Kvikmyndir

Leila

Leikstjórn: Dariush Mehrjui
Handrit: Mahnaz Ansarian og Dariush Mehrjui
Leikarar: Leila Hatami, Ali Mosaffa, Jamileh Sheikhi, Mohamad Reza Sharifinia, Turan Mehrzad, Amir Pievar og Shaqayeq Farahani
Upprunaland: Íran
Ár: 1996
Lengd: 129mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Reza og Leila eru ung hjón sem búsett eru í Teheran í Íran og vegnar vel í lífinu. Það eina sem skyggir á hamingju þeirra er þegar læknisskoðun leiðir í ljós á afmælisdegi Leilu að hún geti ekki eignast börn. Að vísu segir Reza það engu máli skipta fyrir hjónaband þeirra og vilji hann enga aðra eiginkonu en Leilu, en móðir hans þrýstir mjög á hann og tengdardótturina að hann taki sér líka aðra konu til að geta eignast son og þannig viðhaldið heiðri ættarinnar. Framan af þverneitar Reza að verða við þessu og Leila er allt annað en sátt við sjónarmið tengdarmóðurinnar en smám saman láta þau undan þrýstingnum og neyðist Leila því til að hjálpa við að finna eiginmanni sínum aðra konu, enda mega karlmenn í Íran eiga allt að fjórar konur. Fjölkvænið reynist þeim hins vegar allt annað en farsælt og kemur það fljótlega niður á samneyti þeirra allra.

Almennt um myndina:
Íranska kvikmyndin Leila er ein fjölmargra frá því landi sem fengið hafa frábæra dóma hjá vestrænum kvikmyndagagnrýnendum á undanförnum árum og er það sannarlega ekki að ástæðulausu.

Leikstjóri myndarinnar, Dariush Mehrjui, hóf feril sinn sem kvikmyndagerðarmaður rúmum áratug fyrir islömsku byltinguna árið 1979 en ein af fyrstu myndum hans, Gaav (1969), er jafnan talin til þeirra mikilvægustu sem frá Íran hafa komið. Að vísu féll sú kvikmynd þegar í ónáð hjá ritskoðendum keisarastjórnarinnar sem geðjuðust ekki að þeirri raunsæju mynd sem dregin var upp af fátækum þorpsbúum fjærri borgarmenningunni en leikstjórinn gerði hana undir augljósum áhrifum frá ítölsku raunsæisstefnunni í kvikmyndafræðunum. Myndin var því bönnuð í Íran þau ár sem keisarinn var enn við völd en eftir að Ayatollah Khomeini komst til valda í kjölfar byltingarinnar tók hann myndina fljótlega í sátt og var hún leyfð á ný. Dariush Mehrjui er því einn örfárra íranskra kvikmyndagerðarmanna sem hafa gert fjölda mynda bæði fyrir og eftir byltinguna og notið um leið velgengni á alþjóðavettvangi.

Leila er eins og Gaav gerð í anda ítölsku raunsæismyndanna og gildir það raunar einnig um flestar þeirra írönsku mynda sem notið hafa hvað mestrar hylli á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Ítölsku áhrifin breyta því hins vegar ekki að bæði Leila og aðrar umræddar myndir eru allar augljóslega íranskar og geta þrátt fyrir raunsæisyfirbragðið margar hverjar um leið verið afar táknrænar með ljóðrænu yfirbragði. Dýptin í persónusköpuninni er þó það sem skilur hvað mest eftir og á það sannarlega við um kvikmyndina Leilu, en áhorfandinn samsamar sig þegar með aðalsöguhetjunni Leilu og finnur til með henni í öllum þeim raunum sem hún gengur í gegnum þegar tengdarmóðirin ráðríka þrýstir á hana að samþykkja að eiginmaðurinn taki sér líka aðra konu. Þessi dýpt í persónusköpuninni er ekki síst leikurunum að þakka sem gæða vel skrifuðum hlutverkum sínum lífi með túlkun sinni, en leikkonan Leila Hatami, sem sjálf er dóttir virts íransks kvikmyndagerðarmanns, er frábær í hlutverki nöfnu sinnar sem titill myndarinnar vísar til.

Ekki er þó laust við að notkunin á rauða litnum í myndinni minni nokkuð á litamyndir pólska leikstjórans Krzysztofs Kieslowskis en rauð lýsing er víða notuð til að tákna vanlíðan, óþægindi og erfiðar aðstæður og verður myndflöturinn jafnvel alrauður þegar slíkt verður yfirþyrmandi, ekki síst hjá aðalsöguhetjunni Leilu. Sömuleiðis minna ýmis atriði myndarinnar á stílbragð danska kvikmyndagerðarmannsins Carls Th. Dreyers, sérstaklega nærmyndirnar af systrum Razes þegar þær ein af annarri reyna að telja Leilu hughvarf en þar kemur myndin La passion de Jeanne d’Arc (1928) sérstaklega upp í hugann. Allt er þetta smekklega gert og er myndin í alla staði fagmannlega gerð og áferðarfalleg.

Útgefandi DVD disksins er bandaríska fyrirtækið First Run Features sem komið hefur ýmsum fágætum myndum á framfæri þar í landi. Myndin er blessunarlega hljóðsett á farsi sem er upprunalega tungumálið og með enskum skýringartexta en myndgæðin, sem þó eru alveg ásættanleg, mættu vera betri.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér er um að ræða áhrifamikla kvikmynd sem varpar ljósi á ekki aðeins þá erfiðleika sem þjakað getur foreldra sem ekki geta eignast börn heldur einnig hversu neikvætt tvíkvæni eða fjölkvæni getur reynst fólki en í þessu tilfelli sundrar það að lokum sambandi þeirra Rezas og Leilu og verður fæstum til góðs. Sömuleiðis varpar myndin ljósi á þá togstreitu sem myndast getur milli sjónarmiða ólíkra kynslóða þar sem sú eldri, eða a.m.k. hluti hennar, vill leysa vandann með hefðum sem samrýmast orðið illa nútíma lífsháttum (ef þær höfðu þá nokkurn tímann verið til góðs) en langvarandi félagslegur þrýstingur getur þar áorkað miklu. Þannig má í raun líta á myndina sem spegil á þau þjóðfélagslegu vandamál sem til umfjöllunar eru.

Myndin er öll sýnd frá sjónarhóli Leilu sem jafnframt er sögumaður hennar og tjáir áhorfendum hugsanir sínar og tilfinningar með lágstilltri en einlægri röddu. Áhorfandinn finnur innilega til með henni í sorg hennar yfir að geta ekki eignast börn þrátt fyrir að hafa reynt alla möguleika í þeim efnum og þeirri niðurlægingu sem því fylgir að þurfa að finna eiginmanni sínum aðra konu í samvinnu við tengdarmóðurina sem þrýstir svo mjög á að einkasonurinn eignist sjálfur son sem geti viðhaldið heiðri fjölskyldunnar, en fyrir á hún fjórar aðrar dætur. Leila þarf meira að segja að aðstoða eiginmanninn við allt varðandi hjónavígsluna og brúðkaupið, svo sem að velja hringana, þrífa heimilið hátt og lágt og búa um rúmin fyrir brúðhjónin.

Þau Leila og Reza eru lengst af náin og skemmta sér yfir sameiginlegum áhugamálum eins og að horfa saman á kvikmyndir, en sýnt er atriði úr Doctor Zhivago (David Lean: 1965) þar sem elskendurnir neyðast til að skilja og sjást ekki framar. Sömuleiðis er sýnt snemma í myndinni þar sem Reza gefur konu sinni stóra brúðu af Gormi úr teiknimyndasögunum af Svali og Val og fagnar hún því mjög. Þegar ljóst er orðið að þau geta ekki eignast barn segir eiginmaðurinn framan af að það skipti hann engu máli því að hann hafi ekki kvænst henni með það eitt í huga. Leila biður þó heitt til Guðs um bænheyrslu og íhugar jafnvel um tíma þann möguleika að ættleiða barn, en þau missa við nánari athugun áhuga á því. Fram kemur að skilyrðin fyrir því að fá að ættleiða barn í Íran sé að hjónin séu bæði menntaðir múslimar með traustan fjárhag og góðan félagslegan bakgrunn. Biðlistarnir eru hins vegar langir og getur tekið tvö ár að bíða eftir barni. Athyglisvert er að flest þeirra hjóna sem vilja ættleiða börn þar í landi eru sögð óska eftir stúlkum eða ungbörnum.

Enda þótt myndin sé sögð frá sjónarhóli Leilu er persónusköpunin alls ekki einhliða og fær áhorfandinn alveg skilið aðrar persónur sem koma þar við sögu, jafnvel þótt sjónarmið sumra þeirra og gjörðir kunni að virka framandi eða hreinlega neikvæðar. Þannig er það vel skiljanlegt að það skuli verða tengdarmóðurinni áfall að Leila skuli reynast óbyrja en afskipti hennar af einkalífi hennar og sonarins ganga samt alltof langt og þráhyggjan yfir því að eignast sonarsoninn er tæpast annað en kaldhæðnisleg. Því miður er það samt alltof útbreitt vandamál í heiminum enn þann dag í dag að fólk vilji frekar eignast stráka en stúlkur vegna þess að þeir eru taldir líklegri til að vegna vel í lífinu og geta framfleytt sínu fólki, ekki síst í þjóðfélögum þar sem feðraveldið er enn allsráðandi og konur mikið til lokaðar af við hefðbundin heimilisstörf.

Þrátt fyrir að tengdarmóðirin komi alltaf ljúfmannlega fram við Leilu og gefi henni jafnvel tækifærisgjafir, er hún í raun frekar tillitslaus við hana með sífelldri afskiptasemi sinni og ýmsu orðavali. Þannig segir hún t.d. hlæjandi við Leilu eftir fyrstu læknisferðina af mörgum að það sé alveg örugglega ekkert að hjá syni hennar því að svona vandamál hafi aldrei komið upp áður í fjölskyldunni. Þegar Leila spyr síðar örvæntingarfull hvort þessi ógæfa hafi hent hana vegna þess að hún hafi syndgað, mótmælir tengdarmóðirin því og segir að synd hafi ekkert með þetta að gera en engu að síður verði hún að samþykkja það að sonurinn taki sér líka aðra konu til að geta eignast son. Að lokum tekur Leila að gefa eftir þrábeiðni tengdarmóðurinnar og Reza raunar líka, en myndin gerist á nokkurra ára tímabili.

Leila þegir lengst af yfir því við foreldra sína og systkini að til standi að eiginmaðurinn taki sér einnig aðra konu en fjölskylda hans veit þó allt um það og ekki reynast allir þar sáttir við framgöngu móðurinnar. Þannig verða dæturnar og systur Rezas æfar þegar þær komast að þessu og reyna sitt til að telja Leilu hughvarf, m.a. með því að minna hana á nafngreinda óbyrju sem varð frá að hverfa fljótlega eftir að eiginmaðurinn tók sér aðra konu og eignaðist með henni börn. Engin þeirra á þó gott með að standa uppi í hárinu á móður sinni og þegar yngsta dóttirin auðsýnir Leilu grátandi samúð sína á fjölskyldusamveru uppsker hún aðeins skammir frá móðurinni sem rekur hana út. Meira að segja faðir Rezas má sín lítils fyrir ofríki konu sinnar þegar hann tekur upp málstað Leilu. Hann skammar þó son sinn undir fjórum augum og bendir honum á að fjölkvæni sé í raun ekkert annað en skilnaður því að með því fjarlægist hjónin óhjákvæmilega hvert annað. Jafnframt bendir hann á að frænkan, sem hvetur móðurina hvað mest til að verða Reza úti um aðra eiginkonu, sé í raun að hefna sín því að hann hafi hafnað dóttur hennar sem verðandi eiginkonu sinni á sínum tíma. Við Leilu, tengdardóttur sína, segir hann hins vegar þegar ekki verður aftur snúið: „Þú hefðir átt að láta Guð um þetta allt. Þú átt aðeins að snúa þér til hans á svona stundu.“

Þegar að brúðkaupinu kemur biður Reza Leilu fyrir alla muni að dvelja ekki á heimilinu um stundarsakir og fara heldur til móður hennar en hún hafnar því og býr um sig inni í gestaherberginu í staðinn og segir um leið með sjálfri sér að hún sé fyrir löngu orðin ónæm fyrir öllu vegna sársauka. En þegar á reynir hefst hún ekki við heima hjá sér til lengdar og flýr heim til foreldra sinna um leið og nýja eiginkonan er farin með eiginmanninum inn í hjónaherbergið. Hjá foreldrum sínum ákveður hún svo að stíga ekki framar fæti inn fyrir dyr á heimili sínu og stendur við það þrátt fyrir grátbeiðni eiginmannsins sem býðst til að skilja þegar við hina eiginkonuna.

Það verður að teljast kaldhæðnislegt að Reza eignast stúlkubarn með nýju eiginkonunni og verður það móður hans mikið áfall. Þar sem Reza á fátt sameiginlegt með nýju eiginkonunni verða þau brátt ásátt um skilnað og fær móðir hans barnið til umsjónar. Reza reynir allt til að vinna Leilu aftur, en sakar hana um grimmd og eigingirni í sinn garð þegar hún neitar staðfastlega að rjúfa þagnarbindindið sem hún hafði sjálf búið sér. Einveran legst illa í Reza sem á erfitt með tiltektir og eldamennsku á heimilinu en þrátt fyrir það fer hann aldrei fram á skilnað né reynir að kvænast á ný. Hann hefur glatað svo til öllu en viðheldur þó sambandinu við dótturina.

Það er alveg ljóst að fjölkvæni með þeim takmörkunum að eiginkonurnar megi ekki verða fleiri en fjórar er löglegt í því þjóðfélagi sem um ræðir og því er þetta valkostur sem sögupersónunum stendur til boða, jafnvel þótt fram komi að það séu alls ekki allir Íranir sáttir við það. Framsetningin í myndinni er þó augljóslega gagnrýnin á þessa hefð og leikur enginn vafi á því að það er Leilu mikil þjáning og raunar niðurlæging að þurfa að sætta sig við að eiginmaðurinn taki sér aðra konu til þess eins að eignast son. Sjálf trúir hún einni vinkonu sinni fyrir því á áralangri þrautargöngu sinni að tilhugsunin sé henni hreint víti og andleg og líkamleg vanlíðunin mikil af þeim sökum.

Það er þó ekki bara Leila sem þjáist heldur kemur þetta ekki síður niður á eiginmanninum sem sömuleiðis er beittur langvarandi þrýstingi frá móður sinni og verður það að lokum til þess að hjónin fjarlægjast hvort annað svo mjög að leiðir skilja milli þeirra. Hann nær ekki einu sinni saman við nýju eiginkonuna sem hann skilur brátt við en hún nýtir þann ágóða sem hún hafði af skilnaðinum til að ganga í hjónaband með gömlum vonbiðli sínum enda þótt hún þurfi fyrir vikið að láta stúlkubarnið af hendi. Þegar upp er staðið reynist ráðahagurinn, tvíkvænið, því fæstum til góðs, jafnvel þótt barnið sem fæðist að lokum sé svo sannarlega velkomið í heiminn þrátt fyrir að vera stúlka.

Þegar Leila sér Reza koma í heimsókn nokkrum árum síðar með dótturina með í för segir hún við sjálfa sig og brosir eilítið dapurlega um leið: „Dag einn þegar einhver mun kannski segja dóttur Rezas, Baran, þessa sögu gæti hún átt eftir að hlæja þegar hún kemst að því að hefði það ekki verið vegna þrýstings frá ömmu hennar hefði hún mögulega aldrei fæðst.“

Hér er um að ræða þjóðfélagsgagnrýni eins og hún gerist best.

Guðfræðistef: heimurinn tilheyrir Guði, synd, meðaumkun Guðs, örlög, bæn, spálestur, treysta Guði
Siðfræðistef: félagsleg staða kvenna, fjölkvæni, barneignir, ást, félagslegur þrýstingur, hefðir, fjölskyldan, einkalíf, heilaþvottur, þunglyndi, eigingirni, niðurlæging, skilnaður, ættleiðing, tillitsleysi, afskiptasemi
Trúarbrögð: islam
Trúarleg tákn: slæða, teppi
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, þakkargjörð til Guðs, hneigja sig til Mekka, bollaspálestur, bænaákall, sverja við spámanninn