Kvikmyndir

Hilary and Jackie

Leikstjórn: Anand Tucker
Handrit: Frank Cottrell-Boyce, byggt á bókinni „A Genius in the Family“ eftir Hilary du Pré og Piers du Pré.
Leikarar: Aðalleikarar: Emily Watson, Rachel Griffiths, James Frain, David Morrissey, Charles Dance, Celia Imrie, Rupert Penry-Jones, Bill Patersson, Auriol Evans og Keeley Flanders.
Upprunaland: England
Ár: 1998
Lengd: 125mín.
Hlutföll: http://us.imdb.com/Title?0150915
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Hilary and Jackie vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd á sínum tíma. Hún byggir á og segir sögu systranna Jacqueline og Hilary du Pré sem ólust upp á Englandi á 6. áratug 20. aldar. Báðar voru þær hæfileikaríkar og efnilegar á sviði tónlistar. Önnur þeirra, Jackie, nær heimsfrægð sem sellóleikari en Hilary giftist Kiffer Finzi og sest að í sveit eftir að tónlistarkennari hafði brotið hana niður og spillt frama hennar.

Framan af myndinni er uppvexti systranna lýst en þegar Jackie hefur haldið fyrstu einleikstónleikana sína í Wigmore Hall í London skiljast leiðir og eftir það rekur myndin sögu þeirra systra og samskipti annars vegar frá sjónarhóli Jackie og hins vegar Hilary. Segja má að Jackie fórni öllu fyrir frama sinn en Hilary framanum fyrir fjölskyldulífið. Jackie giftist píanistanum og hljómsveitarstjórnandanum Daníel Barenboim og eru þau á stöðugum ferðalögum vegna tónleikahalds. Það reynir mjög á Jackie og á endanum flýr hún frama sinn og hjónaband og leitar á náðir systur sinnar. Hún þráir einfaldara líf og er einmana og örvæntingarfull. Hún treystir algjörlega á systur sína og gengur að lokum svo langt að biðja hana um að fá að deila með henni eiginmanni hennar. Endi er svo bundinn á frama Jackie þegar hún veikist af ólæknandi sjúkdómi.

Anand Tucker tekst vel að segja sögu og lýsa sambandi systranna í kvikmynd sinni. Þær Emily Watson og Rachel Griffiths eru jafnframt frábærar í hlutverki systranna. Kvikmyndataka er oft glæsileg og ýmsar senur áhrifaríkar og eftirminnilegar. Þá leikur tónlistin eðlilega stórt hlutverk í myndinni og setur svip á hana. Þar á meðal er stórkostlegur sellókonsert Edwards Elgar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Trúarstefin í myndinni Hilary and Jackie eru ekki augljós. Hér er fyrst og fremst verið að segja sögu systra og umdeilanlegt hvort sú saga feli í sér einhver slík stef. Það má þó færa viss rök fyrir því að framsetning myndarinnar feli í sér trúarlegar vísanir. Það fer t.d. ekki á milli mála að fyrsti hlutinn, sem lýsir uppvexti þeirra systra, dregur upp mynd af eins konar paradísarástandi í sambandi þeirra. Ef til vill er þetta bara paradís bernskuáranna sem birtist sem eins konar draumur eða þrá Jackie í upphafi og reyndar einnig í niðurlagi myndarinnar. Þessum fyrsta hluta lýkur þar sem þær systur liggja upp í rúmi eftir að hafa leikið í brúðkaupi suður á Ítalíu með orðunum: „Við erum í himnaríki“. Myndir á lofti herbergisins árétta þá hugsun. Síðan skilja leiðir og samband þeirra rofnar.

Í framhaldi af þessu má vel halda því fram að sú freisting sem Jackie mætir og verður til þess að eyðileggja paradísarástandið hafi birst í sellói sem henni er fært að loknum fyrstu einleikstónleikum hennar. Orð þess sem færir henni sellóið minna að sumu leiti á orð freistarans við Jesú í freistingasögunni í Mt 4: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ (sbr. „It will give you the world but you must give it yourselve.“) Sellóið verður nokkurs konar guð (eða djöfull) í lífi Jackie (sbr. hvernig hún umgengst það á köflum) og hún fórnar kærleika systur sinnar og sambandinu við hana fyrir frama sinn. Ef til vill má einnig halda því fram að hér birtist fyrst og fremst sú krafa sem fólgin er í köllun listamanns sem er knúinn til að helga sig algjörlega list sinni. Þá vaknar líka sú spurning hvort og hvenær slík köllun getur orðið hjáguð.

Kærleikurinn er veigamikið stef í myndinni um Hilary og Jackie, enda fjallar myndin um samband og kærleika þeirra systra. Eins og áður er sagt fórnar Jackie kærleika systur sinnar fyrir frama sinn. Hún verður hrokafull og sjálfselsk en þráir um leið ákaft að fá sönnun þess að vera elskuð. Hér má kannski snúa kærleiksóð Páls postula í 1Kor 13 upp á hana og segja: „Þótt ég byggi yfir svo takmarkalausri snilld að heilla mætti helstu tónleikasali heims en hefði ekki kærleika þá væri ég ekki neitt.“

Þrá Jackie eftir horfinni paradís æskunnar birtist í heimþrá hennar og löngun eftir að vera venjuleg manneskja, elskuð af sínum nánustu eins og systir hennar. Hilary elskar systur sína enda þótt hún sé oft afbrýðissöm út í hana þegar allt í fjölskyldunni snýst um frama hennar. Hún sýnir henni umhyggju og kærleika en á endanum misbýður Jackie henni með því að krefjast of mikils. Hún misnotar kærleika hennar og síðar niðurlægir hún bæði hana og foreldra sína. Á endanum er Jackie því ein í sjúkdómi sínum. Hún er án kærleika og orðin „ekki neitt“ því að snillin er farin. Þetta endurspeglast vel í átakanlegum senum undir lok myndarinnar og jafnframt í orðum hennar sjálfrar þegar hún er komin í hjólastól: „Þegar maður spilar elska mann allir. Þegar maður hættir er maður einn.“ (Svipuð hugsun kemur fram víðar í myndinni, t.d. spyr Jackie eiginmann sinn Daniel: „Myndirðu elska mig ef ég gæti ekki spilað?“ Og Hilary segir við hana, reyndar afbrýðissöm: „Ef þú hefðir sellóið þitt ekki til að styðja þig við værirðu ekkert“).

Atriðið þegar Hilary heimsækir Jackie fársjúka rétt fyrir dauða hennar er áhrifaríkt og endurspeglar kærleikann sem hún ber til hennar þrátt fyrir allt. Segja má að gefið sé í skyn að heimsóknin verði fyrir guðlega tilstilli. Prestur við rúm Jackie segir: „Það er einn sem heyrir allt, Guð heyrir allar hugsanir.“ Síðan er klippt yfir á Hilary sem hrekkur upp af svefni og fer síðan og heimsækir hana ásamt bróður sínum. (Hér eru einnig tengsl við leik þeirra systra með að þær heyri hugsanir hvor annarrar.)

Orð Hilary við sjúkrabeð Jackie eru athyglisverð og þau árétta gildi kærleikans í lífi og samskiptum fólks. „Þegar maður elskar manneskju kemst hann að því að hann ber mynd hennar ávallt í hjartanu. Myndina af því hvernig hann sér hana fyrir sér. [.] Þegar maður telur sig hafa týnt manneskjunni byrjar hann á mynd og finnur hana aftur. Þegar ég hugsa um þig er það dagurinn á ströndinni. Þú sagðir að allt yrði í lagi og að lokum varð það svo.“ Minningin um daginn á ströndinni er bernskuminning og um leið paradísarminning eða þrá sem kemur fyrir bæði í upphafi og lok myndarinnar. Þannig rennur saman kærleiksstefið og þráin eftir paradís í lok myndarinnar. Í því endurspeglast grunnstef hennar sem er kærleikurinn og gildi hans í lífi og samskiptum fólks. Kvikmyndin um Hilary og Jackie er því áhrifarík hugvekja um kærleikann í lífi fólks og sem slík hefur hún snertiflöt við texta á borð við kærleiksóð Páls postula í 1Kor 13.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2.4-3.24, Mt 4.8-9, 1Kor 13
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: himnaríki, paradís
Siðfræðistef: afbrýðissemi, framhjáhald, hroki, kærleikur, sjálfselska
Trúarbrögð: kristni, gyðingdómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: grátmúrinn, Jerúsalem, sýnagóga
Trúarleg tákn: kross