Kvikmyndir

Kolya

Leikstjórn: Jan Sverák
Handrit: Zdenek Sverák
Leikarar: Zdenek Sverák, Andrei Chalimon, Libuse Safránková, Ondrej Vetchý
Upprunaland: Tékkland
Ár: 1996
Lengd: 105mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0116790
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Aðalpersóna myndarinnar, Louka, er afbragðstónlistarmaður. Honum hefur frá blautu barnsbeini verið innrætt að ætli hann að ná langt á því sviði, verði hann að hafna öllum öðrum skuldbindingum við lífið, eins og til að mynda þeim að bindast annarri mannveru tilfinningaböndum og stofna til fjölskyldu. Hann firrir sig ábyrgð í þeim efnum með því að koma sér upp fríðri fylkingu ástkvenna sem hann á í lausasambandi við. Í upphafi myndarinnar eru framavonir hans þó að engu orðnar. Bróðir hans flýr til Vestur-Þýskalands og Louka missir fyrir vikið stöðu sína sem fyrsti sellóleikari við tékknesku Fílharmóníuna. Hann verður að láta sér nægja að spila fyrir „lík“, eins og einn vina hans kemst að orði í myndinni. Bróðir hans hefur líka eftirlátið honum þann vanda að bjarga húsi móður þeirra frá ríkisupptöku. Louka verður að koma sér upp aukabúgrein til að kaupa hlut bróður síns í húsinu. Hún er sú að skýra áletranir á legsteinum. Þar vinnur hann á vegum hins framtakssama grafara, Broz. Broz bendir Louka réttilega á að hann gæti komist yfir mun meiri vinnu ef hann ætti bíl, og kann líka ráð til að afla fjár til slíkra kaupa. Hann býður Louka andvirði Trabants fyrir að giftast rússneskri stúlku, Nadezhdu, sem vill á þann hátt krækja sér í tékkneskan þegnrétt. Það er þó ekki vonin um bílinn sem fær Louka til að slá til og taka boðinu, heldur ónýtar þakrennur á húsi móður hans. Þannig verður hún, með sínar eilífu kröfur á soninn sem eftir er, völd að því að hann samþykkir sýndarbrúðkaupið. Louka er því fórnarlamb þeirra beggja, móður sinnar og bróður. Þau fórna honum hvort um sig á altari síngrini sinnar. Það frelsi sem bróðir hans þráir og óbeit móður hans á að deila húsi sínu með öðrum verða honum til ánauðar.

Nadezhda nýtir sér nýfenginn tékkneskan þegnrétt til að flýja til Vestur-Þýskalands. Louka, sem hefur gætt þess svo vandlega að spilla ekki framavonum sínum með barneignum, situr óvænt uppi með fimm ára son hennar, Kolja. Öllum hans fyrri áformum er endanlega kollvarpað, það sem hann uppsker er einmitt það sem hann hafði svo vandlega varast. Þegar hann leitar til móður sinnar og biður hana að gæta Kolja neitar hún á þeim forsendum að drengurinn sé rússneskur og þar með einn af óvinunum. Móðir hans er að eigin sögn ákafur hernámsandstæðingur, en í myndinni verður þó ekki vart við annað áþreifanlegt framlag til andófs gegn hernáminu, en höfnun hennar á drengnum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í tékknesku kvikmyndinni Kolja er 23. sálmur notaður til að ramma inn tvenns konar þema: Ytri og innri ánauð. Hin ytri er ánauð hernuminnar þjóðar (exódusminnið), hin innri sjálfsköpuð ánauð nútímamannsins innan hjarðar þar sem hver og einn er sinn eigin hirðir og helsta hjálpræðið fólgið í því að gera sitt besta til að firra sig óþægindum. Í fyrra tilvikinu er um hliðstæðu að ræða, Tékkar lutu yfirráðum Rússa í 40 ár. Í síðara tilvikinu varpa þeir Sverák-feðgar fram þeirri spurningu hvort sé í raun vænlegra til mannlegrar farsældar, öryggisfíkn nútímamannsins, þar sem hver og einn er sjálfum sér næstur þegar á reynir, eða trúin á forsjón „síns hirðis“, en hann virðist hvort eð er grípa inn í líf manna og kollvarpa öllum þeirra áformum, sama hversu vel þeir hafa reynt að tryggja hag sinn. Þar eru persónurnar í myndinni fulltrúar hins almenna, en ekki einungis fulltrúar vissrar þjóðar í vissum kringumstæðum.

23. sálmur er einn vinsælasti útfararsálmur í Tékklandi og því eðlilega oft á dagskrá hjá þeim sem hafa atvinnu af að spila við slíkar athafnir, eins og Louka og félagar. Táknræn notkun sálmsins í opnunaratriði myndarinnar er tvíþætt. Louka glettist við söngkonuna og tilvonandi ástkonu sína, Klöru, með því að lyfta upp pilsfaldi hennar með sellóboganum, þannig að henni svelgist á textanum. Við næstu útför bíður hún árangurslaust eftir svipuðum glettum og verður fyrir vonbrigðum þegar þær láta á sér standa. Fyrir flytjendur hefur sálmurinn augljóslega enga merkingu. Og þótt landsmenn þeirra kjósi helst að láta syngja hann yfir sér látnum þýðir það ekki að þeim hafi þótt vænlegt að treysta boðskap hans í lifanda lífi. Hann er þó vissulega eina haldreipið þegar að dauðanum kemur, hinni endanlegu uppgjöf mannsviljans sem enginn fær flúið.

Þrisvar er lína úr laginu notuð sem tákn um hvörf í lífi Louka. Í fyrsta skiptið þegar Kolja kemur í veg fyrir að Louka njóti ásta með námsmey sinni og kemur auk þess upp um að Louka hefur, þvert gegn vilja sínum, skreytt glugga með rússneska og tékkneska fánanum á þjóðhátíðardegi, til að koma í veg fyrir frekari fyrirspurnir húsvarðarins um Kolja. Í annað skiptið er Louka á leið til sjúkrahúss til að vitja um gömlu konuna sem annast hafði Kolja áður en hann tók við honum, en þar bíða hans þær fréttir að hún sé látin. Kolja á ekki lengur neinn að nema stjúpföður sem ekki kærir sig um hann – og svo þann eða það, sem yfir manni vakir. Þarna er þó aðeins um ytri hvörf í lífi Louka að ræða, en þau eru undanfari annarra og varanlegri hvarfa, bæði hvað varðar tilfinningar hans og hugarfar.

Næst heyrum við sálminn sunginn af Kolja, sem á í raun allt sitt undir boðskap hans. Sálmurinn er reyndar það fyrsta sem hann lærir á tékknesku, þar sem daglegt líf hans felst í því að fylgja hinum óvænta stjúpföður sínum til þeirrar starfa sinna að spila við útfarir. Drengurinn er að „leika útför“ og það er þarna sem sálmurinn virðist í fyrsta sinn öðlast einhverja merkingu í augum Louka, þótt líklega sé það næsta ómeðvitað. Þar er líka gripið til kaldhæðni fáránlegra andstæðna. Hinum fagra einfaldleika textans, sem kemst svo vel til skila af munni barnsins, er teflt gegn umbúnaði þeim sem drengurinn hefur valið „líkinu“: Svörtum blúndunærbuxum sem ein af ástkonum Louka hefur gleymt heima hjá honum.

Í þriðja skiptið sem við heyrum línu úr laginu er hún undanfari algjörrar hugarfarsbreytingar hjá Louka. Klara hefur vakað með honum yfir Kolja veikum. Og Louka hefur, án þess að vilja það, tengst tveimur mannverum tilfinningaböndum sem ekki verða rofin. Hann innsiglar tengsl sín við Klöru með því að gefa henni hálsmen sem hann fann óvænt í hinni örlagaríku þakrennu á húsi móður sinnar. Tengslin við Kolja innsiglar hann með því að flýja með hann til Karlsbad, til að forða honum frá örlögum sem hann hafði sjálfur búið honum með því að hafa samband við Félagsmálastofnun í því skyni að losna við drenginn. Hann tekur loks af fúsum vilja stökkið út í þá óvissu sem lífið í rauninni er, sama hversu mjög við reynum annars að skipuleggja það.

Myndinni lýkur með flauelsbyltingunni, sem svo er nefnd af því að hún gekk mun friðsamlegar fyrir sig en nokkurn hafði grunað. Tékkóslóvakía er laus undan ánauð Rússa og Louka er laus undan ánauð eigin hugarfars. Hann hefur lært að þótt ráðin væru tekin svo gjörsamlega af honum um framvindu lífs hans, hefur það fært honum nýtt og auðugra gildismat. Það er jafnframt undirstrikað með því að beina myndavélinni að bústnum maga Klöru, sem á von á barni með Louka.

Þegar móðir Kolja kemur að sækja hann og þeir Louka kveðjast á flugvellinum í Prag er engu lofað um endurfundi né heldur farsæla framvindu á sögu þeirra. Samt er áhorfandinn ósjálfrátt næsta viss um að allt hljóti að fara vel, þótt hann hafi í raun enga tryggingu fyrir því nema 23. sálm sem Kolja litli syngur í lokin og lokar þar með rammanum utan um sögu þeirra Louka. Þessi fullvissa er orðuð vel í viðtali við höfunda myndarinnar, feðgana Zdenek og Jan Sverák: „Maður hefur á tilfinningunni að einhver eða eitthvað vaki yfir manni.“

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 1-15, Sl 23
Persónur úr trúarritum: engill, Guð
Guðfræðistef: exódus, kærleikur, vernd Guðs
Siðfræðistef: framhjáhald, kúgun, lygi, svik
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja,
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: brúðkaup, jarðarför
Trúarleg reynsla: vitrun