Kvikmyndir

Journal d’un curé de campagne

Leikstjórn: Robert Bresson
Handrit: Robert Bresson, byggt á skáldsögu eftir Georges Bernanos
Leikarar: Claude Laydu (presturinn ungi), Marie-Monique Arkell (hertogafrúin) Jean Riveyre (hertoginn), André Guibert (prestuinn í Torcy), Nicole Maurey (Louise), Nicole Ladmiral (Chantal), Martine Lemaire (Séraphita), Antoine Balpétré (læknirinn dr. Delbende)
Upprunaland: Frakkland
Ár: 1951
Lengd: 115mín.
Hlutföll: 1:33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Kvikmynd Bresson er byggð á skáldsögu kaþólska rithöfundarins Georges Bernanos sem kom út í París 1936. Bókin var fjórða skáldsaga Bernanos og eins og í fyrri verkum hans er aðalpersóna bókarinnar rómversk-kaþólskur prestur. Sjálfur sótti Bernanos le petit séminaire við Jesúítaskólann Collége Nortre-Dames-des-Champs (1901-1903) og við Collège Saint-Célestin Bourges (1903-1904) en hætti prestnáminu og lauk í staðinn námi í bókmenntum og lögfræði við Sorbonne (1909).

Kvikmyndin segir frá ungum rómversk-kaþólskum presti sem kemur í litla sveitarsókn í norður-Frakklandi á þriðja áratugnum með því undarlega nafni Ambricourt. Hún hefst á einni af mörgum dagbókarfærslum prestsins unga þar sem hann sannfærir bæði samvisku sína og áhorfandann um að hann skrifi af heilindum í dagbókina og áhorfandinn heyrir hann segja: „I don’t think I’m doing anything wrong in writing down daily with absolute frankness, the simlest and most insignificant secrets of life actually lacking any trace of mistery.“ Textinn er samhljóða bókinni sem segir: „I don’t think I am doing wrong in jotting down, day by day, with absolute frankness, the very simple trivial secrets of a very ordinary kind of life.“ (S. 7.)

Síðar í bókinni kemur fram að presturinn ungi í Ambricourt rífur blaðsíður úr dagbókinni, krotar yfir aðrar og iðrast þess að hafa skrifað hana. Dagbókin er þannig samviska hans og skriftarstóll sem er áréttað í skáldsögunni: „I tried to concentrate, to withdraw into myself as though I were examining my conscience before confession.” (S. 7.)

Upphafssena myndarinnar, sem sýnir prestinn koma á reiðhjóli með eigur sínar allar bundnar á bögglaberanum og staðnæmast við krosslaga skilti af Ambricourt, vekur hugsunartengsl við Jesú þegar hann kom ríðandi á asna inn í Jersúsalem. Hafi skerandi hróp múgsins mætt Jesú þá mætir afskiptaleysi og undirförul augnaráð hertogans og hjákonu hans prestinum unga. Lýsinguna er ekki að finna í bókinni þótt ýjað sé að framhjáhaldi hertogans við kennslukonuna síðar í skáldsögunni. Myndskeiðið vekur og hugsunartengsl við sögu guðspjallanna um Jesú Krist sem Orðið “er kom til eignar sinnar og hans eigin menn tóku ekki við honum”. (Jh.1:11.)

Þrátt fyrir einlægni prestsins mætir hann tómlæti safnaðarbarnanna sem jafnvel leggja hann í einelti og spynna gróusögur um hann sem fyllibyttu. Fyrstu kynni hans af safnaðarbörnunum eru þau að gamall ekkill vænir prestinn og kirkjuna um að féflétta hann og kúga peninga út úr honum fyrir jarðarför konu hans. Í ofanálag bætist líkamleg og andleg vanlíðan sem raungerast í magaverkum og félagslegri einangrun. Magakrampinn reynist vera magakrabbamein og metafóra fyrir andlegan dauða þorpsbúanna. Í upphafi skáldsögunnar Journal d’un curé de campagne segir líka: „My parish is bored stiff; no other word for it. Like so many others! We can see them being eaten up by boredom, and we can’t do anything about it. Some day perhaps we shall catch it ourselves ­ become aware of the cancerous growth within us.“ (S. 1.) Og síðar segir: „… but I wonder if man has ever before experienced this contagion, this leprosy of boredom: an aborted despair, a shameful from of despair on some way like the fermentation of a Christianity in decay.“ (S.3.)

Magakrabbinn sem étur upp líffæri prestsins án þess að hann fái nokkuð að gert sýnir að hann er saklaust fórnarlamb. Reyndar varð krabbamein einnig Georges Bernanos aldurtila og öll barátta prestsins endurspeglar þannig mjög hans eigin lífsbaráttu.

Frásögnin og persónusköpun prestsins unga minnir og á Karmelnunnunna Thérése de Lisieux (1873-1897) sem líkt og presturinn ungi lifði meinlætalifnaði og var etinn upp af illkynja æxli og dó eftir miklar þjáningar aðeins 23 ára gömul. Síðustu orð þeirra beggja voru líka: „Allt er náð!“ Þannig er áréttað að náðin opinberist í þjáningunni.

Í lokasenu myndarinnar fær presturinn far með Oliver, mótorhjólastrák og hermanni í leyfi frá frönsku útlendingahersveitinni sem síðar verður vinur hans. Innilegt samband prestsins og Olivers virkar hómóerótískt og minnir á hómóerótískt samband þeirra Fontaine og Jost, 16 ára samfanga hans og Jesúgervinginn, í kvikmynd Bressons A Man Escaped (1956) þar sem fangelsið er notað sem metafóra fyrir líf homma (gay life) sem voru ofsóttir ef ekki fangelsaðir fyrir lífstíl sinn um miðja síðustu öld. Sama hómóerótíska stef má og finna í kvikmynd Bressons Pickpocket (1959) milli læriföðurins og lærlingsins.

Almennt um myndina:
Vart er hægt að segja að mynd Bressons dragi upp heillandi mynd af prestinum unga sem við fyrstu kynni virðist vera einmanna, vinarlaus og ráðþrota innan um fólk fullt af hatri sem jafnvel hæðist af honum og leggur hann í einelti. Myndin er því væntanlega ekki til þess fallin að draga unga menn til prestdóms enda er hún ekki á lista Vatikansins yfir góðar og uppbyggilegar myndir sem kaþólskum er bent á að horfa á.

Í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar sagði franski kvikmyndagagnrýnandinn André Bazin eitthvað á þá leið að kvikmyndaiðnaðurinn (the cinema) hafi alltaf haft áhuga á Guði. Hugleiðingar Bazins minna á að hver kynslóð eignast sína eigin prestímynd og mismunandi trúarsamfélög og kirkjudeildir skapa sér sína eigin ímynd af klerkinum sem ýmist vekur ótta og ógeð líkt og góð hrollvekja eða kveikir von og veitir huggun. Sama ár og Bazin lét hin fleygu orð falla um Guð í kvikmyndum gerði franski stílistinn Robert Bresson singnature-mynd sína: Journal d’un curé de campagne (1951) um hinn deyjandi prest í andlega staðnaðri sveitasókn. Myndin er fyrsta verk hans í þeim cinematatographic stíl sem hann þróaði í kvikmyndum sínum og einkennist m.a. af áhrifamikilli notkun sögumanns (voice over).

Til að árétta hrátt raunsæið í myndinni forðast Bresson tæknibrellur, lýsingar, föðrun og atvinnueikara sem kunna að blekkja með leik sínum og er myndin þannig fyllilega í anda franska ljóðræna raunsæisins. Líkt og Ingmar Bergman áréttar Bresson raunsæismyndina með yfirþyrmandi nærskotum sem hinn óreyndi leiklistanemi Claude Laydu í hutverki prestsins í Ambricourt túlkar enn frekar með sterkri persónusköpun, frábærum leik og látbragði.

Því má velta fyrir sér hvort Bergman hafi ekki fengið hugmyndirnar og stefin sem hann notar í mynd sinni Nattvardsgasterna (1963) að láni frá Bresson. Myndirnar báðar fjalla um hvernig trúarlegar hefðir, venjur og athafnir ýmis konar hafa blindað og tamið jafnt einstaklinga sem samfélög. Þá fjalla myndirnar báðar um trúarbaráttu prests þótt presturinn gefist upp fyrir vantrú sinni hjá Bergman en sigrist á henni í mynd Bressons. Stílbragð beggja leikstjóranna felst í að leikstýra persónum sínum mjög náið, jafnvel hverri augngotu og hinum minnstu hreyfingum. Tilfinningaþrungið samræðuformið liggur undir yfirborði frásagnarinnar í Nattvardsgasterna og knýr kvikmyndina áfram en dagbókarformið er notað til að knýja frásögnina áfram í mynd Bressons. Bergman segir reyndar í samtalsbók Johns Simons að hann hafi séð þessa mynd Bressons fjórum sinnum og gæti vel hugsað sér að sjá hana aftur. (Simon, John: Ingmar Bergman Directs. London 1973, s. 27). Það er athyglisvert og sennilega ekki tilviljun að í báðum myndunum sjáum við konu krjúpa á áhrifamikinn hátt við grátur eina saman í kaldri kirkjuskipinu. Líklega hefur og stórmynd Jean-Pierre Melville Leon Morin prêtre (1961) fengið sitthvað að láni frá mynd Bressons.

Í kvikmynd sinni beitir Bresson myndarvélapennanum ( caméra-stylo) til listrænnar tjáningar þar sem samræðuformið kallast á við upplestur úr dagbókinni. Oft er presturinn í kvikmyndum fulltrúi afturhaldssinnaðs trúarheims sem stillt er upp sem andstæðu við ólíkan menningarheim og fjandsamlegt lítið einangrað og oft trúarlega staðnað samfélag líkt og í mynd Bressons. Áhersla er gjarnan lögð á einmanaleik og félagslega einangrun prestsins, hugarvíl hans og trúarbaráttu án þess þó að draga upp neikvæða ímynd af prestinum.

Það er annars áhugavert hversu margar prestamyndir fjalla um ungan prest sem tekur við sínu fyrsta brauði, stef sem minnir á einfarann og utangarðshetjuna í þöglu vestrunum í leikstjórn John Ford. Munurinn er kannski sá að rómversk-kaþólski presturinn kemur inn í samfélag sem hafnar honum. Þá er athyglisvert að rómversk-kaþólski presturinn er oftast sýndur kynþokkafullur, spengilegur hár og grannur ólíkt lúterska prestinum sem er gjarnan sýndur sem miðaldra falskur fýlupúki og ótrúverðugur trúleysingi. Hugsanlega undirstrikar kynþokkafull ímynd rómversk-kaþólska prestsins í kvikmyndum fórnina sem þessir ungu frambærilegu karlmenn færa Kristi og kirkjunni með skírlífi sínu.

Cinematheque, miðsöð fyrir klassískar kvikmyndir í Bandaríkjunum tók upp á því einhverju sinni að sýna Taxi Driver og Journal d’un curé de campagne sama dag. Myndirnar báðar fjalla um hetjur í tilvistarkreppu út frá ólíkum forsendum. Harmrænu hetjurnar báðar hrærast í og einangrast frá fjandsamlegu umhverfi og mannlífi sem sýnir þeim andúð, Claude Laylu í hlutverki einmana sveitaprests sem tapar líkamanum en finnur náðina og Robert DeNiro í hlutverki ógæfusömu andhetjunnar sem glatar sál sinni í hrunadansi New York borgar. Báðir eru þeir þó einmana og ráðvilltir ungir karlmenn í tilvistarkreppu. Samnefnari beggja myndanna líkt og næstu mynda Bresson, A Man Escaped (1956) og The Trial of Joan of Arc (1962) er umfjöllun um einstaklinga fjötraða af umhverfi sínu. Í kvikmynd sinni Journal d’un curé de campagne, sem var fjórða mynd Bresson, afbyggir hann hinn gamla heim markvisst, einkum hinn staðnaða trúarheim hlutgerðan í Ambricourt með því að sýna fram á merkingarleysi allskonar athafna, trúarlegra og veraldlegra, en ekki síður með því að sýna unga prestinn fullan þjáninga sem hinn líðandi þjón með vísun í Jesú sem harmkvælamann.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Almennt þykir mynd Bresson vera meistaraverk, t.a.m. sagði Tarkovsky að af öllum kvikmyndum væri Journal d’un curé de campagne sú sem hann þætti mest vænt um og Truffaut sagði eitt sinn að kvikmyndir Bresson minntu meir á málverk en ljósmyndir. Kvikmyndin myndar á sjónrænan og táknrænan hátt fullkominn hring og hefst með táknrænu myndskoti af krosslaga vegskilti Ambricourt sem tákngervings trúarlegrar hrörnunar. Myndin endar hins vegar á nærmynd af krossi sem tákngerving hins raungerða veruleika þjáningar og vonar, sem fyllir út myndramman líkt og vegskiltið í upphafi myndarinnar.

Starfsbróðir hans og yfirmaður er presturinn af Torcy, sem leikinn er af sálfræðingnum Armand Guilbert, sem sögusagnir eru um að hafi verið sálfræðingur Bressons. Huggunarboðskapur mentorsins, sem er í raun lítt hughreystandi, er á þá leið að prestar séu ekki elskaðir af söfnuði sínum heldur sé þeim bara sýnd virðing og meginmáli skipti að halda öllu í röð og reglu. Í skáldsögunni segir ungi presturinn um starfsbróður sinn: „I went to see the Curé de Torcy yesterday, He´s a good priest, very efficient, but I usually find him somewhat uninspiring, for he comes of well-to-do peasant stock, knows the value of money, and always manages to impress me with his wordly experience.“ (S. 8.)

Fjandmenn prestsins eru persónugerðir í stúlkubarninu og tálkvendinu Seraphita Dumouchel. Eftir að Serphita atast í prestinum og segir hversu fögur augu hans séu og hleypur með því sama út úr kirkjunni til krakkaormanna sem liggja á hleri utan kirkjudyranna, skrifar presturinn um hana í dagbókina: „She has a trick of deliberately lifting up her skirt to fasten the sholeace which serves as her garter.” (S.28.) Þegar presturinn ungi verður þess áskynja að krakkarnir eru að abbast upp á hann vitnar hann í orð Jesú á krossinum og segir í skáldsögunni: „Our Lord saw them from the Cross. Forgive them for they kow not what they do.“ (S. 29.)

Ekki misbjóða þó allir krakkarnir hann eða særa og leggja í einelti því í bókinni finnur hann huggun hjá uppáhaldsnemanda sínum, stráknum Sylvestre Galuchet. Á einum stað segir um samskipti þeirra: „I felt that in his quiet attentive eyes I culd read the sympathy I craved. My arms closed round him for an instant, and I sobbed with my head on his shoulder, foolishly.” (S. 88.) Hinn misskildi prestur finnur huggun hjá smælingjanum sem skilur sakleysi hans og einlægni. Í mynd sinni kýs Bresson þó að sleppa þessum áhrifamiklu lýsingum í því augnarmiði að undirstrika einangrun prestsins.

Bresson túlkar og persónu kennslukonunnar Miss Louise sem hjákonu hertogans og tálkvendi. Hún sendir prestinum nafnlaust bænarbréf sem hvetur hann til þess að fara burt úr sókninni. Í bókinni kemur hins vegar fram að það sé Mme Pégriot, sem skrifaði bréfið. (S.102.)

Vendipunktur myndarinnar er samtal prestsins við hertogaynjuna sem er kvalin af sársauka og biturleika vegna sonarmissirsins sem nær hámarki þegar hún bugast þrátt fyrir að hafa ögrað bæði Guði og prestinum.

Við verðum þess fljótt áskynja að litla þorpið Ambricourt er allegória fyrir guðlausan og gróteskan heim samfélags vanheilagra og presturinn metafóra fyrir Jesú Krist sem hinn líðandi þjónn. Líkt og frelsarinn er presturinn ungi niðurlægður, hæddur og smánaður allt í gegnum myndina en um leið eru þeir fullir náðar og sannleika og jafnvel barnslegri einlægni.

Dagbókarformið er notað til að einblína á ólgandi persónu Claudes Laydus, túlka tilfinningar prestsins unga og andlega trúarbaráttu hans frekar en hans daglega amstur. Stílbragðið vekur þannig hugsunartengsl við Jesaja 53:7: „Hann var hrjáður, en lítillætti sig og lauk eigi upp muni sínum, eins og lamb sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann var hann hrifinn burt af landi lifenda og hann lauk eigi upp munni sínum.“

Meginspenna myndarinnar varðar tilvistarkreppu og trúarbaráttu prestsins í Ambricourt sem hann skráir samviskulega í dagbókina og túlka hugrenningar hans og angist. Sá var og tilgangur Bresson þó persónulega finnist mér hann víkji helst til mikið frá bókinni. Þannig sleppir eða styttir Bresson áhrifamiklum trúarlegum samtölum prestsins við aðrar persónur, einkum við starfsfélaga sinn, prestinn í Torcy. Þá er skáldsaga Bernanos hárbeitt siðfræðistef og þjóðfélagsádeila um stéttarskiptingu í Frakklandi fjórða áratugarins sem hverfur inn í baksvið myndarinnar og verður aðeins hjáróma rödd. Til að mynda kemur fram í skáldsögunni að presturinn í Torcy komi frá auðugri fjölskyldu en hann sjálfur frá mikilli fátækt.

Sjónræn og áhrifamikil tengsl myndast milli áhorfandans og andlegu baráttu prestsins unga sem undirstrikuð er með „voice over“ og nærmyndum. Í samtali prestsins unga við yfirmann sinn, prestinn í Torcy, er dæmi um áhrifamikla notkun „voice over“ til að tjá samvisku prestsins. Þannig er sýnd nærmynd af andliti prestsins unga þar sem hann situr undir ræðu prestins í Torcy sem er stoltur og skilningslítill á þjáningar unga prestsins. Hann á það ráð helst að presturinn ungi haldi röð og reglu í öllu sem hann aðhefst. Rödd yfirmannsins er klippt út og við sjáum gamla prestinn gráhærða aðeins muldra áfram en heyrum ekki í honum heldur aðeins í rödd Claude sem þá eru hugrenningar hans og samviska í dagbókaformi. Hún heyrist segja eitthvað á þá leið að hann sé fangi heilagrar þjáningar. Presturinn í Ambricourt gerir sér nú fulla grein fyrir hlutverki sínu og tár byrja að renna niður andlit hans. Hlutverk hans var sem sagt að þjást eins og frelsarinn hafði gert í grasgarðinum við Olíufjallið. Vegna magarkvilla neitar hann sér um aðra fæðu en rauðvín og brauð sem vekur hugsunartengsl við síðustu kvöldmáltíðina og orð Jesú að hann sé brauð lífsins (Jóh. 14:47).

Bresson kýs að draga upp mjög áhrifaríka ef ekki um of yfirþyrmandi mynd af prestinum unga sem fórnarlambi. Þannig áréttar Bresson að meginþema myndarinnar sé þjáningin sem heilög gjöf Guðs og einungis fyrir þjáninguna öðlist maðurinn náð hans og endurlausn í Jesú Kristi.

Í skáldsögunni er til að mynda sagt að hann búi í þægilegu prestasetri („I’m living in a most comfortable presbytery, the best house in the neighbourhood next to the chateau …“ (S.25.)) en í myndinni húkir hann hins vegar í ísköldu herbergiskytru. Í skáldsögunni er honum tilkynnt að bærinn hafi samþykkt að láta grafa brunn (s.21) en ekki að honum sé sagt að bærinn ætli að setja rafmagn á húsið eftir þrjá til fjóra mánuði eins og kemur fram í myndinni. Presturinn í Ambricourt var því hvorki vatns- né rafmagnslaus í bók Bernanos. Í skáldsögunni hefur presturinn ungi og þjónustukonu, konu umsjónarmanns herrasetursins en M. Pégriot kemur ekki fyrir í myndinni frekar en maður hennar og margar aðrar persónur skáldsögunnar.

Andspænis örmagna prestinum er hin masókíska og djöfullega Chantel sem er Júdas píslasögunnar og engill í sauðargæru. Hún virðist vera eina manneskjan sem sækir kirkju en notar tækifærið til að lauma óundirrituðu bréfi á prestinn sem hvetur hann eða jafnvel hótar honum illu ef hann ekki fari burt úr sókninni, líklega til að hún geti áfram táldregið húsbónda sinn hertogann. Hún liggur á gæjum og njósnar um prestinn og jafnvel lýgur upp á hann sakir í samskiptum hans við hertogaynjuna móður hennar sem hún virðist hata líkt og hún hatar kennslukonuna. Presturinn ungi sem hún virðist og fyrirlíta segir við hana í veikleika sínum í lok myndarinnar: „Þú hatar sjálfa þig.“ Hún svarar fyrir sig í öðru myndskeiði með játningunni: „Ég bölva sjálfri mér ef ég vil.” („I damn myself if I want.“)

Iðrandi syndarinn persónugerist hins vegar í stúlkubarninu Seraphita sem kemur að prestinum illa leiknum og hálf dauðum í lok myndarinnar með skál af vatni og þerrar andlit hans en það vekur hugsunartengsl við Maríu Magdalenu, tálkvendið sem iðraðist. Fyrr í myndinni höfðum við séð hana atast í prestinum og hafa hann að spotti.

Rödd samvisku unga prestsins í dagbókarforminu yfirtekur og rödd hertogaynjunnar sem heyrist muldra. Birturleiki hertogarynjunnar hefur eyðilagt líf hennar og lagt fjölskyldulíf hennar í rúst. Dóttirin hatar pabba sinn og hótar sjálfsmorði og mamma hennar vill hana út úr húsinu. Presturinn ungi kemur sem friðarboði inn í þessar ömurlegu aðstæður og segir við hertogaynjuna: „Guð mun brjóta þig“ og biður hana að láta af stolti sínu. Eftir samtalið sýnir hertogaynjan sára iðrun, brotnar saman og segir eitthvað á þá leið: „Ég gæti hafa dáið með þetta hatur í hjarta mínu. Síðan slítur hún af sér hálsmen af syni sínum og kastar á eldinn. Sveitapresturinn ungi bjargar því úr eldinum sem hugsanlega er vísun í að presturinn hafi bjargað hinum látna syni úr hreinsunareldinum og læknað sálu hennar, veitir henni sakramenti iðrunar og sátta um leið og hann vígir hana inn í nýtt líf til Krists og leiðir hana aftur inn í samfélag heilagra. Sömu nótt deyr hin umkomulausa hertogaynja, yfirgefur sína jarðnensku tjaldbúð og gengur inn í himneska tjaldbúð. Líkt og presturinn er hún nú sýnd sem pílagrímur á vegferð sinni til hins himneska föðurlands.

Samskipti þeirra minnir á dæmisöguna um týnda soninn nema hvað nú er það týnda dóttirin sem snýr aftur til síns himneska föðurs og hlýtur þar sína endurreisn. Síðar í myndinni segir presturinn í Ambricourt við hina bitru og hatursfullu dóttur hertogans sem hótað hafði sjálfsvígi að í rauninni hati hún sjálfa sig. Það er umhugsunarvert að leikonan unga, Nicole Ladmiral sem leikur Chantal dóttur hertogans, endaði líf sitt sjö árum síðar með sjálfsvígi aðeins 28 ára gömul.

Hvorki dóttirinn né hertoginn þola sannleikann og kenna prestinum unga um dauða hertogaynjunnar. Hann hröklast því að lokum út úr Ambricourt og deyr einn og yfirgefinn í einhverri holu í París af magakrabba sem reynist engu að síður endurlausn hans, upprisa og frelsi. Endurlausnarstefið er þannig annað meginstef myndarinnar og kallast á við stefið um hinn líðandi þjón persónugerðan í aðkomuprestinum sem húkir upp í herbergi sínu í nístingskulda, afskræmdur af þjáningu og stynur: „Fyrir framan mig er aðeins svartur veggur … Guð hefur yfirgefið mig.“ Það endurspeglast og í Chateau, hertogafrúnni sem presturinn ungi veitir von og sættir við Guð skömmu fyrir andlát hennar, en það bergmálar hann síðan með dauða sínum og síðasta andvarpi: „Tout est grâce.“

Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 53:7 (þjónsljóðið), Lk.15:11-32 (dæmisagan um týnda soninn), píslarsaga Krists
Persónur úr trúarritum: Jesú Kristur
Guðfræðistef: rómversk-kaþólsk trú, aflausn, endurlausn, hjálpræði, trúarlegar efasemdir, tilvistarkreppa, trúfesti í andlegu tómarúmi, guðfræði náðarinnar, miskunn Drottins, synd, syndarjátning, sáttargjörðarþjónusta, kennsluvald kirkjunnar, yfirbót, þjáning og náð
Siðfræðistef: samviska, sjálfsafneitun, sadismi, söknuður, biturleiki, öfund, hatur, félagsleg og trúarleg einangrun, einelti, einmanaleiki, heiðarleiki, heilög þjáning, hómóerótíst samband, sjálfsvíg, ásakanir
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: hvítur messuskrúði, litur gleði og hreinleika, heilagt sakramenti, dagbók, Latneskur kross, skriftarstóll
Trúarleg embætti: rómversk-kaþólskur prestur, skriftarfaðir, skriftarbarn
Trúarlegt atferli og siðir: messa, bæn, skriftir, syndarjátning, altarisganga, prestur kyssir stólu, trúfræðslutími, þjónusta sakramenta
Trúarleg reynsla: bæn, köllun, iðrun og fyrirgefning, píslir, endurlausn, endurreisn