Leikstjórn: Henry Koster
Handrit: Mary Chase
Leikarar: James Stewart, Josephine Hull, Peggy Dow, Charles Drake og Cecil Kellaway
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1950
Lengd: 104mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0042546
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Elwood P. Dowd, sem leikinn er af James Stewart, er mikið ljúfmenni. Besti vinur hann er ósýnileg tveggja metra há kanína sem gengur undir nafninu Harvey. Enginn nema Elwood sér Harvey sem leiðir af sér ákveðinn vanda og skemmtilegar uppákomur.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Aðspurður segir Elwood á einum stað í myndinni að Harvey sé „pooka“, þ.e. einhvers konar andi úr keltneskum goðsögum sem birtist í líki dýrs, og lætur gott af sér leiða (þótt hann eigi það til að bregða aðeins á leik). Nánari athugun leiddi í ljós að „pooka“ er vel þekkt í keltneskum goðsögum. Hér er um að ræða e.k. bragðaref (trickster), en slíka má finna í flestum trúarbrögðum. T.d. er er talið að Bokki (Puck) í Jónsmessunæturdraumi Shakespeares sé að einhverju leyti innblásinn af pooka.Fyrir utan þessa tilvísun má finna í myndinni áhugavert lífsviðhorf, en Elwood segir á einum stað eitthvað á þessa leið: „Það er til tvenns konar fólk í þessu lífi, fólk sem er klókt og fólk sem er notalegt. Ég var klókur um nokkurt skeið, en gafst upp á því og ákvað að vera notalegur.“ Svo virðist vera sem þetta borgi sig fyrir hann, því öllum líkar vel við hann og allt sem hann gjörir lánast honum. Þannig mætti ef til vill skoða þessa mynd í ljósi Sálms 1 í Saltaranum, en þar er hinum guðlega manni lýst með þessum orðum: „Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 1
Persónur úr trúarritum: pooka
Trúarbrögð: keltnesk trú