Leikstjórn: Victor Sarin
Handrit: Joe Goodman, Paul Lalonde og Alan B. McElroy. Byggt á samnefndri skáldsögu.
Leikarar: Kirk Cameron, Brad Johnson, Janaya Stephens, Clarence Gilyard Jr., Colin Fox
Upprunaland: Kanada
Ár: 2000
Lengd: 95mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0190524#writers
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Tugir flugfarþega hverfa á miðri flugleið. Brátt kemur í ljós að þessi undarlegi atburður er ekkert einsdæmi því milljónir manna hafa horfið um allan heim. Blaðamaðurinn Buck Williams og flugmaðurinn Rayford Steele hefjast strax handa við að rannsaka málið, en leiðir þeirra liggja í ólíkar áttir. Á meðan Rayford Steele finnur svarið í Biblíunni reynir Buck Williams að afhjúpa samsæri sem gæti skýrt þennan undarlega atburð. En á meðan heimurinn stendur ráðþrota frammi fyrir þessum dularfullu atburðum vinna Sameinuðu þjóðirnar að því að ná heimsyfirráðum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Left Behind: The Movie er byggð á gífurlega vinsælli bókaseríu um endatímana. Fyrirtækið, Cloud Ten Pictures, sem stendur að þessari mynd er reyndar mjög áhugavert en það sérhæfir sig í kristnum myndum. Hingað til hafa þeir aðeins gert heimsslitamyndir, þ.e.a.s. þessa mynd og svo fjórar myndir í Revelation seríunni. Allir þeir sem vinna fyrir þetta fyrirtæki verða að vera virkir í kristnu starfi, og þá sérstaklega úr hvítasunnugeiranum.
Left Behind: The Movie er með betri kristnum heimsslitamyndum sem gerðar hafa verið. Þetta ber þó ekki að taka sem hrós því flestar eru þessar myndir vondar og er engin þeirra góð. Left Behind: The Movie er aðeins miðlungsmynd en samt sem áður um margt áhugaverð. Leikurinn í henni er oft á tíðum nokkuð góður og heyrir það svo sannarlega til tíðinda þegar kemur að myndum úr þessum geira. Það sem vekur þó meiri athygli en leikurinn er hversu lítið það er um prédikanir í myndinni. Í kristnum heimsslitamyndum eru yfirleitt jafn margar prédikanir og það eru söngva og dansatriði í indverskum myndum. Gallinn við þessa mynd eru hins vegar tæknibrellurnar. Í upphafsatriði myndarinnar eru tölvuteiknuðu þoturnar og þyrlurnar áþekkar grafíkinni í gömlu Sinclear Spectrum tölvunum (fyrir tæpum 20 árum).
Heimsslitamyndir skiptast í tvo hópa, eftir því hvaða kirkjudeild birtist í þeim. Heimsslitamyndir þar sem kaþólska kirkjan kemur fyrir ganga flestar út á það að koma í veg fyrir endalok heimsins, með því að drepa andkrist.
Heimsslitamyndir hvítasunnugeirans eru hins vegar gjör ólíkar. Heimsslitin hefjast á burthrifningunni, þ.e.a.s. á því að Guð nemur hina sanntrúuðu og saklausu í burt. Í kjölfar þessa hefst sjö ára þrengingatímabil og verða aðalpersónurnar að reyna að lifa það af. Andkristur rís alltaf upp innan Sameinuðu þjóðanna og sölsar undir sig völdum þaðan, yfirleitt undir yfirskini góðgerðarstarfsemi og kærleika. Valdataka andkrist felst einnig í því að hann reynir að sameina heiminn, koma á einni mynt og einingu og friði á meðal þjóða.
Annað sem þessar myndir eiga sameiginlegt er að söguþráðurinn tengist alltaf á einhvern hátt átökunum í Ísrael. Left Behind: The Movie byrjar t.d. á því að nágrannaþjóðirnar gera innrás í Ísrael en Guð heldur verndarhendi yfir sinni útvöldu þjóð og eyðir öllum óvinaflugvélunum.
Left Behind: The Movie fjallar fyrst og fremst um þá angist þeirra sem eftir verða, en hér rís myndin hvað hæst. Leikstjórinn gefur sér tíma til að rannsaka þær tilfinningar sem brjótast um innra með þeim sem hafa misst ástvini sína og verið hafnaðir af Guði. Því er ekki lagt mikið upp úr því að útskýra heimsslitin eða fórn Krists heldur er þeim mun meira lagt upp úr persónusköpun og drama. Þeir sem hafa áhuga á heimsslitamyndum ættu ekki að láta myndina fram hjá sér fara en hún er til á myndbandi og DVD í Bandaríkjunum.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1 Mósebók, 1M 1:1, 1M 2-4, Esk 31, Dn 7, Dn 9:26-27, Mt 24:40-41, Lk 17:34, 1Þ 4:16-17, 2Þ 2:3-4, Opinberunarbókin
Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 41:19, Jes 51:3, Jl 2:30-31, 3:15, Am 8:9, Mík 3:6
Persónur úr trúarritum: Abel, andkristur, Guð, Jesús Kristur, Kain
Sögulegar persónur: Nostradamus
Guðfræðistef: heimsslit, hvíldardagurinn, synd
Siðfræðistef: framhjáhald, friður, lygi
Trúarbrögð: gyðingdómur, kristni, hvítasunnukirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden, grátmúrinn, helvíti, himnaríki, Ísrael, Jerúsalem, kirkja, moska, Musteri Salómons, sínagóga,
Trúarleg tákn: kross,
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: heilaþvottur