Kvikmyndir

Mannaja

Leikstjórn: Sergio Martino
Handrit: Sergio Martino og Sauro Scavolini
Leikarar: Maurizio Merli, John Steiner, Donald O’Brien, Sonja Jeannine, Rik Battaglia, Philippe Leroy, Martine Brochard, Salvatore Puntillo, Nello Pazzafini [undir nafninu Ted Carter], Nino Casale, Enzo Fiermonte, Aldo Rendine, Enzo Maggio, Sophia Lombardo og Sergio Tardioli
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1977
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Enginn er fimari með axir en mannaveiðarinn Mannaja sem notar þær hiklaust í viðureign sinni við eftirlýsta útlaga í villta vestrinu og aflimar þá þegar á þarf að halda. Ekki taka þó allir honum fagnandi þegar hann kemur ríðandi með handalausa fanga sína og er hann hrakinn burt úr námubænum Suttonville, sem stjórnað er með harðri hendi af lömuðum stórbónda og vafasömum liðsmönnum hans. Þrátt fyrir það bíður Mannaja fram aðstoð sína þegar hann kemst að því að dóttir stórbóndans hefur verið rænt, en þar eru í raun að verki liðsmennirnir sem vilja sölsa undir sig öll yfirráð í bænum. Þeir handsama Mannaja, pynta hann og blinda en samt nær hann sér á strik á nýjan leik og hefnir sín á öllum misgjörðarmönnunum.

Almennt um myndina:
Einn vinsælasti spaghettí-vestrinn í mörg ár var Keoma … The Violent Breed (Enzo G. Casellari: 1976) og var því strax farið að framleiða fleiri kvikmyndir í þeim anda. Engin þeirra stóð þó undir væntingum og lognaðist spaghettí-vestra-framleiðslan að mestu út af tveim árum síðar, enda þótt enn séu gerðar slíkar kvikmyndir með nokkurra ára millibili. Spaghettí-vestrinn Mannaja þykir þó einn sá besti sem gerður var í kjölfar myndar Castellaris.

Í aðalhlutverki er hinn ljóshærði og bláeygi Maurizio Merli sem sennilega er þekktastur úr ýmsum harðsoðunum ítölskum löggumyndum. Það sama gildir um flesta aukaleikarana, þeir eru öllum áhugamönnum um ítalskar kvikmyndir vel kunnir enda tíðir gestir í þeim. Þannig leikur t.d. Philippe Leroy lamaða stórbóndann og John Steiner aðstoðarmann hans sem fyrst rænir dóttur hans til að féfletta hann og tekur svo völdin í sínar hendur. Persónusköpun Steiners minnir þó einna helst á illmenni gotneskra hrollvekja og hefur hann ávallt tvo gráðuga svarta Doberman hunda hjá sér sem hlýða hverri skipun hans.

Bærinn Suttonville ætti ekki síður að virka kunnuglegur öllum spaghettí-vestra-áhugamönnum, enda hefur hann komið við sögu í ótal slíkum kvikmyndum. Bærinn var reistur rúmum áratug áður á landareign Elios Studios kvikmyndaversins skammt frá Rómarborg, en þegar hér var komið við sögu var hann orðinn æði hrörlegur og veðurbarinn. Í stað þess að leggja út í kostnaðarsamar endurbætur á bænum ákvað leikstjórinn Sergio Martino að taka myndina frekar í sem mestri þoku og rigningarsudda til þess að minna bæri á því hversu hrörlegur hann var orðinn. Fyrir vikið minnir myndin einna helst á gotneskar hrollvekjur og segir spaghettí-vestra sérfræðingurinn Tom Betts hann „nánast mystískan“ í kynningarbæklinginum sem fylgir DVD diskinum frá Blue Underground í Bandaríkjunum. Spaghettí-vestra sérfræðingurinn Antonio Bruschini kallar myndina ennfremur apokalyptíska og segir sviðsetninguna hreinlega miðaldalega í bókinni Western All’Italiana: The Wild, the Sadist and the Outsiders.

Það er þetta drungalega gotneska yfirbragð myndarinnar sem er helsti kostur hennar, en myndskotin eru sum hver nokkuð flott. Myndin er þó aðeins rétt miðlungs góð og er vart við hæfi annarra en hörðustu áhugamanna um spaghettí-vestra. Versti galli hennar er þó svakalega væmin tónlist bræðranna Guidos og Maurizios De Angelis sem minnir einna helst á ballöður Leonards Coen og Bobs Dylan. De Angelis bræðurnir voru einnig ábyrgir fyrir tónlistinni í spaghettí-vestranum Keoma … The Violent Beed, sem verður að teljast alveg jafn slæm og þessi. Meðferðin á hestunum í myndinni er ennfremur til skammar en þar steypast þeir fram yfir sig á miklum spretti eins og þeir hafi hlaupið á strengda spotta eða kaðla.

Það er DVD diskurinn frá Blue Underground í Bandaríkjunum sem er hér til umfjöllunar og eru myndgæðin nokkuð fín á honum. Myndin er einnig fáanleg á DVD í Bretlandi undir titlinum A Man Called Blade og Þýzkalandi undir titlinum Mannaja: Das Beil des Todes. Ensk hljóðrás fylgir þýzka diskinum en breiðtjaldið þar er þjappað úr 2.35:1 í 2.65:1 sem þýðir að leikararnir virka bæði lægri og feitari en þeir eru í raun og veru. Litirnir eru jafnframt mun eðlilegri á bandaríska diskinum en þeim þýzka. Annar kostur við bandaríska diskinn er áhugavert viðtal við leikstjórann Sergio Martino þar sem hann fjallar um gerð myndarinnar og ítalska kvikmyndaiðnaðinn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Stórbóndinn í námubænum Suttonville er trúrækinn og biblíuelskur. Hann leggur mikið upp úr góðu siðferði og telur enga þörf á löggæslu í námubænum enda búinn að hreinsa hann af hvers kyns siðleysi. Liðsmenn hans taka þó lögin í sínar hendur þegar á þarf að halda og láta meðal annars hýða dansflokk kvenna sem sett hafði upp djarfa sýningu í bænum, en þær eru sagðar allar í þjónustu djöfulsins. (Þegar dansflokkur þessi varð fyrst á vegi Mannajas, hélt hann einhverja hluta vegna að þar væri trúflokkur Kvekara á ferð og spurði hann meira að segja stjórnandann hvort hann væri kvæntur öllum konunum! Kvekarar hafa hins vegar hvorki stundað fjölkvæni né viðhaft djarfar danssýningar sér til framdráttar.)

Stórbóndinn reynist brátt jafn mikill hræsnari eins og ótrúir liðsmenn hans. Tveim áratugum áður drap hann föður Mannajas þegar hann sölsaði undir sig landareign fjölskyldunnar. Mannaja, sem alla tíð hefur dreymt um að fá tækifæri til að hefna dauða föður síns, hættir þó við að drepa stórbóndann þegar hann sér hversu veikburða hann er orðinn í hjólastólnum og segir það sætari hefnd að láta hann lifa þannig.

Söngtextar De Angelis bræðranna endurspegla jafnan líðan aðalsöguhetjunnar og sálarkreppu hennar og er orðfærið alloft biblíulegt. Þannig segir t.d. í einum söngtextanum frá snákum og Júdasi þegar Mannaja safnar kröftum til að hefna sín á misgjörðarmönnunum sem sviku hann og vinkonu hans. Og áhorfandinn getur treyst því að örlög þeirra verða áþekk örlögum Júdasar, þekktasta svikara sögunnar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3:1, Mt 27:3-10, Op 17:5
Sögulegar persónur: Satan, Júdas
Guðfræðistef: dómsdagur, Babylon, synd
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, mannaveiðar, siðferði, siðleysi, danssýning, manngæska, samviskan, fyrirgefning, hefnd, fjárkúgun, útskúfun, hýðing, svik, fjölkvæni
Trúarbrögð: kvekarar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, snákur
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur