Kvikmyndir

Jésus de Montréal

Leikstjórn: Denys Arcand
Handrit: Denys Arcand
Leikarar: Lothaire Bluteau, Catherine Wilkening, Johanne-Marie Tremblay, Rémy Girard, Robert Lepage, Gilles Pelletier, Yves Jacques
Upprunaland: Kanada/Frakkland
Ár: 1989
Lengd: 120mín.
Hlutföll: www.imdb.com
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Hópur leikara, sem tekur að sér að uppfæra helgileik um efni guðspjallanna, fer sínar eigin leiðir í túlkuninni og dregur í efa ýmsar viðteknar skoðanir á Jesú. Við það mætir hann andstöðu forystu rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Leikhópurinn verður hins vegar gagntekinn af viðfangsefninu og efni guðpjallanna raungerist í lífi hans, einkum aðalleikarans Daníels sem leikur Jesú Krist.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmynd sem byggir á efni guðspjallanna hefur auðvitað að geyma mörg trúarstef og tilvísanir í Nýja testamentið. Leikhópurinn sem tekur að sér að setja upp helgileikinn um píslarsögu Jesú, að beiðni prests við rómversk-kaþólsku kirkjuna í Montreal í Kanada, dregur upp mynd af Jesú sem samrýmist ekki fyllilega hefðbundnum kirkjulegum skoðunum. Þannig er t.d. gefið í skyn að hann kunni að hafa verið sonur rómversks hermanns og Maríu. Samt sem áður er helgileikurinn að verulegu leyti bygður á guðspjöllunum, einkum píslarsögunni og þeim atburðum sem leiddu til handtöku, pínu og dauða Jesú. Daníel Coulombre fer fyrir hópnum og er upphaflega beðinn að gæða árlega uppfærslu kaþólsku kirkjunnar í Montreal á píslarsögunni nýju lífi. Hann leggst í rannsóknir á bókasafni og síðan semur hópurinn verkið í samvinnu. Athygli vekur að kona á bóksafninu spyr Daníel hvort hann sé að leita að Jesú og segir síðan við hann: Það er hann sem finnur þig. Að sumu leyti má segja að þessi orð gangi eftir. Daníel verður gagntekinn af hlutverki sínu og líf Jesú raungerist á sérstæðan hátt í lífi hans og leikhópsins dagana sem þau vinna að leikverkinu og sýna það. Uppfærslan vekur mikla athygli og áhorfendur streyma að en forysta rómversk-kaþólsku kirkjunnar í borginni ókyrrist og ákveður á endanum að láta stöðva sýninguna.

Dæmi um það hvernig ýmsir atburðir guðspjallanna raungerast í lífi leikhópsins eru nokkur. Daníel byrjar á því að safna að sér hópi leikara, rétt eins og Jesús safnaði um sig lærisveinum (sbr. t.d. Mt 4.18-22, 9.9 + hlst.). Hann velur leikara sem eru á vissan hátt „utangarðs“ og þurfa að vinna fyrir sér með því að leika í auglýsingum (Mireille), við talsetningu kvikmynda (René, Martin), m.a. klámmynda, eða eru atvinnulausir og útdeila mat til fátækra í athvarfi kaþólsku kirkjunnar (Constance). Daníel tekur sig til og „hreinsar musterið“ (sbr. Mt 21.12-13 + hlst.) og veltir um tólum og tækjum þegar menn í auglýsingaiðnaðinum niðurlægja Mireille, leikkonuna í hópnum sem leikur Maríu Magdalenu, með því að biðja hana um að afklæðast svo unnt sé að sjá hvort hún sé hæf til að leika í bjórauglýsingu. Þegar leiksýningin hefur slegið í gegn kemur lögfræðingur að máli við Daníel á efstu hæð í háhýsi þannig að útsýnið yfir borgina er í bakgrunni. Hann smjaðrar fyrir honum og segir hann eiga mikla möguleika sem leikari og að borgin sé hans ef hann vilji leyfa sér að vera umboðsmaður hans. Daníel hafnar tilboði hans. Senan minnir á freistingarsögu Jesú (sbr. Mt 4.1-11 og Lk 4.1-13). Þegar Daníel er tekinn höndum og yfirheyrður vegna skemmdarverkanna á tækjum auglýsingafyrirtækisins má sjá hliðstæður við það þegar Jesús er yfirheyrður af æðstaráðinu og Pílatusi (sbr. Mt 26.57-67, Mt 27.11-26 + hlst.) og dómarinn sendir hann jafnframt til sálfræðings til að fá álit á geðheilsu hans (e.t.v. hliðstæða við það að Pílatus sendir Jesú til Heródesar, sjá Lk 23.6-12). Undir lok myndarinnar slasast Daníel þegar krossinum sem hann hangir á er rutt um koll og hann verður undir honum. Í kjölfar þess flytur hann „ræðu um hina síðustu tíma“ (sbr. Mt 24, Mk 13 og Lk 21) á neðanjarðarbrautarstöð. Loks deyr hann vegna afleiðinga slyssins en „upprisan“ er táknuð með því að líffærin úr honum eru numin brott og gefa öðrum sjón og nýtt líf. Athyglisvert er að hann fær enga hjálp á sjúkrahúsinu sem hann er fyrst fluttur á (Sjúkrahús heilags Markúsar!) vegna anna og öngþveitis og er að lokum fluttur á sjúkrahús gyðinga en þá er það um seinan. Það má síðan sjá hliðstæðu við guðspjöllin í því að það eru konurnar í leikhópnum sem fylgja Daníel í sjúkrabílnum og á sjúkrahúsið alveg eins og það voru konur úr hópi fylgjenda Jesú sem stóðu við kross hans (Mt 27.55 + hlst.). Loks endar myndin á því að áðurnefndur lögfræðingur vill stofna leikhús með leikhópnum til minningar um Daníel og á það að starfa á grundvelli hugmynda hans. Þarna má sjá hliðstæðu við stofnun kirkjunnar en hún verður þó að teljast gagnrýnin á kirkjuna sem stofnun þar sem lögfræðingurinn sem koma að máli við Daníel og vildi verða umboðsmaður hans á þar hlut að máli.

Eins og sjá má er efni guðspjallanna og heimfræsla þess til nútímans viðfangsefni myndarinnar Jésus de Montréal og sem slík er hún athyglisverð hugvekja um líf og starf, dauða og upprisu Jesú Krists, jafnvel þótt einhverjir kunni að sætta sig illa við sumt í þeirri mynd sem leikhópurinn dregur upp af Jesú. Myndin felur einnig í sér gagnrýni á hræsni og yfirborðsmennsku og auglýsingaiðnaðurinn og fjölmiðlaheimurinn fá á baukinn. Rómversk-kaþólska kirkjan og yfirvöld hennar eru einnig gagnrýnd. Mörg þeirra orða Jesú sem leikhópurinn notar í uppfærslu sinni eru sótt í Fjallræðuna (Mt 5-7) og er það táknrænt þar sem sýningin fer fram á hæð með útsýni yfir Montreal í bakgrunni. Þá notar hópurinn einnig töluvert af orðum Jesú þar sem hann gagnrýnir fræðimenn og farísea fyrir hræsni þeirra og hroka. Þegar myndin er skoðuð í heild sinni dregur hún þó fyrst og fremst upp svipmynd af Jesú sem felur í sér þá spurningu hver Jesús er og hvaða gildi kenning hans og líf hans, dauði og upprisa hafa fyrir mennina. Hún gefur því nútímafólki sem lifir á tímum yfirborðsmennsku, auglýsingaskrums og fjölmiðlafárs gott tilefni til að hugleiða hvort líf og boðskapur Jesú Krists eigi erindi inn í þær aðstæður þannig að hann gefi blindum sýn og dauðum líf og nái að umskapa samfélag fólks sem oft einkennist af hræsni og skorti á náungakærleik.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Guðspjöllin, einkum Mt 5.34-37, Mt 5. 40, Mt 5.46, Mt 6.21, Mt 6.25-27, Mt 7.1, Mt 14.22-32, Mt 21.31, Mt 23, 2-12, Mt 23.13, Mt 24.15-25, Mt 24.36. Mt 26.57-27.56 (píslarsagan), Mk 5.25-43, Mk 8.23-26, Mk 8.27-30, Mk 10:23, Lk 14.13, J. 1.29, Jh 11,49-50, Jh 13.34, Lk 24.30, Jh 15.13, Jh 20.11-18, P 5.36-37, P 8.9, Opb 13.18.
Hliðstæður við texta trúarrits: Nokkrar frásagnir guðspjallanna, Mt 4.1-11, Mt 4.18-22, Mt 9.9, Mt 21.12-13, Mt 24, Mt 26.57-67, Mt 27.11-26, Mt 27.55, Lk 23.6-12
Persónur úr trúarritum: Barnabas, Móse, Jesús, Jóhannes, María Magdalena, María mey, Páll, Pétur, Pílatus, Júdas frá Galíleu, Símon töframaður, Stefán, Tíberíus, Þevdas, Satan, Guð
Sögulegar persónur: Jósefus, Pliný, Suetóníus, Tacítus
Guðfræðistef: kenning Jesú, líf og starf Jesú, krossfestingin, upprisan
Siðfræðistef: hræsni, kvenfyrirlitning, ritskoðun, yfirborðsmennska
Trúarbrögð: grísk-rómversk trúarbrögð, gyðingdómur, rómversk-kaþólska kirkjan, vottar Jehova
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kirkjugarður
Trúarleg tákn: helgimyndir, Kristslíkneski, kross, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, signing
Trúarleg reynsla: samsömun við Jesú