Kvikmyndir

Lena: My 100 Children

Leikstjórn: Edwin Sherin
Handrit: Jonathan Rintels, byggt á sögulegri skáldsögu eftir Kuchler-Silbermann
Leikarar: Linda Lavin, Torquil Campbell, Lenore Harris, Cynhtia Wilde, Goeroge Touliatos, Susannah Hoffmann og John Evans
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1987
Lengd: 95mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þjáningum þeirra sem lifðu af helförina var sjaldnast lokið við endalok heimsstyrjaldarinnar síðari. Það kemur vel fram í kvikmyndinni Hundrað börn Lenu (Lena: My 100 Children). Þetta er áhrifamikil mynd um kærleiksverk mikilhæfrar konu andspænis ótrúlegri grimmd kynþáttahaturs. Myndin er byggð á sögu af sannsögulegum atburðum. Söguþráður hennar er á þá leið að kona að nafni Lena Kuchler (leikin af Lindu Lavin) kemur að flóttamannamiðstöð Gyðinga í Krakow leit að týndum ættingjum. Sú leit hennar reynist árangurslaus eins og svo magra annarra.

Hún tekur hins vegar eftir nokkrum drengjum sem sitja fyrir utan flóttamannabúðirnar, vannærðir og illa til reika og að enginn lætur sig varða um þá. Þegar hún heldur með þá inn í flóttamannabúðirnar og gerist ágeng fyrir þeirra hönd er henni vísað upp á þriðju hæð hússins. Þar finnur hún hundrað börn, sem virðast engu betur á sig komin, bæði hungruð og vanhirt. Hún fær að vita að enginn vilji þessi börn, munaðarleysingjahælin neiti að taka við þeim vegna þess að þau séu Gyðingar. Konur sem eru þarna saman komnar virðast svo illa á sig komnar og sinnulausar að Lenu tekst í fyrstu ekki að fá neina þeirra til að hjálpa sér.

Lena Kuchler kemst við yfir ömurlegu hlutskipti barnanna og ákveður að gera allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa þeim. Sjálf hafði hún misst dóttur sína í stríðinu og einnig spilar sektarkennd hennar trúlega inn í afstöðu hana, sektasrkennd yfir að hafa afneitað gyðinglegri arfleifð sinni til þess að komast af meðan á styrjöldinni stóð.

Henni tekst með mikilli eljusemi að útvega mikið magn af sykri sem á þessum tíma þótti ekki síðri gjaldmiðill en gull. Einnig tekst henni um síðir að fá aðstoð nokkurra gyðingakvennanna í flóttamannamiðstöðinni, þær eins og vakna smám saman til lífsins þegar þær sjá hversu mjög hún lætur sér annt um börnin og hve mikið hún leggur á sig til að tryggja velferð þeirra. Hún baðar þau, kemur til þeirra með nokkrar karfir fullar af brauði og talar ástúðlega til þeirra, verður smám saman eins og móðir þeirra allra.

Henni verður ljóst að börnin þurfa að komast í heilnæmara umhverfi úti á landsbyggðinni en þegar á að flytja þau af stað á flutningabílum hræðast nokkur þeirra mjög og leggja á flótta. (Hliðstætt atriði í kvikmyndinni The Search, 1948.) Þessi börn höfðu lært það að treysta ekki fólki, kannski höfðu ýmis þeirra komist af einmitt vegna þess að trúa ekki því sem þeim var sagt. Í myndinni tekst þó að ná börnunum sem lögðu á flótta og sýna þeim að það brottflutningurinn sé í þágu þeirra.

Lena flytur börnin til þorpsins Zarkopanem úti á landsbyggðinni þar sem hún gerir sér von um að geta búið þeim öruggt skjól á stað þar sem þau fengju notið útivistar og sólar. Og víst reynist staðurinn fallegur og húsnæðið gott. Hún og samverkakonur hennar taka strax til hendinni og börnin safna kröftum og styrkjast úti í Guðs grænni náttúrunni.

En kynþáttahatrið reynist ekki horfið frá Póllandi þó að nasistar séu á bak og burt. Henni gengur mjög erfiðlega að fá lækni til að líta á þau og kennarar skólans á staðnum neita í fyrstu að taka þau í inntökupróf. Það er ekki fyrr en skólastjórinn hefur talað rækilega yfri hausamótum kennara sinna og segist skammast sín fyrir framkomu þeirra, að börnin fá að taka inntökupróf og standast það öll.

En Gyðingabörnin finna áþreifanlega fyrir fordómum fyrsta dag sinn í skólanum þar sem kennararnir reynast þeim fjandsamlegir og önnur börn í skólanum ganga svo í skrokk á þeim í lok skóladagsins að þau koma flest marin og blá heim, mörg með glóðaraugu.

Lena leitar á náðir yfirvalda um vernd en fær þau svör að eina sem hægt sé að gera fyrir þau sé að útvega þeim vopn. Og þannig tekst börnunum, sem sum eru að komast á unglingsaldur, í skjóli sandpoka og vopnuð rifflum að hrinda árás á heimili þeirra. Lena gerir sér hins vegar grein fyrir að vænta megi frekari árása og ekkert öryggi sé að finna fyrir Gyðingabörnin í Póllandi. Þeim sé einfaldlega ekki vært þarna lengur. Hún tekur því að leggja á ráðin um að flytja þau alla leið til Landsins helga.

Hún útvegar fölsuð vegabréf fyrir öll börnin og hefur auk þess með næga peninga til að múta landamæravörðum. Á ýmsu gengur í ferðinni en Lenu tekst með útsjónarsemi og með því að múta landamæravörðum að komast áfram. Á einum landamærunum er henni hins vegar gefið að sök að hafa beitt mútum og hún fær að vita að þau verði send til baka. Börnin bregðast ókvæða við og segjast aldrei fara aftur til þess staðar þar sem foreldrar þeirra voru drepnir. Yfirmaður landamæravarðanna sér þá að sér og leyfir þeim að halda áfram förinni.

Ýmsar hindranir eru þó á leiðinni til Palestínu, það var fjarri því sjálfgefið að Gyðingar kæmust þangað í stríðslok og þannig var einnig með Lenu og börnin hennar. Í fyrstu atrennu komast þau ekki lengra en til Frakklands þar sem þau dveljast í tvö ár eða þar til sjálfstætt Ísraelsríki hafði verið stofnað í Landinu helga árið 1948. Þangað komust sem sé Gyðingabörnin munaðarlausu um síðir með Lenu Kuchler Silberman sem þau litu á sem móður sína.

Almennt um myndina:
Myndin er tekin í Unverjalandi. Meginhluti atburðarásarinnar er sannsögulegs eðlis. Hér mætti raunar viðhafa sömu orð og voru höfð um aðra helfararmynd (Hitlersæskuliðinn Salómon, 1991) að mynd sem er jafn ótrúleg og þessi hlýtur að vera sönn.

Aðalpersónan Lena Kuchler (28. janúar 1910 ­ 6. ágúst 1987) var undir áhrifum frá kenningum barnavinarins mikla Janus Korczack (1878-1942) sem kemur mjög við sögu í helfararmyndinni Uppreisnin (The Uprising 2001). Hann rak munaðarleysingjahæli og skóla fyrir börn innan Varsjár-gettósins og krafðist þess að fá að fara með börnunum þegar þau voru flutt á brott af nasistum. Mun hann hafa látið lífið í Treblinka-útrýmingarbúðunum eins og börnin.

Lenu blöskraði aðbúnaður Gyðingabarnanna í flóttamannamiðstöðinni í Kraká og skynjaði að þau voru smám saman að deyja úr hirðuleysi og vannæringu.

Minningu slíks fólks ber svo sannarlega að halda á lofti andspænis öllum þeim óhugnaði og allri þeirri mannvonsku sem birtist í ýmsum atburðum heimsstyrjaldarinnar síðari og þá auðvitað fyrst og fremst í helförinni sjálfri. Þessi mynd á það sameiginlegt með myndinni Leitin (The Search, 1948) að í þeim báðum er kastljósinu beint að hlutskipti munaðarlausra Gyðingabarna í stríðslok. Í báðum myndunum er kona einnig í aðalhlutverki.

Síðar hefur verið gerð merk heimildamynd um þá atburði og þær persónur sem fjallað er um í þessari kvikmynd, My 100 Children (Israel 2003, Mosh Danon, Amalia Margolin, Oshra Schwartz og Einat Glazer-Zarbin). Þar kemur fram að börnin sem Lena flutti til Ísraels fengu hæli á Schiller samyrkjubúinu (kibbutz). Í heimildamyndinni koma við sögu nokkrir þeirra einstaklinga, sem komu til Ísraels sem börn með Lenu. Þeir fara til Póllands með kvikmyndagerðafólkinu og segja sögu sína.

Myndin Lena: My 100 Children sýnir vel hina miklu grimmd sem kynþáttahatrið hefur í för með sér. Þar er börnum ekki hlíft og það er alveg ljóst að þessi hundrað börn hefðu ekki átt neina framtíð hefði Lena ekki komið þeim til hjálpar. Myndir tjáir jafnframt þann sannleika að það voru ekki bara þýskir nasistar sem ofsóttu Gyðinga heldur áttu þeir sér víðs vegar um Evrópu dygga samverkamenn í því ætlunarverki sínu að útrýma Gyðingum. Þannig sýndi sig líka að endanlok styrjaldarinnar þýddu ekki alltaf að Gyðingar gætu verið öryggir með sig. Ofsóknum á hendur þeim var sums staðar haldið áfram þrátt fyrir allar þær skelfingar sem þeir höfðu mátt þola.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í flestum kvikmyndum sem fjalla um helförina og/eða afleiðingar hennar er heilmikið um trúarlegt efni í myndinni. Þannig fáum við innsýn í þá ákvörðun margra Gyðinga að taka kristna trú í þeirri von að það mætti verða þeim til bjargar. Það á við um Lenu og jafnframt eina stúlkuna í hópi Gyðingabarnanna sem jafnan ber kross um hálsinn. Hún segir að foreldar sínir hafi verið Gyðingar en sjálf sé hún kaþólsk.

Þá sjáum við einnig að eitt barnanna sem klætt var í kjól reyndist vera sveinbarn þegar Lena tók að baða það. Þarna sjáum við dæmi þess sem ekki var óalgengt meðal Gyðinga í felum. Drengir klæddust eins og stúlkur vegna þess að oft var buxum einfaldlega kippt niður um drengi til að ganga úr skugga um hvort þeir væru umskornir (sbr. kvikmyndina Hitlersæskuliðinn Salómon, 1991, en umskurnin er meginþema þeirrar athyglisverðu helfararmyndar).

Dæmi um trúarlegt efni er að ýmsir helgisiðir tengdir sabbatinum (hvíldardeginum), söngvar og bænir, eru sýndir í myndinni.

Við heyrum eitt Gyðingabarnanna lesa upp úr Biblíunni frásögnina af því er Guð fól Abraham að taka sig upp og halda til lands sem hann ætlaði að gefa honum, þ.e. Kanaanslands (1M 12:1). Fyrirheitna landið reynist enda þýðingarmikið stef í myndinni.

Púrímhátíðin er haldin til að minnast atburðanna sem Esterarbók greinir frá (ofsóknum gegn Gyðingum í Persíu) og einmitt þá verður heimili barnanna fyrir áras. Þannig kallast stöðugt á atburðir Biblíunnar og reynsla barnanna.

Loks spyr Lena börnin hvort þau þekki Exodus-söguna og eitt þeirra svarar með því að segja söguna af frelsun forfeðra þeirra úr þrælkuninni í Egyptalandi og hvernig Guð leiddi þá til fyrirheitna landsins. Í framhaldi af því skýrir Lena börnunum frá þeirri ákvörðun sinni að leiða þau til þessa sama lands, það muni hins vegar reynast hættuleg ferð og því geti elstu börnin ákveðið hvort þau vilji frekar verða eftir í Póllandi. Það er óhætt að segja að Lena minnir um margt á Móse Gamla testamentisins sem leiddi þjóð sína út úr ánauðinni í Egyptalandi og til fyrirheitna landsins.

Myndin er einnig vitnisburður um hversu miklu einstaklingur getur komið til leiðar hafi hann til að bera nægan kærleika og ákveðni í þágu þess málstaðar eða marksmiðs sem hann vinnur. Fyrirfram hefði mátt ætla að það væri algjörlega vonlaust að ein kona gæti annast þessi hundrað börn, verndað þau á mikilli hættuför úr landi og loks tryggt framtíð þeirra í hinu fyrirheitna landi. En það gerðist engu að síður. Að því leyti er þessi mynd sannsöguleg.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 12:1; 2. Mósebók, Esterarbók
Hliðstæður við texta trúarrits: Handleiðsla Móse í 2. Mósebók
Persónur úr trúarritum: Ester, Mordekaí, Haman, Ahasverus
Guðfræðistef: Von, exodus, fyrirheit, fyrirheitna landið, dauði-líf
Siðfræðistef: Kynþáttaofsóknir, fordómar, kynþáttamisrétti, þjóðarmorð, gyðingahatur, náungakærleikur, móðurást, barnahjálp, dauði, þjáning, mútur
Trúarbrögð: gyðingdómur, kristni (rómversk-kaþólsk), nasismi
Trúarleg tákn: Kippa (kollhúfa Gyðinga), Biblía, kross, umskurn
Trúarleg embætti: Nunna, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: Trúarsöngvar, bæn, borðbæn, blessun
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Hvíldardagur, hvíldardagsmáltíð, Púrím-hátíðin, helförin
Trúarleg reynsla: Upplifun frelsis