Kvikmyndir

Lawrence of Arabia

Leikstjórn: David Lean
Handrit: Robert Bolt og Michael Wilson, byggt á sjálfsævisögu T. E. Lawrence
Leikarar: Peter O’Toole, Omar Sharif, Alec Gunness, Anthony Quinn, Jack Hawkins, Jose Jerrer, Jack Hawkins, Anthony Quayle, Claude Rains og Arthur Kennedy
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1962
Lengd: 227mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0056172
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Lawrence of Arabia fjallar um sérvitringinn Lawrence sem sameinaði Arabíuskagann gegn Tyrkjum í fyrri heimsstyrjöldinni. Lawrence er vel menntaður hugsjónamaður sem elskar arabíska menningu. Þegar hann er sendur til Arabíuskagans ákveður hann að þjóna samtímis hagsmunum Breta og Araba. En Lawrence þarf ekki aðeins að heyja stríð á Arabíuskaganum, hann þarf einnig að heyja innri baráttu fyrir geðheilsu sinni og siðgæði.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Lawrence of Arabia var tilnefnd til tíu óskarsverðlauna og vann sjö, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn og hún var valin sem besta mynd ársins. Sjálfur horfi ég á myndina einu sinni að ári og tel myndina vera eina bestu mynd allra tíma. Myndin sækir mikið til sögunnar af Móse, þ.e. exódusfararinnar (en svo nefnist för Hebrea úr ánauðinni í Egyptalandi til Landsins helga).
Fyrsta frægðarverk Lawrence er að ná Akaba á sitt vald, nokkuð sem flestir töldu ómögulegt. Eftir að her hans hefur sigrað Akaba kemur í ljós að öll samskiptatæki eru í ólestri. Lawrence ákveður þá að halda yfir Sínaí eyðimörkina (með tvo unga þjóna sína á táningsaldri með sér) til herbúða Breta til að láta vita af hernaðarafrekinu. Þegar ljóst er hvað Lawrence hefur í hyggju er hann spurður með undrun: ,,Ætlarðu yfir Sínaíeyðimörkina?“ Lawrence svarar þá að bragði: ,,Móse gerði það.“ Hann er þá aftur spurður með undrun: ,,Ætlarðu með börnin með þér?“, og aftur svarar Lawrence á sama veg: ,,Móse gerði það.“ Lawrence ríður síðan af stað á meðan viðmælandi hans kallar á eftir honum: ,,Já en Móse var spámaður, elskaður af Guði.“ Á leið sinni yfir Sínaíeyðimörkina sér Lawrence hvirfilbyl og segir við þjóna sína að þarna sé eldstólpi. Hér er Lawrence enn einu sinni að tengja för sína við exódusför Móse, því að þegar Móse fór yfir Sínaí eyðimörkina fylgdi honum eldstólpi um nætur en skýstólpi að degi til (sjá t.d. 2M 13:21-22; 4M 14:14; Neh 9:12, 19). Lawrence leit á Damaskus sem “fyrirheitna landið” og von hans var að með því að sigra borgina myndi hann sameina Araba á ný. Þegar Lawrence nálgast borgina kemur einn þjónn hans með vínberjaklassa frá Damaskus, en það sama gerðu einmitt sendimenn fyrir Móse þegar hann nálgaðist fyrirheitna landið. Her er því enn ein vísunin í exódusförina.
Það er ljóst að Lawrence upplifði sig sem n.k. spámann Guðs. Hann var kominn til að færa Araba ,,úr“ landi óeiningar ,,til“ lands einingar og sjálfstæðis. Hann var hinn mikli spámaður sem skráði sín eigin örlög og gat gengið á vatni (Mt 14:25-31; Mk 6:48-50 og Jh 6:19-21) og fært fjöll úr stað (Mt 17:20; 21:21). Hann taldi meira að segja á tímabili að hann væri ósýnilegur og að hann gæti sigrað óvinaborg einn síns liðs. Ekki var það til að bæta ranghugmyndir Lawrence að stór hluti Araba taldi hann vera helgan mann, fullkominn og óskeikulan. Lawrence gleymir því að hann er bara maður, af holdi og blóði og heldur að hann sé Guð.
Kvikmyndin Lawrence of Arabia fjallar ekki aðeins um veruleikafirrtan sérvitring. Þegar Lawrence er kominn yfir Sínaíeyðimörkina til bresku herbúðanna biður hann yfirmann sinn að senda sig ekki aftur út á vígvöllinn vegna þess að hann drap tvo menn. Lawrence er þá bent á að þetta sé stríð og því verði ekki hjá því komist að drepa mann og annan. Lawrence svarar því þá til að vandinn felist ekki í drápunum sjálfum heldur í því að hann naut þeirra. Lawrence hræðist þessar óeðlilegu kenndir en yfirmenn hans vísa beiðninni tvívegis frá. Smátt og smátt nær drápsnautnin yfirhöndinni og Lawrence glatar siðferðiskennd sinni. Í upphafi myndarinnar var Lawrence friðarsinni og hugsjónamaður en við lok myndarinnar er hann blóði drifinn, helsjúkur og hugsjónalaus. Lawrence mistókst ekki aðeins að feta í fótspor Móse og frelsa heila þjóð, honum tókst ekki einu sinni að bjarga eigin sál undan broddi syndarinnar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn 73:20, Kóraninn 93:1-5
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M-5M, 2M 13:21-22, 4M 13:23, 4M 14:14, Neh 9:12, 19, Mt 14:25-31, Mt 17:20; Mt 21:21, Mk 6:48-50, Jh 6:19-21
Persónur úr trúarritum: Guð, Móse, spámaður
Guðfræðistef: exódus, guðlast, forákvörðun, kraftaverk
Siðfræðistef: auðmýkt, dráp, hernaður, hégómi, hroki, morð,
Trúarbrögð: Íslam
Trúarlegt atferli og siðir: blessun, bæn, signun