Kvikmyndir

I Came, I Saw, I Shot

Leikstjórn: Enzo G. Castellari
Handrit: Augusto Finocchi, Vittorio Metz, Enrique Llovet og José María Rodríguez
Leikarar: Antonio Sabato, John Saxon, Frank Wolff, Agata Flori, Leo Anchóriz, Antonio Vico, Rossella Bergamonti, Hércules Cortés, Tito García, Edy Biagetti, Josefina Serratosa, Claudio Castellani og Giovanni Ivan Scratuglia
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1968
Hlutföll: 1.77:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Nokkrir bófar deila um $400.000 ránsfeng í villta vestrinu.

Almennt um myndina:
Miðlungs spaghettí-vestri sem tekur sig alls ekki alvarlega en verulega slæm gamanmyndatónlistin skemmir mikið fyrir. Antonio Sabato og John Saxon er báðir fínir í hlutverkum sínum og Frank Wolff er afar hressilegur sem sviksamur leikari með William Shakespeare á heilanum.

Hér á landi var kvikmyndin gefin út á myndband með káputitlinum Full Proof af Arnar videói enda þótt hún sé kölluð stórum stöfum I Came, I Saw, I Shot strax í myndarbyrjun.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bófinn Edwin Kean er leikari sem bregður sér í ótal gervi til að villa um fyrir fólki, en framan af myndinni klæðist hann sem prestur og heldur m.a. vakningarpredikun uppi á tunnu úti á miðri götu. Þar þrumar hann yfir vegfarendum: „Þú mátt ekki girnast uxa né nokkuð annað sem náungi þinn á. Ágirnist ekki þetta gull. Reiði Guðs bíður ykkur ef þið farið ekki eftir orðum mínum. Hver sem trúir ekki á orð hans snýr sér líka frá frelsinu. Og þeir munu ætíð kveljast. Syndarar gætið að áður en það verður of seint. Forðist freistingar djöfulsins og gleðjist yfir göfugu lífi. Ágirnist ekki auðæfi jarðar. Af dauðasyndunum sjö er græðgin sú versta. Það er hún sem dregur ykkur til helvítis eins og börn Ísraels sem tilbáðu gullkálfinn. Ég segi eins og Móse, snúið frá þessu ógæfuhúsi og lítið upp, upp, og lítið á himininn. Það eru stærri hlutir á himnum en ódauðleg augu hafa séð. Hamlet, 1. þáttur, atrði 1 … Æ! Ég á við Jesaja 42:17. Svo syngjum við, það er dásamlegur kraftur !í blóði lambsins.“

Í rauninni er leikarinn mun betur að sér í verkum Williams Shakespeare en heilagri ritningu og vitnar hann yfirleitt til þeirra þegar á þarf að halda, t.d. við kistulagningu sem hann neyðist til að sjá um. Þar sem ritningartextinn í Jesaja (sem í íslenska texta myndarinnar er nefndur Esajas) gagnrýnir skurðgoðadýrkun, væri vel hægt að tengja hann við frásögnina af dýrkun gullkálfsins í eyðimörkinni, en ekki er að sjá að leikaranum takist það með góðu móti í predikun sinni enda Hamlet honum tamari. Lögreglustjórinn áttar sig þó brátt á því að þar er ekki raunverulegur prestur á ferð þar sem hann vitnar rangt í Biblíuna.

Athyglisvert er hversu margar persónur myndarinnar bera biblíuleg nöfn, en þar koma við sögu nöfn á borð við Móse og Jeremía. Ekki er þó að sjá að nein þeirra tengist viðkomandi persónum Biblíunnar á nokkurn hátt. Enginn skortur er samt á trúarlegum vísunum og fylgir t.d. kirkjutónlist bófanum Edwin Kean í hvert sinn sem hann birtist í prestsgervinu sínu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:17, 2M 32, 5M 5:21, Jes 42:17, Op 7:14
Persónur úr trúarritum: Guð, Móse, Jesaja, Satan
Guðfræðistef: laun Guðs, synd, elding Guðs, refsing Guðs, paradís, fyrirgefning, freisting, dauðasyndirnar sjö
Siðfræðistef: manndráp, þjófnaður, hræsni, blekking, græðgi
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á leiði, skriftarstóll, gullkálfur
Trúarleg embætti: prestur, norn
Trúarlegt atferli og siðir: blessun, bæn, predikun, sálmasöngur, jarðarför, signun, skriftir, iðrun, skírn, biblíulestur