Kvikmyndir

Kavanagh Q.C.: Bearing Witness

Leikstjórn: Peter Smith
Handrit: Edward Canfor-Dumas
Leikarar: John Thaw, Deborah Findley, Joe Roberts, Peter Ashdown, Ann Mitchell, Cliff Parisi, Richard Cordery, Julian Wadham, Tristram Wymark og Soudabeh Neeya
Upprunaland: Bretland
Ár: 1998
Lengd: 76mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0108826
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Þegar Luke Emmott, þrettán ára gamall piltur úr söfnuði Votta Jehóva, er fluttur í skyndi á sjúkrahús vegna alvarlegrar blæðingar, úrskurðar læknirinn umsvifalaust, að blóðgjöf sé nauðsynleg til að unnt verði að bjarga lífi hans. Þar sem Vottar Jehóva hafna hins vegar blóðgjöfum undir öllum kringumstæðum á trúarlegum forsendum, reynist nauðsynlegt að leggja málið strax fyrir dómstóla, enda pilturinn undir lögaldri. Kavanagh lögmaður tekur að sér að tala máli móður piltsins, sem vill allt til þess vinna, að honum verði ekki veitt blóðgjöf, en það á eftir að draga dilk á eftir sér.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Um allan heim hafa fjölmiðlar greint frá fjölda tilfella á liðnum árum, þar sem safnaðarmeðlimir úr trúfélagi Votta Jehóva hafa látist eftir að blóðgjöf, lífsnauðsynlegri að mati lækna, hafði verið hafnað. Til er minningarsíða á netinu um hátt í 100 slíka einstaklinga (http://www.ajwrb.org/victims/index.shtml). Sjálfir hafa Vottar Jehóva birt lofgreinar í tímaritum sínum Vaknið! og Varðturninum um unglinga úr þeirra röðum, sem frekar kusu að deyja en að þiggja blóðgjöf. Þannig er að finna mynd af þremur viðkunnanlegum unglingum, einum pilti og tveim stúlkum, undir fyrirsögninni ‚UNGLINGAR SEM HLÝÐA GUÐI FRAMAR ÖLLU‘ á forsíðu tímaritsins Vaknið! frá október-desember 1994, en þegar greinar þess eru lesnar kemur í ljós, að þau höfðu öll dáið eftir að hafa barist heilshugar gegn því að vera veitt blóðgjöf. Um piltinn, sem var fimmtán ára gamall, segir tímaritið meðal annars: „Með því að hafna blóðgjöfum, sem hefðu hugsanlega getað lengt núverandi líf hans, sýndi Adrian Yeatts að hann var eitt hinna mörgu ungmenna sem hlýða Guði framar öllu.“ (Bls. 8.) Tímaritið vitnar einnig til dómsúrskurðar um tólf ára gamla kanadíska stúlku að nafni Lisa Kosack, en í honum segir: „L. hefur sagt þessum rétti skýrt og blátt áfram að ef reynt verði að gefa henni blóð muni hún berjast af öllum lífs og sálar kröftum gegn blóðgjöfinni. Hún hefur sagt, og ég trúi henni, að hún muni öskra og æpa og berjast um og slíta innrennslistækið úr handleggnum á sér og reyna að eyðileggja blóðið í pokanum yfir rúminu sínu. Ég neita að fella nokkurn þann úrskurð sem myndi verða þess valdandi að þetta barn þyrfti að ganga í gegnum slíka raun.“ (Bls. 14.) Að mati dómstólanna og siðanefndanna, sem fjölluðu um mál ungmennanna þriggja, voru þau öll nægilega þroskuð til að geta hafnað læknismeðferð, sem ekki samrýmdist trúarskoðunum þeirra, jafnvel þótt líf þeirra lægi við.

Í ljósi þess hversu algengt vandamál þessi afstaða Votta Jehóva hefur reynst, kemur ekki á óvart, að það skuli tekið fyrir í sjónvarpsþáttaröð á borð við Kavanagh lögmann, sem oftar en ekki tekur á flóknum lagaflækjum og siðferðilegum vandamálum. Aðstandendur myndarinnar fara ekki heldur leynt með afstöðu sína: Það ber að virða sjónarmið Votta Jehóva jafnvel þótt þeir hafi rangt fyrir sér og líf barna og unglinga sé í húfi.

Það er fyrst og fremst vegna beiðni eins af samstarfsmönnunum, sem mörgum árum áður hafði verið unnusti móðurinnar, Súsönnuh Emmott, að Kavanagh tekur að sér að tala máli hennar, en hann trúir samstarfskonu sinni síðar fyrir því, að málið sé vonlaust og í trássi við alla skynsemi. Hann sannfærist þó fljótlega um einlægni mæðginanna og að það geti haft alvarlegar sálrænar afleiðingar fyrir drenginn verði blóðgjöf þröngvað upp á hann gegn trúarsannfæringu hans. Móðirin færir Kavanagh ennfremur nokkur tímarit og bæklinga, þar sem trúfélagið gerir grein fyrir afstöðu sinni, og virðist hann byggja málflutning sinn á þeim, þegar hann þjarmar að lækninum daginn eftir og spyr hvort hann hafi ekki íhugað aðra læknisfræðilega valkosti en blóðgjöf. Læknirinn mótmælir því með nokkrum þóttasvip og segist byggja álit sitt á þrjátíu ára reynslu. Hann bætir jafnframt við, að það skipti í sjálfu sér ekki máli hvort blóðgjöfin geti haft slæmar sálrænar afleiðingar fyrir drenginn, því að hann sé auðsjáanlega þegar sálrænt séð í sárum. Frú Addis dómari fer þó að ráðum Kavanaghs og heldur á sjúkrahúsið til að ræða við drenginn, sem vitnar orðrétt í Postulasöguna 15:29 og 21:25 til að sýna fram á, að Biblían banni neyslu blóðs. Þegar dómarinn bendir á, að margir kristnir menn leyfi blóðgjafir, svarar drengurinn strax, að þeir geti ekki verið sannkristnir fyrst þeir fari ekki eftir Biblíunni. Hann brestur hins vegar í grát, þegar dómarinn spyr, hvort hann geri sér grein fyrir, að hann geti dáið, fari hann ekki að ráðum læknisins. Eftir að hafa rætt við drenginn og hlýtt á vitnisburð geðlæknis, sem bendir á hversu náinn hann sé móðurinni og undir miklum áhrifum frá henni, gerir dómarinn grein fyrir niðurstöðu sinni. Drengurinn hafi auðsjáanlega ekki náð nægum þroska til að taka sjálfstæða ákvörðun um eigin velferð og því beri að veita honum þá læknismeðferð, sem læknar telji nauðsynlega.

Ritningartextarnir sem Vottar Jehóva vísa í máli sínu til stuðnings þegar þeir tala gegn blóðgjöfum eru fyrst og fremst sóttir í Mósebækurnar og Postulasöguna (I. Mós. 9:4, III. Mós. 3:17, 7:26-27, 17:10-14, Post. 15:20, 29, 21:25). Þeir segja það engu máli skipta þótt ritningartextarnir tali aðeins gegn neyslu blóðs, því að þar sem hægt sé að þiggja næringu í æð, jafngildi blóðgjafir neyslu blóðs. Gagnrýnendur þessara biblíutúlkana segja þær hins vegar á misskilningi byggðar. Í I. Mós. 9:4 sé alls ekki mælt gegn neyslu blóðs heldur kjöts, sem blóðið hafi ekki runnið af, en það þýði, að ekki megi borða dýrin lifandi. Lögmálstextarnir í III. Mósebók banni að vísu neyslu blóðs fórnardýra, en viðurlögin við neyslu blóðs sjálfdauðra dýra hafi aðeins verið bað (III. Mós. 17:15) og heimilt hafi verið að selja útlendingum blóðugt kjöt til neyslu (V. Mós. 14:21). Auk þess skjóti það skökku við, að blóðgjafabannið skuli réttlætt með vísun í fæðuforskriftir lögmálstextanna, því að Vottar Jehóva séu sammála flestum kristnum mönnum um, að þeir séu ekki lengur í gildi, þar sem Jesús Kristur hafi afnumið þá. Vottar Jehóva segja vægi þeirra hins vegar byggja á ályktun postulafundarins í Post. 15:20-29, þar sem kristnum mönnum var boðið að halda sér frá blóði, saurlifnaði, kjöti af köfnuðum dýrum og kjöti sem fórnað hafi verið skurðgoðum. Þessa ályktun hafa kristnir menn einkum túlkað á fjóra vegu og er síðasta túlkunin sú algengasta:

(i) Fæðuforskrift lögmálsins hafi hér verið áréttuð fyrir alla kristna menn. (Vottar Jehóva ganga þó lengra með því að leggja blóðgjafir að jöfnu við neyslu blóðs.)
(ii) Kristnum mönnum beri að halda sér frá hvers kyns blóðsúthellingum eins og manndrápum og morðum.
(iii) Kristnir menn eigi að sniðganga heiðna helgisiði, en á tímum postulanna hafi blóðböð verið stunduð í musterum heiðingjanna, vændiskonur boðið þar þjónustu sína og kjöts fórnardýra og kafnaðra dýra verið neytt.
(iv) Ákvæðið hafi fyrst og fremst varðað samskipti kristinna manna af gyðinglegum og heiðnum uppruna, en til þess að þeir gætu umgengist hverjir aðra, yrðu þeir að sýna siðum þeirra umburðarlyndi og virðingu. Þar sem gyðingar gætu ekki hugsað sér að neyta blóðs, mættu kristnir menn af heiðnum uppruna ekki storka þeim með því að neyta þess í augsýn þeirra. Undir þetta hafi Páll postuli tekið, þegar hann sagðist ekki sjá neitt athugavert við neyslu kjöts, sem fórnað hefði verið skurðgoðum, nema því aðeins að það leiddi „óstyrka“ í trúnni til falls. (Róm. 10:2-20, I. Kor. 8:4-8, 10:25-30.) Auk þess hefði Jesús Kristur sjálfur sagt, að ekkert saurgaði manninn, sem inn í hann færi, heldur það eitt, sem út frá honum kæmi (Mark. 7:15).

Það sem þykir þó skipta mestu máli í þessu sambandi er, að blóðgjafir eru alls ekki það sama og neysla blóðs. Blóðgjafirnar sjálfar eru ekki næring heldur stuðla þær að því, að blóðþeginn geti nærst og haldið lífi. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram til skýringar á því hvers vegna trúfélag Votta Jehóva ólíkt öllum öðrum trúarhópum túlki þessa ritningartexta á svo einstrengingslegan hátt. Ein sú mikilvægasta rekur ástæðu blóðgjafabannsins upphaflega til andstöðu Votta Jehóva við bólusetningar, en hún olli þeim töluverðum vandræðum fram yfir síðari heimsstyrjöld. Bólusetningabannið var réttlætt með sömu ritningartextunum, sem notaðir eru nú á dögum gegn blóðgjöfum, en þegar nauðsynlegt reyndist að taka bólusetningarnar í sátt svo að unnt yrði að senda trúboða milli landa, var áherslan færð á blóðgjafirnar í staðinn.

Frú Addis dómari er bæði alúðleg og sanngjörn við Luke í viðtalinu á sjúkrastofunni, en hún hefði getað gengið lengra í spurningum sínum. Hún hefði t.d. getað bent á, að blóðgjöf til að bjarga lífi eigi ekkert skylt við neyslu blóðs, enda vísi ályktun postulafundarins í Postulasögunni fyrst og fremst til fæðuforskriftar lögmálsins. Í ljósi þess að Vottar Jehóva mega þiggja ónæmisglóbúlín, albúmín og storkuþætti blóðsins, hefði sömuleiðis verið hægt að spyrja hvar Biblían leyfði neyslu þeirra fyrst ritningartextarnir væru túlkaðir svo afdráttarlaust gegn blóðgjöfum. Ef Vottar Jehóva ætli að vera samkvæmir sjálfum sér, hljóti þeir annað hvort að sniðganga blóðið í heild sinni eða taka það allt í sátt. Slíkar spurningar hefðu þó tæpast leyst vandann, því að barnið hefði sennilega aðeins vísað á öldunga trúfélagsins, hefði því orðið svaravant. Auk þess ber að hafa í huga hvers konar mynd meðlimirnir hafa af trúfélaginu, en jafnan er lögð á það áhersla, að það sé skipulag Jehóva Guðs hér á jörðu og undir stjórn hans. Þeir sem á annað borð viðurkenna trúfélagið sem talsmann Guðs, verða óhjákvæmilega að taka alvarlega allan boðskap þess, þar með talið viðvaranir þess við því að blóðgjafir geti leitt til glötunar. Kennivaldið er nefnilega í höndum trúfélagsins sem túlkar Biblíuna fremur en í Biblíunni sjálfri. Þetta kemur meðal annars fram í frásögn tímaritsins Vaknið! af samtali Adrians Yeatts við móður sína, en þar svarar hann henni: „Mamma, það væru slæm skipti að óhlýðnast Guði og lengja lífið um fáein ár núna, og fá svo ekki upprisu og eilíft líf í paradís á jörð vegna óhlýðni minnar – það er nú ekki sérlega gáfulegt!“ (Bls. 5.) Reyndar segir einn af öldungum Votta Jehóva við Luke síðar í myndinni, að Guð elski hann ekkert minna þótt honum hafi verið veitt blóðgjöf með valdi, en engu að síður er ætlast til, að hann berjist gegn henni af öllum mætti. Það kemur hins vegar ekki fram í myndinni, að láti hann undan þrýstingnum og þiggi blóðgjöfina mótþróal!aust, eigi hann á hættu bæði bannfæringu frá trúfélaginu og glötun um alla eilífð samkvæmt trúfræði þess. Það er því vel skiljanlegt, að blóðgjöfin geti reynst lítt fýsilegur kostur fyrir þá, sem taka boðskap trúfélagsins alvarlega og eiga svo til enga nána ættingja eða ástvini utan þess. Þetta skýrir að nokkru leyti hvers vegna siðanefndirnar og dómstólarnir, sem tímaritið Vaknið! vitnaði til, úrskurðuðu, að sjónarmið unglinganna þriggja yrðu virt.

Ekki er ósennilegt að nafn drengsins, Luke, sé sótt til höfundar Postulasögunnar, læknisins Lúkasar, þar sem Vottar Jehóva sækja rök sín gegn blóðgjöfum einkum til hennar. Óhætt er að segja, að aðrar biblíutilvitnanir séu vel valdar í myndinni, því að þær samsvara vel aðstæðum sögupersónanna. Yfirskriftin „Kenn mér að gjöra þinn vilja“, sem blasir við á veggnum bak við öldungana í ríkissalnum, en svo nefnast samkomuhús Votta Jehóva, er sótt í Sálm 143:11. Með því er lögð áhersla á einlægan vilja meðlima trúfélagsins að þóknast Guði og gjöra allt, sem hann hefur boðið þeim. Biblíutúlkanir eru auðvitað ætíð mannaverk, en þar sem trúfélagið leggur áherslu á, að það eitt sé Guði þóknanlegt og njóti leiðsagnar hans, líta meðlimirnir svo á, að biblíutúlkanir þess séu þær einu réttu. Sálmurinn kemur líka við sögu þegar móðirin situr hjá syni sínum við sjúkrabeð hans, en þar les hún hann áfram til enda úr biblíuþýðingu Votta Jehóva, New World Translation: „Veit mér að lifa, [Jehóva], sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns. Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.“ Þessi orð eiga vel við aðstæður drengsins, en sálmurinn er í heild ákall um hjálp til Guðs frá einstaklingi, sem ofsóttur er af óvinum sínum og sér fram á dauða sinn. Þegar dómarinn úrskurðar sjúkrahúsinu í vil og drengnum er gefin blóðgjöf þótt hann berjist um á hæl og hnakka, les móðirin örvæntingafull upp lokavers Sálms 142: „Ég hrópa til þín [Jehóva], ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda. Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari. Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt …“ Þessi orð eiga ekki síður vel við aðstæður mæðginanna beggja, en sé lögð táknræn merking í orðið ‚dýflissa‘, lýsa harmkvælin ofsóttum manni, sem mætt hefur ofurefli og getur aðeins vonað á Guð.

Þar sem drengurinn neitar að una dóminum, flýr hann við fyrsta tækifæri af sjúkrahúsinu og fer á fund öldunga trúfélagsins til að fá skírn, en þeir einir eru skírðir, sem taldir eru hafa öðlast næga þekkingu á kenningum þess og vera heilshugar í trúnni. Móðirin tekur drenginn einnig með sér til fundar við Kavanagh, sem hvetur þau eindregið til að fara aftur á sjúkrahúsið, en því hafna þau umsvifalaust og halda burt. Nokkru síðar fær Kavanagh þær fregnir, að drengurinn hafi látist vegna alvarlegrar blæðingar.

Kostur myndarinnar er ekki aðeins fólginn í áhugaverðu siðfræðilegu viðfangsefni, heldur er hún einnig afskaplega vel leikin í flestum tilvikum. Jákvæð mynd er dregin upp af mæðginunum og trúsystkinum þeirra og þau sýnd sem góðviljað og einlægt fólk, er leggur sig fram við að rækja trú sína. Jafnvel þótt áhorfandinn taki ekki undir trúarskoðanir þeirra, fær hann óhjákvæmilega samúð með þeim. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af föður drengsins, Paul Knight, en helsti veikileiki myndarinnar kristallast einmitt í einsleitri og neikvæðri persónusköpun hans. Faðirinn er sagður hafa verið með öllu áhugalaus um soninn meðan hann lifði, en um leið og hann fréttir af andláti hans nýtir hann tækifærið til að leita hefnda á móðurinni með því að lögsækja hana fyrir manndráp. Jafnvel er gefið í skyn, að hann hafi verið styrktur til þess af æsifréttablaði og hlotið dágóða fúlgu fyrir. Sjálfur hafði faðirinn verið alinn upp í trúfélagi Votta Jehóva og leiddi hann Susönnuh Emmott inn í þ!að á sínum tíma áður en þau gengu í hjónaband. Hann hélt hins vegar fljótlega framhjá henni og yfirgaf hana meðan hún var enn barnshafandi, en fyrir það hafði honum verið vikið úr söfnuðinum.

Vottar Jehóva hafa eigið réttarkerfi innan safnaða sinna til að viðhalda félagslegu taumhaldi og halda þeim hreinum frá óæskilegum áhrifum. Fyrir vikið eiga þeir safnaðarmeðlimir á hættu að verða bannfærðir, sem ekki vilja iðrast gjörða sinna og fara að ráðum öldunganna, en það þýðir, að meðlimir trúfélagsins skera á öll samskipti við þá og heilsa þeim ekki á almannafæri. Á það ekki síst við um ættingja hinna bannfærðu, en í ritum trúfélagsins er lýst hvernig þeir geti fengið þá, sem brotlegir hafa orðið, til að sjá að sér með því að sniðganga þá með þessum hætti. Þess vegna getur það reynst vandkvæðum háð fyrir fráskilda og bannfærða foreldra að viðhalda sambandinu við börn sín, sem alin eru upp innan trúfélagsins.

Lögfræðingur föðurins kemur lítillega inn á þetta í samtali við Kavanagh, þegar hann hefur eftir honum, að móðirin hafi haldið honum í burtu frá syninum. Bannfæringar Votta Jehóva eru hins vegar aldrei útskýrðar í myndinni og lögfræðingurinn er meira að segja látinn segja við samstarfsmann sinn undir lokin, að hann skilji vel hvers vegna móðirin hafi ekki viljað hafa föðurinn nálægt drengnum. Samtal föðurins og Kavanaghs er sérstaklega hvassyrt, en eftir að móðirin hefur verið sýknuð af manndrápsákærunni, gengur hann að lögmanninum og segir hana hafa verðskuldað refsingu. Kavanagh byrstir sig og skammar hann fyrir að hafa ekki sinnt syninum meðan hann var á lífi.

Kavanagh: „Þekktir þú hann? Vissir þú hvernig hann var og hvað hann vildi?“
Paul Knight svarar reiðilega: „Þekktir þú hann eftir tvo daga?“
Kavanagh svarar strax mjög hranalega: „Ég þekkti hann greinilega betur en þú. Hann hefði ekki viljað leggja þetta á móður sína.“
Paul Knight hvæsir á móti: „Hún afvegaleiddi hann og drap hann. Hún og allir sjúku vinir hennar í trúnni.“

Kavanagh sér ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum á manninn og gengur fokvondur í burt.

Það hefði aukið vægi myndarinnar til muna ef handritshöfundurinn hefði gert betri grein fyrir persónu föðurins og áhrifum bannfæringarinnar á samskipti feðganna í stað þess að gera hann að dæmigerðum ‚fráhvarfsmanni frá trúnni‘ eins og þeim er lýst í ritum Votta Jehóva. Auðvitað má gera ráð fyrir, að eitthvert bannfært foreldri geti reynst áhugalaust um barn sitt í svo fjölmennu trúfélagi sem Vottar Jehóva eru (árið 2000 voru trúboðar þeirra hús úr húsi rúmar 6 milljónir og samkomusóknin tæpar 14,9 milljónir). Engu að síður verður persónusköpun föðurins að teljast ósannfærandi, en tilgangurinn hefur án efa verið sá, að árétta á einfaldan og fljótlegan hátt tilgangsleysi málsóknar gegn aðstandendum barna, sem dáið hafa undir þessum kringumstæðum. Því eru takmörk sett hversu miklum upplýsingum er hægt að koma á framfæri í svo stuttum myndum, sem sjónvarpsþættirnir um Kavanagh lögmann eru, þ.e. á rúmum klukkutíma. Þó hefði vel verið hægt að auka umfjöllunina um bannfæringuna á kostnað gamansamrar hliðarsögu í myndinni um náttúrverndarsinna í baráttu fyrir verndun skóglendis, sem ráðstafað hafði verið undir nýja íbúðabyggð.

Þessi hliðarsaga á í raun að vera hliðstæða málaferlanna, sem Kavanagh flækist í, því að í báðum tilfellum nota óvandvirkir lögfræðingar tækifærið til að koma persónulegum höggi á andstæðinga sína, en fyrir vikið tapa þeir báðir málum sínum. Einn helsti andstæðingur Kavanaghs, lögmaðurinn Giles Glazebrook, leggur þannig ofuráherslu á, að samneyti hans við móðurina kunni að hafa verið ósiðlegt, þegar hún fór heim til hans til að færa honum rit Votta Jehóva um blóðgjafir kvöldið áður en mál drengsins var tekið fyrir. Lögfræðingur leiðtoga náttúruverndarsinnanna missir sömuleiðis marks, þegar hann eyðir mestu púðrinu í öryggisvörð, sem komið hafði hranalega fram við hann á byggingarsvæðinu. Þrátt fyrir að hliðarsagan tengist máli Kavanaghs með þessum hætti, hefði alveg mátt sleppa henni og auka hlut föðurins í staðinn.

Enda þótt sjónvarpsmyndin Kavanagh Q.C.: Bearing Witness sé ekki með öllu gallalaus, er hún engu að síður efnislega áhugaverð og vel þess virði að sjá hana. Vonandi verður hún gefin út á sölumyndbandi en ýmsar eldri myndir úr þessari sjónvarpsþáttaröð eru fáanlegar þannig bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sálm. 142:5-7, Sálm. 143:10-12, Post. 15:29, Post. 21:25, „Ef fjallið kemur ekki til Múhameðs …“
Persónur úr trúarritum: Múhameð
Siðfræðistef: Siðfræði lífs og dauða, blóðgjafir, hlýðni, ábyrgð
Trúarbrögð: Vottar Jehóva
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Ríkissalur
Trúarleg tákn: Biblían (New World Translation)
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur, skírn, biblíulestur, fyrirbæn