Kvikmyndir

Lolita

Leikstjórn: Adrian Lyne
Handrit: Stephen Schiff. Byggt á skáldsögu Vladimir Nabokov.
Leikarar: Jeremy Irons, Melanie Griffith, Frank Langella, Dominique Swain
Upprunaland: Bandaríkin og Frakkland
Ár: 1997
Lengd: 137mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0119558
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Miðaldra karlmaður, Humbert að nafni, verður ástfanginn af táningsstúlkunni Lolitu með hörmulegum afleiðingum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Lolita í leikstjórn Adrian Lyne er eitt af fáum dæmum um að endurgerð á gamalli kvikmynd er betri en frumgerðin. Það besta við endurgerðina er að Peter Sellers leikur ekki í henni, en hann oflék alveg hryllilega í gömlu útgáfu meistara Kubricks. Kvikmyndatakan er glæsileg, klippingin flott og leikurinn dásamlegur.

Endurgerðin á myndinni vakti almenna andúð og reiði almennings, en eins og oft heyrðist hæst í þeim sem ekki höfðu séð myndina. Myndin var t.d. bönnuð í Bandaríkjunum og senur klipptar úr henni í Þýskalandi. Það er leitt að myndin fékk svona slæmar móttökur því boðskapur hennar og umfjöllunarefni eru svo sannarlega þörf. Sifjaspell er eitt alvarlegasta vandamál samfélags okkar og því þörf á því að um það sé rætt.

Af gagnrýninni á myndina að dæma mætti halda að verið væri að réttlæta sifjaspell í myndinni. Slíkt er fjarri lagi því myndin sýnir einmitt hörmulegar afleiðingar syndarinnar. Humbert gengur að lokum af göflunum, Lolita snýr við hann bakinu og neitar að fyrirgefa honum og allt endar þetta með dauða aðalpersónanna. Af þessu er ljóst að ekki er verið að upphefja barnaklám eða sifjaspell. Á það má einnig benda að staðgengill var fenginn til að leika allar ,,nektarsenur“ og barnasálfræðingur var alltaf á staðnum. Sjálfs segir Dominique Swain (sú sem lék Lolitu) að henni hafi aldrei verið misboðið.

Á DVD disknum er að finna fjórar senur sem voru klipptar úr myndinni. Ein þeirra er mjög áhugaverð en þar segist Lolita ekki vilja fara í kirkju. Móðir hennar segir að hún verði að eiga það við eigin samvisku og ríkur út. Lolita nær sér þá í epli, sest við hliðina á Humbert og spyr: ,,Hvað er samviska Humbert?“ Humbert svarar henni ekki en hún bítur í eplið og gefur svo Humbert einnig bita. Þannig skiptast þau á að eta eplið. Tilvísunin í söguna af Adam og Evu er augljós og mjög viðeigandi. Síðar meir í myndinni sjálfri segir Humbert einnig: ,,Ég var í Paradís. Paradís þar sem himininn var litaður vítiseldi, en paradís engu að síður.“ Hér er því einnig að finna tilvísun í fallið. Í raun má skoða myndina sem útleggingu á sögunni af Adam og Evu. Humbert og Lolita eru eins og Adam og Eva. Syndin er kynferðisleg en afleiðing syndarinnar er dauðinn.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: fyrirgefning Guðs, hjálpræði, sál, synd
Siðfræðistef: heimilisofbeldi, morð, sifjaspell, öfundsýki
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, paradís, helvíti
Trúarleg tákn: epli, kross
Trúarlegt atferli og siðir: signun