Kvikmyndir

Jakob the Liar

Leikstjórn: Peter Kassovitz
Handrit: Peter Kassovitz og Didier Decoin, byggt á sögu eftir Jurek Becker
Leikarar: Robin Williams, Hannah Taylor-Gordon, Bob Balaban, Alan Arkin, Armin Mueller-Stahl, Éva Igó, István Bálint, Justus von Dohnanyi, Kathleen Gati, Michael Jeter, Mark Margolis, János Gosztonyi, Liev Schreiber, Mathieu Kassovitz, Antal Leisen og Ádám Rajhona
Upprunaland: Bandaríkin, Frakkland og Ungverjaland
Ár: 1999
Lengd: 116mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Gyðingur að nafni Jakob í gettói í Póllandi árið 1944 heyrir fyrir tilviljun frétt í útvarpi þar sem hann er í yfirheyslu hjá nasistaforingja þess efnis að sovéski herinn sé nú aðeins 400 km í burtu. Hann trúir vini sínum fyrir þessari frétt sem verður til þess að sá orðrómur kemst á kreik að hann ráði yfir útvarpstæki, en dauðarefsing liggur við því fyrir Gyðinga að hafa slíkt tæki í fórum sínum. Þessi frétt breytir andrúmsloftinu í gettóinu á þann veg að í stað vonleysis og tíðra sjálfsmorða eignast fólkið von og leggur á ráðin um að stofna andspyrnuhreyfingu.

Almennt um myndina:
Myndin gerist í gettói Gyðinga einhvers staðar í Póllandi árið 1944. Gyðingar reyna að halda í sér lífinu með því að beita fyrir sig húmor og kaldranalegri kímni. Þannig hefst myndin á þessari sögu: Hitler fór til gyðinglegrar spákonu og spurði hvernær hann myndi deyja. Hún svaraði: „Ég veit það ekki, en ég veit að það verður á gyðinglegum helgidegi.“ „Hvernig veistu það?“ spurði hann. „Hver sá dagur sem þú deyrð á mun verða gyðinglegur helgidagur,“ svaraði hún.

Jakob, aðalpersóna myndarinnar, er ekki sérlega trúaður Gyðingur, en hann segir á einum stað og vitnar þar í kunn ummæli: „Ég veit að við erum hin útvalda þjóð en ég vildi óska að hinn Almáttki hefði valið einhverja aðra.“ Allt annað en húmorinn höfðu Þjóðverjar tekið frá hinum hrjáðu og innilokuðu Gyðingum og það er t.d. eftirtektarvert að nánast engin börn sjást í gettóinu. Sjálfsvíg eru þar tíð því að margir hafa tapað allri von, eins og einhver þeirra orðar það: „Enginn getur lifað án framtíðar.“ Fátækur eigandi kaffihúss (U. Jakoba Kawiarnia), Jakob Heym að nafni, er höfuðpersóna myndarinnar. Hann er löngu hættur að geta selt nokkuð í kaffihúsinu, hann hefur einfaldlega ekkert til að selja.

Þáttaskil verða þegar hann heyrir fyrir tilviljun — þar sem hann er að svara fyrir meint brot sitt á útgöngubanni inni á skrifstofu eins nasistaforingjans — frétt í útvarpi þess efnis að hersveitir Sovétmanna séu ekki langt undan. Hann trúir besta vini sínum, hnefaleikakappanum Mischa, fyrir þessum góðu fréttum, þ.e. að hinn „dýrlegi Rauði her“ sé kominn til Bezanika, aðeins 400 kílómetra í burtu.

Næsta morgun er honum alls staðar heilsað af miklum innileik og er ástæðan sú að sá orðrómur hafði komist á kreik og farið um eins og eldur í sinu að hann hefði útvarpstæki í fórum sínum, en dauðarefsing var við því inni í gettóinu enda þess vandlega gætt að Gyðingar fengju engar fréttir að utan. Andmæli Jakobs breyta engu um að því er staðfastlega trúað að hann hafi slíkt tæki í fórum sínum. Sjálfur verður hann þess áskynja hversu góð áhrif þessi frétt hefur á fólkið í gettóinu og sömuleiðis að „sannleikurinn geti drepið“ því að „Samúel dó vegna þess að ég sagði honum sannleikann,“ þ.e. aldraður vinur hans, Samúel að nafni, lét lífið morguninn eftir að Jakob hafði sagt honum og sannfært hann um að sagan af útvarpstækinu væri aðeins tilbúningur og lygi. Þessi uppgötvun verður til þess að Jakob tekur að búa til fréttir af vígvellinum um sókn Rauða hersins og að björgunin sé vafalítið á næsta leiti.

Lykilsetningin í myndinni er einfaldlega: „Hann á útvarpstæki.“ Fréttirnar um útvarpstækið veita fólkinu von og húmor. Þannig má segja að útvarpstækið standi fyrir vonina. Það er undirstrikað í myndinni með því að glaðvær tónlist er leikin þegar Jakob er tekinn að spinna lygavef sinn um sigursæla sókn Rauða hersins í áttina að gettóinu. Sá boðskapur er fluttur um gettóið að frelsunin sé á næsta leiti og þó Jakob sé líklega ekki Messías þá geti hann verið spámaður, sem flytji sama boðskap og Jesaja forðum. Vinsældir þær sem Jakob öðlast meðal íbúa gettósins birtast vel í orðum unnustu Mischa er hún segir: „Ætlarðu að giftast Jakobi Heym eða mér?“

Þar kemur að „útvarpsfréttir“ hafa fyllt íbúana slíkum eldmóði að þeir ákveða að koma skipulagi á hreyfingu sína með andspyrnu í huga og kjósa Jakob sem leiðtoga sinn vegna þess að hann hafði „flutt von og myndugleika inn í gettóið“. Raunar voru skiptar skoðanir meðal íbúanna um hvort uppreisn gegn nasistum ætti rétt á sér. Sumir töldu það ganga guðlasti næst því að Gyðingar ættu að setja allt sitt traust á að Guð almáttugur myndi vernda þá. Þetta minnir á deilurnar meðal Gyðinga um réttmæti þess að stofna sjálfstætt ríki í Landinu helga, eins og vel kemur fram í myndinni The Chosen. Þar héldu hasídím Gyðingar því mjög staðfastlega fram að Messías einn gæti og mætti stofna slíkt ríki.

Þegar Þjóðverjum berast til eyrna fréttir af hinu dularfulla útvarpstæki hefja þeir mikla leit að andspyrnuhetjunni sem hafði dirfst að ögra þeim með því að flytja fréttir utan gettósins úr útvarpstæki, en við því athæfi lá dauðarefsing.

Jakob átti aldrei neitt útvarpstæki en hann hafði hæfileika til að telja kjark í trúbræður sína og systur og flytja þannig von og huggun inn í hið hrjáða og kúgaða samfélag þeirra. Þótt Jakob feldi ekki útvarpstæki í íbúð sinni átti hann sér þar annað leyndarmál. Þar faldi hann unga stúlku, að nafni Lina Kronstein, sem óvænt hafði orðið á vegi hans kvöldið sem hann kom af skrifstofu nasistaforingjans og eftir að útgöngubann var gengið í garð. Foreldrum hennar hafði tekist að forða henni út úr lest sem var á leið í útrýmingarbúðir. Þessi unga stúlka minnir um sumt á Önnu Frank og lífga samskipti og samtöl hennar og Jakobs mjög upp á myndina. Dapurleikinn nær aldrei yfirhöndinni þrátt fyrir hinar ömurlegu og, að því er virðist, vonlausu aðstæður Gyðinga í gettóinu. Hlýja og nærgætni Jakobs í garð hinnar tíu ára Linu Kronstein birtist á margvíslegan hátt, t.d. í því að hann gefur henni af matarskammti sínum án þess að hún taki eftir því og í eftirminnilegu atriði í myndinni þar sem hann leikur útsendingu frá BBC í London.

Sjálfur vissi hann auðvitað að vonin sem hann boðaði byggði vægast sagt á ótraustum grunni. Því vaknar sú spurning hvað það hafi verið sem hélt honum sjálfum gangandi. Svarið er vafalaust tvíþætt. Annars vegar vakti það honum eldmóð að sjá hversu góð áhrif fréttir hans höfðu í gettóinu. Hins vegar var það vafalaust umhyggjan fyrir Linu litlu sem réði þar miklu. Sjálfur hafði hann og Hanna kona hans aldrei eignast börn. Hún gegnir raunar talsverðu hlutverki í myndinni þó að hún sé látin því að Jakob talar gjarnan til hennar, spyr hana t.d. á einum stað upp á hverju hann eigi nú að finna á morgun til að telja kjark í íbúa gettósins. Þar kemur raunar að Lina kemst að því að Jakob hafði verið að búa til fréttir, verið að segja ósatt. En hún segir hughreystandi við hann: „Ég skil hvers vegna þú gerðir það. Þú vildir vera góður.“

Raunar var einn íbúi gettósins sem hafði frá byrjun gert sér grein fyrir að hinar góðu fréttir sem Jakob bar inn í gettóið áttu ekki við rök að styðjast. Það var gamli læknirinn, prófessor Kirschbaum. En hann sá hversu góð áhrif fréttirnar höfðu og benti á að engin sjálfsmorð hefðu orðið í gettóinu „eftir að Jakob Heym tók að deila upplýsingum sínum með okkur“. Og þegar Jakob sótti lækninn til að hjúkra Linu litlu þá sagði læknirinn við hann: „Eina meðalið sem við gætum gefið henni er dálítið af góðu fréttunum þínum. Þetta er dásamlegt lyf sem þú hefur.“

Myndin Jakob lygari byggir á skáldsögu eftir Jurek Becker og er þetta í annað sinn sem kvikmynd hefur verið gerð eftir þeirri sögu. Áður höfðu A-Þjóðverjar gert kvikmyndina Jakob, der Lügner (1974) í leikstjórn Franks Beyer. Hefur hún yfirleitt hlotið betri dóma en sú mynd sem hér er til umsagnar, sem er þó að mínu mati mjög áhugaverð og vel gerð. Þýska myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta útlenda myndin á sínum tíma.

Ekki fer hjá því að myndin um Jakob lygara skapi hugrenningatengsl við ítölsku kvikmyndina La vita é bella, sem hlaut Óskarsverðlaunin sem besta útlenda kvikmyndin árið 1997. Þar, eins og hér, er það helför Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni sem myndar baksviðið. Þar, eins og hér, eru Gyðingar innilokaðir og í heljargreipum nasista. Þar, eins og hér, er lygin notuð til að skapa von og hefur verið komist ágætlega að orði þegar sagt er að Guido, aðalpersóna þeirrar myndarinnar, „ljúgi til lífs“. Einnig í þeirri mynd hefur verið bent á ákveðinn skyldleika við þjónsljóðin í Jesajaritinu. Loks eiga myndirnar það sameiginlegt að kímni er snar þáttur í þeim báðum þrátt fyrir hinar dapurlegu aðstæður sem fjallað er um.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Jakob lygari er mjög forvitnileg frá guðfræðilegu sjónarmiði. Aðalpersónu myndarinnar minnir um margt á hinn nafnlausa huggunarspámann Gamla testamentisins (en boðskapur hans er varðveittur í köflum 40-55) í Jesajaritinu. Eins og sá spámaður sem var uppi á tíma herleiðingar Gyðinga í Babýlon um 550 f.Kr., boðar Jakob hinum vonlausu von en grípur til lyginnar í þeirri viðleitni sinni. Vonin sem hann boðar er m.ö.o. byggð á mjög ótraustum grunni. Myndin vekur líka þá guðfræðilegu spurningu hvort og þá hvenær sé réttlætanlegt að ljúga. Myndin er vissulega um grafalvarlegt og sorglegt efni en það breytir því ekki að hún er full af kímni.

Myndin hefur að geyma sannkallaða guðfræði vonarinnar. Útvarpstækið sem ekki var til nema í hugum fólksins stendur, eins og áður sagði, fyrir vonina. Hún hefur í för með sér huggun og húmor. Á einum stað í myndinni segir að hungrið eftir voninni sé verra en hungur í fæðu. Læknirinn í myndinni, sem oft bæði hrósar og hvetur Jakob, segir við hann þegar andspyrnuhreyfining er að myndast innan gettósins: „Vonin er góð og gild en stundum þarf líka að láta verkin tala.“

Myndin vekur líka upp spurningar um hvort og þá hvenær sé réttlætanlegt að ljúga. Í því sambandi kemur sagan í Exodus 1:15-22 af ljósmæðrunum Sífru og Púu fljótt upp í hugann. Þær stóðu upp í einhverjum valdamesta manni heimsins á þeirra dögum, sjálfum faraó Egyptalands, með því að óhlýðnast skipunum hans, en það gátu þær gert með því að segja ósatt. Það vandamál sem ritskýrendur fyrri alda glímdu einkum við í tengslum við þá frásögn var spurningin um viðbrögð ljósmæðranna. Höfðu þær logið og verið launað af Guði fyrir það? Ágústínus kirkjufaðir var meðal þeirra sem glímdi við spurninguna. Hann ræddi þennan kafla í ritgerð sinni um lygina. Niðurstaða hans var sú að það sé aldrei réttlætanlegt að ljúga. Ljósmæðrunum hafi verið launað fyrir velgjörðir sínar gagnvart Ísraelsmönnum, en ekki fyrir að fara með ósannindi. Þessi texti varð sígilt dæmi í allri umræðu miðaldamanna um lygina. Lúther leitaðist við að sýna fram á að í kaflanum væri að finna fyrirmynd um kristilega breytni á ofsóknartímum. Hann réttlætti lygi ljósmæðranna með því að henni hafi verið ætlað að hjálpa en ekki skaða. Af ritskýrendum nútímans má nefna Svíann Göran Larsson. Hann segir að andspænis ljósmæðrunum Sífru og Púu verði honum hugsað til ógleymanlegra orða Nóbelsverðlaunahafans Elie Wiesels um að það sé afskiptaleysið en ekki hatrið sem sé hin algjöra andstæða kærleikans og góðmennskunnar. „Í því samhengi getur eitthvað sem er í eðli sínu svo göfugt sem að segja satt verið merki um sama afskiptaleysi og hin blinda hlýðni, því að það er enginn vafi á því að Sifra og Púa ljúga að faraó í v. 19. En þær gera það í þjónustu lífsins og kærleikans,“ skrifar G. Larsson.

Í kvikmyndinni fékk Jakob að reyna að sannleikurinn getur leitt til dauða en lygin til lífs. „Þetta er dásamlegt lyf sem þú hefur,“ sagði gamli læknirinn í gettóinu við Jakob. Það varð til þess að ímyndunarafl hans fjörgaðist og sögurnar af sigrum Rússa á Þjóðverjum urðu sífellt ævintýralegri. Gamli læknirinn var líklega sá eini sem gerði sér grein fyrir eða a.m.k. grunaði að útvarpstækið væri ekki til staðar í raunveruleikanum. En hann taldi nauðsynlegt að taka þátt í leiknum vegna þess að lygin hafði gjörbreytt lífi íbúanna í gettóinu þannig að sjálfsvíg heyrðu orðið sögunni til.

Áhugavert er að skoða kvikmyndina í ljósi huggunarspámanns þess sem starfaði meðal hinna útlægu Gyðinga á tímum babýlónsku útlegðarinnar (í kringum 550 f.Kr.). Við þekkjum ekki nafn þessa spámanns, en í G.t.-fræðunum er hann yfirleitt nefndur Jesaja annar (Deutero-Jesaja) og er boðskapur hans varðveittur í köflum 40-55 í Jesajaritinu. Er Jakobi enda líkt við Jesaja á einum stað í myndinni: „Hann er að segja það sama og Jesaja sagði: Ísraelsmenn, ég mun leiða ykkur út úr ánauðinni.“ Ekki er um beina tilvitnun að ræða í Jesaja, en margir textar Deutero-Jesaja eru náskyldir þessum og segja efnislega það sama, sbr. Jes 51:11-12: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan … Drottinn fer fer fyrir yður í fararbroddi.“

Kjarnann í boðskap Deutero-Jesaja er að finna í upphafi 40. kaflans þar sem segir: „Huggið, huggið lýð minn, segir Guð yðar. Hughreystið Jerúsalem og boðið henni að áþján hennar sé á enda.“ Hann boðar ítekað að hjálp eða björgun sé á næsta leiti, sbr. 51:5: „Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni“ og 51:14: „Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða.“

Þegar Jakob lætur að lokum lífið í myndinni eftir að hafa sætt miklum pyntingum og neitað að verða við kröfu nasista um að ávarpa þjáningarbræður sínar og -systur og segja þeim að það hafi aldrei verið til neitt útvarp (engin von!) og öll andspyrna sé því tilgangslaus þá er þar margt sem minnir á lýsinguna á hinum líðandi þjóni hjá Deutero-Jesaja, sbr. orð eins og þessi: „Hann var kunnugur þjáningum … vorar þjáningar var það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði … Fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Hann var hrjáður… en lauk ekki upp munni sínum … hann fórnaði sjálfum sér … hann gaf líf sitt í dauðann.“ (Jes 53:3-12.) Frekar en að segja íbúum gettósins að aldrei hefði verið til neitt útvarp og svipta þá þar með allri von lauk Jakob ekki upp munni sínum og kostaði það hann lífið.

Vísanirnar í myndinni til Deutero-Jesaja eru að mínu mati augljósar og það gefur myndinni nýja vídd að skoða þessa athyglisverðu og ágætu kvikmynd í ljósi boðskapar huggunarspámannsins sem forðum taldi kjark í landa sína í útlegðinni í Babýloníu, veitti þeim von og trú á að björgun væri á næsta leiti. Sú björgun kom með Kýrusi Persakonungi sem veitti Gyðingum heimfararleyfi eftir að hafa unnið Babýlon 539 f.Kr. Segja má því að Rússar séu í hlutverki Persa í myndinni. Og í báðum tilfellum kemur hjálpin úr „austri“ (sbr. Jes 41:2).

Niðurlag myndarinnar býður áhorfendum upp á tvenns konar endi af sögumanninum Jakobi sem þá er látinn. Fyrri útgáfan, og sú trúverðugari, er á þá leið að allir íbúar gettósins hafi verið fluttir í útrýmingarbúðir og til þeirra hafi ekki spurst síðan. Hinn endirinn, sem er í betra samræmi við boðskap myndarinnar um mikilvægi vonarinnar, er á þá leið að rússneskar hersveitir hafi stöðvað lestina áður en hún náði á áfangastað og frelsað Gyðingana. Í þessum ævintýralega endi, þar sem bandarísk jasshljómsveit kemur meira að að segja við sögu, má segja að nánast sé um upprisustef að ræða þar sem Gyðingunum var dauði búinn, þeir voru á leið í gasklefana og því ekki ofsagt að rússnesku hermennirnir hafi leyst líf þeirra úr gröfinni. Enn má hér finna hliðstæðu hjá huggunarspámanninum úr babýlónsku útlegðinni er hann segir: „Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð“ (Jes 51:14). Mér finnst þessi tvöfa!ldi endir myndarinnar auka mjög á gildi hennar, áhorfandinn er skilinn eftir með íhugunarefni um þýðingu vonarinnar og spurninguna um hversu máli hún skiptir.

Því hefur oft verið haldið fram að hin svokölluðu þjónsljóð, eða ljóðin um hinn líðandi þjón (Jes 42:1-4; 49:1-6; 50:4-9 og 52:13-53:12) í Jesajaritinu, eigi við um spámanninn sjálfan. Kristnir menn sáu hins vegar snemma í ljóðum þessum boðskap um Krist og túlkuðu ljóðin sem Messísarspádóma. Skýrastar þóttu vísanirnar í fjórða þjónsljóðinu, sem er einmitt það ljóð sem einkum hefur verið vitnað til hér að ofan. Því þarf ekki að koma á óvart að ýmsir drættir í myndinni af persónu Jakobs, eins og hann birtist í kvikmynd þessari, minni á Kristsgervinga í ýmsum öðrum kvikmyndum.

Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 1:15-22; Jes 41:2; Jes 51: 4, 11-12, 14; Jes 53:3-12
Persónur úr trúarritum: Adam, Hinn almáttki, Jesaja, Messías
Sögulegar persónur: Brútus, Churchill, Hitler, Napóleon, Shakespeare, Stalín
Guðfræðistef: Andi, eldmóður, Guð, Guðs traust, Guðs vilji, kraftaverk, sannleikur, sjalom, traust, útvalin þjóð, útvalning, von
Siðfræðistef: að bjarga lífi, agi, andspyrnuhreyfing, dauðarefsing, falsvon, fjöldamorð, gyðingahatur, heiður, henging, loforð, kærleikur, lygi, mannæta, morð, ótti, pyntingar, siðferðilegur kjarkur, sigur, sjálfsásökun, sjálfsmorð, stríð, sæmd, uppljóstrari, uppreisn, þjófnaður, þrælkun
Trúarbrögð: Gyðingdómur, nasismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, sýnagóga
Trúarleg tákn: bænasjal (tallith), Davíðsstjarna (gul), fiðla, kerti, kollahúfa (kippah), kross, átta arma ljósastika
Trúarleg embætti: rabbí, spámaður
Trúarlegt atferli og siðir: bónorð, trúlofun, miðilsfundur, kaddish (bæn syrgjenda)
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: gyðingleg hátíð, hvíldardagur