Kvikmyndir

Love Actually

Leikstjórn: Richard Curtis
Handrit: Richard Curtis
Leikarar: Bill Nighy, Gregor Fisher, Colin Firth, Liam Neeson, Emma Tompson, Kris Marshall, Heike Makatsch, Martin Freeman, Joanna Page, Andrew Lincoln, Keira Knightley, Hugh Grant, Martine McCutcheon, Laura Linney, Thomas Sangster, Alan Rickman, Rowan Atkinson, Rodrigo Santoro Billy Bob Thornton og Lúcia Moniz
Upprunaland: Bretland og Bandaríkin
Ár: 2003
Lengd: 135mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um líf átta mjög ólíkra para í Lundúnum á Englandi og hvernig þau takast á við ástarlíf sitt í ólíkum aðstæðum. Sögur þeirra fléttast saman á ólíkan hátt á hinum annasömu vikum fyrir jólin.

Almennt um myndina:
Love Actually er vel gerð mynd þar sem helstu leikarar Breta fara með aðalhlutverkin og standa þeir undir væntingum. Hugh Grant er sérstaklega góður sem hinn sjálfmeðvitaði forsætisráðherra og fer á kostum í dansatriðinu. Emma Tompson fer vel með vandasamt hlutverk heimavinnandi húsmóður, Karen að nafni, sem þarf að horfast í augu við að eiginmaður hennar er að leiðast út í framhjáhald. Bill Nighy fer á kostum sem hinn óútreiknanlegi rokkari Billy Mack. Laura Linney leikur hina meðvirku Söru einkar vel, þannig að áhorfandinn finnur sérstaklega til með henni. Andrew Lincoln skilar góðri túlkun á Mark sem mun aldrei fá sína heitt elskuðu þar sem hún er gift besta vini hans. Og Rowan Atkinson sem leikur skartgripasalann Rufus kemur skemmtilega á óvart. Annars standa leikararnir sig almennt vel, sem skiptir miklu máli þar sem aðalhlutverkin eru svo mörg í myndinni, en einnig fyrir heildarupplifun áhorfandans.

Richard Curtis skrifaði handritið að myndinni og leikstýrði henni einnig. Þetta er frumraun hans í leikstjórn en hann er vel þekktur sem handritshöfundur. Hann skrifaði m.a. handrit verðlaunamyndanna Four Weddings and a Funeral og Notting Hill svo og fjölda sjónvarpsþátta og annarra kvikmynda, bæði einn og í samvinnu við aðra. Þrátt fyrir að þetta sé frumraun hans sem leikstjóri hefur honum tekist að laða fram það besta í leikurunum, þannig að samspil alvöru og gamans er mjög fínt. Hann nær að halda mjög fínni kómískri línu í gegnum alla myndina, jafnvel þegar um dramatísk atriði er að ræða en þó án þess að gera lítið úr alvarleika málsins. Einlægnin er í fyrirrúmi og allir eiga sínar hjartnæmu stundir, jafnvel ruglaði rokkarinn Billy Mack.

Lýsingin er oftast mjög mikil og litirnir bæði skærir og bjartir , sem á vel við þessa mynd og endurspeglar jákvæða sýn á lífið. Þá er áhugavert að rauður er mikið notaður. Hann er notaður með öðrum litum þannig að hann stendur út úr. Rauður er litur ástarinnar en einnig er hann tengdur hættu, ofsa, reiði og ýgi (agression). T.d. er Mía í rauðum kjól þegar hún er að reyna að draga yfirmann sinn Harry á tálar, konu hans Karen til viðvörunar. Það er mikið um bláan tón í myndinni sem gerir það að verkum að rauðu tónarnir verða mun meira áberandi. Rauður og blár eru frumlitir, rauður heitur en blár kaldur og skapa þeir þar með virka þversögn. Gott dæmi um þetta er þegar að Jamie keyrir Aureliu heim og rauða kápan hennar er það sem er mest áberandi. Athyglisvert er að viðföng hinna ástföngnu í myndinni eru oft klædd í rautt s.s. Aurelía, Karl og Natalie. Þetta skilar áhrifaríkri notkun lita sem gefur myndinni fallegan heildarsvip og á vel við boðskap hennar.

Klippingin er þægileg og viðeigandi, stundum verður hún dularfull þegar klippt er úr svörtu í svart, það virkar nánast eins og samfella. T.d. þegar farið er frá Söru seint um kvöld á skrifstofunni yfir í að Jamie opnar glugga í Frakklandi. Klipping við mynd sem þessa þar sem sögurnar og þar af leiðandi söguþræðirnir eru margir er mjög vandmeðfarin. Klippingarnar verða að vera á réttum stöðum svo að áhorfandinn haldi þræði. Klippingarnar flétta því hinar ólíku sögur saman þar sem þær tengjast ekki innbyrðis. Klippara myndarinnar, Nick Moore, hefur tekist einkar vel upp á þessu sviði.

Tónlistin tengir einnig senurnar saman, enda skipar hún stóran sess í myndinni, þá einkum lagið: „Love (/Christmass) Is All Around“ (sem er titillag myndarinnar og í titli textans er einmitt boðskapur myndarinnar falinn). Má geta þess að lagið var einnig notað í Four Weddings and a Funeral sem er einnig skrifuð af Richard Curtis og fannst honum sjálfum það vera ákveðinn húmor að byrja myndina á sama lagi og Four Weddings and a Funeral endaði á. Fleiri lög koma við sögu eins og „All You Need Is Love“ og „God Only Knows“. Bæði þessi lög eru mjög viðeigandi og lýsandi fyrir boðskap myndarinnar. Einnig eru mörg ný lög með yngri tónlistarmönnum og er tónlistin í samræmi við tíðarandann sem birtist í myndinni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Boðskapur myndarinnar er að kærleikann sé að finna alls staðar. Hvort sem hann virðist merkilegur eða ekki. Myndin er á vissan hátt svar við hinni bölsýnu heimsmynd sem ríkti í kjölfar 11. september 2001. Davíð (forsætisráðherra Breta), sem leikinn er af Hugh Grant, segir í upphafi myndarinnar að kærleikurinn sé allt í kring. (Hann nefnir að skilaboð farþeganna um borð vélanna sem flugu inn í Tvíburaturnana hafi öll verið skilaboð um ást, ekki hatur eða heift.) Það er því ekki skrýtið að Richard Curtis velji að láta myndina gerast um jólin. Jólin (eða „Kristsmessa“) eru talin tími kærleika, friðar og sannleika. Þá er minnst fæðingu frelsara mannkynsins, Jesú Krists, sem kom og færði fórn kærleikans. Hann sýndi óeigingjarnan kærleika í verki, skilyrðislausa ást. Í kjölfar þess skrifar Páll postuli Fyrra Korintubréf, þar sem í 13. kafla er að finna óð til kærleikans. Kærleiksóðinn er hægt að nota sem túlkunarlykil á myndina.

„Love Actually“ merkir hvernig kærleikurinn er einmitt, í rauninni, raunveruleikanum eða alvörunni. Og ef haldið er áfram með það sem sagt er í myndinni að þá er kærleikurinn í rauninni allt í kring. Lífið væri einskis virði án kærleika, eins og segir í 2. og 3. versi 13. kafla 1. Korintubréfs: „… en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ og „… en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.“ Davíð segir í byrjuninni að í hvert skipti sem hann verði dapur yfir ástandi heimsins hugsi hann um komuhliðið á Heathrow flugvellinum. Þar sé ekki annað að sjá en að kærleikann sé alls staðar að finna.

Kærleikurinn er meginboðskapur kristinnar trúar ásamt fyrirgefningu og sannleika. Þessi meginstef kristinnar trúar eru einnig áberandi trúarstef í myndinni, svo og játningar, einkum ástarjátningar. Það er því mjög viðeigandi að myndin gerist um jólahátíðina. Jólin eru tími kærleikans, sannleikans, fyrirgefningarinnar, vonarinnar og sá tími sem fólk lætur drauma sína og annarra rætast. Myndin fjallar einnig mikið um mikilvægi þess að trúa á drauma sína og að þora að taka skrefið svo þeir megi rætast. Allar persónur myndarinnar eru að fást við kærleikann í einhverri mynd.

Mark er t.d. ástfanginn af eiginkonu vinar síns og þarf að horfast í augu við að það muni aldrei verða neitt úr því. Ást hans er skilyrðislaus og mætti segja að vers 4 ­ 8, (13. kafla 1. Korintubréfs) eigi við um ást Marks til Júlíu (Juliet). Mark játar Júlíu ást sína á jólunum af því að þá eigi að segja sannleikann, en án nokkurra væntinga þó.

Aftur á móti er vinkona hans Mía tákngervingur lostans, en hún er stöðugt að reyna við giftan yfirmann sinn, Harry. Á jólagleði fyrirtækisins er hún klædd eins og púki, með rauð glitrandi horn og í þröngum rauðum kjól. Hún virðist nánast samviskulaus en áhorfandinn fær samt að skyggnast heim til hennar þar sem nokkuð einmanleg og eirðarlaus mynd er dregin upp af henni. Mia er einnig að sækjast eftir kærleikanum, þó hún leiti ekki endilega á réttum stöðum.

Karen eiginkona Harrys kemst að því að Harry hefur gefið annarri konu gullhálsmen í jólagjöf og þarf að horfast í augu við sjálfa sig og samband þeirra hjóna. Hún velur að vera ekki langrækin eins og segir í fimmta versi kærleiksóðsins „[Kærleikurinn] er ekki langrækinn.“ Í lok myndarinnar virðist Karen vera að mestu búin að jafna sig og fyrirgefa Harry.

Jamie kemst að því á miður skemmtilegan hátt að kærastan hans er að halda fram hjá honum með bróður hans. Hann fer því burt, hryggbrotinn, en kynnist þar yndislegri stúlku, Aureliu. Þrátt fyrir að þau tali ekki sama tungumálið verða þau ástfangin. Það mætti segja að þau væru sálufélagar því þau hugsa og segja það sama án þess að skilja hvort annað. Jamie lætur það ekki hindra sig og lærir móðurmál hennar þegar hann kemur aftur til Lundúna. Hann fer svo til baka á jólum að finna hana aftur og játar henni ást sína. Það mætti því segja að 10. vers 13. kafla Korintubréfsins ætti hér við þar sem stendur: „En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.“ Þannig er Aurelia hin fullkomna kona fyrir Jamie og hryggbrotið grær.

Natalie virðist vera hin fullkomna kona fyrir Davíð (nýkjörinn forsætisráðherra Breta). Þar má sjá hliðstæðu við Davíð konung þar sem báðir eru vinsælir leiðtogar og vegnar vel í starfi sínu. Davíð forsætisráðherra fellir hug til Natalie þjónustustúlku sinnar og hún til hans. Sem skapar hugrenningartengsl við það þegar Davíð konungur hrífst af Batsebu. Natalie er þó ekki frátekin en þrátt fyrir það reynist þeim erfitt að ná saman í fyrstu. Allt fer þó vel að lokum og er þar um eina ástarjátninguna enn að ræða. Ástin er játuð í skjóli jólanna, kærleikstímans þegar að öllum ber að segja sannleikann.

Það fer ekki eins vel hjá Karli og Söru. Þau eru vinnufélagar og Sara hefur verið ástfangin af Karli frá því er hún hóf störf hjá fyrirtækinu. Þegar að þau ná loks saman getur hún ekki sleppt takinu á geðveikum bróður sínum sem hún elskar. Það skapast því ekki rúm fyrir Karl í lífi hennar. Hún er eina persónan í myndinni sem þorir ekki að stíga skrefið til fulls og leita drauma sinna. Enda er hún sú eina sem ekki er hamingjusöm í lok myndarinnar. Hún er eiginlega andstæða við allar hinar söguhetjurnar og dæmi um hvað gerist ef fólk trúir ekki á drauma sína.

Hjá Daníeli hefur aftur á móti skapast stórt tóm eftir andlát eiginkonu hans Jóhönnu (nafn, persóna og saga hennar skapar hugrenningatengsl við Jóhönnu af Örk þar sem hún er sýnd í ákveðnum dýrðarljóma og átti í stríði líkt og nafna sín en einungis við sjúkdóm sinn). Carol kemur þá eins og himnasending og fyllir upp í tómið. Carol merkir meðal annars gleðisöngur eða gleðisálmur og skapar óneitanlega hugrenningatengsl við jólin og fögnuð þeirra. Sam, fóstursonur Daníels, er ástfanginn af Jóhönnu sem syngur eins og engill. Þau ná einnig saman á jólunum eftir að Sam hefur lagt mikið á sig og lært á trommur til að ganga í augun á henni.

Rokkarinn Billy fær uppreisn æru á jólunum þegar að hann á vinsælasta jólalagið. Hann fær hugljómun sama kvöld, hann kemst að því um hvað jólin snúast: Að þau séu tíminn til þess að vera með þeim sem maður elskar. Billy gerir sér grein fyrir því að honum þykir óheyrilega vænt um umboðsmann sinn. Umboðsmaðurinn, Joe, fær þar með einnig uppreisn æru þegar að Billy játar honum „ást“ sína.

Jack og Judy fella hugi saman og þrátt fyrir óneitanlega furðuleg fyrstu kynni og einkennilega samvinnu ná þau saman. Jack tekur áhættuna og býður henni á stefnumót. Einmitt þegar þau eru í vinnunni, nakin og að þykjast stunda kynlíf. Í lok stefnumótsins játar Judy svo fyrir honum að hún vilji bara hann í jólagjöf. Þar er enn ein ástarjátningin á ferðinni sem beint er tengd við jólin. Judy er svo komin með hring í lok myndarinnar þegar þau tvö eru að fara saman í flug á Heathrow-flugvelli.

Colin fær einnig óskir og drauma sína uppfyllta um jólin en hann þarf þó að fljúga alla leið til Bandaríkjanna til þess. Allt virðist þetta gerast af því að það eru jólin, tími kærleika, vonar og friðar.

Skartgripasalinn Rufus kemur tvisvar við sögu í myndinni og í bæði skiptin virðist hann vera á réttum stað og á réttum tíma til að hjálpa fólki. Í annað skiptið bak við búðarborðið þegar hann kemur næstum upp um óheiðarleika Harrys, jólagjöfina sem hann ætlar að gefa Míu. En í hitt skiptið tefur hann flughafnarvörð svo Sam komist til þess að kveðja Jóhönnu og játa þannig ást sína fyrir henni. Blikkið sem hann sendir Daníel eftir að hafa hjálpað Sam gefur til kynna að hann viti meira en hann ætti að geta og rennir það stoð undir þá kenningu að hann gæti verið engill, enda er hann alltaf vel til fara, kærleiksríkur og kurteis hvað sem á gengur. Hann átti upphaflega að hverfa þegar hann var búinn að blikka Daníel, sem átti að sýna að hann væri engill en það var hætt við að það.

Börnin í myndinni eru öll að taka þátt í sömu jólaskemmtun sem grunnskólar þeirra standa fyrir. Börn Karenar og Harrys taka þátt í helgileik, uppsetningu á fæðingu Krists. Dóttir þeirra leikur „fyrsta humarinn“ og litli bróðir Natalíu, Keith, leikur kolkrabba sem einnig var viðstaddur fæðinguna. Þetta er athyglisverð uppsetning á jólaguðspjallinu þar sem sjávardýrin eru einnig viðstödd fæðingu Krists. Það mætti segja að það væri eins konar blanda af jólaguðspjallinu og sköpunarsögunni.

Á jólaskemmtuninni syngur Jóhanna „All I Want For Christmas Is You“ við undirleik Sams og fleiri. Lagið passar einkar vel við atriðið þar sem Jóhanna bendir á Sam um leið og hún syngur, svo og tjáir það tilfinningar Davíðs og Natalíu sem eru að ná saman baksviðs. Þetta lag kemur oftar fyrir í myndinni og vitnar Judy í það þegar hún segist bara vilja fá Jack í jólagjöf. Önnur lög koma einnig við sögu í myndinni og lýsa boðskap hennar. Þar má nefna lög eins og All You Need Is Love“ sem er brúðargjöf Marks til Júlíu og Péturs. Lagið lýsir vel afstöðu hans og boðskap myndarinnar í heild. Öll lögin eiga við atriðin sem þau eru í og þau tengja senurnar og sögurnar líka saman. „Christmas Is All Around“ gegnir einmitt því lykilhlutverki að tengja sögurnar saman ásamt því að vera tengt titli myndarinnar og innihalda boðskap hennar. „Jump (For My Love)“ kemur á mjög skemmtilegum stöðum, eftir að Davíð hefur ögrað Bandaríkjaforseta út af afbrýðisemi sinni sem tengist Natalie og svo þegar að hann fer að finna hana aftur til að játa henni ást sína. Textinn lýsir þar því sem átt hefur sér stað. Myndin endar svo á laginu „God Only Knows“ sem hnykkir á boðskap myndarinnar í lokin.

Myndin sýnir ólík kærleiks- og ástarsambönd og hvernig þau hafa áhrif á líf persónanna. Þar eru birtar ólíkar myndir af kærleikanum og þeim siðferðisspurningum sem fylgja í kjölfar þess að elska einhvern. Áherslan er á að jólin séu tími kærleika, fyrirgefningar, sannleika og friðar. En einkum þó tími kærleikans, eins og segir í lok kærleiksóðsins þ.e. í 13. versi: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ Boðskap myndarinnar er að finna í þessum orðum að kærleikurinn er mestur. Það er hann sem skiptir mestu máli og jólin eru sérlegur tími kærleikans en einnig ástar, sannleika, friðar og vonar. Kærleikurinn birtist í ýmsum myndum og er oftast óútreiknanlegur. Það krefst hugrekkis að fylgja draumum sínum eftir og þora að elska en það jafnast ekkert á við það og það er það sem gefur lífinu gildi. Myndin endar á sama stað og hún hefst, á Heathrow-flugvellinum „þar sem kærleikann er alls staðar að finna“ og brotnar myndin þar í mörg myndbrot sem mynda síðan eitt stórt hjarta, tákn kærleikans.

HeimildirBiblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og nýja testamentið. 1981. Hið íslenska Biblíufélag, Reykjavík.

Curtis, Riichard. 2003. Love Actually. 135 mín. Universal Pictures. [Dvd-diskur.]

IMDb. 2005, 11. maí. Love Actually. Vefslóð: http://www.imdb.com/title/tt0314331/?fr=c2l0ZT1kZnxteD0yMHxsbT01MDB8dHQ9…

http://www.imdb.com/title/tt0314331/trivia

Universal. 2005, 11. maí. Love Actually. Vefslóð: http://www.loveactually.com/#

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Lk 2. 1-20
Hliðstæður við texta trúarrits: 1Kor 13
Persónur úr trúarritum: Jesús, Guð, Davíð, Sara, Markús, Jóhannes, Daníel, Samúel, jólasveinninn
Sögulegar persónur: Jóhanna af Örk
Guðfræðistef: fyrirgefning, kærleikur, sannleikur, von
Siðfræðistef: framhjáhald, hatur, græðgi, klám, dauði
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, Jerúsalem
Trúarleg tákn: engill með lúður, hjarta, jólatré, giftingarhringir, púkahorn, jólasveinahúfur, mistilteinn og kristþyrnir
Trúarleg embætti: prestar, rokk-idol
Trúarlegt atferli og siðir: gifting, jarðarför/útför, helgileikur
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jólin
Trúarleg reynsla: Að öðlast trú á ástina, hugljómun