Kvikmyndir

Kill Bill: Vol. 1

Leikstjórn: Quentin Tarantino
Handrit: Quentin Tarantino, byggt á sögu eftir hann sjálfan [undir nafninu Q] og Uma Thurman [undir nafninu U]
Leikarar: Uma Thurman, Lucy Liu, Vivica A. Fox, Julie Dreyfus, David Carradine, Daryl Hannah, Sonny Chiba, Michael Madsen, Michael Parks, Chiaki Kuriyama, Chia Hui Liu [undir nafninu Gordon Liu], Jun Kunimura, Kazuki Kitamura, Akaji Maro, Larry Bishop, Michael Bowen og Michael Kuroiwa
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2003
Lengd: 111mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Brúðurin ein kemst lífs af þegar fimm leigumorðingjar mæta í brúðkaup hennar og skjóta alla sem þar eru að finna. Þegar hún vaknar til meðvitundar eftir rúm fjögur ár á sjúkrastofnun og áttar sig á því hvað gerst hefur og sér að hún hefur misst barnið sem hún hafði gengið með, sver hún þess dýran eið að leita leigumorðingjana uppi og drepa þá einn af öðrum, en þar er foringi þeirra síðastur á blaði, barnsfaðir hennar Bill.

Almennt um myndina:
Quentin Tarantino er snillingur! Hann er svo sannarlega kvikmyndagerðarmaður sem ekki aðeins augljóslega elskar listgrein sína heldur kann að gera kvikmyndir að skapi allra einlægra aðdáenda sígildra harðhausa- og sérvitringamynda.

Að þessu sinni sækir Tarantino einkum innblástur í ýmsar Hong Kong bardagamyndir (ekki síst með Bruce Lee) og japanskar samúræjamyndir frá sjötta-, sjöunda- og áttunda áratugnum en söguna kryddar hann með alls kyns vísunum fram og aftur í kvikmyndasöguna. Þannig eru kaflaheitin sótt í sérvitringamyndir á borð við The Blood Spattered Bride (Vicente Aranda: 1972) og tónlistin er mikið til fengin frá spaghettí-vestrum og öðrum evrópskum, bandarískum og asískum spennumyndum frá þessum tíma.

Enda þótt efnið sé engan veginn frumlegt er úrvinnslan svo glæsileg að helstu klisjurnar virka unaðslega ferskar og samtölin eru sem fyrr alveg sér á báti hjá Tarantino. Hann tekur sér góðan tíma til að nostra við formið og er ásýnd myndarinnar í alla staði stórfengleg, ekki síst kvikmyndatakan og tónlistin sem er einstaklega vel valin og hæfa söngtextarnir atburðarrásinni hvarvetna. Sérstaklega áhrifamikil er þó gamla kvikmyndatónlistin, svo sem tónlist Bernards Herrmanns úr hrollvekjunni Twisted Nerve (Roy Boulting: 1968), tónlist Tomoyasu Hotei úr sakamáladramanu Shin jingi naki tatakai (Junji Sakamoto: 2000), tónlist Luis Enríquez Bacalov úr spaghettí-vestranum The Big Showdown (Giancarlo Santi: 1972) og tónlist snillingsins Ennios Morricone úr spaghettí-vestranum Death Rides a Horse (Giulio Petri: 1967). Það er einmitt úr þeim spaghettí-vestra sem tónlistin er fengin sem notuð er í atriðinu þar sem brúðurin mætir O-Ren Ishii og glæpagengi hennar fyrst auglitis til auglitis í Japan, en segja má að það sé hápunktur myndarinnar.

Bardagatriðin eru frábærlega vel útfærð og verður Uma Thurman, sem leikur brúðurina heiftúðugu af mikilli innlifun, að teljast alveg í einstaklega góðu formi. Ofbeldið er að sama skapi svakalegt og fá handleggir, fótleggir og hausar að fjúka í allar áttir með tilheyrandi blóðgusum, en blóðbaðið er reyndar svo ýkt að það er vart hægt að taka það alvarlega. Samkvæmt Internet Movie Data Base eru a.m.k. tvær útgáfur til af myndinni, annars vegar svo nefnd japönsk útgáfa hennar sem sögð er mjög blóðug og hins vegar amerísk útgáfa hennar sem aðlöguð hefur verið að smekk viðkvæmra Bandaríkjamanna. Að öllum líkindum er það blóðuga útgáfa myndarinnar sem sýnd hefur verið í kvikmyndahúsum hérlendis, en ljóst er að hefði myndin verið gerð tuttugu árum fyrr hefði hún örugglega ratað beina leið á bannlista íslenska kvikmyndaeftirlitsins, enda er þar að finna margar mun saklausari kvikmyndir frá þeim árum.

Í raun er hér aðeins um fyrri hluta sögunnar að ræða en framleiðendur myndarinnar tóku þá ákvörðun í samráði við leikstjórann að skipta henni í tvennt vegna lengdar hennar og frumsýna síðari hlutann á nýju ári. Í heild mun myndin vera hátt í fjóra tíma að lengd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hefndin er sígilt stef í kvikmyndum og snýst myndin öll um hana. Strax í myndarbyrjun segir að hefndin sé réttur sem best sé framreiddur kaldur, en það spakmæli er algengt í svona kvikmyndum. Undir lok myndarinnar er jafnframt minnt á að leið hefndarinnar sé aldrei bein lína heldur eins og skógur þar sem hæglega er hægt að villast.

Hefndin í myndinni hefur allt að því trúarlegan tilgang: Hún er friðþæging. Hefnandinn er eins konar parakleitos að hætti gyðinga -­ sá sem leitar réttlætis með því að má út óvininn. Og vel að merkja þá er brúðurin ekki aðeins að leita fullnustu eigin réttar heldur er hún einnig að hefna ófædds barns síns. Blóðið sem flýtur í yfirnáttúrulegum straumum leiðir hugann að fórninni. Það tengist uppgjöri þeirra óuppgerðra saka sem þarna hafa átt sér stað.

Voðaverkið á sér stað í kirkju. Auk brúðarinnar og gestanna er presturinn og eiginkona hans drepin. Sú umgjörð leiðir hugann að hinum guðlega undirtóni myndarinnar. Þegar brúðurin „rís upp“ ­- og hvergi er gefin skynsamleg skýring á því hvers vegna það er -­ má að sama skapi sjá krossmerkið á afar áberandi stað. Vaktmaður á sjúkrahúsinu sem hafði misnotað hana þann tíma er hún var í dáinu er með silfurlitaðan, mjög áberandi, kross um hálsinn. Krossinn er þarna á miðju tjaldinu í flestum þeim skotum sem sýna það er hún raknar við. Sú staðreynd að illmennið skreytti sig með krossinum gefur þó við fyrstu sýn fremur til kynna guðleysi þessarar veraldar heldur en hitt -­ það býr einhver hræsni þarna að baki. Þó veit maður ekki hvernig sagan þróast og þar með heildarmyndin. E.t.v. er krossinn í þessu sambandi ákveðið leiðarstef og leiðir hugann að guðlegri forsjá þrátt fyrir allt.

Ennfremur segir í myndinni að hefndin sanni tilvist Guðs. Þarna er harla hrá guðfræði á ferðinni (svo langt sem liðið er á myndina): Guð er sá sem tryggir réttlæti og veitir illvirkjum makleg málgjöld. Boðskapurinn minnir t.d. á sálm 137 þar sem hið herleidda skáld biður Guð um að refsa fjendum sínum og „slá börnum þeirra við stein“.

Brúðurin virðist sjálf líta á það sem handleiðslu Guðs þegar hún vaknar til lífsins eftir að hafa legið meðvitundarlaus á sjúkrastofnun í rúm fjögur ár. A.m.k. segir hún það vera sönnun fyrir tilvist Guðs að réttlætið nái að lokum fram að ganga og hún fái tækifæri til að hefna sín á öllum þeim sem beittu hana órétti. Þessi viðhorf minna í raun mjög á guðsmynd Edmonds Dantes í skáldsögunni Greifinn af Monte Cristo eftir Alexandré Dumas, sem kvikmynduð hefur verið ótal sinnum, en þar segir frá góðhjörtuðum ungum sjómanni sem handtekinn er fyrir upplognar sakir og varpað í dýflissu kastalans á If eyju til ævilangrar fangelsisvistar. Þegar honum svo tekst að flýja fjórtán árum síðar og verður óvænt vellauðugur maður, tekur hann því svo að Guð hafi reist hann upp frá dauðum til að gefa honum tækifæri til að hefna sín á öllum illgjörðarmönnum hans.

Eins og greifinn af Monte Cristo segist brúðurin vera sneydd allri miskunnsemi, samkennd og fyrirgefningu. Hana skortir því bæði kristnar dygðir og búddhískar sem annars koma nokkuð við sögu í myndinni. Það eina sem hún segist halda eftir sé skynsemin (sem að sjálfsögðu er framreidd með óviðjafnanlegu orðfæri Tarantinos). Greifanum af Monte Cristo reyndist þó að lokum ófært að varpa frá sér allri miskunnsemi, samkennd og fyrirgefingu en hvort það gildir einnig um brúður Tarantinos kemur ekki í ljós fyrr en í síðari hluta myndarinnar sem enn hefur ekki verið frumsýndur.

Athyglisvert er að brúðurin skuli nota ættarnafnið Machiavelli við hjónavígsluna, en lögreglumennirnir, sem mæta á staðinn að blóðbaðinu loknu, segja strax að það hljóti að hafa verið dulnefni. Nafnið vísar án efa til ítalska sagnfræðingsins Niccoló Machiavelli (1469-1527), höfundar ritsins Il principe, sem hélt því fram að í valdatogstreitunni helgaði tilgangurinn meðalið. A.m.k. er ljóst að brúðurin er tilbúin til að gera svo til hvað sem er til að ná fram markmiði sínu.

Sannleikurinn er sagður fólginn í bardagalistinni sem tekin er fram yfir allt annað. Bardagahetjunni ber að bæla með sér allar mannlegar tilfinningar til að geta drepið hvað eina sem standi í vegi fyrir henni, jafnvel Drottinn Guð eða Búddha sjálfan. Sverðsmiðurinn, sem sjálfur hafði löngu áður svarið við nafn Guðs að framleiða ekki fleiri vopn, segir við brúðurina um leið og hann afhendir henni besta sverð sem hann hefur nokkurn tímann hannað, sverð sem hann smíðaði sérstaklega fyrir hana til að geta drepið fyrrum lærisvein hans Bill, að verði Guð nokkurn tímann á vegi hennar verði hann höggvinn en ekki hún.

Svona talsmáti hefur jafnan verið tekin til marks um guðlast en alls óvíst er hvort hin gyðing-kristna guðsmynd hafi endilega legið þar að baki þessum stóryrðum.

Eins og sjá má af ofbeldisatriðunum er myndin í engum tengslum við raunveruleikann og minna a.m.k. sumar sögupersónurnar einna helst á teiknimyndapersónur, svo sem Kaliforníufjallasnákurinn sem Daryl Hannah leikur. Reyndar er hluti myndarinnar í anda japanskra teiknimynda en þar er sagt frá hrottafenginni æsku O-Ren Ishii til að skýra hvers vegna hún gerðist leigumorðingi. Stundum vakna þær hugrenningar hjá áhorfandanum að þetta sé allt saman draumur eða þá að daman sé hreinlega komin til skapara síns og sé að ganga þarna í gegnum eitthvert uppgjör áður en hún heldur endanlega til betri heima. Slík veruleikahopp væru nú ekki einsdæmi í nútímabíómyndum og má þar nefna myndir David Lynch, einnig myndir eins og The Others (Alejandro Amenábar: 2001) og The Sixth Sence (M. Night Shyamalan: 1999). Við verðum að bíða framhaldsins til þess að fá úr því skorið hvort slíkt hafi vakað fyrir Tarantino.

Persónur úr trúarritum: Búddha, Drottinn, Guð
Sögulegar persónur: Niccoló Machiavelli
Guðfræðistef: fyrirgefning, sannleikurinn, tilvist Guðs, hefnd Guðs, að gera vilja Guðs, almætti Guðs, örlög Búddha, örlög látinna, handanveruleikinn, helvíti, miskunnsemi, samúð, parakleitos
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, ofbeldi, kvalarlosti, masókismi, skynsemi, öfund, fyrirlitning, virðing, sjálfsvirðing, stolt, ást, metnaður, vopnaframleiðsla, girnd, valdabarátta, skipulagðir glæpir, kynþáttahatur, ósvífni, hæðni, iðrun, svik, pyntingar, hótun, nauðgun
Trúarbrögð: búddhismi, kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, guðshús
Trúarleg tákn: talnaband, altari, snákur, kross í hálsmeni
Trúarleg embætti: prestur, organisti
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, lófalestur, að sverja við guðsnafn
Trúarleg reynsla: upprisa, brenna í helvíti