Kvikmyndir

In the Presence of Mine Enemies

Leikstjórn: Joan Micklin Silver
Handrit: Rod Serling
Leikarar: Armin Mueller-Stahl, Elina Löwensohn, Don McKellar, Charles Dance, Chad Lowe, Tony Nardi og Ely Bonder
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1997
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Rabbí í Varsjárgettóinu árið 1942 reynir að halda í trú sína á Guð og náungann andspænis sífellt auknum þjáningum íbúa gettósins og vaxandi harðræði og grimmd af hálfu nasista. Sonur hans, sem tekist hefur að flýja úr þrælkunar- og útrýmingarbúðum nasista, gerist hins vegar sífellt herskárri og gagnrýnir föður sinn mjög fyrir trú hans og ásakar hann fyrir að sjá ekki raunveruleikann. Þýskur hermaður sem kynnst hefur fjölskyldu rabbínans og er þjakaður af sektarkennd yfir framferði nasista ákveður að hjálpa dóttur rabbínans að flýja úr gettóinu eftir að henni hefur verið nauðgað af þýskum herforingja.

Almennt um myndina:
Eins og í kvikmyndunum The Pianist og Uprising er sögusvið þessarar myndar Varsjár-gettóið þar sem um 450 þúsund gyðingar höfðust við þegar þeir voru sem flestir, á mjög afmörkuðu svæði.

Hér er athyglinni beint að fjölskyldu rabbína að nafni Adam Heller. Hann er friðsamur maður og hvetur fólk til að halda í vonina og halda áfram að biðja. Hann er í hópi þeirri sem telja sig geta takmarkað skaðann með því að láta til sín taka gagnvart gyðingaráðinu o.s.frv. Smám saman lýkst upp fyrir honum að árangur hans í þeim efnum er lítill sem enginn.Fjölskylda rabbínans verður fyrir barðinu á nasistum, ekki síður en aðrir íbúar gettósins, og raunar er fjölskyldunni veitt sérstök athygli vegna þess að herforinga nasistanna líst þannig á Rakel, hina nítján ára dóttur rabbínans að hann gæti hugsað sér að notfæra sér hana kynferðislega sem hann og gerir. Skipar hann nánasta undirmanni sínum, liðsforingjanum Lott að sækja stúlkuna og hlýðnast hann þeirri skipun yfirboðara síns, eftir að hafa í fyrstu reynt að hreifa andmælum m.a. með því að benda á að stúlkan væri svo ung að árum. Verður þetta atvik til að vekja upp sterka sektarkennd í liðforingjanum unga. Jafnframt magnar það upp gagnrýni Pauls í garð föður síns. Paul er sömuleiðis mjög ósvífinn í garð kristins vinar fjölskyldunnar og það er kaldhæðni örlaganna að sá kristni maður fórnar lífi sínu til að bjarga Paul undan nasistum.

Uppreisn Gyðinga í lok janúar 1943 fór út um þúfur en árangursríkari uppreisn var gerð síðar eins og kemur fram í myndinni Uprising. Gyðingahverfið var vissulega lagt í rústir en andspyrnuhreyfing Gyðinga hélt lengur út en nokkurn gat órað fyrir og nokkur hópur Gyðinga komst undan.

Þetta er að mörgu leyti vel gerð mynd en ekki gallalaus. Frammistaða leikara er misjöfn og líður myndin fyrir það. Armin Mueller-Stahl er þó mjög góður í hlutverki sínu sem rabbí Heller. Hann viðirst alveg sniðinn fyrir þetta hlutverk. Margir minnast hans úr svipuðu hlutverki er hann lék Kirschbaum lækni í Jakobi lygara, en líklega er hann þekktastur fyrir hlutverk sitt sem ættfaðirinn í mynd Barry Levinsons Avilon. Rakel er leikin af Elinu Löwensohn, leikkonu sem fædd er í Rúmeníu og fór með hlutverk í Schindler’s. Paul virðist mér oft ofleikinn af Don McKellar og Charles Dance er fjarri því að vera sannfærandi í hlutverki Richters herforingja. Chad Lowe tekst heldur betur upp í hlutverki liðsforingjans Lott sem er þjakaður af sektarkennd.

Bent hefur verið á að atvikið í myndinni þar sem þýski herforinginn lætur sækja Rakel til að njóta ásta með henni sé ekki trúverðugt vegna þess að nasistar hafi ekki litið á Gyðinga sem mennskar verur. Það að hafa kynmök við Gyðinga hafi jafngilt því að hafa mök við dýr. Þrátt fyrir að sú hafi veirð skoðun fjölmargra nasista og þeim innprentuð þá kom það ekki í veg fyrir að fjölmörgum Gyðingakonum var nauðgað af nasistum. Þannig að það er í meira lagi hæpið að telja þetta atriði sem dæmi um ótrúverðugleika myndarinnar. Yfirleitt er hún trúverðug. Hún er vissulega ekki tekið í Varsjá eins og The Pianist heldur í Kanada og leiksviðið er ekki eins vandað og ella hefði getað orðið.

Tónlistin í myndinni finnst mér í senn yfirleitt mjög áhrifarík og falleg.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fyrir mig er þessi mynd sérlega áhugaverð að því leyti að í henni sameinast þrjú af helstu rannsóknarverkefnum mínum. Í henni kemur fyrir texti doktorsritgerðar minnar (1M 1:26-28) og gegnir ekki litlu hlutverki, þá er titill myndarinnar sóttur í þann sálm Saltarans sem ég hef rannsakað meira en nokkurn annan og skrifað talsvert um, þ.e. Sl 23, og loks er þetta helfararmynd en kvikmyndir sem undir þann flokk falla eru nú um stundir helsta rannsóknarverkefni mitt.

Heiti myndarinnar er sótt í Sl 23, eins og áður greindi, nánar tiltekið í 5. vers sálmsins: ‘(Þú býrð mér boð) frammi fyrir fjendum mínum.’ Boðskapurinn þar er að Guð annist um hjörð sína jafnvel við hinar erfiðustu aðstæður.

Fjölskylda rabbí Adams Heller er í augsýn óvinanna, frammi fyrir fjendum sínum. Fjölskyldan situr meira að segja við borð og matast þegar bifreiðar nasista stöðva fyrir utan fjölbýlishúsið þar sem fjölskyldan býr og nasistarnir ráðast til inngöngu. En ekkert öryggi er við þær aðstæður eins og þær sem einkenna Sl 23. Þannig að þó að myndin sæki til sálmsins þá eru aðstæðurnar í myndinni yfirleitt í fullkominni andstöðu við boðskap sálmsins. Óhætt er þó að segja að fjölskylda rabbí Hellers dveljist í ‘dauðans skugga dal’ eins og raunar allir íbúar gettósins. Snemma í myndinni sjáum við rabbí Heller dapran í bragði inni í sýnagógu sem er rústir einar. Þar sjáum við m.a. hvar klæðin utan af tórah-roðlinum liggja undir grjóti og spýtnabraki. Þessi sena kallast á við eyðingu musterisins í Gamla testamentinu, a.m.k. gerði hún það í huga mínum og í hugann kom orð Gamla testamentisins um ‘viðurstyggð eyðingarinnar’ (Dn 11:31; 12:11).

Síðan gerist það að herforingi nasistanna fær augastað á Heller- fjölskyldunni og þá einkum á Rakel, hinni 19 ára gömul dóttur rabbínans. Raunar slær hann rabbínann kröftuglega í andlitið eftir að undirmaður hann, Lott liðsforingi, hafði mjög hikandi framkvæmt skipun þess efnis og á svo máttleysislegan hátt að augljóst var að hann í raun óhlýðnaðist skipuninni. Rabbí Heller segir eftir þá reynslu að hafa verið sleginn utan undir af herforingja nasistanna svo úr blæddi: ‘Jafnvel þetta var skráð í bókina.’ Ekki er fyllilega ljóst hvaða ritningarstaðar hann er að vísa þar. En vissulega kemur í hugann texti úr einu af þjóðsljóðum Jesajaritins, nánar tiltekið Jes 50:6 þar sem segir: ‘Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim sem reyttu mig. Ég byrgði ekki ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.’

Annað atvikið skapar hugrenningatengsl við þekktan ritningarstað. Paul heyrir af lítilli gyðingastúlku sem horft hafði upp á það að nasistar hentu bróður hennar út af svölum svo að hann lét lífið. Í framhaldi af því segir hann frá því hvernig fangar í Treblinka-útrýmingarbúðunum hafi myrt þýskan unglingspilt er þeir komust í fær við hann. Áður höfðu þeir orðið vitni að því að þessi drengur hafði ásamt félögum sínum skemmt sér við að skjóta Gyðinga til bana. Hann hvetur til svipaðrar hefndar nú. ‘Við skulum taka tíu börn Þjóðverjanna og slá þeim niður í stéttina,’ segir Paul. Orð hans minna óneitanlega á orðin óhugnanlegu úr Sl 137:9: ‘Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.’

Margt í myndinni er í raun fullkomin andstæða við boðskap Sl 23, eins og áður greindi. En eðlilegt er að huga að sambandi myndarinnar og sálmsins sem hún sækir nafn sitt til. Fólkið líður svo sannarlega skort, öfugt við það sem sálmurinn kennir. Mynd sálmsins af grænum grundum og vatni þar sem ‘ég má næðis njóta’ hljóma sömuleiðis eins og hrein öfugmæli í gettóinu. Í hinum myrka dal gettósins leynist þó vonarglæta fyrir Rakel þar sem Lott liðsforingi reyndist ekki gjörsneyddur mennsku og þjáist greinilega af sektarkennd og þó sérstaklega yfir framferði yfirmanns hans gagnvart Rakel. Þar telur Lott sig geta borið ábyrgð þó að hann telji sig enga ábyrgð bera á öðrum grimmdarverkum nasista í gettóinu. Rabbí Heller tekur Lott vel þegar hann tjáir honum angist sína og sektarkennd. Það er eftirminnleg sena er liðsforinginn grætur við fætur rabbínans sem tekur hughreystandi utan hann. Rabbí Heller trúir honum líka þegar hann lýsir þeim vilja sínum að bjarga Rakel út úr gettóinu.

Hinir trúarlegu drættir myndarinnar koma meðal annars og ekki síst fram í gagnrýni Pauls á hendur föður sínum, rabbí Heller. Paul heldur því fram að faðir hans horfist ekki í augu við raunveruleikann og þvingar hann í eitt sinn til að horfa út um gluggarifu á íbúinn: ‘Þetta er sannleikurinn’ segir hann og bendir á ‘lík barns sem liggtur í snjónum niðri á götunni.’ Í annað skipti segir hann við föður sinn er hann sér hann lesa í Biblíunni. ‘Þú finnur þetta ekki í Biblíunni, pabbi. Við höfum aðrar reglur núna.’ Paul heldur því einnig fram við föður sinn að Guð ‘heyri ekki’ og að Guð ‘eigi nýja vini núna’. Paul segir að hann hafi aðeins einn boðskap að sækja til ritninganna og það séu hefndarorðin ‘auga fyrir auga og tönn fyrir tönn’ (2M 21:24).

Þar kemur að trú rabbínans virðist brostin eða a.m.k. mjög breytt. Það sjáum við best í einu af minnistæðustu atriðum myndarinnar. Það er þegar kona ein kemur með kornabarn sitt til rabbí Hellers og segir að barnið sé að deyja úr hitasótt og biður hann að biðja fyrir barninu. ‘Viltu að ég biðji fyrir barninu? … Líf mitt hefur verið ein endalaus bæn, endalaus supplication til Guðs sem hvorki hefur augu né eyru. Öll þessi ár hef ég sagt ykkur að við séum sköpuð í mynd hans en allan tímann hlýtur það að hafa verið að það sé hann sem er skapaður í mynd okkar. Hann hlýtur að vera veikur og hungraður og hafa glatað trúnni.’

Eins og í öllum helfararmyndum vekur þessi ótal siðferðispurningar. Rabbí Heller stendur andspænis mjög erfiðu siðferðilegu mati í lok myndarinnar. Hann þarf að velja á milli barna sinna. Rakel á þess kost að komast lífs af úr gettóinu með hjálp Lotts liðsforingja en bróðir hennar stöðvar flóttann á síðustu stundu. Rabbí Heller kýs að bjarga dóttur sinni en getur það ekki án þess að deyða son sinn. Það eru grimm örlög sem við eigum því ekki að venjast að helfararmyndir geta boðið upp á hamingjusamleg endalok. Gerðu það þær væru þær yfirleitt ekki í miklu samræmi við hinn grimma raunveruleika sem Paul hafði jú lagt sig allan fram við að sýna föður sínum fram á hver væri. ‘Guð fyrirgefi mér’ segir rabbí Heller eftir að hafa skotið son sinn og bætir við lágum rómi: ‘Nú veit ég hvað sannleikur er.’ Valið sem rabbí Heller stóð frammi fyrir var val sem ekkert foreldri vildi þurfa að taka afstöðu til. Það sama stef þekkjum við úr annarri helfararmynd, þ.e. Sophie’s Choice.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:26-27, 2M 21:24, Sl 23:5 – Biblían, Nýja testamentið, Talmúd.
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 137:9 , Jes 50:6.
Guðfræðistef: : fyrirgefning, fjarlægur Guð, Guðstrú, sköpun mannsins í mynd Guðs
Siðfræðistef: aðskilnaður, auga fyrir auga, ábyrgð, björgun, gyðingahatur, hatur, hefnd, hernám, hjálp, innrás, lög og reglur, morð, náð, nýjar reglur, meðaumkun, ofbeldi, ómennska, pyntingar, nauðgun, mismunun, samviskubit, sektarkennd, sjálfsfórn, stríð, sæmd, uppreisn, viðkvæmni
Trúarbrögð: gyðingdómur, nasismi, nýr átrúnaður
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: sýnagóga
Trúarleg tákn: Davíðsstjarna, ‘kippa’, nasistafáni
Trúarleg embætti: rabbí, atvinnu-syrgjandi, ‘shabbes-goj’
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, bæn, hróp til Guðs, söngur fyrir hina dánu
Trúarleg reynsla: helförin