Leikstjórn: Denys Arcand
Handrit: Denys Arcand
Leikarar: Rémy Girard, Stéphane Rousseau, Dorothée Berryman, Louise Portal, Dominique Michel, Yves Jacques, Pierre Curzi, Marie-Josée Croze, Marina Hands, Toni Cecchinato, Mitsou Gélinas og Johanne-Marie Tremblay
Upprunaland: Kanada
Ár: 2003
Lengd: 99mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um Rémy Lazure, framhaldsskólakennara á miðjum aldri sem glímir við krabbamein. Hann er önugur og sjálfselskur nautnaseggur sem augljóslega hefur brennt margar brýr að baki sér í lífinu. Konan hans er farin frá honum fyrir löngu, hann er vinafár og börnin hans tala örsjaldan við hann. Nú er samt svo komið að hann er dauðvona og breytir það ýmsu. Myndin segir frá síðustu dögum Rémys með fjölskyldu og vinum.
Almennt um myndina:
Myndin er sérstök að því leiti að áhorfandinn fær að valsa svo til óáreittur um sögusvið hennar. Hún byggist mikið á samtölum fólks í litlum rýmum, sem gefur áhorfandanum nægan tíma til þess að virða hverja persónu fyrir sér og mynda eigin skoðun á henni. Því er auðvelt að lifa sig inn í aðstæður hvers og eins, maður fær auðveldlega samúð með persónunum og er jafnvel tilbúinn að fyrirgefa ýmislegt sem maður alla jafna hefði sýnt lítinn skilning eða fordæmt. Leikstjórinn reynir ekki að draga upp neina ákveðna mynd af persónunum, hann reynir ekki að fá áhorfendur til þess að samþykkja viðbrögð þeirra, skoðanir eða ákvarðanir en fordæmir þær heldur ekki eða gerir lítið úr þeim. Honum tekst á snilldarlegan hátt að gera áhorfandanum það ljóst að þetta er bara fólk sem er alveg jafn flókið, brothætt og spillt eins og fólk er gjarnan. Áhorfandinn tekur þátt í samverustundum persónanna, en hann fær líka tækifæri til að vera með þeim í einrúmi og upplifa með þeim tilfinningar sem enginn annar sér. Þannig fáum við að skyggnast á ,,bakvið tjöldin” hjá Rémy á augnablikum sem eru honum erfið og tilfinningaþrungin. (Arts and Faith, 2005.) Til dæmis fylgjumst við með Rémy andvaka í einu atriðinu. Það er tekin nærmynd af andlitinu á honum og klippingar eru hraðar, sem gerir það að verkum að við sjáum greinilega að hann er kvíðinn, sorgmæddur og einmanna. Þetta er stund sem áhorfandinn á einn með Rémy og ljóst er að fjölskyldan hans gerir sér ekki grein fyrir líðan hans, því daginn eftir leikur hann svo á alls oddi.
Leikurinn er yfir heildina litið góður og margar persónur eftirminnilegar. Sérstaklega er Rémy Girard sannfærandi í túlkun sinni á Rémy Lazure, auk þess sem mér fannst persóna hans skemmtilegust í myndinni. Rémy er vissulega oft á tíðum erfiður, sjálfselskur og frekur, en hann hefur góðan húmor og nýtur þess að vera í góðra vina hópi. Vinahópurinn eins og hann leggur sig er mjög fyndinn og er húmorinn hárbeittur og kaldhæðinn. Það gerir það að verkum að myndin er skemmtileg, þótt umfjöllunarefni hennar sé átakanlegt.
Kvikmyndataka er góð og margar senurnar listrænar. Sem dæmi má nefna myndbrot úr náttúrunni á milli atriða, af fuglum á flugi, trjám í vindi eða gárum á vatni svo eitthvað sé nefnt. Þessi innskot eru yfirleitt táknræn fyrir þær tilfinningar eða andrúmsloft sem eru einkennandi á þeim stað í myndinni.
Leikstjóri myndarinnar er Denys Arcand og hefur hann m.a gert myndirnar Le déclin de l’empire américain og Jesus de Montréal. Þessar þrjár myndir vinna saman að því leyti að Les invasions barbares er sjálfstætt framhald myndarinnar Le déclin de l’empire américain og það má sjá persónur í Les invasions barbares úr myndinni Jesus de Montréal. Arcand notar sömu leikara til að túlka persónurnar og þær heita sömu nöfnum og í Jesus de Montréal, svo ekki er um að villast að hann hefur sömu persónur í huga. Sem dæmi má nefna að í Jesus de Montréal fylgjumst við með einstæðri móður að nafni Constance. Það er sama nafn og á nunnunni sem kemur mikið við sögu í Les invasions barbares og er hún leikin af sömu leikkonu. Í Jesus de Montréal er hún fráskilin móðir, sem á í leynilegu ástarsambandi við prest en endar svo á því að ganga til liðs við spilltan ferðaleikhóp. Í Les invasions barbares er gefið í skyn að hún hafi snúið baki við fyrra líferni og gerst nunna. Þær ályktanir eru dregnar af því að hún talar um í fleiri en einu atriði að Guð hljóti að fyrirgefa mönnunum gamlar syndir. Fleiri persónur koma fyrir í báðum myndunum, til dæmis presturinn, sem í Jesus de Montréal er mjög öruggur í sinni trú og talar um að stofnanir lifi lengur en eintaklingar. Þá á hann við kirkjuna og sterka stöðu hennar í heiminum. Í Les invasions barbares er hann heldur svartsýnni og hefur áhyggjur af hnignun kirkjunnar og dvínandi trúaráhuga landsmannna. (Filmchat. 19. mars 2005.)
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Innrás villimannanna inniheldur sterkt trúar- og siðferðisstef. Hún fjallar um síðustu daga deyjandi manns, uppgjör hans við sjálfan sig og fólkið í kring um hann. Það er áhrifamikið hvernig Sébastian sonur Rémys, fjölskyldan og vinirnir takast á við baráttu hans við krabbameinið. Sébastian leggur mikið á sig til þess að Rémy geti liðið sem best og beitir hann öllum brögðum til þess að ná fram ætlunum sínum. Þar fléttast inn siðferðileg stef, sem áhorfandinn þarf að gera upp við sig hvort hann samþykkir eða ekki. Endir myndarinnar vekur sérstaklega upp spurningar um siðferðileg málefni lífs og dauða og um frjálsan vilja mannsins.
TrúarstefTrúarlíf og trúarhugmyndir eru nokkuð áberandi í myndinni. Í einni af upphafssenunum fylgjumst við t.d með presti sem tekur til altarissakramenti og svo fylgjum við nunnu eftir sem útdeilir því til sjúklinga. Mikið hefur verið fjallað um þetta atriði, sérstaklega fyrir þær sakir að á meðan við fylgjum nunnunni eftir fáum við góðan tíma til að virða fyrir okkur umhverfið á spítalaganginum. Það er ekki dregin upp falleg mynd af ástandinu á spítalanum og er þetta því hörð ádeila á heilbrigðiskerfið í Kanada. (Arts and Faith, 2005.) Þarna er mikil örtröð og þarf nunnan að skáskjóta sér á milli sjúklinga sem liggja í sjúkrarúmum upp við veggina og starfsfólksins sem er á hraðferð eftir ganginum. Við sjáum víra hanga niður úr loftinu og fjölda iðnaðarmanna að gera við, svo greinilegt er að allt er í lamasessi. Við fylgjum nunnunni fast eftir og sjáum að sumir þiggja boð hennar um sakramentið en aðrir neita. Við endum svo hjá rúmi Rémys, þar sem fyrrum eiginkona hans stendur. Nunnan kynnir sig með nafni, Rémy kynnir sig einnig og nunnan titlar svo fyrrum eiginkonuna sem núverandi eiginkonu. Hún bregst frekar illa við, segist vera skilin við hann fyrir löngu og fer svo að lýsa framhjáhöldum hans og syndsamlegu líferni í gegn um tíðina. Þau fara að rífast, nunnan verður vandræðaleg og fer í burtu.
Ég held að þetta atriði geti staðið fyrir þrennt: 1) Með því að láta nunnu fylgja okkur í gegn lúna ganga spítalans er verið að sýna fram á að þó heilbrigðiskerfið sé í lamasessi og mikið öngþveiti ríki á spítalanum, haldist trúarlegu gildin og hefðirnar enn óbreyttar. 2) Þegar nunnan kemur að Rémy, afþakkar hann sakramentið og er þar verið að gefa í skyn að hann sé ekki trúaður, annað hvort að hann hafi aldrei verið það eða að hann hafi misst trúna í veikindum sínum. Þar fáum við líka smá lýsingu á því hvernig persóna hann er, þegar fyrrum eiginkonan hans fer að gagnrýna hann. 3) Aðalástæðan fyrir þessu atriði er samt að mínu mati einföld. Atriðið er notað til þess að útskýra fyrir okkur áhorfendum að þetta er nunna. Hún er klædd eins og hjúkrunarkona, og því ekki hægt að nota klæðnaðinn til aðgreiningar. Nunnan á eftir að koma mikið við sögu, þau Rémy ræða saman um lífið og tilveruna og eiga þau allmörg samtöl um trúna og dauðann. Það er greinilegt á umræðuefnum þeirra hverju sinni, hvernig honum sjálfum líður; stundum er hann reiður, stundum leiður o.s.frv. Hann er sagnfræðingur að mennt og talar mikið um kirkjuna út frá þeim stríðum sem hafa geysað, frekar en að hann tali beint um sína trúarafstöðu. Hann æsir sig oft við hana og eru mörg samtöl þeirra um trúmál mjög áhugaverð. T.d þegar hann segir ,,Píus XII sitjandi á feitum rassi í Vatikaninu á meðan meðan Lewi fór til Auschwitz. Það er ekki sorglegt heldur skelfilegt!” Hann leggst svo niður en hún þegir. Svo segir hún allt í einu ,,Ef saga mannsins er ein glæpasaga, hlýtur að vera einhver sem fyrirgefur okkur. Það er mín trú.” ,,Ég öfunda þig” segir Rémy þá og gefur þar með í skyn að hann hafi misst trúna.
Í gegn um myndina er oft minnst á kirkjuna og kirkjunnar menn í samtölum vinanna, en þó oftar í hæðnistón, því það lítur allt út fyrir að hvorki Rémy né vinir hans hafi verið mjög kirkjurækið eða siðprútt fólk á sínum yngri árum. Samt er augljóst að Rémy veltir fyrir sér spurningum um trúna í sambandi við lífið og dauðann eins og dauðvona fólk hlýtur að gera.
Það er ekki dregin upp traustvekjandi mynd af kirkjunni í myndinni. Unnusta Sébastians er listmunasali og er beðin um að fara að skoða kaþólsku kirkjuna í Montreal, þar sem hún eigi mikið af trúarlegri list. Hún fer að skoða og á langt samtal við prestinn, þar sem þau labba um kjallara fullan af Maríustyttum og öðrum trúarlegum munum. Á meðan þau labba um, lýsir hann áhyggjum sínum af hnignandi trúaráhuga landsmanna og framtíð kirkjunnar.
Það er einnig talað um önnur trúarbrögð í myndinni, svo sem íslam og ekki gefin góð mynd af þeim heldur. Rémy neitar t.d að fara til Bandaríkjanna og segir ástæðuna þá að hann vilji ekki vera drepinn af brjáluðum múslimum.
Siðferðisstef Siðferðisstefin eru mörg og þeir einstaklingar sem koma við sögu tala frjálslega um skrautlegt líferni sitt. Spillingin er mikil og leikstjórinn deilir harkalega á samfélagið, t.d spillt kerfi, spillta lögreglu, mútur og lélegt heilbrigðiskerfi. Vísunin í lélegt heilbrigðiskerfi kemur til dæmis fram í því að Rémy þarf að fara til Bandaríkjanna til þess að fá betri læknisþjónustu, en það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir tilstilli Sébastians og peningavalda hans. Auk þess að fjalla um siðferðisleg stef í samfélaginu, tekur leikstjórinn líka fyrir einstaklingana og siðferðisleg stef í þeirra lífsháttum.
Rémy var greinilega mikill nautnaseggur, hann átti margar ástkonur og naut lífsins til hins ýtrasta. Framhjáhöld hans koma nokkuð mikið við sögu í myndinni, konan hans fór frá honum þeirra vegna og börnin hans eru sár og reið við hann. Það virðist einnig sem þær vinkonur hans sem koma til þess að eyða með honum síðustu dögunum hafi verið ástkonur hans til lengri eða skemmri tíma. Í Rémy sjáum við því einstakling sem er ótrúr, sjálfelskur og nautnagjarn. Baráttan við sjúkdóminn hefur auðvitað áhrif á Rémy, gerir hann tilfinninganæmari og fær hann til að hugsa um breytni sína í gegn um tíðina. Þegar nær líður að dauðastundinni verður samband hans við sína nánunstu betra og sýnir hann greinilegan vilja til þess að bæta samskiptin við Sébastian. Hann talar einnig fallega um fyrrum eiginkonu sína og spyr oftar eftir dóttur sinni, sem hann hefur ekki sinnt mikið gegn um tíðina. Hann breytist samt lítið að einu leyti í veikindum sínum, hann er jafn mikill nautnaseggur. Að hans mati skipta 3 hlutir meginmáli í lífinu; góður matur, gott vín og fallegar konur. Alveg fram undir það síðasta nýtur hann þess að borða góðan mat og drekka gott vín í góðum félagsskap og hefur hann orð á því oftar en einu sinni í myndinni að honum þyki verst að geta ekki lengur stundað kynlíf.
Sébastian, sonur Rémys er einnig athyglisverður karakter og áberandi í myndinni. Hann er harður viðskiptamaður og á fullt af peningum. Hann og faðir hans eru ólíkir og segir Rémy t.d einu sinni ,,Hann er metnaðargjarn og heittrúaður kapítalisti, ég var nautnagjarn sósíalisti.” Þó að Sébastian sé ekki nautnamaður í sama formi og pabbi sinn, hefur hann það gott í lífinu og notar peninga hiklaust til þess að koma sér áfram. Hann mútar t.d stjórn spítalans til þess að útvega föður sínum sérherbergi, hann mútar starfsmönnum spítalans til þess að gera herbergið upp. Hann mútar fyrrum nemendum Rémys til þess að koma og heimsækja hann og hikar ekki við að ljúga þegar það á við. Þó að Sébastian sé harður karl í upphafi myndarinnar og svífist einskis við að fá vilja sínum framgengt, sýnir hann þó greinilegan vilja til þess að bæta sig þegar líða fer á myndina og hann verður tillitssamari við annað fólk. Hegðun hans undir lokin vísar í þá kristilegu hugmynd um að fyrirgefa og vera góður við náungann, eins og segir t.d í Efesusbréfi 4: 31 ,,Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.” (Biblían, 1981.)
Eitt af þeim siðferðisstefjum sem fram koma í myndinni er misnotkun eiturlyfja, en vegna aðstæðna getur áhorfandi vel sætt sig við hana. Til þess að lina kvalir föður síns síðustu dagana, ákveður Sébastian að útvega honum heróín. Dóttir einnar vinkonu Rémys er forfallinn eiturlyfjaneitandi og hefur Sébastian upp á henni til að aðstoða sig við að útvega efnið og gefa föður sínum (gegn greiðslu að sjálfsögðu). Hún heitir Natalie og á hún eftir að gegna stóru hlutverki í myndinni, þessa síðustu daga Rémys. Samband hennar við móður sína kemur til umfjöllunar, þær hafa ekki talast við í langan tíma því Natalie kennir henni um erfiða æsku sína og aðstæður sínar í lífinu og getur ekki fyrirgefið henni. Við erum því með tvö pör, feðga og mæðgur sem eiga ýmislegt óuppgert úr fortíðinni og fylgjumst við með ferli þeirra að fyrirgefningu og uppgjöri.
Rémy og Natalie reykja heróín saman á hverjum degi og eru samtöl þeirra um lífið og tilveruna mjög athyglisverð. Hann segir henni m.a frá ástarsambandi sínu við móður hennar og hún segir honum frá lauslæti móður sinnar og áhrifunum sem það hafði á hana. Rémy bregður augljóslega nokkuð við lýsingarnar og það er eins og hann átti sig þarna á því hvaða áhrif líferni hans hefur haft á Sébastian og dóttur hans. Í Sébastian og Natalie sjáum við dæmi um fólk sem ólst upp hjá frjálslyndri kynslóð Rémys og félaga. Sébastian er heittrúaður kapítalisti sem tekur fullan þátt í kapphlaupi efnishyggjunnar en Natalie er forfallinn eiturlyfjaneitandi sem er áttavillt og tekur lítinn þátt í samfélaginu.
Það er fróðlegt að sjá ólík viðhorf Rémys og Natalie til lífsins; hann naut þess til fullnustu og tímir ekki að sleppa því hún er ung og ætti að vera í blóma lífsins, en finnst lífið merkingarlaust og segist vera tilbúin að deyja. Á meðan Rémy talar um trúmál við nunnuna, talar hann um fortíðina og almennar lífsskoðanir við Natalie. Hann talar um það sem betur hefði mátt fara, hverju hann sér eftir, hvað hann hefði viljað gera í lífinu o.fl.
Þó að mörg neikvæð siðferðileg stef séu í myndinni, svo sem svik, mútur, lygar, eiturlyfjaneysla o.fl eru þau þó öll sett þannig fram að auðvelt er að skilja afstöðu þess sem fremur þau. Þó að mikið af neikvæðum stefjum komi fram, eru einnig þónokkur jákvæð. Vináttan spilar stórt hlutverk í myndinni, og greinilegt er hversu upplífgandi áhrif það hefur á Rémy að fá alla gömlu vinina í heimsókn. Það er líka gaman að sjá hversu vel þau ná saman, þó þau hafi öll farið í sitt hvora áttina og ekki hist í langan tíma. Fyrirgefningin er áberandi, hvort sem fólk er að fyrirgefa sjálfu sér eða einhverjum öðrum og viljinn til að veita annað tækifæri er greinilegur.
Lokastund RémysMerkilegasta og áhrifamesta senan í myndinni er að mínu mati síðasta kvöldmáltíð þeirra saman og dánardagur Rémys. Þau eru stödd í sumarhúsi við stórt vatn og greinilegt er á öllu að það líður að lokastundinni. Þau sitja saman, drekka rauðvín, rifja upp gamlar minningar og hlæja. Um kvöldið borða þau saman, borðhaldið er hlaðið drunga og söknuði en greinilegt er að allir hafa ákveðið að njóta kvöldsins saman. Þau tala um heima og geima, en aðallega um listir, menningu og manninn í gegn um söguna. Allt í einu taka þau eftir að Rémy hefur dregið sig út úr samræðunum og greinilegt er að máttur hans fer þverrandi. Honum er boðið að borða en afþakkar, brosir dauflega og segist ekki geta það. Haft er á orði að aldrei fyrr hafi hann neitað slíkum veislumat, en hann svarar að sá dagur sé runninn upp. Honum er boðinn vínsopi, en svarar með sama móti að hann geti ekki drukkið. Hann biður þau í staðinn að skála fyrir sér og segja honum svo hvað vínið er gott. Allir skála þegjandi, margir fá tár í augun og senan er mjög dramatísk. Ekki síst fyrir þær sakir að Rémy hefur nú misst þrek til þess að gera allt það sem veitti honum ánægju í lífinu. Þarna verður ljóst að Rémy á ekki mikið eftir ólifað.
Mér finnst margt táknrænt í þessari senu: Þau sitja öll saman við langt borð inni í hvítu herbergi og er Rémy við endann. Það er bjart yfir herberginu og vísar það í aðstæður og sýnir vel andrúmsloftið sem ríkir. Það er fiskur í matinn og þau drekka rauðvín með, fiskurinn hefur verið notaður sem tákn Krists og rauðvínið gæti táknað blóð Hans í altarissakramentinu. Myndin hefst því á altarissakramenti og má segja að hún endi á því líka.
Fyrrverandi eiginkona Rémys og tengdadóttir klæðast báðar hvítu og tel ég það merki um sakleysi þeirra í gegn um alla myndina. Þær eru einu sögupersónurnar sem áhorfandi fær aldrei að sjá neina galla á. Sébastian og Rémy eru í fjólubláu og er það litur iðrunar, bóta og betrunar. Innan um eru svo þónokkrir í svörtu og er það greinileg vísun í það af hverju þau eru saman komin þarna.
Morguninn eftir sjáum við Rémy í rúmi úti á verönd og hvítt kerti er á borðinu við hliðina á honum. Hann segir við Sébastian að hann sé hræddur en Sébastian hughreystir hann og segir honum að ákvörðunin sé algerlega hans. Þeir tala mikið saman og faðmast innilega, svo greinilegt er að alger sátt er orðin þeirra á milli. Rémy heldur stutta tölu fyrir vini sína og fjölskyldu, þakkar þeim fyrir góða viðkynningu, svo ekki er um að villast að það er komið að lokastundinni. Þau koma svo eitt af öðru til hans og kveðja hann, með fáeinum orðum, augnaráði eða snertingum. Natalie kemur síðust, með hvítan bakka fullan af sprautum en hinir mæta henni í einfaldri röð, fara inn og horfa á þau út um gluggann. Rémy kallar hana verndarengilinn sinn, og það er rétt að hún hefur yfir sér einhvern helgan blæ þegar hún kemur þarna gangandi til hans. Rémy gefur Natalie svo merki og hún byrjar að sprauta hann. Hún gefur honum hverja sprautuna á fætur annari og við sjáum líf hans fjara út. Greinilegt er á svip Natalie að þetta er mjög erfitt fyrir hana, en andrúmsloftið er engu að síður mjög friðsælt.
Þetta er rosalega áhrifamikið atriði, sem skilur mann eftir með erfiðar spurningar. Spurningar sem eru trúarlegs eðlis og siðferðilegs um lífið, dauðann og frelsi mannsins til að velja. Þetta er ekki síst erfitt fyrir þær sakir að maður sér hvað tekur á Natalie að gera þetta. Maður veltir fyrir sér hvernig henni á eftir að takast að vinna úr þessu, hvort hún á eftir að fá sektarkennd, finnast hún á einhvern hátt sek eða þess háttar.
Rémy og baráttan við dauðannÍ bók sinni ,,Er dauðinn kveður dyra” talar Elisabeth Kübler Ross um að fólk gangi í gegn um fimm stig í baráttu sinni við dauðann. Þessi stig sjáum við greinilega á Rémy, andlegri líðan hans og samskiptum hans við fólkið sitt. Mig langar til þess að nefna stiginn fimm, lýsa helstu einkennum þeirra og taka lítil dæmi úr myndinni fyrir hvert og eitt.
1. Afneitun og einangrun. Sjúklingur dregur sig í hlé, vill ekki umgangast sína nánustu og neitar að trúa því sem sagt er um líkamsástand hans. Við fáum við ekki að sjá þegar Rémy er tilkynnt um veikindi sín, svo við þekkjum ekki hans fyrstu viðbrögð.
2. Reiði. Þegar sjúklingur getur ekki lengur neitað ástandi sínu, tekur við reiði, öfund og óánægja. Spurningar eins og ,,hvers vegna ég?” herja á og reiðin beinist að hverju sem er í umhverfinu; aðstandendum, læknum og hjúkrunarfólki. Sjúklingur gleðst ekki yfir þeim sem koma í heimsókn og fagnar þeim ekki. Þetta er oft mjög erfitt fyrir aðstandendur, sem forðast jafnvel að heimsækja sjúklinginn.
Rémy er greinilega á þessu stigi í upphafi myndarinnar. Hann er önugur, talar lítið og þegar Sébastian kemur frá London skiptir hann sér lítið af honum. Hann kvartar mikið og rífst heiftarlega við Sébastian, sem ætlar sér að gefast upp og snúa aftur. (Mamma hans sannfærir hann svo um að vera lengur.)
3. Samningastig. Þetta stig er ekki jafn þekkt, og ekki ganga allir sjúklingar í gegn um það. Sjúklingur hefur nú reynt það að vera reiður út í Guð, en fer núna út í samningaviðræður í von um lengri lífdaga. Sjúklingur lofar oft aukinni kirkjusókn, störfum í þágu kirkjunnar eða betri hegðun. Oft notar fólk þessa samninga til þess að freista þess að fresta dauðastundinni fram yfir ákveðinn atburð sem það vill lifa.
Það fer ekki mikið fyrir þessu stigi í myndinni, en Rémy talar samt um það sem hann myndi gera ef hann fengi að lifa lengur.
4. Þunglyndi. Nú er svo komið að sjúklingurinn þarf að horfast í augu við fleiri og fleiri einkenni sjúkdómsins og getur því ekki lengur þrætt fyrir veikindi sín. Hann missir máttinn, grennist, þarf jafnvel að gangast undir aðgerðir og finnur hvernig smám saman dregur úr lífskraftinum. Reiðin víkur nú fyrir þungri saknaðarkennd og eftirsjá í ýmsum þáttum lífsins sem aldrei hafa ræst.
Þetta er greinilegasta stigið í myndinni og meginhluta myndarinnar er Rémy að glíma við það. Rémy talar mikið um gamla tíma og kvartar undan því að hann geti ekki lengur notið lífsins eins og hann gerði. Hann sér einnig eftir því að hafa ekki gert meira, lært meira og finnst hann ekki hafa fengið út úr lífinu það sem hann hefði viljað. Hann trúir Natalie fyrir því að honum finnist hann jafn hjálparlaus og daginn sem hann fæddist. Hann sér eftir því að hafa ekki skrifað neitt, og hefur áhyggjur af því að gleymast. Honum finnst líf sitt ekki hafa haft neinn tilgang og finnst hann verða að leita betur að tilganginum. Rémy verður hræddur og einmana, og segir hann Natalie að hann sé hræddur við að deyja. Einmanaleika hans sjáum við í þeim senum sem við erum ein með honum. Til dæmis í einni af andvökusenunum, fer hann að glugganum og horfir út. Við sjáum áhyggjufullt andlit Rémys inn um gluggan og hvernig gardínurnar mynda skugga eins og rimlar séu á andlitinu á honum. Það ber merki um einangrun hans og einmannaleika. Það væri hægt að nefna mun fleiri atriði í tengslum við þetta stig. Að mati Kübler Ross er nærvera mikilvægust á þessu stigi, og er Rémy heppinn að því leitinu til að allir vinir hans eru nú komnir til hans.
5. Jafnaðargeð. Á þessu stigi finnur sjúklingur að hann er smám saman að fjarlægjast lífið. Hann er ekki reiður eða leiður lengur, hann er aðeins mjög máttfarinn og oft eins og tilfinningalaus. Sjúklingurinn er mjög þreyttur og dottar oft í stutta stund í senn. Yfir honum ríkir friður og jafnaðargeð, enda þurfa fjölskylda og vinir oft meiri á andlegri hjálp að halda á þessu stigi en sjúklingurinn sjálfur. Á þessu stigi vill sjúklingurinn bara vera innan um sína nánustu, og nærveran er nú orðin mikilvægari en öll orð.
Þetta stig má sjá í síðari hluta myndarinnar, þegar Rémy dvelur í sumarhúsinu með vinum og fjölskyldu. Yfir honum er mikil ró, hann sem alltaf hefur talað hátt og mikið hlustar nú á samræðurnar og dottar inn á milli. Yfir honum ríkir mikill friður, hann hefur gert upp sín mál, sæst við son sinn og eiginkonu og líður greinilega vel í góðra vina hópi. (Kübler-Ross 1983: 41, 52-53, 82, 85 og 110-111.)
SamantektInnrás villimannanna er áhugaverð saga um síðustu dagana í lífi einstaklings sem ekki hefur hlúð vel að sér og sínum í gegn um tíðina. Honum er þó fyrirgefið að lokum og snýst boðskapur myndarinnar um að fyrirgefa, veita annað tækifæri og trúa á það góða í manninum. Myndin kennir okkur að það geta allir bætt sig og allir eiga skilið annað tækifæri til þess. Flestir í myndinni höfðu klúðrað einhverju í lífi sínu, fengu annað tækifæri og nýttu sér það til að bæta sig. Aðrir voru reiðir og sárir, en fengu nú tækifæri til að segja það sem þeim bjó í brjósti og fyrirgefa. Rémy fékk tækifæri til að haga sér betur og sýna hvað honum fannst í raun um sína nánustu, Sébastian fékk tækifæri til að fyrirgefa pabba sínum og sömuleiðis fékk fyrrum eiginkona Rémys tækifæri til að sættast við hann og fyrirgefa honum svikin. Natalie fékk tækifæri til að hætta að neyta eiturlyfja, móðir hennar fékk tækifæri til að biðja hana afsökunar og svona mætti lengi telja.
Myndin kennir okkur einnig að ekki er hægt að alhæfa um siðferðisleg álitamál. Í myndinni koma fram umdeild stef, t.d um eiturlyfjaneyslu, líknardráp og spillingu sem maður er þó tilbúinn að fyrirgefa með tilliti til aðstæðna. Ekki er víst að allar persónur myndarinnar hefðu t.d stutt líknardráp, fyrr en þær tóku þátt í baráttunni með Rémy.
Nafnið á myndinni, Innrás villimannanna, á sér nokkrar tengingar í henni. Í einu atriði myndarinnar sést á sjónvarpsskjá þegar ráðist er á Tvíburaturnana árið 2001 og er þá talað um innrás villimannanna, sem er eina beina vísunin í nafnið. Það má einnig líkja krabbameininu, sem Rémy glímir við, við innrás villimanna og einnig sér maður fyrir sér hálfgerða innrás þegar vinir Rémys koma að heimsækja hann. Þannig tekst mér helst að tengja nafnið á myndinni við innihald hennar.
Heimildir Arts and Faith. 2005. ,,The Barbarian Invasions.” Slóðin er: http://artsandfaith.com/index.php?showtopic=822.
Filmchat. 19. mars 2005. ,,Denys Arcand´s dynamic triple-bill.” Slóðin er: http://filmchatblog.blogspot.com/2005/03/denys-arcands-dynamic-triple-bi….
Karl Sigurbjörnsson. 1993. Táknmál trúarinnar. Skálholtsútgáfan, Reykjavík.
Kübler Ross. 1983. Er dauðinn kveður dyra. Skálholtsútgáfan, Reykjavík.
Kvikmyndir.is. 1997 2003. ,,The Barbarian Invasions.” Slóðin er: http://www.kvikmyndir.is/?mynd=thebarbarianinvasions.
The Internet Movie Database. 1990 2005. ,,Invasions barbares, Les.” Slóðin er: http://www.imdb.com/title/tt0338135/.
Hliðstæður við texta trúarrits: ,,Taktu við dýrðinni og þú verður hólpinn”, Mt 26:26 (Síðasta kvöldmáltíðin)
Persónur úr trúarritum: María mey
Sögulegar persónur: Jóhannes Páll páfi, móðir Teresa, Píus XII
Guðfræðistef: altarissakramenti, dauði, líf í himnaríki, sorg, sorgarferli
Siðfræðistef: mútur, þjófnaður, framhjáhald, eiturlyfjaneysla, svik, fyrirgefning, vinátta, tryggð, líknardráp, spillt samfélag
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, íslam, jesúítaregla
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: rómversk-kaþólsk kirkja
Trúarleg tákn: kross, jesú- og maríustyttur, hvít kerti, hvítir fuglar, ský (tákn blessunar), eik (tákn þolgæðis, styrkleika og kraft trúarinnar), vatn (tákn hreinleika), fiskur (tákn Krists), hvítur (litur sakleysis), fjólublár (litur iðrunar, bóta og betrunar), svartur (litur sorgarinnar) (sbr. Karl Sigurbjörnsson, 1993.)
Trúarleg embætti: prestur, nunna
Trúarlegt atferli og siðir: krossmark
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól, páskar
Trúarleg reynsla: endurlausn, fyrirgefning