Leikstjórn: Fritz Lang
Handrit: Fritz Lang og Thea von Harbou (einnig skáldsaga)
Leikarar: Alfred Abel, Gustav Fröhlich, Brigitte Helm, Rudolf Klein-Rogge, Fritz Rasp, Theodor Loos og Heinrich George
Upprunaland: Þýskaland
Ár: 1927
Lengd: 124mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Sagan gerist árið 2026. Freder, sonur skapara og stjórnenda Metropolis, verður ástfanginn af Maríu, kennslukonu úr neðanjarðarborg verkamannanna, og kemst að því hversu slæm kjör þeirra eru þar sem þeir þræla á tíu tíma vöktum og búa við verstu kjör. Hann uppgötvar að örlög hans eru að verða sáttarsemjari milli föður síns og verkamannanna, hjartað sem tengir saman heilann og útlimina. Ýmislegt stendur samt í vegi fyrir því að hann nái að koma á þessari sátt, sérlega standa í vegi hans C.A. Rotwang og vélmennisútgáfan af Maríu er stefna að eyðileggingu Metropolis.
Almennt um myndina:
Þýska expressjónismans er best að njóta með áhorfi á tímamótamyndir eins og Das Kabinett des Doktor Caligari (Robert Wiene: 1920). Þar er útlitið allt annarsheimslegt og borgaratriðin kvikmynduð á sviði með húsin hímandi á meistaralegan hátt yfir vegfarendum til að vekja ugg í brjósti áhorfenda. Expressjónísku myndirnar Der Golem (Carl Boese og Paul Wegener: 1920) og Nosferatu, eine Symphonie des Grauens (F.W. Murnau: 1922) hafa líka þennan áhrifamikla stíl.
Leikstjóri myndarinnar, Fritz Lang, fæddist í Vín í Austurríki árið 1890. Árið 1920 hófst ástarsamband hans og Theu von Harbou (1889?-1954), sem var bæði leikkona og handritshöfundur, en þau skrifuðu t.d. saman handritin að mörgum frægustu myndum hans, Dr. Mabuse der Spieler (1922), Die Nibelungen (1922), Metropolis (1927) og M (1931). Þau giftust árið 1922 en skildu 1933 er nasistar voru að komast til valda. Thea von Harbou var hliðholl þeim en Lang efaðist um ágæti þeirra og eftir að nasistar höfðu bannað kvikmynd hans Das Tagebuch des Dr. Mabuse (1933), sem var ádeilumynd um nasismann, flúði hann land. Hann bjó fyrst eitt ár í París, fór svo til Bandaríkjanna og komst á samning hjá MGM og leikstýrði þar myndum til ársins 1960 en hann lést 2. ágúst 1976.
Margar útgáfur hafa verið gefnar út af kvikmyndinni Metropolis og hefur fjöldi atriða glatast fyrir fullt og allt:
1. Upphaflega útgáfan, sem var 210 mínútur að lengd, var sýnd aðeins nokkrum sinnum þar sem hún þótti of löng fyrir dreifingarfirirtækin.
2. Þegar myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum á sínum tíma var hún var klippt niður í 63 mínútur og breyttu þeir söguþræðinum mikið fyrir vikið. Þarna glötuðust mörg atriðanna sem verður að teljast sannarlegt menningarslys.
3. Árið 1928 var gefin út 90 mínútna löng útgáfa af myndinni í Þýskalandi í stað hinnar fyrstu.
4. JEF Films gaf út árið 1986 139 mínútna útgáfu með nýjum atriðum í mjög lélegum gæðum og var sýningarhraðinn hægður mikið sem skírir að miklu leyti aukna lengd þessarar útgáfu.
5. Giorgio Moroder útfærði sjálfur þá útgáfu Metropolis árið 1984 í lit, með hljóði og nýju tónverki en hún var stytt niður í einungis 80 mínútur.
6. Árið 1995 fylgdi Filmmuseum Munich fyrirtækið í Þýzkalandi upprunalega handritinu og fyllti í eyðurnar með texta eða kyrrmyndum.
7. Árið 2002 kom svo enn ein útgáfan út þar sem allir myndrammarnir voru hreinsaðir til að fá sem best gæði og upphaflega tónverkið látið fylgja með. Engu var til sparað þar sem Metropolis hafði þá hlotið þann heiður að vera eina kvikmyndin sem skráð er sem menningarverðmæti af ESCO stofnun Sameinuðu þjóðanna. Myndin nær nú 123 mínútum sem er þá 87 mínútum styttri en upphaflega útgáfan en það skírist að einhverju leyti á því að enn er Metropolis spiluð hraðar en ráð var gert fyrir af Lang sjálfum.
Áhrif Metropolis í gegnum kvikmyndasöguna er vel greinileg í myndum eins og Blade Runner (Ridley Scott: 1982) og The Fifth Element (Luc Besson: 1997) þar sem risabyggingarnar, fjöll úr steypu og stáli, yfirþyrma einstaklinginn með mikilfengleika sínum. Í öllum þessum myndum búa valdamestu mennirnir í mikilfenglegustu og stærstu byggingunum: Fredersen býr í babelturninum í Metropolis, Jean-Baptiste Emanuel Zorg býr í Zorg Corporate í The Fifth Element og Tyrell býr í Tyrell Corporate í Blade Runner. Þeir stjórna ennfremur allir þrír sólinni á táknrænan hátt. Svo má ekki gleyma því að borgirnar Los Angeles og New York bera mikinn svip Metropolis.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Opinberunarbók Jóhannesar er sérstaklega áberandi í kvikmyndinni Metropolis, en þar er gamla heimskerfið að líða undir lok og nýtt að taka við. Biblíulegar tilvísanir í myndinni eru þó ekki bara bundnar við hana.
Joh Fredersen, hönnuður, stjórnandi og skapari Metropolis borgarinnar, minnir um margt á JHVH, hinn stranga, hefnigjarna en kærleiksríka Guð Ísraelsmanna sem síðar umbreytist í fyrirgefandi Guð kristinna manna. Nafnið Joh gæti vísað til nafn Guðs, JHVH, sem stundum var stytt sem Jah (samanber endingin í orðinu Hallelújah!) en var sennilega Jahve þótt sumir hafi síðar kosið að stafsetja það sem Jehóva. Þessi umbreyting verður hins vegar ekki nema fyrir fórn sonarins, en sonur Fredersens í myndinni heitir Freder. Fredersen var líkast til giftur Hel, móður Freders, en hún dó af barnsförum og líklega skýrir það þann kulda sem einkennir samskipti hans við son sinn, Freder minnir hann á konuna sem hann elskaði en glataði.
Líta má á Freder, son Joh Fredersen, sem mildan kristsgerving. Hann býr í nokkurs konar himnaríki heima hjá sér og þekkir ekkert annað en kærleika og sælu. Þar opinberast María svo honum með mikinn fjölda að því er virðist munaðarlausra barna og þá áttar hann sig á því að heimurinn er margbrotnari en hann hafði haldið. Það eru því börnin sem fylgja Maríu sem fá hann til að kanna aðbúnað verkamannanna. Hann kallar alla bræður sína sem hann hitter en Jesús kallar ýmsa bræður í að minnsta kosti 35 versum. Þar að auki er Freder krossfestur á táknrænan hátt er hann leysir starfsmann 11811 undan byrðum vélarinnar sem stöðugt þarf að vinna við og tekur stöðu hans. Þegar Freder örmagnast í erfiðsvinnunni við vélina og stendur þar í krossfestingarstellingu breytist hún í klukku og hann hrópar: „Faðir, faðir, hví er vinnutíminn svo langur?“ (Þetta minnir óneitanlega á það þegar Jesús kallaði hárri röddu um nón: ,,Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: ,,Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Sjá: Mt: 27:55 og Mk 15:34.) Seinna deyr Freder táknrænum dauða í hitasótt og stígur til heljar í ofskynjunum sem sjúkdómurinn veldur en rís þaðan upp reiðubúin til að verða meðalgangari (Mediator), þ.e. hjartað milli hugar og handa, sem kemur að lokum á friði milli föður síns og verkamannanna. Hann boðar frið og berst aðeins í ýtrustu neyð. Hann er frelsari sem boðar frelsi og bjargar börnunum frá syndaflóðinu með hjálp Maríu og Josaphats. Hann er fórnar sér fúslega og er ávallt reiðubúinn til þess að taka á sig byrðar annarra.
Sagan af Siddharta Gautama kemur líka upp í hugann er Freder er skoðaður í upphafi myndarinnar. Sá bjó áhyggjulaus í höll sinni þar til dag einn að hann sá eymd heimsins fyrir tilviljun og yfirgaf þegar höll sína og leitaði að lausn undan þjáningunni með ýmsum leiðum þar til hann fann meðalveginn og varð Búddha. Freder gæti þá hafa byrjað sem búddhagervingur í myndinni en endað sem kristgervingur.
M-vélin í Metropólis vísar til Móloks, guð Ammóníta sem heimtaði barnsfórnir í Gamla testamentinu. Snemma í myndinni verður Freder vitni að slysi þar sem vélin veldur dauða starfsmanna og sér í ofsjónum þar sem þrælar eru leiddir inn í guðinn Mólok til að fóðra hann.
Þegar María birtist fyrst með barnaskarann minnir sviðsetningin óneitanlega á klassískar málverkahefðir af Maríu guðsmóður. (Sjá http://www.members.aol.com/jocatholic/mary.htm.) Hún vekur Freder til umhugsunar um þá sem minna mega sín og er þess valdandi að hann fer að skoða heiminn. Hún er líka spámaður sem boðar þjáðum verkamönnunum komu frelsarans, sem muni verða meðalgangari þeirra og stjórnanda Metropolis borgarinnar, og sér að það er Freder.
C.A. Rotwang er í senn alkeimisti, vísindamaður og seiðskratti sem er nokkurs konar sambland fortíðar og framtíðar, enda er hann með táknrænum hætti rammaður milli gamalla bóka og neonljóss í einni senunni. Þrátt fyrir að hann njóti fulls trausts Fredersens, hatar hann hann. Ástæðan er sú að Rotwang elskaði líka Hel og kennir hann feðgunum um dauða hennar. Upphaflegur tilgangur vélmennisins var að skapa Hel á ný og endurheimta hana þannig úr dánarheimi. Fredersen fær Rotwang hins vegar til að veita vélmenninu mynd Maríu til að stöðva uppreisn verkalýðsins en Rotvang gerir það aðeins til þess að tortíma feðgunum Fredersen og Freder og sjálfri Metropolis borg þeirra. Rotwang nær að fanga Maríu í katakombum borgarinnar með ljósi. Hún hefur aðeins kerti en hann notar ljósbera, sem gæti vísað til djöfulsins en Lúsífer er latneskan fyrir ljósbera. Hann svíkur að minnsta kosti vinnuveitanda sinn, beitir hiklaust ofbeldi og allt sem hann gerir spillir aðeins og eyðileggur. Athyglisvert er að fimmarmastjörnur sjást víða í vinnustofu hans og snúa sumar upp eins og galdratákn en aðrar snúa niður eins og tákn djöfulsins. Samspil Rotwangs og Maríu er tekið úr ævintýrahefðinni þar sem stúlku er rænt og galdur framinn. Í þessari mynd er það Doppelganger sem er skapaður.
Falsmarían (einnig nefnd Vélmennið og Futura) er falsspámaður sem sáir lygum og sundrungu hvert sem hún fer. Hún fær verkamennina til að kalla syndaflóð yfir sig og yfirstéttarfólkið til að drepa hvert annað í næturklúbbinum þar sem hún dansar á sviði sem hefur á sér mynd marghöfða drekans sem hóran mikla situr á í Opinberunarbók Jóhannesar. Hún er því fullkomin andstæða Maríu, siðblind, grimm og ofstækisfull.
Eilífi aldingarðurinn.Eden birtist tvisvar í myndinni, fyrst þar sem sakleysi Freder er sýnt og síðar sem griðarstaður fyrir börnin þegar borg verkalýðsins sekkur í syndaflóðinu.
Krossarnir í katakombunum þar sem María predikar eru tómir enda frelsarinn enn ókominn. Sjálf staðsetningin endurspeglar fyrstu áratugi kristninnar þar sem samkomurnar voru oftar en ekki haldnar í salarkynnum hinna dauðu vegna tíðra ofsókna. Ólíklegt er að aldur katakombanna sé tilviljun enda eru 2000 ár liðin frá því þau voru gerð þegar myndin á að gerast.
Kenningar Tómasar frá Akvínas um dauðann og dauðasyndirnar sjö eru fyrir löngu orðnar sígildar. Þær birtast Freder í upphafi ofsjóna vegna sótthitans.
Falsmarían fær verkalýðinn til að gera uppreisn gegn yfirvöldunum og tortíma vélunum en fyrir vikið kallar það yfir sig syndarflóð sem drekkir borginni.
Josephat, sem er bæði lærlingur Freders og vinur, er tákn miðstéttarinnar í myndinni. Hann er staðfastur og lætur hvorki múta sér né hræða frá því að aðstoða Freder. Að lokum tekst honum að bjarga Freder, Maríu og börnunum undan flóðinu þar sem hann gjörþekkir borgina og veit hvar flóttaleiðina er að finna. Hann bjargar svo Fredersen líka þegar hann upplýsir æstan múginn um að börn þeirra eru enn á lífi.
Heimildaskráhttp://www.persocom.com.br/brasilia/metropo.htm.
http://imdb.com/title/tt0017136/
http://www.dvdsavant.com/s711metro.html.
Trúarbrögð heimsins í mynd og máli. Ritstjóri: Michael D. Coogan. Mál og menning. Reykjavík. 1999.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían; Opb 17:6, 1M 11:1-9
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 7:10, 3M 18:25, 3M 20:2-5, 1Kon 11:7, 2Kon 23:10, Jer 32:35, Lk 1:27-30, Jh 1:6-23, P 7:43
Guðfræðistef: kristsgervingur, maríugervingur, sköpun, krossfesting, örlög, upprisa, kærleikur, syndarflóð, babelturnar, Dauðinn, dauðasyndirnar sjö
Siðfræðistef: græðgi, heiðarleiki, lygi, sjálfselska, sjálfumgleði, eyðilegging, ofbeldi, freisting, dómur, refsing, uppreisn, hégómi, hugrekki, morð, glæpur, réttlæti, fyrirgefning, hroki, reiði, spilling, kærleikur, umhyggjusemi, sannsögli, ábyrgð, sátt
Trúarbrögð: kristindómur, vísindahyggja, afvegaleiða, falsmaría
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, katakombur, Babýlon
Trúarleg tákn: krossar, kirkja í gotneskum stíl
Trúarleg embætti: munkur, falsspámaður
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, predikun
Trúarleg reynsla: vitrun