Kvikmyndir

Lord of the Rings: The Two Towers

Leikstjórn: Peter Jackson
Handrit: Frances Walsh, Philippa Boyens, Stephen Sinclair og Peter Jackson, byggt á samnefndri skáldsögu eftir J.R.R. Tolkien
Leikarar: Elijah Wood, Ian McKellen, Viggo Mortensen, Sean Astin, Billy Boyd, Liv Tyler, John Rhys-Davies, Dominic Monaghan, Christopher Lee, Miranda Otto, Brad Dourif, Orlando Bloom, Cate Blanchett, Karl Urban, Bernard Hill, David Wenham, Andy Serkis, Robyn Malcolm og John Leigh
Upprunaland: Nýja Sjáland og Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 179mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Merry og Pippin ná að flýja úr prísund sinni og kynnast trjáhirðum sem kæra sig ekki um stríðsbrölt mannanna. Legolas, Gimli og Aragorn ganga til liðs við her Róhanborgar til að verjast árás hers Sarumans sem hefur það eitt að markmiði að þurrka út kynstofn manna. Á meðan fá Frodo og Sam Gollum til að vísa sér leiðina í gegnum Mordor.

Almennt um myndina:
Eins og flestir vita er þetta annar hluti Hringadrottinssögu af þremur en myndin líður svolítið fyrir það. Upphaf hennar og endir eru ekki vel afmörkuð og því virkar hún ekki sem sjálfstæð kvikmynd. Það væri t.d. vart hægt að njóta hennar almennilega hafi maður ekki séð fyrsta hlutann. Því er mjög erfitt að dæma hana. Þetta er svipað og að ganga inn í miðja mynd og fara aftur út af henni miðri og ætla svo að gefa henni einkunn.

En hvernig er þá þessi miðhluti? Ég verð að viðurkenna að mér brá þegar ég sá fyrsta klukkutímann eða svo. Persónusköpunin var frekar flöt og ég átti erfitt með að tengjast því sem var að gerast. Þetta á sérstaklega við um allt atriðið sem varðar Róhanborg en það er svo flatt að það mætti halda að einhver annar hefði leikstýrt því en Peter Jackson. Klippingarnar eru einnig frekar þreytandi. Reynt er að flýta sögunni með því að sýna aðeins upphaf og lok þess sem gert er. Maður gengur t.d. að hesti og það næsta sem maður sér er að hann er að setjast á bak hans. Svona klippingar flýta samt ekki sögunni heldur kippa áhorfandanum úr henni. Þá eru eilífar einræður þar sem útskýrt er fyrir áhorfandanum hvað er að gerast aljgörlega óþolandi og í raun óþarfar.

Ég saknaði einnig Gandalfs í myndinni en þótt hann sé risinn upp frá dauðum þá er þetta alls ekki sama persónan. Gandalfur hinn hvíti er upphafinn og heilagur og því ekki eins vinalegur og persónulegur og Gandalfur hinn grái. Gimli bætir reyndar fjarveru Gandalfs upp en hann er nokkurs konar „comic relieve“ í myndinni, án þess þó að vera bjánalegur eða þreytandi.

En þrátt fyrir fyrrnefnda galla er margt gott í myndinni. Bardaginn við Hjálmsdýpi er með stórkostlegustu bardagasenum sem ég hef séð og tæknibrellurnar einstaklega vel heppnaðar. Það á sérstaklega við um Gollum en senan þar sem hann ræðir við samvisku sína er ekki aðeins dæmi um frábærar tæknibrellur heldur einnig ótrúlegan leiksigur.

Þótt Turnarnir tveir séu ekki eins góð mynd og fyrri hlutinn hef ég ekki gefið upp alla von því von er á lengri útgáfu af henni þar sem bætt verður við um 35 mínútum. Það kæmi mér ekki á óvart að persónusköpunin eigi eftir að dýpka við þá viðbót. Þó ber að geta þess að margir telja Turnana tvo taka Föruneyti hringsins framyfir og hefur myndin og leikstjóri hennar t.d. verið tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það eru fjölmörg trúarstef í Turnunum tveimur, líklega fleiri en í Föruneyti hringsins. Þá er einnig unnið meira með mörg stef sem komu fyrir í fyrstu myndinni. Eitt af aðalstefum myndarinnar er heimsendir en rétt eins og í flestum heimsslitamyndum hefur fulltrúi hins illa náð völdum eða er að seilast til valda og ógnar þannig gamla rótgróna heimsskipulaginu. Styrjöldin yfirvofandi er sögð hinsta stríðið og allur heimurinn er sagður hulinn skugga. Þá rifjar Samwise Gamgee upp ævintýrasögur þar sem nýr dagur rís eftir dimma tíð og sólin skíni skærar en nokkurn tímann áður. Hann segist síðan loksins skilja þessar sögur enda sé hann að upplifa slíka stund.

Heimsslitin felast ekki aðeins í því að hið illa reynir að ná heimsyfirráðum. Rétt eins og Hitler hugðist drepa alla gyðinga ætlar Saruman að þurrka út allan kynstofn manna. Um leið er ljóst að margar verur muni einnig horfa fram á endalok sín. Álfar gera sér t.d. fulla grein fyrir því að tími þeirra sé liðinn og framundan sé tími mannanna. Þá gera trjáhirðar sér einnig fulla grein fyrir því að þátttaka þeirra í stríðinu muni líklega þýða endalok þeirra.

Stríð er sömuleiðis fyrirferðamikið þema í myndinni. Hvað ber manni að gera þegar ill öfl reyna að ná heimsyfirráðum? Vera hlutlaus eða grípa til vopna? Afstaðan í myndinni ber e.t.v. keim af því að sagan var skrifuð á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Boðskapurinn er sá að á slíkri stundu sé ekki um neitt val að ræða. Þar sem við erum öll hluti af heiminum, getum við ekki firrt okkur ábyrgð af styrjöldum annarra eða flúið afleiðingar þeirra. Þá er lögð áhersla á að á slíkri stundu skipti samstaðan öllu máli og er ákvörðun álfanna um að aðstoða mennina eitt besta dæmið um það, sem og sú vinátta sem hefur loks náðst milli álfa, manna, dverga og hobbita.

En þrátt fyrir yfirvofandi heimsstyrjöld og dómsdag, eða kannski einmitt vegna þeirra, er megin boðskapur myndarinnar vonin. Í myndinni er að finna fjölda setninga á borð við: „Það er alltaf von.“ Og „Við höldum í þá von að það sé eitthvað gott í þessum heimi og það sé þess virði að berjast fyrir því.“

Hringurinn er þó að sjálfsögðu megið viðfangsefni myndarinnar en augljósasta merking hans er spilling valdsins. Hinir valdagráðugustu eru líklegastir til að falla fyrir freistni hans, sérstaklega þó mennirnir sem þrá völd öðru fremur.

En það er einnig áhugavert að skoða hringinn sem tákn fyrir hvers kyns fíkn. Þeir sem komast í tæri við hringinn verða háðir honum. Fíknin verður að lokum svo sterk að hann er það eina sem þeir geta hugsað um. Siðferðiskennd þeirra sem eru háðir hringnum minnkar og um leið verða þeir sjálfumhverfir. Jafnvel Frodo verður svo heltekinn af hringnum að hann þekkir ekki Samwise Gamgee lengur og er kominn á fremsta hlunn með að drepa hann. Það er einmitt velþekkt hvernig fíknin kemur hvað verst niður á aðstandendunum. Þá eru Gollum og Ringwraiths að sjálfsögðu gott dæmi um fíkla en hringurinn hefur svo gjörsamlega rænt þá mennskunni að þeir eru sem vofur sem lifa fyrir það eitt að elta hann uppi.

Gollum er þó frábrugðinn að því leiti að hann getur enn sigrast á fíkn sinni. Þetta sést t.d. á innri baráttu hans, sem birtist í því hvernig þeir ‚góði Gollum‘ og ‚vondi Gollum‘ takast á. Ástand Gollums virðist einnig stafa af fleiru en fíkninni því að hann þráir fátt meira en traust, vináttu og kærleik. Frodo skynjar þetta og ákveður að reyna að hjálpa honum, en hann segir eitthvað á þessa leið: „Ég verð að trúa því að hann geti hlotið afturhvarf.“ Samwise Gamgee er hins vegar sannfærður um að Gollum verði ekki bjargað og eigi því enga samúð skilið. Fjandskapur Sams gengur reyndar svo langt að líkja má því við einelti. Í myndinni er því einnig fjallað um möguleika á afturhvarfi og afleiðingu eineltis.

Þá eru mörg trúartákn í myndinni. Það byrjar t.d. að rigna rétt áður en stríðið hefst en tengsl rigningar við syndina minnir að sjálfsögðu á söguna af örkinni hans Nóa. Vonin og sigur eru síðan táknuð með sólarupprisunni en hliðstæðu við slíkt er að finna á fjölmörgum stöðum í Biblíunni, sem og öðrum trúarritum. Þar má t.d. nefna Sálma 46:6; 90:14 og 143:8 sem og þegar Guð hjálpar Hebreum með því að drekkja hermönnum Faraó á morgunvökunni. (2M 14:24.)

Þá kemur vatn einnig við sögu en trjáhirðarnir ráðast á turn Sarumans með því að brjóta upp stíflu og láta vatnið skola hermönnum Sarumans í burtu og slökkva elda hans, sem loga neðanjarðar líkt og eldar vítis. Hér má því jafnvel greina vissa hliðstæðu við skírnina eða syndarflóðið.

Þá er Grima Wormtongue (Grími Ormstungu), einum helsta bandamanni Sarumans, líkt við snák en tunga hans er sögð klofin. Það þarf ekki mikinn guðfræðing til að átta sig á sterkri hliðstæðu við söguna af Adam og Evu en það er einmitt vegna edensögunnar að snákurinn er oftast notaður sem tákn hins illa.

Merkasta biblíuhliðstæðan er þó líklega upprisa Gandalfs, en hann deyr í myndinni og er síðan sendur aftur til að ljúka verki sínu. Við upprisuna hefur Gandalfur orðið skjannahvítur en það minnir um margt á lýsingar á Kristi á fjallinu (sjá Mk 9:2-3 og Lk 9:29). Þá má geta þess að svipaða frásögn er að finna í annarri Mósebók en þar segir meðal annars: „En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin. […] Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.“ (2M 34:29-35)

Að lokum er umhverfisvernd fyrirferðamikið viðfangsefni í myndinni. Hið illa ber enga virðingu fyrir náttúrunni og rífur hvert tréð á fætur öðru upp með rótum. Trjáhirðirinn segir einmitt að öllum standi á sama um trén núorðið. Hættan er síðan enn meiri í ljósi þess að álfarnir eru á förum, en hingað til hafa þeir staðið vörð um trén.

Þá má vel líta á uppreisn trjáhirðanna sem dæmisögu um hræðilegar afleiðingar þess að skeyta ekki um náttúruna. Þótt náttúran geti ekki gert uppreisn í bókstaflegri merkingu er engin spurning að gjörðir okkar geta haft áþekkar afleiðingar. Mengun getur t.d. leitt til sjúkdóma, vanskapnaðar í fæðingu og breytingar á veðri.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3; 1M 6:8-9:17; 2M 14:24; 2M 34:29-35, Sl 46:6; Sl 90:14; Sl 143:8; Mk 9:2-3; Lk 9:29
Persónur úr trúarritum: draugar, djöfull, galdramaður, hobbitar, álfar, dvergar, ork, trjáhirðar
Guðfræðistef: eilíft líf, dauðinn, dómsdagur, heimsendir, mannseðlið, von, líf eftir dauðann, frelsi, upprisa, afturhvarf, hið illa, hið góða, miskunn, hatur
Siðfræðistef: þjóðarmorð, traust, vinátta, hlutleysi, stríð, varnarstríð, einelti, svívirðing, hugrekki, fíkn, jákvæðni, svik, traust, lygar, vonleysi
Trúarbrögð: ásatrú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: grafreitur
Trúarleg tákn: vatn, rigning, dögun, snákur
Trúarleg embætti: galdramaður
Trúarlegt atferli og siðir: álög, galdrar, heit, bæn
Trúarleg reynsla: sýn, andsetning, upprisa, draumur, álög