Leikstjórn: Michael Lehmann
Handrit: Steven E. de Souza og Daniel Waters, byggt á sögu eftir Bruce Willis og Robert Kraft
Leikarar: Bruce Willis, Danny Aiello, Andie McDowell, Richard E. Grant, Sandra Bernhard, Donald Burton, David Caruso, Frank Stallone og James Coburn
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1991
Lengd: 100mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Bókin opnast og sagan hefst árið 1481 í kastala Leónardó da Vinci þar sem hann er að prófa nýjustu uppfinningu sína; vél sem breytir blýi í gull. Af ótta við afleiðingarnar felur Leónardó leyndarmál gullgerðarlistarinnar í þremur listaverkum eftir sjálfan sig og tengir þar með söguna við okkar tíma.
Hudson Hawk losnar úr fangelsi í nútímanum. Hann er minimalískur þjófur með meiriháttar hæfileika og von um betra líf. Hans bíður breyttur heimur og áður en dagur er liðinn er hann þvingaður aftur út á glæpabrautina ásamt vini sínum Tommy.
Mayflower hjónin eru skúrkarnir og vilja leggja hagkerfi heimsins í rúst með því að flæða allt með gulli. Þau svívast einskis og láta jafnvel svívirða Péturskirkjuna í Róm til þess að ná sínu fram.
Lokauppgjörið á sér svo stað í kastala Leónardós þar sem örlög heimsins eru í höndunum á aumum þjófi…
Almennt um myndina:
Hudson Hawk var að vissu leyti langt á undan sinni samtíð. Eftir að hafa hlustað á ummæli leikstjóranns sem fylgdu þessari dvd útgáfu af myndinni, finnst mér sem Hollywood hafi á sínum tíma ekki ,,fattað” þessa. Tími og rúm lúta öðrum lögmálum á sjónvarpsskjánum sem er blandað skemmtilega saman með hröðum klippingum og þematengdri tónlist. Allt ofbeldi í myndinni hefur mjög teiknimyndalegan blæ yfir sér og er kímnin oft á tíðum hálf súrealísk. Á köflum er myndin svo algerlega brotin upp með dans- og söngvaatriðum þar sem kvikmyndagerðarmennirnir blanda saman tónlist, spennu, gríni og heilbrigðri fjölskylduskemmtun. Í anda lá-lækni tímasetur meistarþjófurinn öll sín rán með gömlum dægurlögum. Undir niðri kraumar þó mannlegur undirtónn sem höfðar til okkar allra!
Myndin er full af táknum og tilvísínum sem við fyrstu sýn eru kannski ekki mjög greinileg, en við nánari rýni gefa henni fyllra og dýpra yfirbragð. Það er greinilegt hverjum þeim sem kærir sig um að þessi kvikmynd var unnin af mikilli ástríðu þar sem hvert smáatriði var vandlega úthugsað. Talandi styttur af Jésú, nunnur með sólgleraugu og póstlestin í Vatíkaninu eru dæmi um skemmtilegar samblöndur sem ekki sjást á hverjum degi. Það gefur því auga leið myndin sem dregin er upp af kirkjunni er vægast sagt óhefðbundin.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Gullgerðarlist er töfrablandin vísindi sem reyna að breyta óæðri málmum í gull. Leitin að viskusteininum er æðsta markmið allra gullgerðarlistamanna og er það látið líta svo út í upphafi myndarinnar að Leónardó hafi höndlað þessa vitneskju í formi kristalla sem hann ákveður að fela.
Áhorfandinn kynnist Eddy, öðru nafni Hudson Hawk, fyrst þegar hann losnar úr hinu alræmda Sing Sing fangelsi. Það liggur því nokkuð beint við að tengja upphafið við betrun. Eddy er búinn að sitja í fangelsi í sex ár fyrir misheppnað rán og hefur nú lokið sinni afplánun. Spurningin er ekki hvað maðurinn þarf að gera til þess að öðlast frelsi, heldur hvað hann ætlar að gera við þetta ný fengna frelsi. Áður en Eddy kemst út undir beran himinn reynir spilltur fangavörður að freista hans með gylliboðum um eitt rán sem myndi redda öllu. Eddy vill hins vegar ekki lengur vera glæpamaður en klofinn í afstöðu sinni neyðist Hudson Hawk á endanum til að dusta rykið af gamla lagasafninu og fremja síðasta ránið. Það er sterklega gefið í skyn að Eddy er hér ekki að starfa af fúsum og frjálsum vilja, heldur er hann eingöngu tækið sem Mayflower hjónin nota til þess að fá vilja sínum framgengt.
Mayflower hjónin eru sér kapítuli fyrir sig. Þau standa fyrir allt sem er siðlaust, spillt og kynferðislega úrkynjað. Lehmann leikstjóri sagði að hann hafi vísvitandi reynt að tengja Mayflower hjónin við fasisma í gegnum arkitektúr og listmuni. Settið fyrir aðalstöðvar hjónanna í Róm er til að mynda gömul skrifstofubygging frá tímum Mússolínís. Endanlegt markmið hjónakornanna er að safna saman þremur kristöllum Leónardós og drekkja heiminum í gulli. Þarna má sjá ákveðið veraldlegt heimsslitastef sem ómar í hruni hagkerfisins og glundroðanum sem því fylgir.
Vinátta er annað stef sem greinilega má sjá í sambandi Hudson Hawk og Tommy. Þegar vinirnir hittast í fyrsta skipti í Róm er í bakgrunni risavaxin stytta af tveimur berum karlmönnum að glíma í sjómann. Á sinn hljóða hátt fannst mér það mjög táknrænt fyrir það sterka samband sem er á milli vinanna. Á tímabili er meira að segja látið líta svo út að Tommy hafi svikið vin sinn, en á endanum sigrar hin sanna vinátta.
Anna er í senn einn áhugaverðasti og margslungnasti karakterinn í þessari undarlegu sögu. Hún er kynnt til sögunnar sem sérfæðingur á vegum Vatíkansins, en eftir sem á líður kemur í ljós að hún er að auki njósnari og nunna. Í ummælum Lehmann leikstjóra sem fylgdu þessari dvd útgáfu sagðist hann aldrei hafa fyllilega skilið hvernig Daniel Waters, höfundur handritsins og rómveskur-kaþólikki, gat fundið í sér svona klofinn persónuleika. Samband Önnu og Eddy er tilfinningaþrungið alveg frá upphafi en sökum stöðu sinnar sem nunnu getur hún ekki látið undan löngunum sínum. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar um skirlífseiða meðal starfsmanna kirkjunnar og hvers virði þeir eru gagnvart sannri ást.
Nintendo er leikjatöva sem flest allir Vestrænir karlmenn kannast við. Á vissan hátt er Nintendo táknrænt fyrir allt það sem Hudson Hawk missti af á meðan hann sat í fangelsi. Í upphafi myndarinnar spyr hann Tommy vin sinn í mesta sakleysi: Hvað er Nintendo? Fljótlega eftir það þurfa vinirnir að glíma við Mafíuna sem stjórnað er af Mario bros. Í lokin þegar Huson Hawk hefur sigrast á öflum hins illa og stendur með Önnu sér við hlið spyr hann: Viltu spila við mig Nintendo? Þá er eins og hann hafi gert sér grein fyrir því sem hann hafi misst og nú sé hann tilbúinn að hefja nýtt líf.
Að lokum finnst mér vert að minnast á að fyrir fyrstu tökurnar í Róm var kallaður til rómversk-kaþólskur prestur til þess að blessa settið og starfsfólkið. Með orðum Michael Lehmann: ,,I don´t know if it really worked, but it was a lot of fun.”
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 20:13 ,,Thou shalt not kill.”
Hliðstæður við texta trúarrits: ,,Thou shalt not share.”
Sögulegar persónur: Leonardo da Vinci, Greifinn af Mílanó, Mona Lisa
Guðfræðistef: heimsendir
Siðfræðistef: betrun, vinátta, kynlíf, glæpir, hégómi, daður, hið illa, sannsögli, svik, morð, ást
Trúarbrögð: gullgerðarlist, mafían, rómvers-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kastali Leónardós da Vincis, Vatíkanið, Péturskirkjan í Róm, Kólóseum
Trúarleg tákn: kross, talnaband, stytta af Jésú, skriftarstóll
Trúarleg embætti: nunna, munkur, kardínáli, Páfinn
Trúarlegt atferli og siðir: signun, skriftir, bæn, skirlífi