Kvikmyndir

Insomnia

Leikstjórn: Christopher Nolan
Handrit: Hillary Seitz, byggt á sögu eftir Nikolai Frobenius og Erik Skjoldbjærg
Leikarar: Al Pacino, Robin Williams, Hilary Swank, Maura Tierney, Martin Donovan, Nicky Katt, Paul Dooley, Jonathan Jackson, Katharine Isabelle, Oliver Zemen og Larry Holden
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 118mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0278504
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Tveir rannsóknarlögreglumenn eru sendir til smábæjar í Alaska um bjartar sumarnætur til að rannsaka morð á unglingsstúlku. Annar rannsóknarlögreglumannanna, Will Dormer að nafni (leikinn af Al Pacino), er undir smásjá innra eftirlitsins vegna gruns um að hann hafi nokkru áður falsað sönnunargögn gegn meintum morðingja til að tryggja sakfellingu hans, en þegar áfangastaðnum er náð lætur samstarfsmaðurinn hann vita að hann hafi ákveðið að vinna með rannsóknarnefndinni jafnvel þótt það geti kostað hann æruna. Þegar þeir síðan finna hettuklæddan morðingja unglingsstúlkunnar nokkru síðar úti í óbyggðum og elta hann í slæmu þokuskyggni, skýtur Dormer fyrir mistök samstarfsmann sinn til bana, en reynir að hylma yfir það með því að koma sökinni á morðingjann, sem komist hafði naumlega undan. Morðinginn hafði þó séð hvað gerst hafði og ákveður að neyða Dormer til að finna annan blóraböggul í staðinn fyrir þá báða, en fyrir vikið er Dormer þjakaður af svefnleysi og sektarkennd! dögum saman.

Almennt um myndina:
Stórgóð sakamálamynd frá leikstjóranum Christopher Nolan (Memento) í film noir stíl sem er endurgerð af samnefndri norskri mynd frá árinu 1997. Þar sem ég hef ekki séð norsku myndina, get ég ekki sagt til um hvor sé betri, en persónusköpunin í frumgerðinni þykir þó mun dekkri.

Al Pacino er stórkostlegur að vanda í hlutverki svefnlausa rannsóknarlögreglumannsins Wills Dormer, sem hefur vikið af réttri í leið dyggðarinnar í þeirri trú að tilgangurinn geti helgað meðalið. Robin Williams leikur hér morðingjann Walter Finch og sleppur ágætlega frá því, þótt hann nái ekki sömu hæðum og í spennumyndinni One Hour Photo. Hilary Swank, sem fékk óskarinn fyrir aðalhlutverkið í Boys Don’t Cry (1999), er sömuleiðis mjög fín í hlutverki lögreglukonu í smábænum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í flestum film noir kvikmyndum er megin boðskapur Insomnia sá að óheiðarleiki borgi sig ekki. Um leið og látið sé undan syndinni, nái hún yfirtökunum og steypi syndaranum í glötun. Einkunnarorð þessara mynda gætu því í raun verið 1M 4:7: „… ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni.“ Will Dormer segir einmitt í myndinni, að hann hafi áttað sig á því um leið og hann falsaði sönnunargögnin, að hann myndi þurfa að gjalda þess síðar, en hann taldi það samt þess virði ef það leiddi til þess að hættulegur morðingi yrði fangelsaður til lífstíðar.

Undir lokin minnir síðan einn af lögreglumönnunum Dormer á þau orð hans, að góðir lögreglumenn þjáist eingöngu af svefnleysi vegna óupplýstra sakamála en vondir lögreglumenn geti ekki sofnað vegna slæmrar samvisku. Svefnleysið er samt ekki eina afleiðing misgjörða Dormers heldur festist hann áður en varir í eigin blekkingarvef þegar morðinginn hefur samband við hann og kúgar hann til samstarfs. Einu valkostir Dormers reynast því þeir að játa misgjörðir sínar eða selja samviskuna fyrir fullt og allt. Christopher Nolan segir sjálfur að í raun sé svefnleysið aðeins táknrænt leið til að tjá innri baráttu Dormer við sjálfan sig, og hann bætir síðan við: „Við verðum vitni að því hvernig Will Dormer þarf í síauknum mæli að kljást við innri djöfla.“

Þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar ættu ekki að lesa lengra. Í lok myndarinnar býðst lögreglukonan Ellie Burr (leikin af Hilary Swank) til að henda sönnunargagni um að Will Dormer hafi drepið félaga sinn enda auðvelt að koma sökinni á morðingjann eftir að hann hefur verið drepinn. En um leið og hún ætlar að gera það stöðvar Will hana helsár og biður hana um að villast ekki af leið réttlætisins eins og hann hafði gert.

Kvikmyndin Insomnia er áhugaverð vangavelta um eðli syndarinnar og hvernig afleiðing hennar getur reynst áþekk fíkninni. Það er nær ógjörningur að brjóta af sér einu sinni og ætla síðan að ganga óskaddaður í burtu. Til er dæmisaga um syndina sem minnir um margt á boðskap myndarinnar. Ég ætla því að enda umfjöllunina á þessari dæmisögu.

Þegar sporðdrekinn biður froskinn um að ferja sig yfir á, neitar froskurinn því vegna þess að hann geti stungið hann til bana. Sporðdrekinn bendir þá frosknum á að þeir myndu báðir drukkna ef hann tæki upp á því, en fyrir vikið felst froskurinn á að ferja hann yfir. Á leiðinni yfir ána stingur sporðdrekinn hann engu að síður og spyr froskurinn hann því örvæntingarfullur um leið og hann er að lamast hvers vegna hann hafi gert þetta. Sporðdrekinn svarar því hins vegar að hann hafi ekki getað haft hemil á sér vegna þess að þetta sé í eðli hans.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 4:7
Guðfræðistef: samviskan, mannseðlið, syndin
Siðfræðistef: morð, kynferðisleg áreitni, framhjáhald, lygar, svik, blekkingar
Trúarleg tákn: kross á leiði