Leikstjórn: Carlo Lizzani
Handrit: Lucio Battistrada, Andrew Baxter, Adriano Bolzoni, Armando Crispino, Denis Greene og Edward Williams, byggt á sögu eftir Franco Bucceri, Arnold Elias, Renato Izzo og Frank Mills
Leikarar: Lou Castel, Mark Damon, Pier Paolo Pasolini, Barbara Frey, Rossana Krisman, Mirella Maravidi, Franco Citti, Luisa Baratto, Ninetto Davoli, Nino Musco, Carlo Palmucci, Giovanni Ivan Scratuglia og Frank Braña
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1967
Lengd: 102mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Ungur drengur kemst einn lífs af þegar íbúar mexíkansks smábæjar eru strádrepnir og hann lagður í rúst. Farandpredikarahjón bjarga honum þó brátt af vergangi og ættleiða hann, en fyrir vikið vex hann upp með Biblíuna í annarri hendi. Þegar gjafvaxta dóttir hjónanna strýkur svo óvænt að heiman, heldur hann af stað út í villta vestrið í leit að henni og verður áður en varir víðkunnur fyrir skotfimi sína og fyrirbænir fyrir látnum andstæðingum sínum, enda er hann jafnan kallaður Requiescant (latneskt orð sem þýðir: Lát þá hvíla í friði).
Í ljós kemur að dóttirin hefur verið neydd út í vændi af handbendum stórbóndans illræmda James Bello Ferguson, fyrrverandi Suðurríkjaherforingja sem á sínum tíma sölsaði undir sig héraðið þegar hann myrti alla ættingja Requiescants. Svo fer að Requiescant gengur til liðs við mexíkanskan byltingarhóp sem berst fyrir félagslegum réttindum alþýðunnar og vill Ferguson umfram allt feigan.
Almennt um myndina:
Þetta er einn af fjölmörgum spaghettí-vestrum sem teljast bæði pólitískir og trúarlegir og er hann jafnframt einn af þeim allra áhugaverðustu. Það þýðir þó ekki að myndin sé með öllu gallalaus, enda hefur augljóslega ekki miklu verið kostað til við framleiðsluna. Og eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum er ensku talsetningunni víða ábótavant.
Leikstjórinn Carlo Lizzani er einn af farsælari kvikmyndagerðarmönnum Ítalíu og hefur hann skilað af sér u.þ.b. sextíu kvikmyndum á ferli sínum, þar af nokkrum ítarlegum heimildamyndum um ýmsa þekkta ítalska kvikmyndaleikstjóra. Hann gerði hins vegar aðeins tvo spaghettí-vestra og var sá fyrri kvikmyndin The Hills Run Red (1966), sem margir telja með þeim betri. Síðari spaghettí-vestri hans, Kill and Pray, hefur hins vegar orðið eitt helsta tákn pólitískra vestra af vinstri væng stjórnmálanna.
Ýmsir þekktir leikarar og kvikmyndagerðarmenn koma við sögu í myndinni. Kolombíski leikarinn Lou Castel, sem leikur stórskyttuna biblíufróðu Requiescant, hafði áður leikið annað aðalhlutverkið í kommúníska spaghettí-vestranum A Bullet for the General (Damiano Damiani: 1965), nánar til tekið bandaríska launmorðingjann sem átti að myrða mikilvægan mexíkanskan byltingarleiðtoga. Bandaríkjamaðurinn Mark Damon, sem leikur illmennið Ferguson, var þekktur b-myndaleikari á þessum árum og hafði m.a. leikið í Edgar Allan Poe hrollvekjunni The Fall of the House of Usher (Roger Corman: 1960). Castel virkar furðu áhugalaus í hlutverki sínu og lítur raunar allan tímann út fyrir að vera gjörsamlega annars hugar. Damon leikur illmennið Ferguson hins vegar af mikilli sannfæringu og er persónusköpunin með þeim hætti að það er sem myndin fái stundum á sig yfirbragð gotneskra hrollvekja.
Ítalski kvikmyndagerðarmaðurinn og kommúnistinn Pier Paolo Pasolini, sem hafði tveim árum áður gert eina af allra bestu guðspjallamyndunum um Jesúm Krists, Il vangelo secondo Matteo (1965), leikur hér föður Don Juan, rómversk-kaþólskan prest og foringja mexíkanska byltingarhópsins sem berst fyrir félagslegum réttindum alþýðunnar. Pasolini lék í sárafáum kvikmyndum og aðeins í tveim myndum hjá Lizzani að undanskyldum sínum eigin myndum. Sagt er að Pasolini hafi verið svo djúpt snortinn af pólitískum boðskap spaghettí-vestrans A Bullet for the General, sem Castel hafði leikið í, að hann hafi strax samþykkt að leika í þessum, en þó gæti það einnig hafa haft nokkuð að segja að hann gat með þessu gert upp miklar skuldir sínar við leikstjórann Lizzani. Pasolini er ekki skráður fyrir handriti myndarinnar en Lizzani hefur engu að síður sagt að hann hafi í raun skrifað það að hluta. Því hefur verið haldið fram að Pasolini sé einkum ábyrgur fyrir persónusköpun Fergusons í myndinni, sem er þar bæði samkynhneigður og haldinn kvalalosta, en það var hvort tveggja hugðarefni hans eins og sést af mörgum myndum hans, t.d. Salò o le 120 giornate di Sodoma (1975). Einnig er athyglisvert er að ýmsir aukaleikarar spaghettí-vestrans eru kunnir leikarar úr kvikmyndum Pasolinis, t.d. þeir Franco Citti og Ninetto Davoli, en það kann að sýna hversu mikið hann átti í raun í myndinni.
Tónlist Riz Ortolani, sem notar hér dulnefnið Roger Higgins, er nokkuð fín og fylgir kirkjuorgeltónlist jafnan aðalsöguhetjunni Requiescant til að árétta trúarlega stöðu hennar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er enginn skotur á trúarstefum og biblíutilvitnunum í þessum spaghettí-vestra. Stórskyttan Requiescant kann Biblíuna sína vel og vitnar fram og aftur til hennar við ótal tækifæri, m.a. í Síraksbók sem er eitt af apokrýfarritum Gamla testamentisins og stór hluti mótmælenda, einkum þeirra sem eru af kalvínskri guðfræðihefð, viðurkenna ekki sem heilaga ritningu. Síraksbók var hluti íslensku Biblíunnar fram á nítjándu öld, en eftir að enska biblíufélagið tók að styrkja útgáfu hennar hér á landi, hefur hún verið gefin út í sér riti yfir Apokrýfarbækur Gamla testamentisins. Þó stendur til að þessi apokrýfarrit verði gefin aftur út sem hluti íslensku Biblíunnar eins og tíðkast í rómversk-kaþólskum biblíuútgáfum. Athyglisvert er að Requiescant skuli vitna í Síraksbók í myndinni þar sem hann elst upp innan ótilgreindrar mótmælendakirkju, en aðstandendur myndarinnar eru að öllum líkindum flestir ef ekki allir rómversk-kaþólskir. Auk þess hefur hann lært latínu, sem hefur minna vægi meðal mótmælenda en rómversk-kaþólskra, og fer hann með bænir á því tungumáli.
Þegar Requiescant heldur á fund Fergusons til að reyna fá systur sína leysta úr þrældómi vændisins, segir hann mönnum hans að hann sé bróðir hans til að fá áheyrn hjá honum. Ferguson sakar hann þá um lygar en Requiescant réttlætir orð sín á þeirri forsendu að þeir séu í raun bræður í Drottni.
Requiescant er trúaður og flest sem hann gerir er á trúarlegum forsendum. Hann reynir að sættast við alla menn og ræða frekar málin en að útkljá þau með ofbeldi, en hann hikar samt ekki við að verja sig og sína ef þeim er ógnað. Þess vegna falla ófáir í valinn sem reyna að drepa hann, enda stenst enginn honum snúning í skotfimi. Drápin réttlætir hann með tilvitnun í Jes. 45:7 þar sem Drottinn segir: „… ég veiti heill og veld óhamingju“. Kápan frá Aktiv myndbandaútgáfunni í Bretlandi er í raun lýsandi fyrir efni myndarinnar en þar heldur Requiescant á skammbyssu í vinstri hendi og Biblíu með byssukúlu fastri í í þeirri hægri. Það bjargaði nefnilega lífi hans í einum skotbardaganum að hann geymir Biblíuna ávallt sér við hjartastað.
Trúarlegur boðskapur myndarinnar er þó samofinn vinstri sinnuðum stjórnmálaskoðunum sem svo margir ítalskir kvikmyndagerðarmenn aðhylltust á kaldastríðsárunum. Heimsvaldasinnaðir auðmenn Bandaríkjanna eru holdgervingar alls hins illa og er samúðin alfarið með hinum fátæku og undirokuðu, þ.e. bláfátækum smábændunum á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Þannig er málstað þriðja heimsins í raun hampað á kostnað meintra arðræningja hans á Vesturlöndum.
Sjálfur hafnar Ferguson jafnréttri alla manna og segir hvíta kynstofninn eiga að drottna yfir öllum öðrum. Hann segir þrælahald Suðurríkjanna hafa verið réttlátara en jafnréttishugsjón Norðurríkjanna, þar sem Suðurríkjamenn hafi fætt þræla sína og klætt og veitt þeim félagslegt öryggi frá vöggu til grafar en atvinnuöryggið sé ekkert hjá Norðurríkjamönnunum sem greiði blökkumönnum svo lítið að þeir svelti hreinlega í hel. Ferguson gengur meira að segja svo langt að líkja sér við sjálfan Drottin Guð þegar hann reynir að kúga almúgann til hlýðni með orðfæri Jobs: „Ferguson gefur og Ferguson tekur. Skiljið þið hvað felst í þessum orðum?“ Í Jobsbók segir hins vegar: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ (Job. 1:21.)
Eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum er hrottaskapurinn mikill og eru menn drepnir til hægri og vinstri Myndin er jafnframt ein af fjölmörgum þar sem illmennin reynast samkynhneigð og áréttar það siðferðilega brenglun þeirra. (Sjálfur var Pasolini reyndar samkynhneigður en framsetningin er samt ósköp hefðbundin hér.) Ferguson er þó ekki aðeins samkynhneigður heldur fyrirlítur hann allar konur og notar þjónustustúlkur sínar jafnvel sem skotmörk á skotæfingum. Hann segir t.d. við einn af mönnum sínum: „Leyfðu mér að ráðleggja þér svolítið. Gleymdu konum! Þær leyfa karlmönnum ekki að hugsa. … Þær eru asnar, skepnur sem hafa þann eina tilgang að fæða börn. Það var þess vegna sem ég kvæntist.“ Kvenfyrirlitning hans kemur honum hins vegar að lokum í koll, enda snýst eiginkonan gegn honum á örlagastundu.
Mannfyrirlitning illmennanna gegnsýrir í raun samfélagið og er t.d. héraðslæknirinn áhugasamari um fjárhættuspil á bæjarkránni en að sinna sjúku stúlkubarni sem kotbóndi einn biður hann um að vitja. Enginn lögreglustjóri er heldur í bænum, aðeins brúða með lögreglustjörnu í barminum inni í lokuðum skáp, og dómarinn kveður hiklaust upp dauðadóma eftir pöntun þrátt fyrir að hann viti um sakleysi sakborninganna. Requiescant er meira að segja bent á að enga kirkju sé að finna í bænum, sem sýnir aðeins hversu guðlaust samfélagið er orðið, en í dalnum þar sem fólkið hans var strádrepið á sínum tíma er aðeins að finna bein og kirkjurústir.
Spaghettí-vestra sérfræðingurinn Federico de Zigno segir í umfjöllun sinni um myndina í bókinni Western all’Italiana: The Wild, the Sadist and the Outsider að boðskapurinn sé sóttur í frelsunarguðfræði byltingarsinnaðra rómversk-kaþólskra guðfræðinga og presta í Suður- og Mið-Ameríku, sem gagnrýndu þar harðlega kröpp kjör almennings og túlkuðu fagnaðarerindið sem andsvar Guðs við hvers kyns félagslegu óréttlæti sem yrði að vinna bug á hér og nú. Þannig segir de Zigno að persóna rómversk-kaþólska prestsins Don Juan, sem Pier Paolo Pasolini leikur, byggi á suður-ameríska prestinum Camillo Torres, sem varð eins konar frelsishetja meðal vinstrimanna á sjöunda áratugnum fyrir baráttu sína gegn félagslegu misrétti meðal landsmanna sinna.
Það er faðir Don Juan sem hvetur Requiescant áfram í baráttunni gegn illmenninu Ferguson, sem drottnar yfir alþýðunni með harðri hendi og mergsýgur hana. Hann er sannfærður um að það sé skylda sérhvers kristins manns að berjast gegn auðsöfnun og arðráni frá þeim sem minna mega sín og segir að sem prestur verði hann að boða byltingu: Hina dauðu beri að grafa en ekki byssur þeirra! Hann minnir jafnframt Requiescant á að Ferguson sé ekki óvinur hans heldur fólksins og að Ferguson hafi ekki stolið neinum eignum frá honum heldur frá fólkinu öllu.
Framan af er Requiescant fyrst og fremst trúaður og umhyggjusamur bróðir sem hættir lífi sínu til að finna uppeldissystur sína aftur, en þegar hann kynnist því félagslega misrétti sem meðbræður hans búa við, fólkið sem hann er í raun kominn frá, umbreytist hann í byltingarleiðtoga þeirra og frelsishetju. Þegar hann svo fellir Ferguson að lokum, tekur hann áskorun föður Don Juan um að halda baráttunni áfram hvar sem misrétti sé að finna og útbreiða þannig byltinguna um allan heim. Um leið fyllist eyðidalurinn með kirkjurústunum og beinum fórnarlamba Fergusons af fólki, sem árum saman hafði haldið sig í felum af ótta við kúgara þess, en allt er það afkomendur og ættingjar hinna myrtu. Beinunum safnar það saman undir kirkjuklukknahringingu og er sem þau lifni þannig aftur við í afkomendunum og er fjöldi hinna upprisnu mikill (sbr. Es 37:1-14).
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Gamla testamentið, Nýja testamentið, 1M 9:20-21, 1S 17, Jb 1:21, Ok 23:31-35, Jes 45:7, Sr 11:14, Mt 6:19-20, Mt 6:21, 1Kor 4:1, Ef 1:9, Kól 2:2
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 95:4-5, Jh 2:1-11, Es 37:1-14, Jh 10:11, Jh 21:16
Persónur úr trúarritum: Nóa, Davíð, Golíat
Guðfræðistef: fyrirgefning, frelsun, frelsunarguðfræði, trúfesti, náð Guðs, hlýða Guði, kraftaverk
Siðfræðistef: manndráp, vændi, þrælahald, frelsi, samkynhneigð, pyntingar, kvalalosti, réttlæti, félagslegt misrétti, bylting, kapítalismi, útrýming, fjárhættuspil, stríð, stéttakúgun
Trúarbrögð: kristindómur, mótmælendur, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kirkjurústir
Trúarleg tákn: róðukross á vegg, kirkjuklukka, stóla, kross á kirkjuklukku
Trúarleg embætti: prestur, predikari
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, bæn, signun, skírn, lofgjörð
Trúarleg reynsla: iðrun, píslarvætti