Kvikmyndir

Kapo’

Leikstjórn: Gillo Pontecorvo
Handrit: Gillo Pontecorvo og Franco Solinas
Leikarar: Susan Strasberg, Laurent Terzieff, Emmanuelle Riva, Didi Perego, Gianni Garko, Annabella Besi, Mirjana Dojc, Graziella Galvani, Bruno Scipioni og Mira Dinulovic
Upprunaland: Ítalía, Frakkland og Júgóslavía
Ár: 1960
Lengd: 112mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Aðalpersóna myndarinnar Kapo heitir Edith. Hún er frönsk táningsstúlka sem er svo óheppin að vera Gyðingur og er send í útrýmingarbúðir nasista ásamt foreldrum sínum sem láta þar lífið. Sjálfri tekst henni að forðast þau örlög með því að læknir búðanna miskunnar sig yfir hana og gefur henni föt og nafn nýlátinnar stúlku sem ekki var Gyðingur. Nafn hennar var Nicole. Undir þessu nýja nafni er hún flutt í fangabúðir í Póllandi þar sem hún sætir miklu harðræði. Þar er það vinátta annarrar franskrar stúlku að nafni Therese (Emmanulle Riva) sem færir henni lífsvilja. Vegna útlits síns er Edith valin til að „skemmta” þýskum hermönnum. Smám saman bugar þrældómurinn og stöðugur sultur hana. Hún sljóvgast við að hafa skelfingar fangabúðanna daglega fyrir augum og þegar þýskur eftirlitsmaður lítur hana girndarauga lætur hún að vilja hans í von um að fá mat að launum. Smám saman leiðir ótti hennar við dauðann til þess að hún grípur tækifæri sem henni býðst til að gerast Kapo. En svo voru þeir fangar nefndir sem unnu sem verðir með nasistum í fangabúðunum. Margir þeirra voru sérlega illræmdir. Hún refsar samföngum sínum fyrir meintar yfirsjónir þeirra, eins og ætlast er til af henni.

Dauði náinnar vinkonu hennar fær hana til að hugsa sig um. Þar við bætist að hún verður ástfangin af rússneskum fanga að nafni Sacha og sú ást er endurgoldin. Þar kemur að fangarnir leggja á ráðin um flótta og er Nicole með í ráðum. Henni er ætlað að rjúfa háspennustrauminn af girðingunni. Það sem hún veit ekki er að það er með öllu óhugsandi að hún komist sjálf lifandi frá aflstöðunni sem hún hefur lykil að. Sacha ákveður að segja henni frá hverjir valkostir hennar eru þrátt fyrir að þeir fangar sem leggja á ráðið um flóttann hafi lagt blátt bann við því. Valið sem Nicole stendur frammi fyrir er hvort hún eigi að bjarga sjálfri sér eða fórna sér til þess að bjarga þúsundum samfanga sinna.

Almennt um myndina:
Fyrstu leiknu kvikmyndirnar um helförina voru flestar gerðar í Evrópu og er þessi ein sú elsta. Þrátt fyrir aldur myndarinnar hefur hún elst ótrúlega vel og stenst fyllilega samanburð við flestar ef ekki allar helfararmyndir síðari ára. Í prógrammi sem gefið var út í tilefni af sýningu myndarinnar hér á landi á sínum tíma er myndin kölluð „átakanlegt listaverk, sem fjallar um Gyðingaofsóknir nazistanna og fangabúðaþrælkun á styrjaldarárunum.” Ég er sammála þeirri staðhæfingu að hér sé um listaverk að ræða. Það breytir því ekki að ýmis mjög hrottafengin atriði eru í myndinni. Þannig sjást börn slitin af mæðrum sínum og nakið fólk sést ganga áleiðis til gasklefanna.

Hér er tvímælalaust um að ræða frábært dæmi um ágæti raunsæisstefnunnar í ítalskri kvikmyndagerð, enda er kvikmyndin svo til óaðfinnanleg. Ég hygg að mörgum áhorfanda fari eins og mér að finnast sem hann standi hér nær atburðunum sjálfum en í fjölmörgum yngri helfararmyndum. Að margra mati er hér ekki aðeins um að ræða eina af bestu myndunum um helförina heldur hreinlega eina af bestu myndum kvikmyndasögunnar. Þannig tilgreinir t.d. Jerry Vermilye kvikmyndina í bók sinni um bestu ítölsku myndirnar, Great Italian Films (1994, s. 100-102). Árið 1961 var myndin tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin en beið lægri hlut fyrir Jungfrukällan (Ingmar Bergman: 1960) frá Svíþjóð.

Leikstjórinn Gillo Pontecorvo var ekki afkastamikill kvikmyndagerðarmaður, a.m.k. ekki í samanburði við marga landa sína sem afköstuðu jafnvel tugum kvikmynda á ferli þeirra. Hann gerði aðeins fimm leiknar kvikmyndir í fullri lengd auk fjölda heimildamynda og stuttmynda. Kvikmyndir Pontecorvos þykja hins vegar allar fagmannlega gerðar og vandaðar og eru sumar jafnvel taldar til helstu stórverka kvikmyndasögunnar, einkum þó La battaglia di Algeri (1965).

Svart-hvít kvikmyndataka Alexanders Sukulovics er gullfalleg og tónlist Carlos Rustichellis mjög við hæfi. Leikararnir eru hins vegar ekki aðeins óaðfinnanlegir heldur stórfenglegir í vandmeðförnum hlutverkum sínum. Þrátt fyrir mikla tilfinningarsemi er myndin aldrei væmin og er allt sett fram af mikilli smekkvísi. Susan Strasberg er sérstaklega eftirminnileg í hlutverki Gyðingastúlkunnar Edith sem tekur á sig hlutskipti Nicolar, gullfalleg unglingsstúlka sem auðsýnir einstaka leikhæfileika með túlkun sinni.

Segja má að þar hafi eplið hins vegar ekki fallið langt frá eikinni enda er faðir hennar, Lee Strasberg, einn kunnasti leiklistarkennari tuttugustu aldarinnar, en hann stofnaði „Group Theatre” 1931 og hafði gríðarleg áhrif í gegnum „Actors Studio” en þar varð hann framkvæmdastjóri árið 1950. Hann hafði áhrif á heila kynslóð leikara, allt frá Marlon Brando til Dustin Hoffmans. Sem leikstjóri þótti hann harður í horn að taka. Á eldri árum gerðist hann einnig kvikmyndaleikari og er hann þar sennilega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Gyðingurinn Hymon Roth, mafíuforinginn sem reyndi að tortíma veldi Guðföðurins í The Godfather II (Francis Ford Coppola: 1974). Susan Strasberg vakti snemma athygli fyrir leikhæfileika sína og hlaut hún mikið lof fyrir hlutverk Önnu Frank í leikhúsuppfærslu á dagbók hennar á Broadway nokkrum árum áður en saga hennar var kvikmynduð í frægri Hollywood mynd, The Diary of Anne Frank (George Stevens: 1959).

Bandarískir gagnrýnendur voru haldnir efasemdum um ágæti Kapó. Flestir hafa þeir borið saman leik Strasberg í hlutverki Önnu Frank og þetta hlutverk hennar þar sem hún leikur Gyðingastúlku sem finnur lítt geðslega leið til að komast af. Ýmsum hefur fundist sem að hér hafi hin unga leikkona stigið skref niður á við með að taka þetta hlutverk að sér. (Sbr. J. Vermilye 1994, s. 100.) Susan Strasberg lést snemma árs 1999, rúmlega sextug að aldri.

Myndin byrjar sumarið 1942 þegar nasistar eru teknir að smala Gyðingum saman fyrir nýreistar útrýmingarbúðir sínar. Nicole staldrar þó stutt við í Auschwitz útrýmingarbúðunum enda sjá bjargvættir hennar til þess að hún er send með hópi kvenfanga til annarra þrælkunarbúða víðs fjarri í Austur-Evrópu. Þar er síðan sögusvið myndarinnar að mestu leyti og gerist hún allt fram til þeirrar stundar þegar Rauði herinn nálgast búðirnar undir lok stríðsins, sennilega í kringum árslok 1944.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin hefst á því að Edith er í kennslustund í píanóleik. Á leið heim úr einkatímanum sjáum við hana borða epli og síðan kasta því frá sér þegar hún hefur gengið upp tröppur sem liggja upp á aðra götu. Þau eru ófá dæmin í kvikmyndasögunni þar sem epli er nýtt til að skapa tengsl við paradísarstefið. Mér sýnist augljóst að nákvæmlega það er á ferðinni hér. Píanótíminn stendur fyrir menninguna og hina óspilltu paradísartilveru. Edith hefur ekki fyrr kastað frá sér eplinu þegar hún sér hvar þýskur hermannabíll stendur á götunni og verið er að reka Gyðinga upp í bílinn. Meðal þeirra eru foreldrar hennar.

Skömmu síðar sjáum við hvar hún sjálf er á leið með lest í átt til útrýmingarbúða. Fyrsta kvöldið í búðunum sjáum við hana halda á litlu barni, góðmennskan og umhyggjan skín út úr henni gagnvart börnunum, en sjálf er hún aðeins fjórtán ára þegar þarna er komið sögu. Þegar ungur drengur segist hafa heyrt að drepa eigi öll börnin og gamla fólkið ákveður hún að freista þess að flýja.

Þegar Edith ákveður að flýja út úr barnaskálanum í Auschwitch átti enn eftir að skrá öll börnin þar áður en hægt var að senda þau í gasklefana. Fyrir vikið reynist vinveitta fangalækninum mögulegt að bjarga henni með því að gefa henni klæði og númer nýlátins kvenfanga, Nicole að nafni, nr. 100099, sem send hafði verið í þrælkunarvinnu fyrir þjófnað í heimalandi sínu, hinu hersetna Frakklandi. Kvenfangi nr. 11237, sem vísaði Edith til fangalæknisins eftir að hún villtist inn í skálann hennar, tekur af henni hálsmen með Davíðstjörnunni og segir að hún þurfi ekki lengur á þessu að halda. „Þú ert ekki lengur Gyðingur.“

Í Auschwitz útrýmingarbúðunum býður Gyðingum aðeins dauðinn, jafnvel þótt sumir þeirra séu jafnan valdir úr fyrir tímabundna þrælkunarvinnu. Hlutskipti fanga af öðrum kynþáttum og þjóðernum í fangabúðum nasista er þó litlu skárra enda láta ófáir þeirra lífið í öllu harðræðinu. Lífslíkur dæmdra glæpamanna, sem merktir eru með svörtum þríhyrningi, er þó mestar þar sem nasistarnir treysta þeim yfirleitt umfram aðra fanga og velja þá oftar en ekki í skástu störfin. Pólitískir fangar, sem merktir eru með rauðum þríhyrningi, njóta hins vegar sjaldnast slíks trausts, en fangalæknirinn sem bjargar Edith og breytir henni í Nicole er úr þeim hópi. Samt eru það oftast pólitísku fangarnir sem reynast samföngum sínum best.

Með því að ganga inn í hlutskipti látna þjófsins frá Frakklandi tekst Edith að villa um fyrir bæði fangavörðunum og samföngum sínum, enda er hún send samdægurs til annarra þrælkunarbúða víðsfjarri Auschwitz.

Utan Nicole er enginn fanganna í nýju þrælkunarbúðunum Gyðingur. Samt grunar Theresu, sem tekið hafði þátt í frönsku andspyrnuhreyfingunni og er merkt sem pólitískur fangi, að hún sé Gyðingur því að hún veit að sumum Gyðingum hafði tekist að villa á sér heimildir með því að taka á sig hlutskipta fanga af öðrum kynþætti. Þótt Nicole sé merkt sem dæmdur glæpamaður lítur hún aðeins út sem góðhjartaður unglingur. Þegar hún gefur einum sársoltnum samfanga sínum af súpu sinni, segir Theresa vingjarnlega við hana: „Ég sé að þrátt fyrir svarta þríhyrninginn ert þú góð stúlka. Þú ert Gyðingur ekki satt?“ Af augnaráði Nicolar sést eitt andartak að henni er nokkuð brugðið, en samt tekst henni að segja með ákveðni: „Nei, ég er ekki Gyðingur.“

Jólin eru haldin hátíðleg í þrælkunarbúðunum og er stórt jólatré í miðjum búðunum, en þá er Nicole orðin kynlífsþræll SS fangavarðanna. Á jólunum sést hún spila á spil við einn SS-mannanna, Karl að nafni. Hún spyr hann hvað honum sé mikilvægt og hann svarar: „Landið mitt er mér mikilvægt.” Þegar hún spyr hann hvað hann mundi gera ef Þjóðverjar tapi stríðinu er homum greinilega brugðið og svarar því til að það sé óhugsandi að það muni gerast.

Þegar fangalæknirinn hafði umbreytt Edith í Nicole sagði hann ákveðinn við hana: „Við verðum að lifa, Nicole, og hugsa um ekkert annað. Bara lifa. Það er allt og sumt.“ Theresa reynist Nicole alla tíð vel, jafnvel þótt hún bregðist trausti hennar og steli jafnvel heitri kartöflu frá henni. Hún segir í eitt skipti við Nicole: „Það er eitt sem þeir geta ekki tekið frá okkur og það er viljinn, sjálfsvirðing okkar. Ég er viss um það.“ Samt reynist miskunnarleysið Theresu ofviða þegar á líður og fremur hún að lokum sjálfsvíg með því að hlaupa á háspennugaddavírana umhverfis þrælkunarbúðirnar. Vegna málakunnáttu sinnar hafði hún verið valin sem túlkur en við eina aftökuna fékk hún taugaáfall og náði ekki að þýða allt sem SS foringinn þrumaði yfir föngunum við það tækifæri. Fyrir vikið var hún send í langvarandi einangrun og svipt hálfu fæði næstu þrjá mánuði eftir það. Þetta reyndist henni að lokum ofviða.

Nicole verður brátt sama um flest annað en eigin velferð og er hún tilbúin til að fórna svo til hverju sem er til að öðlast betra hlutskipti í þrælkunarbúðunum, jafnvel þótt hún þurfi að sofa hjá fangavörðunum og ganga til liðs við hina illræmdu Kapó liða sem eftirlit hafa með samföngum sínum og látnir eru berja þá áfram með kylfum og öðrum bareflum. Aðeins útvaldir fangar úr röðum dæmdra glæpamanna fá tækifæri til að gegna slíkri stöðu.

Þegar hópur rússneskra herfanga kemur í þrælkunarbúðirnar eru þeir settir til að gera varnarvirki til nota fyrir þýskar hersveitir á undanhaldi. Endalokin virðast yfirvofandi fyrir Þjóðverja, en það eykur aðeins á hörku gæslumannanna. Sascha, einn rússnsku fanganna, er dæmdur fyrir smávægilega yfirsjón til að standa í sömu sporum heila nótt fast við gaddavírsgirðinguna kringum fangabúðirnar, þar sem strengirnir eru hlaðnir háspenntu rafmagni og banvænt að snerta þá. Ef hann hins vegar stígur eitt skref frá girðingunni dynur á honum vélbyssskothríð frá næsta varðturni. Nicole hefur haft með honum vakandi auga í þessari eldraun og henni til mikils léttis stenst hann raunina.

Það leynir sér ekki að Nicole er orðin ástfangin af sovéska stríðsfanganum Sascha sem hrífst af henni þrátt fyrir að hún skuli vera í hópi hinna illræmdu kapóliða.

Brátt taka rússnesku fangarnir að skipuleggja flóttatilraun. Þeim er ljóst að eigi það að vera mögulegt verði þeir að slökkva á háspennulínunni. Breti úr röðum fanganna þekkir til aðstæðna og veit að ekki er hægt að komast inn í aflstöðina til að slökkva á háspennulínunni þar sem stöðin er læst.

Samband Nicole og Sascha er nú orðin svo náið að hún trúin honum fyrir stærsta leyndarmáli sínu, því að hún sé Gyðingur.

Sascha fær hana í lið með sér og sovéskum samföngum sínum til að skipuleggja flótta, en hún ein getur hugsanlega slökkt á háspennulínunum. Brátt rennur þó upp fyrir sovésku föngunum að hún muni ekki komast lífs af frá því verki þar sem aflstöðin er við hliðina á varðstöðinni og um leið og háspennustraumurinn er rofinn muni aðvörunarkerfið fara í gang. Sascha bregst ókvæða við þessum fréttum, bendir á að Nicole sé aðeins sextán ára, hún viti ekkert um þetta og hafi þjást mikið. „Viltu láta drepa okkur alla?” spyrja þeir á móti og banna Sascha að upplýsa Nicole um það. Henni er ætlað að fórna lífi sínu fyrir alla hina fangana.

Einn fanganna viðurkennir að það sé grimmilegt að grípa til svona ráða en í þessu tilfelli sé það nauðsynlegt. Það sé jafnvel rétt að drepa einn til að bjarga mörgum. Sascha á greinilega í mikilli innri baráttu og segir: „Við erum að drepa hana, þú veist það?” Viðmælandi hans neitar því. „Ekki við,” segir hann.

Svo fer að Sascha segir Nicole hver örlög hún muni hljóta ef hún verði við beiðninni um að rjúfa háspennustrauminn. „Ég verð samt að biðja þig að gera það … Líf allra veltur á þér,” segir hann. Hún gengur á brott án þess að gefa til kynna hvað hún muni gera.

Hún gengur til Karls og spyr hann hvað hann ætli að gera nú þegar tap Þjóðverja er yfirvofandi. Hann segir að lífið sé ekki það allra mikilvægasta. Nicole játar því og hefur e.t.v. á þeirri stundu gert upp hug sinn. Hún horfir síðan til himins sorgmæddum augum og í gegnum gaddavírsgirðinguna út til frelsisins áður en hún gengur að aflstöðinni til að rjúfa háspennustrauminn.

Sírenur fara þegar í stað í gang og mikil skothríð upphefst í búðunum. Fjöldi fanga sleppur á flótta en Nicole lætur lífið. Einn fanganna gerir hins vegar enga tilraun til að flýja. Það er hinn rússneski ástvinur hennar, Sascha.

Nicole deyr síðan í örmum SS fangavarðarins Karls, sem ávallt hafði reynst henni vinsamlegur og trúði henni m.a. fyrir því að hann gæti ekki afborið lengur vistina í þrælkunarbúðunum og vildi miklu fremur bjóða sig fram á vígvöllinn á Austurvígsstöðvunum. Þar sem hún liggur í örmum hans stynur hún upp að þau hafi bæði verið svikin. Síðan biður hún hann um að taka af merki þýska hersins af jakka hennar, örninn með klærnar í hakakrossinum, og gerir hann það. Að lokum fer hún með gyðinglega bæn án þess að hann segi neitt en hann heldur henni samt allan tíman í örmum sér.

Bænin sem hún fer með er þekktasta bæn gyðingdóms, sú bæn sem heittrúaðir Gyðingar fara með á hverjum degi. Hún fer með bænina á hebresku:

„Heyr Ísrael! Drottin er vor Guð, hann einn er Drottinn!” (5M 6:4).

Síðan bætir hún við á móðurmáli sínu:

„Drottinn, Drottinn minn, þú sem brýtur hlekki þrælanna.”

Á dauðastundinni samsamar Edith (Nicole) sig þannig rækilega með hinni gyðinglegu trú og lofar Drottin fyrir að bjarga hinum þrælkuðu úr ánauð. Hún hafði stöðugt leynt því og neitað að hún væri Gyðingur en nú flytur hún Drottni sínum þekktustu trúarjátningu hinnar gyðinglegu trúar og í þeim orðum sem hún bætir sjálf við þá játningu er sannarlega um Exodus-stef að ræða. (Með Exodus-stefi er yfirleitt átt við meginstef 2. Mósebókar (Exodus) það er björgun þræla úr ánauð.)

Edith (Nicole) gengur vísvitandi í dauðann til þess að bjarga þúsundum samfanga sinna. Sú fórn hennar minnir vissulega á fórnardauða Jesú Krists en líklega væri fullmikið að tala um hana sem Kristsgerving fyrir það. Ekki er um upprisu hennar að ræða nema þá í hugum áhorfenda. Þar fær hún a.m.k. uppreisn æru!

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 5M 6:4
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M
Sögulegar persónur: Hitler
Guðfræðistef: exodus, von, fórn
Siðfræðistef: stríð, helförin, manndráp, ofbeldi, ótti, niðurlæging, nauðgun, kynlífsþrælkun, svik, ósigur, skemmdarverk, flótti, þrælkunarbúðir, dauðarefsing, aftaka, ást, traust, hatur, fyrirlitning, sjálfsvíg, fjöldamorð, kynþáttahatur, þjófnaður, hefnd
Trúarbrögð: gyðingdómur, nazismi
Trúarleg tákn: davíðstjarnan, davíðstjarna í hálsmeni, jólatré, hakakross
Trúarlegt atferli og siðir: maríubæn, gyðingleg bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól