15. árgangur 2015, Blogg, Grein, Vefrit

Jesús og Kristur á hvíta tjaldinu

Leikarinn Max von Sydow í hlutverki Jesú í The Greatest Story Ever Told

Jesús Kristur hefur verið vinsælt umfjöllunarefni í kvikmyndum frá árdögum kvikmyndanna. Margar kvikmyndir hafa verið gerðar um líf hans og starf. Þá hafa skírskotanir til sögu hans verið algengar og svokallaðir kristsgervingar hafa tíðum leikið stór hlutverk á hvíta tjaldinu. Í þessum myndum má greina margvísleg áhrif úr samtímanum, sem hafa haft mótandi áhrif á ýmsa þætti, meðal annars á þá mynd sem dregin er upp af persónu og starfi Jesú Krists.

Píslarleikir gegndu um aldir mikilvægu hlutverki í trúarlífi almennings í Evrópu og breiddust með tímanum út um hinn kristna heim. Elsta Jesú-myndin, sem er frá lokum nítjándu aldar, var tileinkuð þekktasta píslarleik Evrópu, píslarleiknum í Oberammergau í Suður-Þýskalandi, en hann er ennþá settur á svið þar á tíu ára fresti. Í píslarleikjahefðinni fundu leikstjórar og framleiðendur kvikmynda um píslarsögu Krists fyrirmyndir að verkum sínum. Þetta er til dæmis sýnilegt í kvikmynd Mel Gibson um Píslarsögu Krists sem hefur mjög ákveðna skírskotun til elstu Jesú-myndanna.

Af öðrum heimi

Elstu kvikmyndirnar um ævi og starf Jesú Krists eru jafn gamlar og kvikmyndin sjálf. Fyrstu myndinar, frá því í lok 19. aldar, byggðu á píslarsögu Krists og urðu eins konar framhald af píslarleikjunum. Það telst til tíðinda að kona, Frakkinn Alice Guy, gerði mynd um líf Jesú árið 1899. Ekki hafa margar konur fetað í hennar fótspor síðan og engin af stórmyndum 20. aldarinnar í þessum flokki er gerð af konu.

From the Manger to the Cross

From the Manger to the Cross

Bandaríska myndin Frá vöggunni til krossins (1913) eftir Sidney Olcott fór nýjar leiðir. Hún fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um ævi og starf Jesú en einskorðast ekki við viðburði dymbilviku eins og fyrri myndir. Konungur konunganna (1927) eftir Cecil B. DeMille, með Henry B. Warner í hlutverki Jesú Krists, þykir skara fram úr á meðal þögulla Jesú-mynda og var af mörgum talin besta myndin sem gerð hafði verið um ævi og starf Jesú Krists, jafnvel löngu eftir að farið var að gera talmyndir í lit. Í túlkun Warners var Jesús æðrulaus, yfirvegaður og fjarrænn, sem af öðrum heimi. Hafði leikur hans mótandi áhrif á túlkun annarra á persónu Jesú á hvíta tjaldinu næstu áratugina og þrátt fyrir tilkomu talmyndanna naut myndin áfram mikilla vinsælda.

Himneskur boðberi kærleikans

Stórkostlegasta saga allra tíma (1965) er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Fulton Ousler frá árinu 1949 en er í öllum meginatriðum trú frásögu guðspjallanna, aðallega Jóhannesarguðspjalls. George Stevens er framleiðandi og leikstjóri myndarinnar og hann samdi handritið ásamt James Lee Barrett. Hún er tekin upp í Utah og Colorado í Bandaríkjanna, en staðsetningin átti sinn þátt í þeirri hörðu gagnrýni sem myndin fékk. Þetta er dýrusta og lengsta myndin í þessum flokki, stórkostlegasta baksviðið og  fjölmennasta hóp stórstirna í Jesú-mynd fram að þessu. Engu að síður þótti afraksturinn ekki í samræmi við það sem lagt var í hana.

Max von Sydow lék Jesús í The Greatest Story Ever Told

Max von Sydow lék Jesús í The Greatest Story Ever Told

Áherslan í myndinni er á guðdóm Jesú. Hann er fullkomlega yfirvegaður, beinlínis stóískur, talandi útgáfa af King James þýðingu Biblíunnar (leikinn af Max von Sydow, með áberandi sterkum sænskum hreim), á meðan tungutak annarra persóna í myndinni er mun hversdagslegra. Ekkert svigrúm er fyrir tilfinningar eins og gleði og ánægju og ekki lítur út fyrir að Jesús þjáist tiltakanlega mikið á krossinum. Jesús er boðberi kærleika, miskunnsemi og frelsis. Samkvæmt túlkun myndarinnar er hér alþjóðlegur Kristur á ferð, hinn guðlegi Kristur, sem er fullkomlega sáttur við messíasarhlutverk sitt og reiðubúinn að uppfylla tilgang lífs síns, það er að deyja.

Reiður og gagnrýninn

Það er augljóst að mynd Pier Paolo Pasolini Matteusarguðspjallið (1964) átti að vera mjög frábrugðin þeim myndum sem gerðar voru í Hollywood um sama efni. Eins og titillinn gefur til kynna er mynd Pasolinis alfarið byggð á frásögu Matteusarguðspjalls, en aðaláherslan er á boðskap Krists fremur en sögu hans. Reiði er áberandi  í fari Krists, sem veldur því að hann er gjarnan harður og strangur og jafnvel fráhrindandi þar sem hann boðar áheyrendum sínum að hann sé ekki kominn til að boða frið heldur reiði og ófrið. Harkan kemur meðal annars fram í samskiptum við móður hans og bræður þegar hann neitar að viðurkenna þau sem fjölskyldu sína.

Jesús með krossinn í Il vangeli della Matteo

Jesús með krossinn í Il vangeli della Matteo

Túlkun Pasolinis á persónu Jesú Krists skapar mynd hans vissulega sérstöðu í hópi annarra Jesú-mynda og átti svo sannarlega eftir að koma mörgum á óvart. Ekki var búist við því að yfirlýstur Marxisti og guðleysingi ætti eftir að hljóta eins víðtæka viðurkenningu fyrir túlkun sína og síðar kom í ljós. Mörgum þótti guðleysinginn draga upp sannverðugri mynd af persónu Jesú Krists og koma betur til skila ögrandi boðskap hans heldur en leikstjórarnir í Hollywood. Er ekki fjarri lagi að mynd Pasolinis hafi fengið jákvæðari umfjöllun einmitt vegna þess óhjákvæmilega samanburðar sem átti sér stað á henni og bandarísku stórmyndunum sem gerðar voru á svipuðum tíma.

Jesús og Kristur í Montreal

Myndin Jesus frá Montreal (1989) eftir kanadíska leikstjórann Denys Arcand endurspeglar þá sannfæringu leikstjórand að gildi kristinnar trúar felist í gagnrýni hennar á gildismat borgarsamfélags nútímans. Jesús frá Montreal  er bæði „hefðbundin“ Jesú-mynd og mynd um persónu sem hefur sterka tilvísun til persónu Jesú Krists, það sem kallað hefur verið kristsgervingur. Myndin sameinar þannig á mjög athyglisverðan hátt þessi tvö form og sem slík er hún einstök í sinni röð og þykir af mörgum marka tímamót, einmitt vegna þess að hún brúar bilið milli Jesú-mynda í hefðbundnum skilningi og kvikmynda um kristsgervinga. Ramma myndarinnar svipar til söngleiksins Jesus Christ Superstar en í báðum myndunum fær hópur leikara það hlutverk að setja píslarsögu Krists á svið.

Leikarinn Daniel bundinn í Jesus de Montreal

Leikarinn Daniel bundinn í Jesus de Montreal

Aðalpersóna myndarinnar er ungur leikari, Daniel Coulombe að nafni, sem tekur að sér að hressa upp á helgileik um pínu og dauða frelsarans sem sýndur hefur verið í rómversk-kaþólskri kirkju í Montreal í rúm þrjátíu ár. Leikarinn safnar saman hópi leikara og hefst handa við að skrifa, leikstýra og leika aðalhlutverkið í mjög breyttri uppfærslu á píslarsögu Krists. Sýningin slær í gegn hjá almenningi og fær lofsamlega dóma í fjölmiðlum, en presturinn, sem upphaflega hafði beðið Daniel að taka verkið að sér, er ekki eins hrifinn. Presturinn leitar álits hjá yfirboðurum sínum sem krefjast þess að sýningum verði hætt. Sérstaða myndarinnar um Jesú frá Montreal snýst öðru fremur um það hvernig leikstjórinn Denys Arcand fléttar saman sögu aðalleikarans og píslarsögu Krists. Í myndinni úir og grúir af skírskotunum til sögu Krists. Þannig verður líf Daniels Coulombes nokkurs konar allegóría (eða líkingasaga) um líf Krists og persóna hans líkist persónu Krists æ meir eftir því sem líður á myndina. Eins og lesa má út úr því sem þegar hefur verið sagt, er myndin Jesús frá Montreal stútfull af gagnrýni, sem beinist annars vegar að kirkjustofnuninni og hins vegar að þjóðfélaginu, þá fyrst og fremst að yfirborðsmennskunni, mannfyrirlitningunni og græðginni í auglýsinga- og fjölmiðlaheiminum.