Kvikmyndir

La grande vadrouille

Leikstjórn: Gérard Oury
Handrit: Gérard Oury, Marcel Jullian, Danièle Thompson, André Tabet og Georges Tabet
Leikarar: Bourvil, Louis De Funès, Terry-Thomas, Andréa Parisy, Benno Sterzenbach, Marie Dubois, Claudio Brook, Colette Brosset, Mike Marshall, Mary Marquet, Pierre Bertin, Sieghardt Rupp, Reinhard Kolldehoff, Catherine Marshall og Helmuth Schneider
Upprunaland: Frakkland og Bretland
Ár: 1966
Lengd: 119mín.
Hlutföll: 1.85:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Bresk sprengjuflugvél stórskaddast í árásarferð yfir Þýzkalandi, villist af leið og er skotin niður yfir París. Áhöfnin bjargar sér með því að stökkva í fallhlífum út úr brennandi flugvélinni en á síðan fótum sínum fjör að launa á æðisgengnum flótta undan þýzka hernámsliðinu um allt Frakkland. Nokkrir Frakkar koma þeim til hjálpar og lenda fyrir vikið einnig á flótta með þeim, einkum þó góðviljaður málarameistari og skapvondur hljómsveitastjóri úr aðalóperuhúsi Parísar.

Almennt um myndina:
Þetta var fyrsta kvikmyndin sem litli bróðir minn tók á leigu snemma á níunda áratugnum, þá sennilega 10 ára gamall, og kom hann með hana heim ásamt félaga sínum. Skelfingarsvipurinn, sem kom á andlit þeirra, er ógleymanlegur þegar ég tilkynnti þeim að myndin væri frönsk um leið og ég leit á kápumyndina, sem að vísu hafði danska titilinn Undskyld, vi flygter. Löngu síðar áttum við bræðurnir heldur betur eftir að taka franskar kvikmyndir í sátt, en þessi titltekna mynd kom okkur mjög svo ánægulega á óvart þegar við loks settum hana í myndbandstækið og hefur hún upp frá því verið ein af uppáhalds gamanmyndunum okkar.

Þessi gamanmynd var óhemju vinsæl í Frakklandi á sínum tíma og mun enn vera ein af tekjuhæstum myndum frá því landi. Nokkrir af vinsælustu gamanmyndaleikurum þess tíma voru þar líka í aðalhlutverkum, einkum þeir Terry-Thomas sem ofurbreskur flugstjóri, Bourvil sem málarameistarinn og Louis De Funès sem hljómsveitarstjórinn skapvondi.

Einn af kostum gamanmyndarinnar er að öllum ofleik er stillt í hóf og meiri áhersla lögð á skondin samtöl, misskilninga og ótrúlegar hrakfarir aðalsöguhetjanna. Í raun er myndin farsi en hann gengur upp þar sem leikararnir taka hlutverkin tiltölulega alvarlega, meira að segja Louis De Funès af öllum mönnum. Fátt er ömurlegra í gamanmyndum en þar sem farsinn er öðru fremur byggður á fáránlegum ofleik.

Annar kostur myndarinnar er að allir tala sitt rétta tungumál. Frakkar eru frönsku mælandi, Englendingar ensku mælandi og Þjóðverjar þýzku mælandi. Svo er þetta ein af sárafáum stríðsmyndum þar sem enginn er drepinn, enda hentar myndin vel fyrir alla fjölskylduna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í kvikmyndinni leita nokkrir af flóttamönnunum skjóls í stóru óperuhúsi í París þar sem einn af leikurunum kemur þeim til hjálpar, en sá er klæddur eins og djöfullinn, er í skærrauðum búningi með horn og hala. Þegar hann síðan kveður flóttamennina niðri í skólpræsunum undir borginni, veifar hann til þeirra og segir hátíðlega: „Guð veri með ykkur!“

Síðar koma nunnur við sögu, sem starfrækja sjúkrastofnun úti í sveit, en þær koma nokkrum af flóttamönnunum einnig til hjálpar og slæst ein þeirra í för með þeim. Það er ekki síst henni að þakka að þeim tekst loks að komast undan og öðlast frelsi.

Persónur úr trúarritum: djöfullinn
Guðfræðistef: frelsi
Siðfræðistef: stríð, loftárás, hryðjuverk, andpyrna, hernám, svartamarkaðsbrask, vændi, hroki, stéttarmisrétti, lygi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur
Trúarleg tákn: hakakross, maríustytta, kross, róðukross, marmarakross
Trúarleg embætti: nunna
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, spenna greipar, bæn