Kvikmyndir

Lobo the Bastard

Leikstjórn: Demofilo Fidani [undir nafninu Dennis Ford]
Handrit: Lucio Dandolo [undir nafninu Lucio Giachin] og Diego Spataro
Leikarar: Pietro Martellanza [undir nafninu Peter Martell], Lincoln Tate, Gordon Mitchell, Daniela Giordano, Xiro Papas, Marcello Maniconi [undir nafninu Marcel McHoniz], Giuseppe Scrobogna [undir nafninu Joseph Scrobogna], Luciano Conti [undir nafninu Lucky MacMurray], Amerigo Leoni [undir nafninu Custer Gail], Carla Mancini, Franco Corso [undir nafninu Frankie Coursy] og Erika Blanc
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1971
Lengd: 82mín.
Hlutföll: 1.85:1

Ágrip af söguþræði:
Bræðurnir Ray og Pat vita ekkert skemmtilegra en að ræna banka. Svo fer þó að ránsfengi þeirra sjálfra er stolið af mexíkanska bófaforingjanum Lobo og verða þeir allt annað en sáttir með það.

Almennt um myndina:
Þetta er langdreginn og viðvaningslega gerður spaghettí-vestri sem kemur reyndar vart á óvart í ljósi þess hver leikstýrði honum en Demofilo Fidani hefur löngum þótt með síðri kvikmyndagerðarmönnum Ítalíu. Í raun einkennist myndin af löngum reiðtúrum einhvers staðar úti í buska, illa skrifuðum samtölum og bjánalegum slagsmálum með mjög svo ýktri hljóðsetningu. Það eina sem áhorfandanum kemur til hugar allan sýningartímann er „Geisp!“, „Geisp!“ og „Geisp!“.

Enda þótt titill myndarinnar sé hafður The Bastard Lobo á kápumynd íslenska myndbandsins, er hann hins vegar Lobo the Bastard í myndarbyrjun sem hljómar að sjálfsögðu verulega betur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt bræðurnir, aðalsöguhetjur myndarinnar, eigi að þykja svalar, snjallar og sniðugar hetjur verða þeir samt að teljast ósköp þreytandi og sjálfumglaðir þrjótar sem virða hvorki náungann né nokkuð sem honum tilheyrir.

Snemma í myndinni fá bræðurnir líkgrafara nokkurn til liðs við sig til að fremja bankarán, en sá biður jafnan sálir látinna fyrirgefningar í hvert sinn sem hann grefur þeim nýja gröf, enda notar hann sprengiefnið óspart til að auðvelda sér verkið. Svo fer þó að annar bróðurinn er drepinn og kemst hinn fyrst að því þegar hann finnur heillagrip hans í fórum grafarans sem hafði ekki haft hugmynd um hvern hann hafði grafið.

Þegar allt kemur til alls uppskera sögupersónurnar allar sem ein allt það sem þær höfðu sáð, þ.e. óheiðarleika, svik og þjófnað, og má því segja að illvirkin komi þeim að lokum sjálfum í koll. Enda þótt greina megi þennan boðskap í myndinni (eða kannski réttara sagt kreista hann út úr henni), þýðir það samt ekki að hún geti talist eitthvað betri eða merkilegri fyrir vikið.

Guðfræðistef: örlög framliðinna, himnaríki, sálin
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, bankarán, fjárhættuspil, siðferði, svik
Trúarleg tákn: kross á leiði, heillagripur