Kvikmyndir

Mil nubes de paz cercan el cielo, amor, jamás acabarás de ser amor

Leikstjórn: Julián Hernández
Handrit: Julián Hernández
Leikarar: Salvador Alvarez, Gloria Andrade, Llane Fragoso, Martha Gómez, Rosa María Gómez, Manuel Grapain Zaquelarez, Marcos Hernández, Salvador Hernández og Perla De La Rosa
Upprunaland: Mexikó
Ár: 2003
Lengd: 82mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Gerardo er 17 ára hommi í ástarsorg eftir að það slitnaði upp úr sambandi hans við Bruno. Hann ráfar um götur borgarinnar í leit að ástinni en finnur aðeins til enn meiri hryggðar þar sem allt minnir hann á ástvin hans og þeir karlmenn sem sýna honum áhuga hafa ekkert að gefa. Eina huggun hans er ástarbréf sem hann finnur út á götu, jafnvel þótt bréfið sé ekki til hans.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin „Þúsund friðarský á himni, ást, aldrei hættir þú að vera ást“ er undarleg ástarsaga. Í raun er þetta ástarsaga án ástar.

Helsti kostur þessarar ljóðrænu og undarlegu myndar er kvikmyndatakan og klippingin. Myndin er hæg, nánast dáleiðandi og minnir um margt á Happy Together (1997) og In the Mood for Love (2000) eftir Wong Kar-Wai. Myndin er tekin upp í svart/hvítu og er myndramminn stórkostlega upp byggður og fá dýpt og form að njóta sín vel. Lýsingin er einnig glæsileg og þjónar myndrammanum vel með því að draga fram andstæður ljóss og skugga. Ég var alveg sértaklega hrifinn af þeirri tækni að sýna hvernig tíminn líður með því að láta myndavélina líða fram hjá Gerardo, þannig að hann dettur út úr rammanum öðru megin en er síðan allt í einu kominn aftur inn í hann hinu megin á allt öðrum stað.

Leikstjóra myndarinnar, Julián Hernández, er frá Mexikó en honum hefur verið líkt við Ingmar Bergman og Wong Kar-Wai. Þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd en hún státar af lengsta titli kvikmyndar í Mexikó. Þegar þetta er skrifað hefur myndin verið tilnefnd til sjö Ariel verðlauna, helstu kvikmyndaverðlauna í Mexíkó, þar með talið fyrir leikstjórn, klippingu og handrit. Þá fékk hún nýlega bangsaverðlaunin í Berlín sem besta framlag samkynhneigðra.

„Þúsund friðarský á himni, ást, aldrei hættir þú að vera ást“ er heillandi og ljóðræn kvikmynd. Helsti galli hennar er þó sá að hún á það til að vera tilgerðaleg á stundum. Hún ætti þó að höfða til allra sem hafa áhuga á ljóðrænum myndum á borð við myndir eftir Tarkovsky, Bergman og Wong Kar-Wai.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Meginviðfangsefni myndarinnar er ástarsorg og óendurgoldin ást. Gerardo reynir fyrst að sigrast á sorg sinni með því að leita að skilningi og ást hjá öðrum en svo virðist vera sem flestir hafi nóg með sjálfa sig og hafa lítið að gefa en þeim mun meir að þiggja. Afleiðingin er sú að Gerardo einangrast æ meir og reisir múr um sig þar sem hann lifir í sínum eigin draumaheimi.

Lengst af er Gerardo þó að reyna að finna stað sinn í lífinu. Hann hittir fólk sem útskýrir fyrir honum ýmsar hliðar lífsins. Margar þessara setninga eru mjög áhugaverðar eins og þegar ein persónan segir: „Fólk verður að skilja að það er skylda þess að vera hamingjusamt. Auðvitað er ég ekki hamingjusamur. Við gerum allt til að öðlast hamingju, en það verður aldrei eins og við væntum. Við elskum fólk vegna þess að við sjáum okkur sjálf í því. Ég var svo vitlaus að reyna að yfirfæra það sem ég fékk ekki frá fólki yfir á aðra. Ég hélt að ástin myndi færa mér eitthvað í staðinn. Hvílíkur asni! Reyndu að horfa upp til skýjanna og halda þér frá hatrinu. Við erum ekkert, en hann … hann er konungur konunganna.“ Eftir þessi orð horfir Gerardo og sá sem þetta sagði upp til himins. Það er líklega ekki of langsótt að skilja þetta sem svo að raunverulega hamingju og ást sé aðeins að finna hjá Guði. Að minnsta kosti finnur Gerardo hvorki ást né hamingju hjá öðrum.

Sem dæmi um aðrar áhugaverðar tilvistarlegar vangaveltur er t.d. eftirfarandi spurning: „Ég veit ekki við hverju ég á að búast af lífinu. En þú?“ Það sama gildir um eftirfarandi fullyrðingu stúlku sem er í ástarsorg: „Ekkert varir að eilífu, hvorki ástin né sársaukinn.“

„Þúsund friðarský á himni, ást, aldrei hættir þú að vera ást“ er því fyrst of fremst kvikmynd um sorg, einmanaleika og tilvistarlegar spurningar um hamingjuna og ástina.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1 Tm 6:15; Opb 17:14; Opb 19:16
Guðfræðistef: sálin, Guð
Siðfræðistef: vændi, samkynhneigð, ást, einmannaleiki, söknuður, ótti, hamingja, sjálfselska, ofbeldi, hommafóbía