Kvikmyndir

Il giardino dei Finzi-Contini

Leikstjórn: Vittorio De Sica
Handrit: Vittorio Bonicelli og Ugo Pirro, byggt á sjálfsævisögulegri skáldsögu eftir Giorgio Bassani
Leikarar: Lino Capolicchio, Dominique Sanda, Helmut Berger, Romolo Valli, Fabio Testi, Camillo Cesarei, Inna Alexeieff, Katina Morisani, Barbara Pilavin, Michael Berger, Ettore Geri og Raffaele Curi
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Lengd: 93mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um áhyggjulaust líf Finzi-Contini fjölskyldunnar í Ferrara á Ítalíu þegar fasistar eru teknir að þrengja að Gyðingum og svipta þá grundvallar mannréttindum. Innan veggja Finzi-Contini garðsins spila systkinin Micol og Antonio tennis með vinum sínum og loka augunum fyrir því sem á sér stað utan veggjanna. Fjölskyldan virðist trúa því að auðæfi hennar muni vernda hana fyrir illsku heimsins og veggirnir umhverfis garðinn standa sem tákn um þá tiltrú. Georgio, einn vina Finzi-Contini systkinanna, er ástfanginn af Micol, sem er æskuvinkona hans, en sú ást er ekki endurgoldin.

Almennt um myndina:
Myndin hefur hlotið margvísleg verðlaun, svo sem Óskarinn sem besta erlenda myndin og Gullbjörninn. En margir hafa líka orðið til að gagnrýna hana, sagt hana bæði langdregna og leiðinlega. Myndin víkur víða frá þeirri sjálfsævisögulegu skáldsögu sem hún byggir á. Það á ekki síst við um niðurlag myndarinnar. Bókinni lýkur á endanlegu uppgjöri og skilnaði þeirra Micol og Girogio en myndinnni lýkur með handtöku Finzi-Contini fjölskyldunnar.

Myndin gerist á árunum 1938-1943 í Ítalíu. Vel má flokka hana sem helfararmynd en þá er hún óneitanlega mjög óvenjuleg sem slík. Við fáum fyrst og fremst innsýn í líf vellauðugra Gyðinga sem lifa í sannkallaðri draumaveröld þar sem útrýmingarbúðir virðast víðsfjarri.

Við sjáum vissulega hvernig margs konar and-gyðingleg löggjöf er sett af fasistunum en lengi vel virðist ekki gengið eins hart fram gegn Gyðingunum á Ítalíu og nasistar gerðu í Þýskalandi og flestum þeirra landa sem þeir lögðu undir sig. Það endurspeglar þá staðreynd að fleiri Gyðingar lifðu af heimsstyrjöldina síðari í Ítalíu en flestum löndum Evrópu. Meðal þeirra laga sem sett eru gegn Gyðingum er að þeim er bannað að giftast öðrum en Gyðingum, þeim er meinað að sækja opinbera skóla, ráða þjónustufólk sem er aríar og að gegna herþjónustu. Í myndinni sjáum við t.d. þegar Girogio er vísað út af bókasafni fyrir þá sök eina að hann er Gyðingur. Einnig er Dachau nefnd þannig að helförin er vissulega stöðugt í baksviði myndarinnar.

Finzi-Continis fjölskyldan virðist lifa í sínum lokaða heimi innan þeirra múrveggja sem umlykja hinn stóra garð þeirra þar sem tennis-völlurinn er þungamiðjan. Um fjölskylduna er líka sagt að hún líkist ekki Gyðingum.

Girogio, önnur aðalpersóna myndarinnar, verður sífellt ástfangnari af Micol, æskuvinkonu sinni, en sú ást er ekki endurgoldin. ‚Það væri eins og að elska bróður sinn,‘ segir Micol. Hún vill aðeins tala um liðna tíð við hann.

Endir myndarinnar virðist dálítið opinn og hann er ekki í samræmi við niðurlag bókarinnar sem myndin byggir á. Áhorfandinn saknar þess að sjá ekkert til Giorgis, fær aðeins að heyra að hann hafi sloppið.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ekki fer hjá því að garður Finzi-Contini fjölskyldunnar skapi hugrenningatengsl við Edengarð Gamla testamentisins. Garðurinn er tákn um hið áhyggjulausa sakleysi sem lokar augunum fyrir því sem gerist utan veggja hans, jafnframt tákn um trúna á mátt auðæfanna sem geti verndað gegn öllu illu. Vísanir myndarinnar aftur til æsku þeirra Micol og Giorgio kallast sömuleiðis á paradísarástand sem liðið er. Garðurinn stendur sem tákn fyrir hina friðsælu og áhyggjulausu tíð sem er að renna sitt skeið. ‚Finzi-Continis fjölskyldan yfirgefur aldrei konungdæmi sitt,‘ segir einn þeirra sem spilar tennis með þeim Micol og Alberto. Engu að síður er þeim um síðir vísað út úr paradísartilveru sinni.

Við fáum innsýn í páskahátíð Girgio-fjölskyldunnar þar sem sungið er um þann Guð sem er á himnum og um Abram, Ísak, Jakob og lögmálstöflur Móse. Við þær aðstæður virðast útrýmingarbúðir víðsfjarri. En dularfullar símhringingar sem trufla glaðværa söngvana undir borðum gefa til kynna hvað í vændum er.

Einnig fáum við innsýn í guðsþjónustu í sýnagógu. Þar leynir sér ekki að Gyðingasamfélagið er samfélag vel stæðra borgara sem lifir menningarlegu lífi. Ofsóknirnar gegn Gyðingum eru þó alltaf í bakgrunni myndarinnar en það er eins og Finzi-Contini fjölskyldan trúi því að auðæfi hennar og veggirnar umhverfis garðinn muni vernda hana fyrir öllu illu.

Vonska umheimsins nær smám saman inn í hið áhyggjulausa paradísarlíf Finzi-Continis og þar kemur að fjölskyldan er á táknrænan hátt leidd út úr sínum Edensranni þar sem hennar bíða sömu örlög og annarra Gyðinga sem handteknir eru.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3
Persónur úr trúarritum: englar, Abraham, Ísak, Jakob, Móse
Sögulegar persónur: Hess, Hitler, Mussolini, Stalin
Guðfræðistef: Guð, Guð sem býr á himnum
Siðfræðistef: afbrýðisemi, aðskilnaður kynþátta, andgyðingleg lög, ást, brottflutningur fólks, forréttindi, gestrisni, gettó, góðgerðarstarfsemi, gyðingahatur, handtökur, hlýðni, hóruhús, konungdæmi, lygi, mismunun, samkynhneigð, samúð, stríð, útilokun
Trúarbrögð: fasismi, Gyðingdómur, kommúnismi, kristni, nasismi, sósíalismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, sýnagóga
Trúarleg tákn: bænasjal, Davíðsstjarnan, hakakross, kippah, lögmálstöflur, páskagjöf, sorgarklæði
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, jarðarför, líkfylgd, trúarlegur söngur við borðhald
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Helförin, páskahátið (pesah) Gyðinga