Leikstjórn: Luis Buñuel
Handrit: Luis Buñuel og Jean-Claude Carrière
Leikarar: Fernando Rey, Stéphane Audran, Delphine Seyrig, Jean-Pierre Cassel, Julien Bertheau, Paul Frankeur, Bulle Ogier, Michel Piccoli, Claude Piéplu, Pierre Maguelon, Muni, Milena Vukotic og François Maistre
Upprunaland: Frakkland, Spánn og Ítalía
Ár: 1972
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Nokkrir góðborgarar reyna ítrekað að neyta saman kvöldverðar en eru truflaðir í hvert skipti.
Almennt um myndina:
Bráðfyndin súrealísk gamanmynd sem hlaut óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin árið 1972. Criterion fyrirtækið í Bandaríkjunum á hrós skilið fyrir frábæra útgáfu myndarinnar á tveggja diska DVD setti með miklu aukaefni, t.d. mjög svo áhugaverðri heimildamynd um feril Buñuels.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin eldist furðu vel, þrátt fyrir vísanir í menningartískur samtíðar sinnar. Marxísk túlkun í bland við súrrealismann er fyrirsjáanleg og kom ekki á óvart. En eftir að við sáum myndina á Dec kvöldi hefur hún vitjað mín reglulega!
Það sem kannski situr fastast í mínum huga er firringarlýsing myndarinnar. Forsendan er gefin, Guð er ekki til og samfélagið er vitlaust. Síðan fer Buñuel yfir allt svið mannlífsins og lýsir vel ruglingi þess. Samræður fólks eru á skjön og skilningur lítill. Átök milli hópa eru blindingsleikur. Félagsleg hlutverk eru tilgangslaus og þar með tilfinningar, heiðarleiki og trúnaður. Fólk, sem á í raun ekkert sameiginlegt, hittist og tilgangurinn afar óljós. Þekking fólksins er í molum sbr. biskupinn sem veit ekkert um Suður-Ameríkuríkið Miranda. Diplómatar nota aðstöðu sína til að smygla „kóki“ og auðgast samskiptanet þjóða er yfirvarp. Gönguferðirnar eru án forsendu og tilgangslausar. Borðhald er í upplausn og þar með veisluhefð, borðhefð kristninnar. Svona má halda áfram.
Mér sýnist að Buñuel hafi tekist að lýsa firringu samfélagsins á öllum stigum þess: Í persónulífi, sjálfsskilningi fólks, samskiptum, félagskerfi, menningarstrúktúr og symbólkerfi. Þetta gerir hann út frá sínum forsendum. Trúargreinir getur hins vegar séð í þessari mynd ágæta túlkun á synd, þessu sem verður þegar maðurinn er guðlaus í gerð og verki, þegar honum mistekst og ruglar. Það er gömul saga og ný að þegar menn eru sem mest að berjast við eitthvað verða þeir æ meir handbendi þess. Barátta Buñuels við hinn kristna túlkunarramma leiðir hann ekki út úr heldur inn í hann. Myndin er því ágæt lýsing afleiðingar syndar í heimi! Sem sé mjög áhugaverð mynd.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jh 11:43-44, 2Kor 13:13
Persónur úr trúarritum: afturganga, Jesús Kristur
Guðfræðistef: firring, synd, handanveruleikinn, dauðinn, guðdómur Krists, fyrirgefning, hatur á Kristi, gæska Guðs, sköpun
Siðfræðistef: kurteisi, hræsni, eiturlyfjasmygl, eiturlyfjaneysla, framhjáhald, morð, hryðjuverk, niðurlæging, hroki, hefnd, einvígi, bylting, þjóðfélagskúgun, kynferðisleg áreitni, pyntingar, stríð, fátækt, mútur, spilling, móðgun, stríðsglæpir, mannúð, siðferði, samviskan
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, stjörnuspeki, nazismi
Trúarleg tákn: kross, veggkross, róðukross á líki, hempa
Trúarleg embætti: biskup, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: ölmusa, kristniboð, signing fyrir borðhald, kirkjuklukknahringing, syndaaflausn, skriftir, syndajátning, bæn, signing
Trúarleg reynsla: draumur, berdreymi