum. Jafnvel, og kannski sérstaklega þegar viðkomandi manneskja kom ekki auga á það sjálf.“

Henni er s.s. lýst sem óvenjulega góðri manneskju og ekki má gleyma því að hún fórnaði lífi sínu fyrir Harry. Hjá mér skapar þessi lýsing hugrenningartengsl við Maríu guðsmóður sem fólk snýr sér til í leit að huggun og móðurlegri ást. Hún er hin guðlega móðir sem vakir yfir okkur og verndar. Ekki má heldur gleyma því að liljan er samkvæmt kristinni hefð tákn fyrir Maríu Mey, hreinleika hennar og meydóm.

Ekki er erfitt að sjá hliðstæðu við kraftaverk Jesú og hæfileika Potters til þess að galdra. Hann þykir alveg einstaklega hæfileikaríkur galdramaður og er hann fær um að fremja galdra sem samkvæmt öllu eiga að vera honum ofviða. Atriði sem undirstrikar þessa miklu hæfileika hans er að finna í orðum vinkonu hans, Hermione Granger stuttu eftir að Harry hefur bjargað sjálfum sér og Siriusi undan árásum vitsuga með einstaklega kraftmiklum og erfiðum galdri:

„Með verndara. Ég heyrði Snape segja Dumbledore það. Að sögn hans hefði það aðeins verið á færi mikils galdramanns.“

Harry heldur þó sjálfur á þessum tímapunkti að það hafi verið faðir hans sem bjargaði þeim. Það sem hvorki hann né hún vita er að Harry var hér sjálfur að verki. Ferðuðust þau aftur í tímann til þess að bjarga guðföður Harrys. Þetta atriði og galdurinn er algjört lykilatriði í þessari greiningu.

Galdurinn sem um ræðir heitir petronus og verkar þannig að maður kallar fram verndara sem bægir í burtu vitsugunum. Í þessu sérstaka atriði eru tugir vitsuga við að etja og því þarf nánast á kraftaverki að halda til þess að sigrast á þeim. Harry stendur álengdar og horfir á hvernig vitsugurnar sjúga lífið úr honum og guðföður hans. Hann stekkur því fram og fremur þennan galdur. Sá verndari sem birtist og frelsar þá er í formi hreindýrstarfs.

Tarfurinn er samkvæmt kristinni hefð táknrænn fyrir vald Guðs yfir Djöflinum. Einnig hefur hann staðið fyrir Orð Guðs og þá mætti þess til að eyða verkum Satans. Hér er því um augljósa skírskotun til kraftaverka Krists að ræða.

Það má líka finna skyldleika við þetta atriði í Matteusarguðspjalli. Þar má finna frásögn sem greinir frá því er tveir andsettnir menn verða á vegi Jesú og loka þeirri leið er hann er á. Jesús rekur út hina illu anda, kemur þeim fyrir í svínum og bjargar þannig mönnunum tveimur undan ágangi Djöfulsins. Það sem greinir að þessi tvö atriði er að Harry og Sirius eru ekki andsettir. Vitsugurnar eru hinsvegar í hlutverki illu andanna og Harry í hlutverki Jesú þegar hann rekur þær á brott.

Eitt af því sem gerði hinn sögulega Jesú frábrugðinn sínum samtíðarmönnum voru tengsl hans við fólk á jaðrinum, fólk sem ekki þótti eðlilegt fyrir gyðinga þess tíma að umgangast. Tengsl Harrys við fólk á jaðrinum eru einnig til staðar.

Þegar Harry er ekki í skólanum býr hann hjá skyldfólki sínu í muggaheimi. Þau eru augljóslega ekki hluti af galdraheiminum en vita þó af honum. Það sem greinir þá Harry og Jesú að í þessu atriði er að Harry kýs ekki að umgangast þau heldur er hann tilneyddur þar sem hann á ekki í önnur hús að venda.

Í öðru lagi má líta á vini hans, þau Hermione og Ron, sem fulltrúa jaðarsins og þá kannski sérstaklega Hermione. Ron er augljós fulltrúi hinna fátæku þar sem fjölskylda hans og þ.a.l. Ron hafa ekki beinlínis mikla peninga á milli handanna. Sýnir það sig t.d. á klæðaburði hans.

Það sem gerir hana Hermione hinsvegar svona sterkan fulltrúa jaðarsins er sú staðreynd að hún er blendingur, þ.e.a.s. hún er hálf norn og hálfur muggi. Sökum þessa verður hún stundum fyrir aðkasti og fordómum þröngsýnna og misgáfaðra einstaklinga sem telja hana óæðri og ekki þess verða að búa í heimi galdra.

Draco Malfoy: Kennum Weasly litla að bera virðingu fyrir sér æðra fólki.
Hermione: Vonandi áttu ekki við sjálfan þig.
Draco Malfoy: Hvernig dirfistu að tala við mig? Skítuga muggablóð!

Hann verður sem sagt öskuillur yfir því að hún skuli dirfast að tala við hann. Úr svip hans má lesa hreinan viðbjóð og hatur í hennar garð.

Sá Kristur sem birtist í persónu Harry er nú ekki beinlínis sá sem snýr við hinni kinninni þegar á honum er lamið. Hann berst á móti, en sameiginlegt eiga þeir þó að þeir beita hinu góða innra með sér í baráttunni gegn hinu illa. Hinsvegar á Harry meira skylt við þann frelsara er gyðingar væntu en Jesú Krist. Hann er sterkur og berst kröftuglega gegn óvinum sínum og um það má deila hvort hann sé miskunnsamur. Hann bjargar reyndar þeim er sveik móður hans og föður frá því að verða myrtur en aðeins til þess að vinir foreldra sinna verði ekki morðingjar. Svo bætir hann því við að svikarinn skuli færður í varðhald vitsuganna og er það nánast hið sama og að dæma hann til dauða.

AzkabanAzkaban er fangelsið í galdraheiminum og verðir þess eru vitsugurnar. Vitsugurnar eru ógeðslegar verur sem svífa um og nærast þeir á hamingju fólks, þ.e.a.s. þeir sjúga úr fólki alla hamingjutilfinningu og skilja ekkert eftir nema verstu minningar þeirra.

Að lenda í Azkaban er nánast eins og að lenda í helvíti og er vel við hæfi að verðirnir skuli á frummálinu kallast dementors en ekki er erfitt að sjá þar tenginguna við orðið demon. Þessir verðir fljúga um og eins og sýnt er í myndinni þá drepst allur gróður sem þeir koma nálægt, vatn frýs og fólk sem kemst í tæri við þá líður eins og það muni aldrei verða hamingjusamt aftur. Þeir geta einnig framkvæmt athöfn sem er kölluð kossinn. Kossinn er dauðadómur þar sem þeir bókstaflega sjúga sálina úr fórnarlambi sínu.

Athyglisvert er að skoða í þessu samhengi heimssýn Inúíta. Ólíkt helvíti kristinnar trúar þá álitu þeir að helvíti væri kaldur staður en ekki heitur. Þar ríkti eilífur vetur, fimbulkuldi og hvergi var skjól eða hita að fá. Ýmislegt bendir til að forfeður okkar tengdu líka helvíti við kulda enda tölum við um helkulda og að e-h helfrjósi.

Eini galdurinn sem til er til varnar vitsugunum heitir petronus. Er hann mjög í anda kristins boðskapar þar sem hann byggir á hamingju. Sem sagt það eina sem verkar í baráttunni við hið illa er að leita á náðir kærleikans, að virkja hið góða innra með okkur andspænis hinu illa. Einnig er það táknrænt að galdurinn skuli framkalla hvítt ljós sem svo sigrast á hinum svörtu vitsugum, m.ö.o. það er hið tæra og hreina sem ryður úr vegi því myrka og illa og skapar þannig rými fyrir kærleikann.

Verðir Azkabans eru svartir líkt og tilfinningin sem þeir veita manni, þeir sjúga úr manni lífsorkuna og eins og Dumbledore segir þá greina þeir ekki á milli þess sem þeir leita og þeirra sem verða í vegi þeirra. Því má líta á þær sem myndgervingu fyrir hryðjuverkaógn samtímans. Líkt og hjá hryðjuverkamönnum er enga miskunn að fá. Hjá þeim gætir fullkomið skeytingarleysi í garð fórnarlamba sinna svo lengi sem þær ná markmiðum sínu. Einnig er það táknrænt að þær skuli vera sýndar svífa um og yfir skólanum líkt og hryðjuverkaógnin sem hefur legið eins og mara yfir heiminum undanfarin ár.

Eitt meginþema myndarinnar er ljósið í myrkrinu, barátta góðs og ills. Til að byrja með er myndin römmuð inn með ljósi. Fyrstu orðin sem við heyrum eru Lumos Maxima sem mætti þýða hámarksljós. Harry leiðir mann því inn í myndina með því að boða hámarks kærleika.

Dumbledore heldur ræðu í upphafi skólaársins sem á meira skylt við predikun heldur en innsetningarræðu. Talar hann þar um að jafnvel á hinum myrkustu tímum sé hægt að finna ljósið ef maður bara man eftir því að tendra það innra með sér.

Auðvelt er að sjá fyrir sér þessa ræðu í sunnudagspredikun prestsins síns. Það líður vart sá dagur að ekki berast fréttir af morðum, stríðum, nauðgunum, náttúruhamförum og öðrum voðaverkum úr samfélagi mannanna. Hvar getur fólk fundið von í þessum síversnandi heimi, hvar er ljósið? Dumbledore er því í hlutverki prestsins og sáluhjálpara í þessu atriði.

Trú á sjálfan sig og hæfileika sína er eitt af því sem mikið er tekið fyrir í myndinni. Við fylgjumst með Harry ganga í gegnum mikla erfiðleika. En við erum minnt á það að með smá hjálp og vinnu erum við fær um að yfirstíga hinnar mestu hindranir og erfiðleika ef við bara trúum á sjálf okkur.

Hætturnar sem steðja að krökkunum krefst þess að þau vinni saman til þess að sigrast á þeim. Samvinna og kærleikur á milli manna er einmitt það sem kristin trú boðar. Við þurfum að hjálpa hvort öðru til þess að geta skapað Guðsríki. Sameiginlegt átak, vinátta og hjálpsemi er það sem mun veita okkur hamingju í þessu lífi og hinu næsta.

Hliðstæður við texta trúarrits: Mt.8:28-34, Lk 4:31-37, Mk.1:21-28
Persónur úr trúarritum: djöflar, draugar, nornir, galdramenn
Guðfræðistef: dauðinn, frelsi, kraftaverk, mannseðli, réttlæti, sorg, sorgarferli, andsetning, galdrar, sál, ára
Siðfræðistef: fordómar, lygar, morð,von, svik, ofbeldi, hroki, miskunnarleysi, heiðarleiki, hjálpsemi,aftaka, hefnd, vinátta, einelti, tillitsleysi
Trúarbrögð: galdratrú, kristni, forn-egypsk trúarbrögð, stjörnufræði, lófalestur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Stonehenge, helvíti
Trúarleg tákn: rúnir, kettir, saurbjöllur, ugla, kristalskúla, telauf, kross, hrafnar, töfrasprotar, rotta, hreindýrstarfur, úlfur
Trúarleg embætti: guðfaðir, spákonur, seiðskrattar, nornir
Trúarlegt atferli og siðir: lófalestur, spá í bolla, lesa í kristalskúlu, galdrar
Trúarleg reynsla: Sýn, kraftaverk, andsetning