Kvikmyndir

Hitlerjunge Salomon

Leikstjórn: Agnieszka Holland
Handrit: Agnieszka Holland og Paul Hengge, byggt á bók eftir Salomon Perel
Leikarar: Marco Hofschneider, Julie Delpy, René Hofschneider, Piotr Kozlowski, Klaus Abramowsky, Michèle Gleizer, Marta Sandrowicz, Nathalie Schmidt, Delphine Forest, Andrzej Mastalerz, Wlodzimierz Press, Martin Maria Blau, Klaus Kowatsch, Holger Hunkel, Bernhard Howe, André Wilms, Hanns Zischler, Norbert Schwarz, Erich Schwarz, Halina Labonarska og Salomon Perel
Upprunaland: Þýskaland, Pólland og Frakkland
Ár: 1991
Lengd: 111mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin er byggð á sjálfsævisögu Salomons Perel þar sem hann greinir frá ótrúlegri lífsreynslu sinni. Myndin hefst á orðum hans: „Ég var fæddur 20. apríl 1925 í Peine, Þýskalandi, Evrópu.” Aðalpersóna myndarinnar á m.ö.o. sama afmælisdag og Adolf Hitler eins og vikið er að í myndinni.

Á bar mitzvah-degi Salomons, eða Soleks eins og hann er kallaður, er ráðist á heimili hans af nasistum. Hann er í baði þegar árásin á sér stað. Hann sleppur nakinn út um glugga og felur sig ofan í tunnu í bakgarði hússins. Það er ekki fyrr en um kvöldið sem vinkona hans ein hjálpar honum úr þeirri prísund með því að útvega honum frakka. Eini frakkinn sem hún hafði tiltækan var nasistafrakki. Þegar hann kemur inn á heimili sitt klæddur nasistafrakka ríkir þar mikill harmur. Systir hans reynist hafa látist í árásinni og fjölskyldan er að vonum öll harmi slegin. Það að Solek skuli vera klæddur nasistafrakka að kvöldi bar mitzvah-dags síns er eins og vísbending um það sem síðar gerist í lífi hans.

Eftir þessar ofsóknir í Þýskalandi ákveða foreldrar hans að flytja með fjölskylduna til Lodz í Póllandi þaðan sem faðir hans var ættaður. En þrautum þeirra er ekki þar með lokið því ekki líður á löngu þar til Þjóðverjar hertaka Póllandi. Solek flýr þá í austurátt ásamt Ísaki bróður sínum eftir að foreldrar hans höfðu beinlínis skipað þeim að gera það. Þeir bræður missa þó fljótlega hvor af öðrum.

Sem unglingspiltur á flótta undan nasistum lendir Solek fyrst á rússnesku munaðarleysingjahæli en fyrir röð tilviljana er hann síðan tekinn inn í Hitlersæsku nasista. Oft virðist hann eiga dauðann vísan en bjargast jafnan á ævintýralegan hátt. Hann þarf ýmist að leyna því að hann sé Gyðingur eða sýna fram á það til að afsanna að hann sé raunverulegur nasisti. Umskurnin er honum fjötur um fót, bæði í ástarævintýri sem hann á með ungri stúlku og ekki síður innan Hitlersæskunnar þar sem hann óttast stöðugt að upp komist hver hann er í raun og veru. Raunar kemst samkynhneigður þýskur hermaður að leyndarmáli hans en í stað þess að koma upp um Solek reynist hann honum vinur hans í raun og syrgði Solek þennan vin sinn mjög er hann féll í bardaga á austurvígstöðvunum. Solek fellur í lokin á nýjan leik í hendur sovéskra hermanna og má þá enn litlu muna að hann sé drepinn en bróðir hans birtist óvænt og kemur honum til bjargar.

Almennt um myndina:
Óhætt er að segja að þetta sé með óvenjulegustu helfararmyndum þó að vissulega séu þær ótrúlega fjölbreytilegar að gerð eins og þær helfararmyndir sem til umfjöllunar eru á þessari vefsíðu. Ekki þarf að koma á óvart að mynd þessi var mjög umdeild í Þýskalandi og það svo mjög að hún var ekki tilnefnd af hálfu landsins til óskarsverðlauna. Hún kom því ekki til álita við val á bestu erlendu myndinni á þeirri hátíð. Engu að síður fékk hún ein óskarsverðlaun, þ.e. fyrir besta handrit. Er mjög óvenjulegt að mynd sem gerð er utan Bandaríkjanna hljóti þau verðlaun.

Myndin hefur verið mjög umdeild. Sumum þykir sem hún nálgist efnið ekki af nægilegri alvöru. Öðrum þykir hún of samúðarfull í garð Gyðings sem leyndi því hver hann var og gekk í raðir æskusveita Hitlers. Enn aðrir sjá hins vegar í því dæmi um hvernig Gyðingi með kænsku sinni hefur tekist að leika á ofsækjendur sína.

Eftir að hafa búið um tveggja ára skeið við mikla innrætingu á sovésku munaðarleysingjahæli á það fyrir Solek að liggja að sverja Hitler hollustueið. Hann kynnist því að bæði er til gott og vont fólk í báðum herbúðum. Hann verður ástfanginn af þýskri stúlku sem hann kynnist í Hitlersæskunni. Hún reynist mikill gyðingahatari. „Ef ég fyndi Gyðing myndi ég skera hann á háls,” segir hún eitt sinn. Þar kemur að honum blöskrar svo hvernig hún talar að hann slær hana utan undir. Það verður endirinn á þeirra sambandi. Áður hafði Solek stöðugt komið sér hjá því að hafa mök við kærustu sína vegna umskurnar sinnar. Svo mikil verður örvænting hans í þeim efnum að hann reynir að ráða bót á umskurninni, að útbúa nýja forhúð. Sú tilraun veldur honum aðeins miklum kvölum og niðurstaða hans verður sú að hann geti ekki umflúið líkama sinn.

Áður hafði hann komist í góð kynni við stúlku á rússneska munaðarleysingjahælinu og orðið ástfanginn af henni en leiðir þeirra skildu er hópur sem þau voru í varð fyrir loftárás. Stúlkan hendir epli til hans að skilnaði.

Smám saman verður niðurstaða hans sú að allir sem hann elskaði yfirgefa hann auk þess sem hann þarf sífellt að spyrja sig hverjir séu vinir hans og hverjir óvinir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin hefst á því að verið er að umskera sveinbarn á hefðbundinn gyðinglegan hátt. Sá sem umskorinn er reynist vera aðalpersóna myndarinnar, Salómon Perel, og nafngjöfin er tengd umskurninni svo sem venja er í gyðingdómi.

Umskurnin stendur sem tákn fyrir sáttmála Guðs og Ísraelsþjóðarinnar. Hún reynist vera þýðingarmesta trúarlega stefið í myndinni. Solek þarf stöðugt að leyna því að hann er umskorinn. Þannig má líta á umskurnina sem tákn fyrir þjáningu Gyðinga. Réttilega hefur verið sagt að hinn raunverulegi glæpur Gyðingsins í augum ofsækjanda hans sé sá að vera sá sem hann er. Fyrir Solek er kynþáttur hans jafnframt bölvun bölvun hans, hið hættulega leyndarmál hans. Umskurnin er það sem hann verður stöðugt að leyna meðan hann er meðal Þjóðverja.

Hin gyðinglega umskurn nefnist á hebresku „brit milah” og merkir bókstaflega „sáttmáli umskurnar”. Umskurnin er talinn vera elsti helgisiður Gyðingdóms, rakin allt aftur til ættföðurins Abrahams og sáttmála hans við Guð. Í 1. Mósebók 17:12 segir: „Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera á meðal yðar, ættlið eftir ættlið.” Nafngjöfin er tengd umskurninni.

Myndin er hlaðin af trúarlegu efni og biblíulegum skírskotunum. Þegar Solek og Ísak bróðir hans eru hvattir af foreldrum sínum til að forða sér í austur andmæla þeir með orðunum að skrifað standi að sonur yfirgefi aldrei foreldra sína á erfiðum tímum. Því er svarað um hæl með því að það sé líka skrifað að sonur eigi að hlýða föður sínum og móður (sbr. 2M 20:12). Þá eru þeir bræður einnig áminntir um skylduna um að gæta bróður síns (sbr. 1M 4:10).

Faðir Soleks hafði kvatt hann með orðunum: „Gleymdu aldrei hver þú ert.” Engu að síður líður ekki á löngu þar til hann hefur gengið á hönd hugmyndafræði kommúnista sem boðar að trúin sé ópíum fyrir fólkið. Þar verður hann einnig vitni að því þegar pólskur drengur er hæddur fyrir að játa trú sína á Guð.

Aðstæður Soleks bjóða upp á að hann stendur stöðugt frammi fyrir erfiðum siðferðilegum álitamálum. Eitt sinn ætlar hann að gerast liðhlaupi, forða sér úr hersveitum Þjóðverja og yfir til rússneskra hermanna sem voru á næsta leiti. Atvikin urðu hins vegar þau að rússnesku hermennirnir héldu að koma hans, þýsks hermanns, að næturþeli fæli í sér stórsókn Þjóðverja og gáfust upp fyrir honum. Fyrirhugað liðhlaup hans leiddi í staðinn til þess að honum var fagnað sem stríðshetju meðal Þjóðverja og fljótlega á eftir skipað í æskusveitir Hitlers.

Hinn raunverulegi Perel birtist sem snöggvast í lok myndarinnar þar sem hann hefur sest að í Landinu helga. Þar kemur fram að hann hafi ekki hikað við að láta umskera syni sína. Þannig myndar umskurnin ramma um myndina jafnframt því sem hún gengur eins og rauður þráður í gegnum hana. Í frásögninni af hinni fyrstu umskurn og sáttmálanum í tengslum við hana er lögð áhersla fyrirheitið um niðja sem fylgir sáttmálanum. Það er því í góðu samræmi við þennan sáttmála að myndin skuli enda á því að ræða um niðja Salomons Perels og umskurn þeirra.

Samtími vekur það spurninguna um alla hina umskurnu sem fórust í helförinni og enga niðja eignuðust.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 4:10, 2M 20:12, Sl 133:1, Mein Kampf
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 17
Sögulegar persónur: Adolf Hitler, Jósef Stalín, Lenín
Guðfræðistef: sáttmáli, sáttmálstákn, umskurn, bænheyrsla Guðs, blessun, hlýðni við foreldra, hjátrú, trúarbrögð sem opium fyrir fólkið, tilvist Guðs, guðstrú, krossfesting Jesú, bænheyrsla, heilagt stríð gegn gyðingum, guðfræði, fyrirgefning, undirgefni við Guð, fórn, traust, kraftaverk
Siðfræðistef: helförin, kynþáttamisrétti, kynþáttahatur, manndráp, stríð, ást, hæðni, gyðingahatur, afbrýði, gettó, félagslegur þrýstingur, hæðni, samkynhneigð, hatur, þjóðerniskennd, vinátta, kynferðisleg áreitni, kynþáttarhyggja, játning, ótti, svik, liðhlaup
Trúarbrögð: gyðingdómur, nazismi, kommúnismi, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: hakakross, umskurn, kippa, hitlersmynd, hitlersstytta, stalínsmynd, stalínsstytta, lenínsmynd, davíðstjarnan, Kosher, epli, marxmynd, síðusár, gyðingalegsteinn
Trúarleg embætti: rabbíni, nunna, páfi, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: hlýðni við foreldra, gæta bróður síns, blessun, bæn, signing, umskurður, eiður við Guð, borðbæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: umskurnarathöfn, Bar Mitzvah, sabbatinn, jól
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, draumur, fyrirgefning